Goðasteinn - 01.09.2018, Page 143
141
Goðasteinn 2018
ir eins og Torfærukeppnin, Rangárþing ultra, Flughátíðin – allt sem flýgur,
17 júní, Þorrablótin frábæru, Kartöfluballið, Litasýningin, Sauðfjárdagurinn,
Skötuveislan og Fjárréttirnar.
Rangæingar voru í fremstu röð á Reykjavíkurleikum 2018 í Laugardalshöll-
inni. Sindri Seim Sigurðsson frá Rangárþingi ytra keppti þar í 600 metra hlaupi
15 ára og yngri og lenti þar í 2. sæti á tímanum 1:29,88 og sló þar ársgamalt
HSK-met. Sindri er einn af mörgum duglegum og hæfileikaríkum krökkum í
sveitarfélaginu sem stundar íþróttir af kappi og stendur sig afar vel.
Gríðarlegt líf var í kringum hestaíþróttirnar á árinu í sveitarfélaginu og
hæst bera margvíslegar uppákomur á Rangárbökkum við Hellu, félagssvæði
hestamannafélagsins Geysis. Þar er nú hafinn undirbúningur fyrir Landsmót
hestamanna sem halda skal á Rangárbökkum árið 2020. Rangæingar voru öfl-
ugir á Landsmóti hestamanna í Reykjavík í júlí sl. og má með sanni segja að
hin sanna mekka íslenska hestsins er í Rangárþingi – hvort sem litið er til
hrossaræktar eða hestamanna. Á þessu ári urðu þau tíðindi að sveitarfélögin í
Rangárvallasýslu tóku höndum saman og studdu myndarlega við æskuýðsstarf
í hestaíþróttum með fjárstuðningi til þriggja ára sem skipti strax á fyrsta ári
sköpum. Æskulýðsstarfið tók stakkaskiptum með ótrúlegri virkni æskulýðs-
nefndar hestamannafélagsins Geysis sem skilaði sér í stórum hópi barna og
ungmenna sem tók þátt í námskeiðum, keppni og margvíslegum skemmti-
legum uppákomum tengdum hestinum á líðandi ári. Meðal annars var haldin
stórkostleg Æskulýðssýning Geysis þann 1. maí 2018 í Rangárhöllinni á Hellu
þar sem um 75 Geysis börn, unglingar og ungmenni á aldrinum frá 3 ára til 22
tóku þátt og sýndu listir sýnar.
Í tengslum við Töðugjöldin á Hellu voru afhent hin árlegu Umhverfisverð-
laun sveitarfélagsins Rangárþings ytra. Margar tilnefningar bárust og var úr
vöndu að velja. Hjalti Tómasson formaður Umhverfisnefndar veitti viðurkenn-
ingar. Umhverfisverðlaun hlutu að þessu sinni Heimir Hafsteinsson og Særún
Sæmundsdóttir en þau búa að Freyvangi 14 á Hellu.
Oft hafa Töðugjöldin heppnast vel en sjaldan eins og í ár. Ekki spillti fyrir
að veðrið lék við hvurn sinn fingur og þátttaka heimamanna sem og brott-
fluttra var með eindæmum góð. Flugeldasýning Flugbjörgunarsveitarinnar á
Hellu á laugardagskvöldi Töðugjaldanna hefur öðlast landsfrægð enda engu
lík. Það er við hæfi að ljúka þessari samantekt frá Rangárþingi ytra þetta árið
með nokkrum myndum frá hátíðinni góðu Töðugjöldum á Hellu 2018. Kærar
þakkir til þeirra sem lögðu til efni í þessa samantekt.