Goðasteinn - 01.09.2018, Page 68
66
Goðasteinn 2018
Barnsmóðir ii Valgerður Helgadóttir
frá Litla-Parti, Þykkvabæ (f. 1822 – d. 1873).
Talið er fullvíst að Guðmundur hafi átt 2 dætur með Valgerði Helgadóttur,
vinnukonu sinni. Þær átti hann utan um eða fram hjá Guðrúnu annarri konu
sinni, sem var ljósmóðir virt og vinsæl af öllum. Málið var því í mesta máta
viðkvæmt og reynt að breiða yfir hin misstignu spor húsbóndans. Foreldrar
Valgerðar voru Helgi Einarsson frá Hrafntóftum og Anna Magnúsdóttir frá
Hábæ. Dætur Valgerðar voru kenndar við móður sína og kallaðar Anna Val-
gerzka Jónsdóttir (f.1850-d.1930) og Guðrún Valgerzka Hansdóttir Þórðarson
(f.1852-d.1937) Anna Valgerzka bjó í Reykjavík. Hún eignaðist son 1881, sem
dó á fyrsta ári. Hin dóttir Valgerðar, Guðrún Valgerzka Hansdóttir Þórðarson,
varð húsfreyja á Gafli í Flóa og síðar í Garðbæ í Reykjavík. Út af henni er
niðjahópur. Guðrún Hansdóttir sór sig í Keldnaætt hvað útlit og fas snerti. Hún
kom í heimsókn að Keldum á efri árum. Henni var fagnað sem frænku. Allir
vissu þá og viðurkenndu uppruna hennar.
Barnsmóðir iii(?) sesselja Þorleifsdóttir
frá ey í Landeyjum (f.1799 – d.1892).
Sesselja Þorleifsdóttir, var um skeið vinnukona í Króktúni, hjáleigu frá
Keldum. Foreldrar hennar voru Þorleifur Jónsson frá Litla-Kollabæ í Fljótshlíð
og Ástríður Einarsdóttir frá Ey í Landeyjum. Hún bjó með Grími Snorrasyni
(f.1782-d.eftir 1850), bónda í Forsæti í V-Landeyjum. Dóttir hennar var Ásta
(f. 1840-d.1897), skírð Grímsdóttir. Í manntali 1852 er Ásta Grímsdóttir skráð
fósturbarn á Keldum. Hún er af sumum talin dóttir Guðmundar Brynjólfssonar
á Keldum. Sonur Ástu með Finnboga Árnasyni yngri á Galtalæk var Helgi á
Reykjahvoli í Mosfellssveit. Helgi var mjög líkur Skúla Guðmundssyni á Keld-
um (sjá bls. 338 í II bindi Víkingslækjarættar, ný útgáfa). Ýmsir afkomendur
Helga hafa óskað þess, að Guðmundar væri getið sem forföður þeirra.
Hið óbilandi þrek
Guðmundur átti hesta góða og duglega, bæði til reiðar og áburðar og var þörf
mikil fyrir hvort tveggja. Eigi síst við heyskapinn í Grafarnesi og Safamýri,
sem útheimti 20 áburðarhesta (og reipi á 60 hesta). Þá þurfti og duglega hesta
í lokaferðir og kaupstaðarferðir. En í þær ferðir fór Guðmundur víst lengi laus-
ríðandi. Eftir að hafa undirbúið og séð um allan útbúnað til ferðanna, lét hann
pilta sína sem aldrei var skortur á, annast lestina á leiðinni, 8-10 hesta í ferð.
Allt fram yfir 80 ára aldurinn hafði Guðmundur hug og dug til þess að halda
fullum þingmannaleiðum á dag í ferðalögum. Þannig fór hann venjulega laus-