Golf á Íslandi - 01.05.2015, Page 108
Golfsamband Íslands og RÚV hafa komist að samkomulagi um öfluga,
fræðandi og fjölbreytta golfumfjöllun á RÚV á næsta golfsumri.
Hápunktur dagskrárinnar verður bein útsending frá Íslandsmótinu
á Eimskipsmótaröðinni sem fram fer á Garðavelli á Akranesi 23.-26.
júlí. Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri GSÍ og Einar Örn Jónsson
íþróttastjóri RÚV undirrituðu samkomulag þess efnis nýverið í
höfuðstöðvum Golfsambandsins.
RÚV verður með vikulega þætti um golf
í sumar sem nefnast Golf á Íslandi. Fyrsti
þátturinn fer í loftið 2. júní. Alls verða
þættirnir 12 og er Hlynur Sigurðsson
umsjónarmaður. Fjallað verður um
golfíþróttina frá ýmsum hliðum í Golf á
Íslandi, hinn almenna kylfing, afrekskylfinga
og Eimskipsmótaröðina 2015.
„Við erum mjög ánægð að hafa gengið frá
samkomulagi við GSÍ og halda þar með
áfram því góða samstarfi sem hefur verið á
milli okkar undanfarin ár. Golf er stór og
fjölmenn íþrótt á Íslandi og við hlökkum
mikið til að takast á við golfsumarið,“ sagði
Einar Örn Jónsson íþróttastjóri RÚV.
Bein útsending verður frá tveimur síðustu
keppnisdögunum á Íslandsmótinu á
Eimskipsmótaröðinni, 25. og 26. júlí.
Gert er ráð fyrir þriggja tíma útsendingu
að lágmarki frá báðum keppnisdögunum.
Þetta verður í 18. skipti sem sýnt verður
beint frá Íslandsmótinu í sjónvarpi. Fyrsta
útsendingin var árið 1998 þegar mótið fór
fram á Hólmsvelli í Leiru.
„Golfsamband Íslands hefur verið í
góðu samstarfi við RÚV um sýningar frá
Íslandsmótinu í golfi undanfarin ár. Það er
því fagnaðarefni að sýnt verður frá mótinu í
sumar sem fram fer á Garðavelli á Akranesi.
Þá er það ánægjulegt fyrir kylfinga að fá
sérstakan vikulegan þátt á RÚV þar sem
golfíþróttinni er gerð góð skil,” sagði Hörður
Þorsteinsson framkvæmdastjóri GSÍ.
Mótin á Eimskipsmótaröðinni 2015 verða
alls sex að tölu. Kristján Þór Einarsson
úr GM og Karen Guðnadóttir úr GS
hafa titla að verja sem stigameistarar á
Eimskipsmótaröðinni.
23.–24. maí: Hólmsvöllur í Leiru (1) –
36 holur á laugardegi, 18 á sunnudegi.
29.–31. maí: Vestmannaeyjar (2) –
18 holur á dag á þremur keppnisdögum.
12.–14. júní: Hlíðavöllur í Mosfellsbæ (3)
– 18 holur á dag á þremur keppnisdögum.
19.–21. júní: Jaðarsvöllur á Akureyri (4)
– Íslandsmótið í holukeppni. Riðlakeppni
á föstudegi og fyrir hádegi á laugardegi.
Átta manna úrslit eftir hádegi á laugardegi,
undanúrslit og úrslit á sunnudegi.
23.–26. júlí: Garðavöllur á Akranesi (5) –
Íslandsmótið í golfi. 18 holur á dag á fjórum
keppnisdögum.
22.–23. ágúst: Urriðavöllur í Garðabæ
(6) – 36 holur á laugardegi, 18 holur á
sunnudegi.
Kröftug og fræðandi golfumfjöllun á RÚV
108 GOLF.IS - Golf á Íslandi