Golf á Íslandi - 01.05.2015, Side 130
Bay Hill Club & Lodge og TPC Sawgrass
21. - 29. september 2015
Verð frá 365.000 kr. ásamt 34.000 vildarpunktum
Villaitana Spánn
8. - 17. október 2015
17. - 24. október 2015
Verð frá 209.900 kr.
www.icegolftravel.is
Steinþór Þorvaldsson, kylfingur úr Golfklúbbi Grindavíkur, hefur verið
sérstaklega beinskeyttur á golfvellinum síðastliðin ár. Steinþór verður 83
ára gamall í ár og hefur náð þeim frábæra árangri að fara tvívegis holu í
höggi á síðustu tveimur árum, 81 og 82 ára gamall. Steinþór fór fyrst holu í
höggi árið 1988 og þurfti að bíða í 24 ár áður en hann sló draumahöggið á ný
fyrir tveimur árum. Hann er nú meðal elstu kylfinga landsins sem hafa farið
holu í höggi samkvæmt upplýsingum frá Einherjaklúbbnum. Elsti kylfingur
Íslands til að fara holu í höggi var Arnar T. Sigþórsson sem var 98 ára gamall
þegar hann fór holu í höggi árið 1985.
Steinþór hafði nýlokið að leika á 18
holur á sínum heimavelli, Húsatóftavelli í
Grindavík, þegar blaðamaður Golfs á Íslandi
náði tali af honum í miðjum marsmánuði.
„Maður heldur sér lifandi með því að spila
golf. Við félagarnir höfum spilað yfir 300
daga á ári frá því að ég var sjötugur. Það
hefur þó verið minna í ár vegna veðurs,“
segir Steinþór.
Ás á síðasta hring á Spáni
Steinþór var í golfferð á Spáni fyrir tveimur
árum þegar hann fór á ný holu í höggi
eftir talsverða bið. „Við vorum að leika
lokahringinn á Desert Springs vellinum við
Almería og vorum komnir á 14. braut sem
er um 140 metrar að lengd, með vatni fyrir
framan flötina. Ég hafði yfirslegið flötina
með 5-tré í öll skiptin á undan og ákvað,
úr því að þetta væri síðasta skiptið sem
ég spilaði brautina, að slá hraustlega með
6-járni. Ég smellhitti boltann sem flaug hátt
og beint á stöng. Boltinn skoppaði tvívegis
á flötinni áður en hann fór niður í holuna,“
segir Steinþór.
Ári síðar, 82 ára gamall, fór Steinþór svo
holu í höggi á 7. braut Húsatóftavallar.
Hann sló þá með sandjárni af rauðum teig.
„Boltinn flaug hátt og lenti svo hægra
megin á flötinni, skoppaði einu sinni og
rann svo í boga í holu og niður,“ sagði
Steinþór kátur í bragði.
Oft slegið í stöngina
Steinþór er með 19 í forgjöf og leikur
vanalega á rauðum teigum á heimavellinum
í Grindavík. Hann náði þeim magnaða
árangri á síðasta ári að leika tvívegis undir
aldri á Húsatóftavelli. Fyrst lék hann á 78
höggum í opnu móti eða fjórum höggum
undir aldri og svo á 80 höggum síðasta
haust.
„Ég er oft búinn að slá í stöngina á þessum
par-3 brautum. Ég er beinskeyttur af teig.
Það hlaut að koma að því að ég færi aftur
holu í höggi. Ég er frekar höggstuttur en
hitti alltaf braut. Það er mikill kostur. Það
væri draumur að fara holu í höggi þriðja
árið í röð,“ sagði Steinþór Þorvaldsson að
lokum.
Kvót: „Maður heldur sér lifandi með því að
spila golf. Við félagarnir höfum spilað yfir
300 daga á ári frá því að ég var sjötugur.“
Jón Júlíus Karlsson
ritstjorn@golf.is
– Steinþór Þorvaldsson
fór holu í höggi 81 og
82 ára gamall
Heldur sér
lifandi með því
að spila golf
Steinþór Þorvaldsson spilar
um 300 daga á ári og oftast á
heimavellinum í Grindavík.
Mynd/Haraldur Hjálmarsson
130 GOLF.IS - Golf á Íslandi
Heldur sér lifandi með því að spila golf