Helgarpósturinn - 05.04.1986, Blaðsíða 29

Helgarpósturinn - 05.04.1986, Blaðsíða 29
TEKINN FRAM YFIR Jónínu Leósdóttur myndir: Arni Bjarnason Sprautumeðferð — Er þá ekki um neina ,,lœkningu‘‘ ad rœöa? „Jú, það er þriðji möguleikinn, en hann felst í sprautumeðferð. Þetta hefur verið stundað lenjgi og þekktist jafnvel hér á landi fyrir stríð. Arangurinn var nú fremur vafa- samur í byrjun — stundum góður en stundum lélegur. Það hefur þó að einhverju leyti stafað af því að ofnæmisgreiningin var ekki nógu góð. Af þeim sem ljúka meðferðinni núna, fær um það bil þriðjungurinn góðan bata eða nærri því fullan bata. Annar þriðjungur verður býsna góður, en einn þriðji sjúklinganna verður lítið eða ekkert betri eftir sprautumeð- ferðina. Einhvern bata fá kannski 80% af þeim sem byrja meðferðina, en mjög margir hætta af ýmsum ástæðum." — Tekur medferdin langan líma? „Það er gert ráð fyrir þremur til fimm árum. Fyrst eru vikulegar sprautur í tæpa þrjá mánuði og síðan á sex vikna fresti. Þessi meðferð hentar hins vegar ekki fyrir alla ofnæmissjúklinga, t.d. ekki fyrir þá sem hafa mikið eða margbrotið ofnæmi. Þetta er fyrst og fremst gagnlegt við gróðurofnæmi, þó þessi aðferð sé einstaka sinnum notuð til meðhöndlunar á ofnæmi fyrir rykmaurum og köttum." — Er þetta adallega gert vid yngra fólk? „Hjá mér var meðalaldurinn um 20 ár í hópi, sem ég hef gert sérstaka samantekt á. Þeir yngstu voru um 7 ára, en elsta fólkið um fertugt. Langflestir ofnæmissjúklingar eru búnir að fá sinn sjúkdóm um fertugt. Þetta er eitt af fáu, sem kemur snemma og hefur tilhneigingu til þess að lagast með aldrinum. Mörg börn vaxa t.d. upp úr astma og fá hann aldrei aftur." Ofnaemispróf ó húðinni — Þegar sjúklingur leitar til ykkar hér á Vífilsstöðum, gerið þið á honum húðpróf til þess að komast að því fyrir hverju hann hefur ofnœmi. Hvað prófið þið þá mörg efni á hverjum sjúkling? „Við byrjum fyrst á svokölluðu „standard" húðprófi, ef ekkert ákveðið bendir til þess að gera eigi meira. Þetta eru tólf efni og þau duga í öllum venjulegum tilvikum, því þarna er um að ræða það, sem oftast veldur ofnæmi hér á landi. Meðal þessara efna er t.d. birki, túnfífill, hestar, hundar, kettir, ryk, rykmaur og mygla. Ef einhver grunur er um fæðuofnæmi, erum við með sérstakt húðpróf fyrir það. Einnig erum við með sérstaka hey-seríu, en það hafa verið í gangi miklar rannsóknir á heyofnæmi hér á landi á undanförnum árum. Þar að auki reynum við oft að búa okkur til upplausnir, ef um er að ræða sterkan grun um ákveðinn en sjaldgæfan ofnæmisvald. Sumt er hins vegar ekki hægt að prófa á venjulegan hátt. Þá setjum við sjúklinginn á sérstakt fæði, eða gefum honum hylki sem innihalda ýmis rotvarnar- og litarefni, sem notuð eru í mat. Sjúklingarnir fá þá líka „platlyf', þannig að þeir vita ekki fyrirfram hvenær búast má við ofnæmiseinkennum." — Hvað eru þessi hylki lengi að framkalla ofnœmi? „Það tekur oftast um tvær klukkustundir, þó það geti líka tekið lengri tíma. Við höfum líka afskaplega duglegar ráðskonur hérna, sem geta búið til nánast hvaða fæði sem er. Þá látum við sjúkling t.d. koma tvisvar og borða hjá okkur. Maturinn er í bæði skiptin nákvæmlega eins útlítandi og eins á bragðið. í annað skiptið inniheldur maturinn hins vegar eitthvað, sem fólkið telur sig ekki þola. Einungis ráðskonurnar vita í hvort skiptið búast má við ofnæmiseinkennum. Oftast notum við þetta til þess að afsanna eitthvað, sem fólk er búið að bíta í sig að það sé með ofnæmi fyrir. Þetta getur komið að miklu gagni, því fólk er oft á mjög einhæfu fæði þegar það hefur talið sér trú um að það hafi ofnæmi fyrir hinu og þessu." Sólræn tengsl — Eru þá mikil sálrœn tengsl við líkamlegt ofnœmi? „Það eru þarna sennilega nokkuð mikil tengsl. Fólk getur t.d. fengið væg einkenni, eða að minnsta kosti viss ónot, við að sjá dýr sem það hefur ofnæmi fyrir í sjónvarpi. Astmasjúklingar fá ekki beinlínis andþrengsli af að sjá kött í sjónvarpinu, en þeir spennast upp og líður illa við það. Ég held að þetta sé nokkuð sterkt, þó það sé að sjálfsögðu aldrei orsök ofnæmisins. Hins vegar er það mjög algengt að fólk komi á heimili, sem það hefur ekki hugmynd um að köttur var á, en finnur jafnvel innan tíu mínútna að svo hlýtur að vera. Fólkið finnur þetta hreinlega strax.“ — Skortir skilning á vanda ofnœmissjúklinga hér á landi? „Já. Þeir, sem ekki þekkja ofnæmi, eiga af- skaplega erfitt með að skilja þetta og það getur m.a. komið sér afar illa í fjölbýlishúsum. Það ganga kannski einhver dýr um sameiginlegan hluta hússins og það nægir til þess að valda ofnæmi. Slíkt hefur oft valdið mjög miklum sambýlisdeilum og vandræðum. Það er oft litið á þetta sem hálfgerðan „kverúlans“ eða taugaveiklun. Það sama á við um reykingar. Margir astma- sjúklingar eru svo næmir fyrir tóbaksreyk, að þeir geta alls ekki verið þar sem reykt er. Þeir treysta sér þá ekki til þess að fara í leikhús eða bíó — að maður tali ekki um aðra skemmtistaði. Fólk hefur til skamms tíma haft afskaplega lítinn skilning á þessu,' en sem betur fer virðist mér sem hann hafi aukist. Nýju tókbaksvarnalögin hafa greinilega ýtt undir það að tekið sé tillit til þeirra, sem eru viðkvæmir og þola ekki reykmettað loft." Það eru sem sagt til Ijósir punktar í málinu, þó enn sé greinilega langt í land á mörgum sviðum er tengjast ofnæmis- og astmaþjáðu fólki. Því er tilvalið að enda á svo jákvæðum nótum. Hjördís Sigurgeirsdóttir með elsta son sinn og næstyngstu dótturina, sem nýkomin er heim af sjúkrahúsi. BARÁTTA VIÐ FORDÓMA Hjördís Sigurgeirsdóttir er ein af þeim fjölmörgu hér á landi sem þjást af ofnæmi. Hún þolir ekki ákveðin lyf og sum efni, sem er að finna í algengum sápum og þvottaefnum. Ofnæmið lýsir sér í útbrot- um, kláða í augum, nefrennsli og öðrum slíkum óþægindum. Til þess að forðast þessi ofnæmisvaldandi efni, þarf Hjördís að gæta vandlega að innihaldi þeirrar vöru, sem hún kaupir. Þetta getur leitt til þess að fara þarf búð úr búð til að ná í „öruggar" vörutegundir og þær eru einnig oft á tíðum dýrari en hinar. Börn Hjördísar, fjögur talsins, hafa öll erft ofnæmið frá móður sinni. Elsti dreng- urinn, Auðunn, er ellefu ára og hann sýnir sömu ofnæmiseinkenni og Hjördís. Þar að auki er hann illa haldinn af astma. Þetta gerir það að verkum að Auðunn getur t.d. ekki farið í sveit, því þar eru bæði dýr, hey og aðrir ofnæmisvaldar. Hann getur heldur ekki komið inn á heimili vina sinna eða farið í fjölskylduboð þangað sem hús- dýr, teppi eða annað er að finna, sem hann hefur ofnæmi fyrir. Hjördís var spurð að því hve mikil áhrif astminn og ofnæmið hefði á líf Auðuns. „Þetta hefur haft gífurlega mikil áhrif á bæði líf hans og allra í kringum hann. Það er enginn vafi á því að það breytir per- sónuleika barna að þjást af ofnæmi, þó svo jafnvel menntaðasta fólk eigi það til að líta á þetta sem ímyndun eða einhvers konar taugaveiklun. Þar sem sjúkdóminn er ekki alltaf að sjá utaná sjúkiingnum, gerir fólk sér oft ekki grein fyrir umfangi málsins. I upphafi skólagöngu Auðuns olli þetta stundum erfiðleikum og hann hefur vissu- lega orðið fyrir aðkasti. Hann getur ekki reynt á sig eins og önnur börn og þarf að varast ýmislegt, sem aðrir þurfa aldrei að hugsa út í. Nánustu vinir hans taka þó fullt tillit til hans og hann spilar t.d. með þeim fótbolta og hefur þannig náð upp stór- auknu þoli. Hann fer í leikfimi og gerir þær æfingar sem hann getur, og hann stundar líka sund. Það er svo auðvelt að hreyfa sig í vatninu, jafnvel þegar astminn er það slæmur að erfitt er um andardrátt á þurru landi." — Getur hann sótt skóla reglulega, eða háir ofnœmið honum við námið? „Hann er orðinn einu ári á eftir í skól- anum, en við sendum hann af stað þegar þess er nokkur kostur. Oft fer hann í skól- ann eftir svefnlitlar nætur, þegar hann hef- ur verið að berjast Við andþrengslin tím- unum saman. Við þessu eru líka gefin lyf, sem hafa leiðinlegar aukaverkanir, og þó barnið líti eölilega út í skólanum að morgni, er það oft illa haldið og upptrekkt innra með sér — að maður tali ekki um hreina og beina þreytu eftir átökin." — Er ekki um neinar fyrirbyggjandi aðgerðir að rœða, aðrar en að forðast of- nœmisvaldana? „Jú, það er ýmislegt hægt að gera, en því miður hefur ríkið, þ.e.a.s. Trygginga- stofnunin, ekki sinnt þessu hingað til. Á hinum Norðurlöndunum er fyrir löngu búið að viðurkenna gagn þess að senda of- næmis- og astmaveik börn til sólarlanda. Á Spáni hefur verið komið upp heilsuhæl- um með norrænum læknum, þjálfurum og öðru starfsliði. Þó það hljómi sem mikið fyrirtæki, hefur þetta sparnað í för með sér fyrir ríkið. Þau börn, sem fá slíka þjálfun á suðrænum slóðum, haldast oft einkennalaus eða einkennalítil svo mán- uðum skiptir eftir heimkomuna. Þetta sparar því bæði lyfja- og sjúkrahúskostnað — fyrir utan vinnutap foreldra, sem þurfa að sinna veikum börnum sínum." — Er þá ekkert farið með íslensk börn í sumar og sól? „Jú. Foreldrar ofnæmissjúkra barna hafa tekið sig saman á undanförnum árum og farið í sólarlandaferðir, þó svo þær séu því miður ekki styrktar af Tryggingastofnun ríkisins á sama hátt og hún styrkir gigtar- og psóriasissjúklinga til slíkra ferða. Þau börn, sem farið hafa í þessar ferðir, hafa mörg verið lyfjalaus í 2—3 mánuði á eftir. Það þarf þvi ekki að efast um að þetta gerir gagn. Þess vegna er það virkilega sárt að umsóknir okkar um styrk eru ekki einu sinni virtar svars!" — Hvernig er ástandið hjá yngri börn- unum þínum? „Ég á 6 ára dreng, sem er líka illa hald- inn af ofnæmi og verður að vera á sér- stöku fæði. Hér á heimilinu verður mat- reiðslan oft æði flókin, því heimrti^menn hafa ýmsar sérþarfir í þeim efnum. Síðan erum við öll á mismunandi lyfjum og lyfja- takan á heimilinu er vægast sagt geig- vænleg. Næstyngsta barnið er tveggja ára telpa og hún er nýkomin heim af sjúkrahúsi. Fólk tengir astma og ofnæmi oft gömlu fólki, en þetta er einmitt mjög algengt hjá börnum. Yngsta barnið mitt er tæplega þriggja mánaða og ég gat því miður ekki haft hana á brjósti, en það er það eina sem vitað er að getur minnkað hættuna á of- næmi hjá börnum, eða að minnsta kosti dregið úr því að einkennin komi fram. Það er hins vegar til ein tegund af þurrmjólk, sem ekki hefur að geyma nein ofnæmis- valdandi efni, en hún er mun dýrari en önnur þurrmjólk. Við hjónin vildum endilega gefa dóttur okkar þessa mjólk og sóttum um styrk til Tryggingastofnunar til þess að standa straum af hinum aukna kostnaði. Þeir, sem slíkar ákvarðanir taka, virðast hins vegar ekki líta á þetta sem sjúkdóm og hafa synjað okkur. Það gleymist alltaf að líta á það hve mikil útgjöld hægt er að spara með slíkum fyrirbyggjandi aðgerðum — bæði lyfja-, læknis- og sjúkrahúskostnað." — Er ekki um jákvœða þróun að rœða að neinu leyti? „Ekki nægilega. Það hefur þó vissulega aukist skilningur á því að ofnæmi lýsi sér ekki bara í einni bólu eða álíka lítilfjör- legum óþægindum. Það er hins vegar nauðsynlegt að fræða uppeldisstéttirnar betur um þessi mál, því eins og ég sag^ hér á undan, þá sér oft ekkert á börnum sem eiga við þetta vandamál að stríða. Þau þurfa samt sérstaka athygli og skilning. Foreldrar þessara barna þurfa líka að taka aukinn þátt í baráttu fyrir réttindum barna sinna, því við erum um það bil 20 árum á eftir hinum Norðurlöndunum hvað þetta varðar. Fólk verður að gera sér grein fyrir því að ofnæmi hverfur ekki eins og kvef eða önnur álíka óþægindi og að sjúk- dómurinn hefur mjög víðtæk áhrif á líf sjúklingsins og fjölskyldu hans. Þar að auki erfist ofnæmi og astmi og því verður alltaf um síaukinn fjölda tilfella að ræða. Þetta er því miður ekki á neinu undanhaldi." HELGARPÓSTURINN 29

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.