Skógræktarritið - 15.10.2020, Page 66
SKÓGRÆKTARRITIÐ 202066
Þorvaldur Böðvarsson, formaður
Skógræktarfélags Vestur-Húnvetninga,
vann mestallan sinn starfsferil hjá
Vegagerðinni en settist í helgan stein fyrir
fáeinum árum. Hann hefur þó ekki með
öllu sagt skilið við vegagerð því að þegar
blaðamann ber að garði á skógræktarjörð
hans, Grund II í Vesturhópi í Vestur-Húna-
vatnssýslu, er hann önnum kafinn við að
bera möl í vegslóða. ,,Drulluslóðinn hér
er eftir Rarik. Þeir voru að plægja niður
jarðstreng. Maður nýtur góðs af því með
því að fá hita í kofann,“ segir Þorvaldur.
Til verksins notar hann tvo gamla Ferguson
traktora sem hann hefur sjálfur bjargað
frá því að lenda í brotajárni og gert upp
af myndarskap enda lærður vélvirki og
handlaginn. Skammt frá stendur þriðji
traktorinn sem þrátt fyrir að vera kominn
hátt á sjötugsaldurinn lítur út fyrir að vera
nýkominn af færibandinu og myndi sóma
sér vel á safni. Þorvaldur lítur þó ekki á
öldungana sem safngripi heldur gerir hann
traktorana upp til að geta notað þá.
Á jörðinni hafa Þorvaldur og Hólmfríður
Skúladóttir, kona hans, stundað skógrækt í
30 ár. Árangurinn hefur verið með miklum
ágætum, ekki síst í ljósi þess að mætir
menn höfðu afskrifað Vestur-Húnavatns-
sýslu sem skógræktarland á sínum tíma.
Úr flagmóa í iðjagrænan skóg
Þorvaldur Böðvarsson hefur verið aðaldriffjöður Skógræktarfélags Vestur-Húnvetninga um langt árabil og meðal
annars tekist að virkja sveitunga sína til þátttöku í skógrækt með ýmsum hætti. Mynd: EÖJ