Goðasteinn - 01.09.2018, Page 115
113
Goðasteinn 2018
Þann 2. september 1845 byrjaði Hekla að gjósa og það gos stóð yfir í sjö mán-
uði með ólýsanlegum erfiðleikum fyrir fólkið.
Þau hjónin voru móðurforeldrar afa míns. Í Skarfanesi eignuðust þau tutt-
ugu og eitt barn en aðeins rúmur helmingur þeirra komst til fullorðinsára.
Tíunda barn þeirra var Ástríður Magnúsdóttir, móðir hans afa míns. Hún hóf
búskap í Ósgröf um það leyti sem afi minn fæddist.
Frásögnin af fæðingu hans hefur varðveist í fjölskyldunni. Fæðingin var
erfið, ljósmóðir var sótt en hvorki gekk né rak enda móðirin horuð og þreklaus.
Þegar svo móðir hennar, Sigríður í Skarfanesi, sú reynda og vísa kona kom til
hennar fór allt að ganga.
Árni afi hefur ekki verið einmana í uppvextinum, hann átti þrjár systur sem
lifðu og auk þess getur fleira fólk hafa verið í Ósgröf. Mamma hans giftist
aftur og átti tvær dætur með seinni manni sínum en þær létust báðar ungar.
Í Skarfanesi hefur verið mannmargt og geri ég ráð fyrir að mikill sam-
gangur hafi verið á milli bæja þrátt fyrir ána sem var farartálmi. Ég trúi því
að hann afi minn hafi oft verið lengri eða skemmri tíma hjá ömmu sinni og
afa og notið uppeldisáhrifa frá þeim sæmdarhjónum. Sigríður var dóttir Bjarna
Thorarensen, skálds, en móðir hennar var Elín Guðmundsdóttir, vinnukona í
Gufunesi. Ekki þótti við hæfi að Bjarni tæki sér vinnukonu sem eiginkonu og
var Elín gift vinnumanni og síðar var Sigríði komið í fóstur að Teigi í Fljóts-
hlíð. Borgaði Bjarni með henni þangað en þá var hann orðinn sýslumaður á
Hlíðarenda í Fljótshlíð. Sigríður hefur sótt til hans skáldagáfuna en bæði hún
og afi minn voru vel hagmælt.
Magnús afi hans var sagður hafa verið myndarmaður í framgöngu og máli,
framúrskarandi vandaður til orðs og æðis og dugnaðarforkur. Sagt er hjóna-
band þeirra Sigríðar hafi verið farsælt alla tíð en bæði létust þau í hárri elli.
Með menntaþrá í brjósti
Hvernig getur nútímafólk sett sig í spor barna og ungmenna á þessum
tíma? Ég tel að það sé nánast óhugsandi þannig að það nálgist raunveruleik-
ann. Myrkrið og kuldinn, jafnvel matarleysi og þrældómur hafa sett sín spor á
tilveruna. Ef tími gafst til leikja þá voru leikirnir fyrst og frest með leggi og
kjálka úr kindum og völur. Börnin gátu verið uppátækjasöm þá eins og nú og
ekki þurfti flókna leiki til að stytta stundirnar.
Þar sem læs fullorðinn einstaklingur var á heimilinu var börnum kennt að
lesa og voru þau yfirleitt læs fimm til sex ára. Eftir það voru þau látin lesa
guðsorð á hverjum degi. Heimilisfólkið sá um uppfræðsluna en prestar sáu um
að líta eftir að það væri sómasamlega gert. Tími til lestrar og leikja hefur verið