Goðasteinn - 01.09.2018, Page 120
118
Goðasteinn 2018
þessa ferð afa er fátt til frásagnar og flestum spurningum ósvarað. Hann fór
í óþökk sveitunga sinna sem óttuðust að hann bæri með sér spánsku veikina
þegar hann kæmi til baka. Amma hefur varla verið ánægð þó ég haldi að hún
hafi ekki sagt margt. Hún hefur jafnvel verið orðin ófrísk að fyrsta barni þeirra
sem fæddist í ágúst árið eftir.
Ef hann hefur gengið báðar leiðar hefur ferðin tekið upp undir sjö daga mið-
að við 30 km göngu á dag. Hann hefur tæpast hitt marga, fólk var ekki mikið
á ferðinni vegna ótta við pestina. Hvar gisti hann? Fólk var hrætt við að leyfa
fólki að gista af sömu ástæðu. Ég vona að hann hafi verið vel búinn, að amma
hafi nestað hann vel og jafnvel saumað á hann þykk vaðmálsföt til fararinnar.
Í ferðinni var tíðarfarið honum hliðhollt, þó hávetur væri. Þann 27. nóvember
segir Vísir frá því að öndvegistíð hafi verið um allt land síðustu daga, eins og
indælasta vortíð. Á göngunni hefur afi getað notið þeirrar fallegu fjallasýnar
sem hefur verið alla leið og náttúrunnar þó í vetrarskrúða hafi verið.
Hvar afi gisti í Reykjavík segir sagan ekki en hann átti þar vinahóp. Á full-
veldisdaginn var gott veður en svalt. Afi hefur ekki látið sig vanta við Stjórn-
arráðið og hefur hlustað á ræðu Sigurðar Eggerts, ráðherra, sem var birt í heild
sinni í Morgunblaðinu 2. desember, séð íslenska ríkisfánann dreginn að húni
og heyrt þegar varðskipsmenn skutu 21 fallbyssuskoti, kveðja sem er alþjóða-
siður að veita fullvalda ríki. Engar sögur fara af heimferðinni, tæpast hefur
hann gefið sér tíma til að dvelja lengi í Reykjavík. Fljótt geta skipast veður í
lofti og ekki langt til jóla. Heim komst hann, hafði ekki smitast af pestinni og
bar hana ekki í sveitina sína. En hann hafði upplifað magnaðan viðburð sem
var þess virði að leggja allt þetta á sig.
Lokaorð
Þessi ferð hans afa míns er í mínum huga einskonar birtingarmynd huga
hins almenna Íslendings til þess stórviðburðar sem var að gerast í Íslandssög-
unni. Mér finnst eins og að hann hafi verið fulltrúi allra hinna sem ekki gátu
farið og verið viðstaddir. Hann hefur fundið í hjarta sínu að eitthvað stórt var
að gerast, kannski mikilvægasti viðburður Íslandssögunnar. Hann vildi leggja
allt í sölurnar til að verða viðstaddur þann viðburð og hefur trúað því að allt
gengi upp. Ég held ekki að einhver glannaskapur hafi ráðið för heldur þrá eftir
að sjá hugsjónir sem vörðuðu heill og hamingju þjóðarinnar verða að veruleika.
Svo margir höfðu barist fyrir því að svo mætti verða.
Mér finnst að segja verði þessa sögu.