Goðasteinn - 01.09.2018, Side 191
189
Goðasteinn 2018
Hún var bókhneigð; vissi, að sá sem les bók, finnur glöggt, að hann er ekki
einn. Í bókinni eignast lesandinn trúnaðarvin. Bókin opnar nýjar veraldir
hlýju og samheyrileikakenndar. Sá, sem kann að lesa bækur, verður aldrei ein-
mana, skortir aldrei viðfangsefni, og ekki heldur ánægjusamleg umræðuefni,
sér í rauninni ekki út yfir það, sem hann hefur að gera. Og góða bók lestu ekki
einu sinni, heldur oft, og í hvert skipti sem þú kemur að henni aftur, er það eins
og að heilsa kærum, gömlum vini, og þú finnur óðara eitthvað nýtt og hrífandi,
nokkuð sem þú tókst ekki eftir áður, og gleður þig nú, hressir og hughreystir að
nýju. Og ein bókin minnir á aðra og hvetur til áframhaldandi lestrar. Þannig
verður til net óendanlegrar reynslu, vitsmuna og félagsskapar.
Fyrir um það bil 12 árum tók þróttur Ásu að dvína, veikindin gömlu höfðu
tekið sig upp. Og síðasta árið, sem hún lifði, var hún lasin öðru hvoru. Hún
fékk inni á dvalarheimilinu Lundi á Hellu í apríl í fyrra og varð vistmaður þar
í maí. Hún lagðist á Borgarspítalann föstudaginn 26. febrúar síðastliðinn, þar
sem hún lést um miðaftansbil hinn 4. mars. Banamein hennar var inflúensu-
veira með lungnabólgu.
Minningin um myndarkonu mun lifa lengi með öllum þeim, sem kynntust
henni. Dýrmætust verður hún yður, ástvinum hennar, og mun bregða birtu og
yl fram á veginn og veita huggun í sorginni.
Vér, sem þekktum hana, söknum hennar. Enginn maður er eyland; brott-
hvarf Ásu Guðmundsdóttur af þessum heimi smækkar oss, sem eftir lifum.
Gunnar Björnsson,
pastor emeritus, Selfossi