Helgarpósturinn - 20.08.1987, Síða 11
Litlu síðar í sömu heimild greinir
svo frá:
„Samkvæmt umferðartalningu
Vegagerðar ríkisins bendir allt til,
að á fjórða hundrað þúsund manns
hafi farið um þjóðgarðinn sumarið
1985.“
Ljóst er af þessum tölum, að því
fer afar fjarri, að verið sé „að reka út
allt, sem getur heitið mannlíf" á
Þingvöllum, eins og komizt er að
orði í ofangreindu viðtali. Reyndar
hefur verið leitazt við að bæta fyrir-
greiðslu við ferðamenn á ýmsa lund
undanfarin ár. Væri auðvelt að tína
til fjölda dæma um þær úrbætur,
þótt ógjört skuli látið að sinni.
Hliðstæðum upplýsingum um
fólksfjölda á Þingvöllum á fyrri ára-
tugum er ekki til að dreifa. En full-
yrðingar um fækkun gesta innan
þjóðgarðsins hin síðari ár hljóta
mjög að orka tvímælis, enda verða
þær alls ekki sannaðar með neinum
hætti. Geta má þess, að um verzlun-
armannahelgina nú í sumar voru
tjaldbúar innan þjóðgarðsins u.þ.b.
þrjú þúsund, en aragrúi annarra
gesta var einnig á ferð um svæðið.
Þarna voru á ferð rammíslenzkar
fjölskyldur, sem undu glaðar við sitt,
— allsgáðar upp til hópa. Staðhæf-
ingar þess efnis, að nú orðið sjáist
varla fólk í þjóðgarðinum „nema
einhver slæðingur af útlendinum",
eru því öldungis úr lausu lofti gripn-
ar. Koma þær þeim mönnum, sem
raunverulega eru kunnugir ríkjandi
ástandi á Þingvöllum, afar spánskt
fyrir sjónir. Vekur nánast furðu, að
nokkur skuli láta hafa eftir sér aðrar
eins staðleysur.
Undirritaður er sæmilega kunn-
ugur íslenzkum sögustöðum og við-
móti gesta á slíkum slóðum, enda
unnið að kynningu tveggja fremstu
helgistaða landsins um liðlega
hálfan annan tug ára. 1 nefndu við-
tali segir, að „Ijóminn, sem verið
hefur yfir Þingvöllum" sé á undan-
haldi, — enn fremur, að „unga fólkið
þekki ekki Þingvelli". Hér er að sjálf-
sögðu ekki um annað að ræða en
órökstuddar staðhæfingar. Sjálfur
hef ég á undanförnum árum kynnzt
ótölulegum fjölda íslendinga, sem
bersýnilega eru djúpt snortnir af
þeim ljóma, sem umlykur Þingvelli,
sögu þeirra, náttúru og helgi. Þetta
á eigi miður við um „unga fólkið" en
aðra. Á hverju ári koma þúsundir
skólabarna til Þingvalla, njóta
fræðslu um staðinn og una þar um
lengri eða skemmri tíma. Ekki verð
ég var við, að þessi börn séu „að
gleyma Þingvöllum" fremur en aðr-
ir.
Þegar rætt er um Þingvelli við
Öxará skiptir hugarfar ræðumanns
mestu. Ber hann lotningu fyrir
staðnum, — eða er hann e.t.v. tóm-
látur um þau einstæðu verðmæti,
sem þar er að finna? Er hann sjálfur
snortinn af „ljóma" Þingvalla?
Skynjar hann þá hæð og dýpt, sem
einkenna þennan vettvang ís-
lenzkra örlaga um aldir og vissulega
eru handan við hversdagsleg
skyndilæti síbreytilegra tíma?
Undanfarin tvö ár hafa arkitektar
Þingvallanefndar, þeir Reynir Vil-
hjálmsson og Einar Sæmundsen,
unnið að áætlanagjörð varðandi
framtíð þjóðgarðsins. Nú hafa drög
að áætlunum þeim verið lögð fram
„til kynningar og umræðu". Þing-
vallanefnd óskar eftir umsögnum
um tillögurnar og mun ekki taka
endanlega afstöðu til aðalskipulags
fyrr en þær umsagnir eru fram
komnar.
Yfir þessum málatilbúnaði hefur
aldrei hvílt neins konar leynd. Ráðn-
ing arkitektanna var vandlega
kynnt í fjölmiðlum vorið 1985. Sjálf-
ir hafa þeir ævinlega verið öldungis
opnir fyrir öllum ábendingum og
fyrirspurnum hvaðanæva. I viðtali
við arkitektana, sem birtist í Lesbók
Morgunblaðsins haustið 1986,
komu fram meginhugmyndir þær,
er nú hefur formlega verið dreift.
Hitt ætti ekki að koma á óvart,
þótt undirbúningur hafi tekið nokk-
urn tíma. Umfangsmikil gagnasöfn-
un réð mestu um það. Nú er beinlín-
is beðið um almenna umræðu.
Óskandi er, að umræðan sú verði
í anda hins fornkveðna: „Hóf er
bezt, — hafðu á öllu rnáta". Hvernig
svo sem menn vilja túlka Þingvelli
við Öxará í huga sér er hitt almælt,
að Þingvellir séu meðal „hornsteina
í þjóðartilveru okkar", eins og kom-
izt var að orði í forystugrein Morg-
unblaðsins 26. júní 1986. Af sjálfu
leiðir, að þjóðinni er mestur greiði
gjörður með vinsamlegum og hlýj-
um orðaskiptum um Þingvelli. Ástin
til náttúru staðarins, sögu hans og
mannlífs hlýtur að sitja í fyrirrúmi.
Umræðan verður einnig að vera
málefnaleg og almenn. Hnútur og
kveistni eiga ekki heima í skoðana-
skiptum um Þingvelli. Einkamál sín
og persónulegt hugarangur verða
menn að breiða á bekki í einhverj-
um öðrum stað en að Lögbergi.
Góðir menn hljóta að vænta þess,
að vel megi úr rætast og málum
verði miðlað, — unz allir hafa nokk-
uð til síns máls, — nú eins og ætíð
forðum á þessum „helgistað allra
landsmanná'.
Heimir Steinsson
Leiðrétting
Það skolaðist heldur betur til hjá
okkur í síðasta blaði, þegar við
sögðum að Vigdís Finnbogadóttir,
forseti íslands, ritaði formála að
barnabók Jóhannesar úr Kötlum,
sem kemur út hjá Máli og menningu
í haust. Vigdís mun alls ekki rita for-
mála að bókinni og eru hún og aðrir
hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á
þessum mistökum, sem urðu vegna
skondins, en ekki frásegjanlegs,
misskilnings.
í síðasta tbl. Helgarpóstsins birt-
um við smásögu, sem byggði á frá-
sögn í Víkurfréttum í Keflavík. í
millitíðinni komu út nýrri Víkur-
fréttir og þar var frásögnin, sem við
byggðum á, dregin til baka. Leiðrétt-
ingin fór hins vegar framhjá okkur
og því byggðum við á rangri frá-
sögn.
Af þessum sökum birtum við orð-
rétta leiðréttingu Víkurfrétta og ætti
hún að duga til að leiðrétta frásögn
okkar:
„Nokkurs misskilnings gætti í síð-
ustu Molum varðandi styrkbeiðni
lögmanns nokkurs til að sækja
keppni í málflutningi í Stokkhólmi.
Umræddur lögmaður sótti ekki um
styrk þennan fyrir sjálfan sig, eins
og fram kom í Molum, heldur var
hann að sækja um styrk til ýmissa
íslenskra aðila til handa stúdentum
frá lagadeild Háskóla íslands vegna
keppni í málfiutningi og ræðu-
mennsku milli lagadeilda við há-
skólana á Norðurlöndum sem fram
fer í Stokkhólmi. Að þessu sinni var
íyrirliði keppendanna Ásta Magnús-
dóttir úr Garði. Biðjast Víkurfréttir
því velvirðingar á mistökum þess-
um og að hafa á röngum forsendum
sakfellt viðkomandi lögmann."
HP tekur undir afsökun Víkur-
frétta, heimildar okkar.
Helgarpósturinn hefur hingað til
ekki lagt það í vana sinn að
„mennta menn upp á nýtt“. í liðinni
viku gerðum við þó þá skyssu að
gera lögfræðinginn Þórarin V. Þór-
arinsson að hagfræðingi. Við biðj-
um lögfræðinginn afsökunar.
Ritstj.
ÞJOW
ORÐ í TÍMA TÖLUÐ
ÁSKRIFTARSÍMI 62 18 80
Hjá okkur færðu allt í matinn
Glæsilegt kjöt- og fiskborð
Tilboðsverð á eggjum og
Rómarpizzum
Gott verð á kaffi
OPIÐ ALLA DAGA
Mánudaga til fimmtudaga kl. 9—19
Föstudaga kl. 9—20
Laugardaga kl. 9—16
Sunnudaga kl. 10—14
KAPPKOSTUM AÐ VEITA GÓÐA ÞJÓNUSTU.
REYNIÐ VIÐSKIPTIN, VERIÐ VELKOMIN.
71290 Leirubakka 36
HELGARPÓSTURINN 11