Helgarpósturinn - 10.07.1986, Síða 4

Helgarpósturinn - 10.07.1986, Síða 4
INNLEND YFIRSYN Flótti úr hefðbundnum kvennastörfum á vinnu- markaðnum er stærra vandamál en fólk gerir sér almennt grein fyrir Hverjir eiga að vinna kvennastörfin? Það hefur mikið verið rætt og ritað um flótta úr ýmsum kvennastéttum siðastliðinn mánuð. Af og til birtast slíkar fréttir um neyð- arástand í ákveðnum atvinnugreinum og umræðan að undanförnu er einmitt ein slík hrina. Reynslan sýnir hins vegar að æsi- fregnir um tóm sjúkrarúm og lokaðar barna- deildir verða minna krassandi í augum fréttastjóra fjölmiðlanna eftir því sem fleiri hafa gert þeim skil og loks hjaðna flótta- fregnirnar alveg. Sú staðreynd stendur þó eftir að gífurlegur flótti hefur verið úr hefð- bundnum atvinnugreinum kvenna á síðari árum, án þess að nokkuð virðist um lausnir til frambúðar. Lítið hefur verið um marktæk svör við þeirri spurningu, hver eigi að vinna kvennastörfin þegar hjúkrunarkonur, sjúkraliðar, meinatæknar, röntgentæknar, fóstrur og kennarar hafa fundið sér arðbær- ari starfsvettvang. Þó virðist það augljóst að á endanum verdur að hækka laun þessara stétta og margra annarra, en það mun ekki gerast af sjálfu sér. Aukin menntun kvenna hefur alls ekki skilað þeim launahækkunum að því marki, sem búast hefði mátt við. I því sambandi er meðal annars bent á ljósmæðrastarfiö, en sá titill fæst nú einungis að loknu 6 ára námi á háskólastigi — fjögurra ára hjúkrunarfræði- námi og tveggja ára sérnámi. Launin eru hins vegar hvergi nærri sambærileg þeim launum, sem algeng eru meðal annarra há- skólaborgara með jafnlangt sérnám að baki. Konur láta arðsemisjónarmið greinilega ekki stjórna námsvali sínu enn sem komið er. Þær flykkjast áfram í hinar hefðbundnu kvennagreinar, þrátt fyrir að konur sem þeg- ar hafa aflað sér þessarar sömu menntunar séu að flýja frá störfum. Arið 1985 voru t.d. allir útskrifaðir nemendur Sjúkraliðaskólans og Fósturskólans konur. Eintómir karlar voru hins vegar útskrifaðir árið 1985 úr Vél- skólanum, Stýrimannaskóla Reykjavíkur, Tækniskólanum, Búvísindadeild Bænda- skólans og Tónfræðideild Tónlistarskólans. Konur voru tæp 80% útskrifaðra nemenda Kennaraháskólans á síðasta ári, um 98% þeirra sem útskrifuðust úr Hjúkrunarskólan- um og 95% nemenda sem luku námi við Þroskaþjálfaskólann. Þessar tölur segja sína sögu. Konur sækja í ákveðin störf, sem flest eiga það sameiginlegt að tengjast umönnun sjúkra, aldraðra eða barna, uppeldi og kennslu, eða hússtjórn. Þetta eru þau störf, sem til þeirra höfða og núorðið eru fáir þeirr- ar skoðunar að vandinn leysist einfaldlega með því að konur snúi sér að raungreinum, tölvufræðum, viðskipta- og hagfræði og stjórnun. Þessi svokölluðu kvennastörf þyrfti samt sem áður að vinna og ekki er von til þess að karlar flykkist í þau við núverandi aðstæður. Margt gott má eflaust segja um vitundar- vakningu kvenna á þeim áratug, sem við þær var kenndur að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Það kemur þó greinilega fram í samræðum við konur hérlendis, að launa- málin eru veikasti liður jafnréttismálanna í dag og að í þeim hefur lítið áunnist sem hönd er á festandi. Samtök kvenna á uinnumark- aði hafa reynt að eggja konur áfram og það sama má segja um Framkvœmdanefnd um launamál kvenna, en á þessum vettvangi er við ramman reip að draga og lítið um áþreif- anlegan árangur erfiðisins. Á Alþingi hefur einnig verið reynt að hreyfa við þessum mál- um og þrjú ár í röð hafa þingmenn úr öllum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu um rannsókn á kjörum láglaunahópa undir for- ystu Jóhönnu Sigurdardóttur. Þetta þingmál hefur hins vegar sofnað í félagsmálanefnd Neðri deildar í þrígang, sem sýnir áhuga háttvirtra alþingismanna í hnotskurn. Þó sú rannsókn, sem þingsályktunartillag- an felur í sér, sé hugsuð sem verkfæri til end- urmats á láglaunastörfum, hefur henni ekki verið neitt sérlega vel tekið innan verkalýðs- hreyfingarinnar. Það kann að vera sökum þess að forystumönnum þar þyki þessi leið ekki líkleg til árangurs, a.m.k. ekki nægilega fljótt. ,,Það þarf langtum öflugri hreyfingu og meiri aðgerðir," segir Lára Júlíusdóttir, for- maður Kvenréttindafélagsins og lögfræðing- ur ASÍ. „Breytingin verður að koma í gegn- um aðila vinnumarkaðarins og konurnar þar. Þær verða að beita áhrifum sínum innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að fá störf- in metin til launa að verðleikum. Sá þrýsting- ur sem aðgerðir hjúkrunarfræðinga og meinatækna eru núna að skapa, gæti t.d. flýtt töluvert fyrir endurmati. Það hefur mik- il áhrif þegar ljóst er að konur láta ekki leng- ur bjóða sér þessi lágu laun.“ Þeir sem tengjast jafnréttisbaráttu og launamálum, telja flestir að samfara endur- mati á láglaunastörfunum, sé einnig nauð- synlegt að konur taki í framtíðinni þátt í fleiri atvinnugreinum á vinnumarkaðnum. Þetta er ekki séð sem lausn í sjálfu sér, heldur sam- hliða aðgerð. Margt hefur verið gert til þess að stuðla að fjölbreyttara náms- og starfsvali kvenna, m.a. af hálfu Jafnréttisráds. Haldnir hafa verið fundir og ráðstefnur innan skóla- kerfisins og eftirlit hefur verið haft með námsefni til þess að reyna að koma í veg fyrir að gamlir fordómar fái haldið velli. Of snemmt er að leggja mat á afrakstur þessa starfs, en það er hins vegar greinilegt á áhuga kvenna á námskeiðum um stofnun og rekstur smáfyrirtækja, að viðhorfin eru að breytast — þó hægt fari. Slíkt námskeið var auglýst á vegum Idntœknistofnunar í vor og var eftirspurnin næg til að fylla mörg nám- skeið. Fróðir menn og konur segja að þetta hefði ekki getað gerst fyrir áratug eða svo, þegar konur tóku það sem gefið að vinna hjá öðrum, ef þær á annað borð færu út í at- vinnulífið. Eftir tæp fjögur ár má búast við gagnleg- um upplýsingum varðandi það hvað hægt er að gera til þess að riðla hinni fastmótuðu kynskiptingu á vinnumarkaðnum og stuðla að fjölbreyttari atvinnuþátttöku kvenna. Á næstu árum verður nefnilega í gangi sam- norrænt verkefni, sem ísland er aðili að og kallast „Brjótum múrana!" Það er Valgerdur Bjarnadóttir, fyrrum forseti bæjarstjórnar á Akureyri, sem stjórnar þessu verkefni hér- lendis. Hún mun í samstarfi við konur á hin- um Norðurlöndunum stuðla að ýmsum að- gerðum á Akureyri með þetta mikilvæga markmið í huga og að starfinu loknu verður árangurinn metinn í því skyni að nota reynsl- una á landsvísu. Það má því segja að ein- staka jákvæð teikn séu á lofti í launamálum kvenna, þó ekki sé að búast við neinum verulegum breytingum á allra næstu vikum og mánuðum, nema kvenþjóðin sýni sam- takamátt sinn betur en hún hefur gert til þessa. ERLEND YFIRSYN Eftir mikið japl, jaml og fuður milli þings og forseta framan af síðasta vetri, ákvað Reagan forseti rétt fyrir jólin að undirrita, og fullgilda þar með sem lög, samþykkt þings- ins um að methalla á fjárlögum Bandarikj- anna skuli eytt samkvæmt ákveðnum regl- um, þannig að greiðslujöfnuður hjá ríkissjóði komist á í síðasta lagi árið 1991. Þar með var látið heita að bandarísk ríkisfjármál væru komin í skaplegar skorður, eftir að hafa skrölt stjórnlaus á valdatima Reagans, með svipuðum áhrifum á heimsfjármá! og laus fallbyssa veldur á þilfari herskips. Nú hefur hæstiréttur Bandaríkjanna dæmt eitt meginákvæði laganna um hallalaus fjár- lög árið 1991 ósamrýmanlegt stjórnar- skránni og þar með ógilt. Óvissa ríkir því aft- ur, og afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Hlutabréf hröpuðu í verði á kauphöllinni í New York, um 61 stig á mánudag og 18 stig til viðbótar á þriðjudag. Lögin sem kennd eru við aðalhöfunda sína, fulltrúadeildarmanninn Gramm og öld- ungadeildarmanninn Rudman úr flokki repúblíkana, mæla svo fyrir að embættis- maður, eftirlitsstjóri gjaldmiðilsins, skuli með ákveðnu millibili gera breytingar á fjár- lagatölum, reynist þær ekki innan þeirra marka sem sett eru um lækkun ríkissjóðs- halla stig af stigi. Þetta ákvæði hefur hæsti-' réttur nú numið úr gildi. Samkvæmt stjórn- arskránni er fjárveitingavaldið í höndum þings og forseta í sameiningu. Óheimilt er að dómi hæstaréttar að framselja það með þess- um hætti til embættismanns. Methalli á fjárlögum Bandaríkjanna und- anfarin ár stafar jöfnum höndum af stór- felldri lækkun skatta á fyrstu stjórnarárum Reagans og verulegri hækkun hernaðarút- gjalda ár frá ári á fyrra kjörtímabili hans. Á síðasta fjárlagaári nam hallinn 212 milljörð- um dollara. Reagan hét því í fyrri kosninga- baráttu sinni að koma fjárlögum í jafnvægi, og hann hefur margsinnis lýst yfir fylgi við stjórnarskrárbreytingu sem banni fjárlaga- halla. Forsetinn kennir sífellt þinginu um að þetta markmið hefur í raun fjarlægst en ekki nálgast í stjórnartíð hans. Kveðst hann allur af vilja gerður til að ná ríkisútgjöldunum nið- ur, en undanskilur ævinlega útgjöld til her- væðingar og almannatrygginga. í raun er Bob Dole öldungadeild- armaður á framundan nýja giímu við forseta sinn. Bandarísk ríkisfjármál í óvissu eftir hæstaréttardóm ógerlegt að jafna fjárlagahallann séu þessir liðir undanþegnir niðurskurði, eins og reynslan hefur sýnt ár eftir ár. Hitt úrræðið, að jafna tekjur og gjöld ríkissjóðs með því að hækka skatta, er einnig útilokað, vegna tog- streitunnar milli forseta og þings. Reagan neitar að fallast á allar uppástungur um :skattahækkanir, jafnvel þótt þær komi frá flokksbræðrum hans á þingi. Þingheimur er fyrir sitt leyti ófáanlegur til að baka sér óvin- sældir með því að eiga frumkvæði að skatta- hækkunum. Er sú afstaða sérstaklega rík hjá þingmönnum í ár, þegar framundan eru þingkosningar í nóvember. Hallarekstur ríkissjóðs Bandaríkjanna undanfarin ár hefur haft víðtækar fjárhags- legar og efnahagslegar afleiðingar. Hann er meginundirrót hávaxtastefnu og hágengis Bandaríkjadollars, sem haldið hefur niðri hagvexti. Bandaríska ríkishítin hefur sogað til sín fjármagn frá umheiminum, með þeim afleiðingum að Bandaríkin eru komin í hóp nettóskuldara í heimsviðskiptum í fyrsta skipti á öldinni. Frá því á síðasta hausti hafa samræmdar aðgerðir seðlabanka helstu iðnríkja megnað að fella gengi Bandaríkjadoilars og þoka verðgildi hans til réttmætara hlutfalls við aðrar myntir. Var von þeirra sem að stóðu, að þetta yrði til að efla jafnvægi í heimsviðskipt- um og hagvöxt, sér í lagi eftir að olíuverð tók jafnframt að hrapa. Nú ríkir á ný aukin óvissa, sem ruglað get- ur slík áform. Eftir sem áður kveða Gramm- Rudman lögin bandarísku á um að halla á ríkissjóði skuli haldið niðri í 144 milljörðum dollara á árinu. En eftir úrskurð hæstaréttar er allsendis óvíst hvort og þá hvernig við þetta markmið verður staðið. Eftirlitsstjóri gjaldmiðilsins hefur þegar einu sinni stýft fjárveitingu til að útgjöld haldist innan Gramm-Rudman laganna. Eftir dóm hæsta- réttar eru þær lækkanir orðnar ógildar að lögum og verður þingið að taka sig til og fjalla um málin sérstaklega til að niðurskurð- urinn fái á ný lagagildi. Frekari lækkanir, sem sýnt þykir að þörf sé á til að staðið sé við ákvæðið um 144 millj- arða hámarkshalla, verða einnig að koma til kasta þingsins. Við það getur hafist á ný rimman milli Reagans forseta og meirihlut- ans á þingi um fjárveitingar til hervæðingar. Þingið hefur hafnað kröfum forsetans um áframhald á hækkun á raungildi hernaðarút- gjalda, hækkun umfram verðbólgu. Forset- inn og Weinberger landvarnaráðherra hafa streist á móti eftir bestu getu. Nú fá þeir nýtt tækifæri til að þjarma að þingmönnum. eftir Magnús Torfa Ólafsson Reagan setti sér það meginmarkmið í upp- hafi síðara kjörtímabils á forsetastóli, að koma í kring gagngerri endurskoðun á skattalögum. Skyldi stefnt að lækkun skatt- hlutfalls af tekjum og fækkun skattþrepa jafnframt niðurskurði á skattaundanþágum, þannig að tekjuskattur í heild gefi ríkissjóði jafnar tekjur eftir breytinguna og fyrir hana. Endurskoðun skattalaganna hefur gengið mun greiðar en unnt var að sjá fyrir. Skiptir þar mestu að meirihluti demókrata í Full- trúadeild þingsins tók forsetann á orðinu og samdi frumvarp eftir sínu höfði, sem full- nægir þó helstu skilmálum hans. Handahófs- kennd og óréttmæt undanþáguákvæði gild- andi skattalaga eru orðin svo alræmd og óvinsæl, að heildarendurskoðun þeirra með afnám undanþáguákvæða að leiðarljósi er vinsælt mál í Bandaríkjunum. Frumvarpið sem Öldungadeildin sam- þykkti er í nokkrum atriðum frábrugðið því sem kemur frá hinni þingdeildinni, enda repúblíkanar þar í meirihluta. Er nú fram- undan, að nefndir frá báðum deildum taki til við að samræma frumvörpin tvö, áður en málið er tekið til lokaafgreiðslu á þingi og sent forseta. Undir forustu Bob Dole, formanns þing- flokks repúblíkana í Öldungadeildinni, hafa flokksbræður forsetans á þingi lagt að hon- um, einkum við undirbúning fjárlagafrum- varps, að fallast á nokkra aukningu skatta til að grynnka á hallanum á ríkissjóði. Hjá Reagan hafa þeir aldrei fengið annað en þvert nei. Nú er óhjákvæmilegt að þingmenn reyni á ný að telja forsetanum hughvarf í þessu efni. Eftir dóm hæstaréttar er úr sögunni að þing- heimur geti skotið sér á bak við embættis- mann í niðurskurði á ríkisútgjöldum, sem þingmenn segjast vilja að eigi sér stað. Þeir eiga ekkert undanfæri að vinna verkið sjálf- ir. Á kosningaári hlýtur þingið að leita leiða til að létta niðurskurðarverkið með því að afla ríkissjóði nýrra tekna. Til þess eru ýmis ráð, sem ekki þurfa að hrella kjósendur að marki. Ný skattaglíma þings og forseta virð- ist því framundan. 4 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.