Morgunblaðið - 10.02.1984, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 10.02.1984, Blaðsíða 38
38 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 10. FEBRÚAR 1984 Sigurður Óli Brynjólfsson Akureyri Fæddur 8. september 1929 Dáinn 31. janúar 1984 Lengi mun hans lifa rðdd hrein og djörf um hæðir, lautir... (J.H.) Við sátum aldrei sömu megin við borðið öll þessi tuttugu ár sem við vorum saman í bæjarstjórn, jafnvel ekki heldur í þröngbýli bæjarráðs. Það var hlutskipti okkar löngum stundum, að vera einhvers konar liðsoddar ólíkra sjónarmiða og andstæðra flokka. Við vorum fjarskalega oft ósam- mála og deildum ósjaldan. En við rifumst aldrei. Hvorugur þurfti í því efni nokkurs að iðrast. Skammir eða persónuleg sáryrði fóru ekki á milli okkar. En við háðum langvinnt taugastríð sem sannlega var ákaflega slítandi. Þegar mikið lá við, kunnum við líka að ganga yfir gólf þvert — og þar átti Sigurður oftar frumkvæð- ið — til sátta og samkomulags. Og samkomulag við Sigurð Óla stóð. Hann var mjög ráðríkur, enda er stjórnmálamaður til þess að stjórna. Hann var þolgóður og þrautseigur, ef þess þurfti. Hann var gunnreifur, eins og skáld sögðu um Ólaf konung Tryggva- son. Það sem hann sagði mér um tilkomu sina í akureysk stjórnmál verður ekki tíundað hér. En Sig- urður var svo gerður, að hann hlaut að róa í fyrirrúmi eða róa ekki. Hann var ekki miðskipsmað- ur og þaðan af síður skutbyggi, heldur stafnbúi. Með annarri lík- ingu sagt gat hann einskis manns eftirbátur verið. Hann átti líka leikgleði og kappgirni, en samt barðist hann fyrst og fremst mál- efnanna vegna, ekki leiksins, og gat þó haft gaman af snúnum skákfléttum. Hann var sigurglað- ur, þá er svo gaf og þó á móti blési, miklaði hann ekki fyrir sér stund- armótbyr. Hann var starsýnni á það sem hagstætt var. Hann var jákvæður persónuleiki. Hann var maður uppbyggingar og grósku. Hann efndi meira en hann lofaði. Honum mátti treysta og þess vegna hafði hann traust. En sumir þoldu ekki stjórnsemi hans. Samviskusemi hans var einstök að hverju sem hann gekk. Hann vildi sjálfur gjörkanna og gjör- skilja hvert mál af stærðfræði- legri nákvæmni. Hann kunni ekki að hlífa sér, kunni ekki að láta aðra taka af sér ómakið. Sjálfur gerði hann bæði stórt og smátt. Hann lifði strítt. Orð sr. Bjarnar Halldórssonar, þau að lífsstundir sumara manna líði í leti og dofa, áttu síst af öllu við Sigurð óla Brynjólfsson. Og það er huggun harmi gegn, að það hefði aldrei klætt hann að vera gamall. En hann bauð ekki dauðann velkom- inn. Sigurður óli vildi lifa, stríða og umfram allt starfa. Hann var ekki borinn til vegs né valda. Hann fékk ekkert fyrir- hafnarlaust. Honum var aldrei rétt neitt á silfurfati nema góðir hæfileikar í vöggugjöf. Þá varð hann hjáiparlaust að nýta. Og það gerði hann. Hann braust úr fá- tækt til bjargálna, hann aflaði sér menntunar og hann fór að lokum fyrir stórum hópi manna. Hann taldi ekki eftir sér ungur að hlaupa frá Krossanesi suður í Menntaskóla. Hann vann og nam, nam og vann, giftist ungur og eignaðist börn. Hann var mikill fjölskyldumaður, afskaplega tryggur og ræktarsamur. Sam- band hans og móður hans, sem lengi lifði ekkja í Ytra-Krossanesi, mætti vera mörgum til fyrir- myndar. En utan heimilis varð kennslan, félagsmálaforystan og stjórnmálin líf hans og yndi. Til þess leiks gekk hann fús og kapp- - Minning samur. Hann var óskemmdur og ókalinn á sínu heita hjarta eftir alla þá glímu. Han unni sér ekki hvíldar og í ákefð sinni brann hann upp fyrir þann tíma, sem flestum mönnum er mældur úr al- valds hendi. Ég veit að ég mælist ekki við einn, þegar ég flyt Sigurði óla að leiðarlokum þakkar- og kveðjuorð og færi ástvinum hans samúðar- kveðjur. Það mæli ég einnig fyrir munn okkar fjölmargra sem með honum unnu, og þá eins svo- kallaðra andstæðinga, sem við hann kepptu og deildu. „Sá dauði hefur sinn dóm með sér“, stendur skrifað og dómurinn um Sigurð Óla mun verða sá, að þar hafi far- ið heilsteyptur, geðríkur, sókn- djarfur, vammlaus og góðhjartað- ur maður sem mikils megnaði af ótal mörgu sem hann langaði til að þoka á betri veg. Hann féll frá í miðri önn ævi- dagsins, óbugaður, ósigraður. Þannig munu menn minnast hans. Vera má að hann hafi verið orðinn þreyttur. Samt sem áður unni hann sér starfs umfram allt ann- að. Og hvar sem hann fer, get ég ekki óskað honum hvíldar, hana þráði hann ekki. Mér verður eins og Jónasi Hallgrímssyni sem síst vildi tala um svefn við Tómas vin sinn Sæmundsson látinn, en bað hann flýta sér í fegri heim, meira að starfa. Ég get vel séð Sigurð óla flýta sér þannig. Fari hann vel, og blessuð sé minning hans. Gísli Jónsson Mágur minn, Sigurður Oli Brynjólfsson, kennari og bæjar- fulltrúi á Akureyri, verður borinn til moldar í dag. Hann lést í Fjórð- ungssjúkrahúsinu á Akureyri 31. janúar sl. 54 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn drengur góður og eftirminnilegur öllum þeim sem honum kynntust en um leið ötull forystumaður um málefni Akureyrar. Sigurður Óli var fæddur 8. sept- ember 1929 að Steinholti í Gler- árhverfi, sonur hjónanna Guðrún- ar Rósinkarsdóttur og Brynjólfs Sigtryggssonar, sem lengst bjuggu í Ytra-Krossanesi við Akureyri. Hann var fimmti í röðinni af sjö börnum þeirra. Hann ólst upp í Krossanesi við sveitastörf og síðar störf í síldar- verksmiðjunni. Hann lauk stúd- entsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1950 og BA-prófi í stærðfræði og eðlisfræði frá Há- skóla íslands 1954. Að loknu námi gerðist Sigurður óli kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri og gegndi því starfi alla tíð síðan ásamt kennslu við Iðnskólann. Þá hóf hann fljótlega þátttöku í stjórnmálum og hefir verið bæjarfulltrúi á Akureyri fyrir Framsóknarflokkinn óslitið frá árinu 1962. Því hafa fylgt margvísleg stjórnarstörf á vegum bæjarins og stofnana hans og hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Sigurður Óli bjó lengi með fjöl- skyldu sinni í Krossanesi ásamt foreldrum sínum. Byggði hann þar upp íbúðarhús og útihús með þeim og rak búskap í félagi við þau. Var hann þannig stoð og stytta for- eldra sinna og gerði þeim kleift að búa í Krossanesi. Aðrir ættingjar og tengdafólk naut góðs af því og dvaldi þar Iengur eða skemur á hverju sumri auk þess sem börn voru í sumardvöl. Þannig var elsti sonur okkar, Brynjólfur, í Krossa- nesi flest sumur fram yíir ferm- ingaraldur. Brynjólfur, faðir Sigurðar óla, lést árið 1962 og nokkrum árum síðar fluttist Sigurður með fjöl- skyldu sinni að Þingvallastræti 24 á Akureyri. En Guðrún bjó áfram í Krossanesi með aðstoð Sigurðar óla og fjölskyldu hans. Stóð svo allt fram á árið 1983T er Guðrún andaðist. Mun Sigurður Óli eða einhver úr fjölskyldu hans hafa komið út í Krossanes nær daglega öll þessi ár til aðstoðar og útrétt- inga. Sigurður óli var störfum hlað- inn alla tíð. í fyrsta lagi var kenn- arastarfið. í öðru lagi bæjar- stjórnar- og stjórnmálastörfin, sem voru ákaflega erilsöm. I þriðja lagi búskapurinn í Krossa- nesi og aðstoð við móður sína að halda uppi heimili þar. í öllum sínum störfum mun Sig- urður Óli hafa sýnt mikia sam- viskusemi og ósérplægni og verið laus við að skara eld að sinni köku. Þetta var áberandi í samskiptum hans vð foreldra sína og ættingja. En ég þykist vita að það hafi einn- ig átt við um bæði kennarastarfið og stjórnmálastörfin. Þó að Sigurður Óli hafi sinnt mörgum störfum er ekki allt þar með sagt. Mest var um það vert að kynnast manninum sjálfum. Hann var sérstaklega góðum gáfum gæddur eins og hann átti kyn til. Námsmaður var hann afl)urða góður, hagmæltur og orðheppinn og hafði ánægju af að ræða bæði alvöruefni og gamanmál. Hann hafði yndi af skák og bridge og margt fleira var honum til lista lagt. Hann var vaskur maður í hvívetna, hlífði sér aldrei. Hann lét ekki deigan síga þó að heilsan tæki að bila hin síðari ár og það var fjarri honum að kvarta. Hann var alltaf bjartsýnn og gat tekið undir með Einari Benediktssyni: Heyr mig, lát mig lífið finna, læs mér öll hin dimmu þil. Gef mér stríð — og styrk að vinna, stjarna, drottning óska minna. Ég vil hafa hærra spil, hætta því, sem ég á til. Bráðum slær í faldafeykinn, — forlög vitrast gegnum reykinn. Alls má freista. Eitt ég vil. Upp með taflið. — Ég á leikinn. En umfram allt var hann ákaf- lega hjartahlýr maður og góður heimilisfaðir, enda var fjölskyldan samhent og tengd ástúðlegum böndum. Sigurður óli var kvæntur Hólm- fríði Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði og lifir hún mann sinn. Þau eiga 5 mannvænleg börn, hið yngsta aðeins 11 ára. Öll á fjöl- skyldan sinn hlut að störfum heimilisföðurins, ekki síst að hinu mikilsverða starfi í Krossanesi og má það ekki gleymast. Var alltaf jafn ánægjulegt að koma á heimili þeirra og njóta þar veitinga og skemmtilegra viðræðna. Nú er sárastur harmur kveðinn að konu og börnum sem fátækleg orð fá ekki breytt. En gott er að eiga minningu um vaskan mann og góðan dreng. Jón Erlingur Þorláksson. Sigurður óli Brynjólfsson, bæj- arfulltrúi og kennari á Akureyri, lést í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 31. janúar sl. á fimmtug- asta og fimmta aldursári. Sigurð- ur óli Brynjólfsson fæddist á Ytra-Krossanesi 8. september 1929. Hann starfaði sem kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar í um þrjá áratugi. Samhliða kenndi hann við Iðnskólann á Akureyri og síðustu árin kenndi hann ein- vörðungu við þann skóla. Sigurður óli var bæjarfulltrúi á Akureyri fyrir Framsóknarflokk- inn í um það bil 22 ár. Samhliða starfi sínu sem bæjarfulltrúi starfaði hann í hinum ýmsu nefndum og ráðum á vegum bæj- arins. Hann átti sæti í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga og starfaði þar sem varaformaður. Þá átti hann sæti í stjórn Útgerðarfélags Akureyringa, auk þess gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstörf- um á vegum Framsóknarflokks- ins. Ég heyrði fyrst Sigurðar Óla Brynjólfssonar getið fyrir um það bil tveim og hálfum áratug síðan. Kunningi minn sem nýkominn var í Gagnfræðaskóla Akureyrar og hafði fengið Sigurð Óla sem einn af sínum kennurum vakti athygli mína á honum. Greinilegt var að persónuleiki Sigurðar Ola hafði haft veruleg áhrif á hann og lét hann þess getið að þessi maður væri bóndi í Krossanesi og sinnti búverkum samhliða kennslunni, æki mjólk búsins til Mjólkursam- lags KEA á morgnana áður en hann kæmi til kennslustarfa. Hvort það var vegna þessarar umsagnar félaga míns eða af ein- hverjum öðrum orsökum að ég veitti þessum manni sérstaka at- hygli þegar ég síðar kom í Gagn- fræðaskóla Akureyrar veit ég ekki, en kennslustundir hjá hon- um eru mér sérstaklega hugstæð- ar. Ég er sannfærður um að sam- bærilegan vitnisburð geta aðrir nemendur hans einnig gefið. Það kom ekki í hug minn á þeirri stundu að við ættum eftir að eiga náið samstarf á komandi árum. Frá því að ég fór að fylgjast með bæjarmálum á Akureyri hefur Sigurður óli verið einn mikilvirk- asti bæjarfulltrúinn. Störf hans að bæjarmálum einkenndust af mikilli þekkingu á hlutverki og skyldum sveitarstjórna og af glöggri heildarsýn yfir rekstur þess bæjarfélags. Hann var hreinskiptur í skoðunum og órag- ur í ákvörðunum. Vegna mismunandi stjórnmála- skoðana höfðum við gengið til sveitarstjórnarstarfa sem and- stæðingar, en mér virðist, þegar ég lít yfir farinn veg, að fleira hafi sameinað okkur en sundrað og tel ég það ekki síst vera vegna þeirra markmiða hans og vilja að efla vöxt pg viðgang síns bæjarfélags. Til að ná því markmiði taldi hann nauðsynlegt að hafa sem best samstarf við alla bæjarfulltrúa, hvar í flokki sem þeir stóðu. Hann var reiðubúinn til að sveigja sínar skoðanir í átt til hugmynda ann- arra ef slíkt gæti leitt til úrlausn- ar í vandasömum málum. Það minnast hans sjálfsagt margir vegna brennandi áhuga hans á svo fjölmörgum málum. Mér eru minnisstæð mörg atvik þar sem hann stóð umkringdur hópi manna, ræddi málin og út- skýrði frá sínum sjónarhóli. Sigurður Óli naut trausts sam- herja sinna og mótherjar virtu hæfileika hans og getu. Með hon- um er genginn mikilhæfur maður. Störf hans í þeim stofnunum og félögum sem hann var valinn til forystu fyrir verða seint fullmet- in. Nú er skarð fyrir skildi, þegar slíkur maður hverfur úr okkar hópi. Ég minnist margra stunda er við ræddum saman og hversu oft hann höfðaði til uppruna og um- hverfis þegar hann mat afstöðu einstaklinga og þeirra lífsskoðan- ir. Fortíðin var honum mikilvæg ekki síður en framtíðin. Greind og atorka skiluðu honum til þeirra mikilvægu trúnaðar- starfa sem honum voru falin. Lífs- starf hans var mikið. Hann nýtti hverja stund, skildi mikilvægi hennar, en átti þó jafnframt svo margt óunnið. Samverustundir okkar voru nokkrar í viku hverri og tengdust störfum að bæjarmálefnum. Mér er því, af skiljanlegum ástæðum, sá þáttur í lífi hans hugstæðari en aðrir og minningar frá þeim stundum leita á hugann. Ég tek undir þau orð sem sögð voru við andlát hans að hann hafi verið stórbrotinn persónuleiki og góður drengur. Sigurður Óli er í mínum huga órjúfanlega tengdur minningum og málefnum undanfarinna ára. Hann átti það til að líkja saman uppruna okkar og taldi að lífs- skoðanir okkar færu þess vegna í mörgu saman. Um það atriði vor- um við ekki á einu máli, en hvort það var vegna þess eða skýrrar framsetningar hans á málum, þá virtist mér auðvelt að skilja af- stöðu hans til einstakra mála. Þegar dægurþras stjórnmál- anna var sett til hliðar og stund gafst til þess að ræða um aðra hluti var framlag hans í slíkar umræður alltaf mikilvægur hluti samræðnanna. Er margs að minn- ast frá slíkum stundum, atriða er gefa enn skarpari mynd af þeim hugsjónamanni sem hann var. Nú þegar ég kveð góðan dreng og félaga minnist ég þeirra þátta í fari hans er einkenndu hann í mínum huga og er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að eiga með honum stutta samleið. Við hjónin sendum konu hans, Hólmfríði Kristjánsdóttur, börn- um hans og fjölskyldu allri inni- legar samúðarkveðjur. Sigurður Jóh. Sigurðsson Það kemur margt upp í hugann, þegar einn úr hópnum, sem út- skrifaðist úr MA 1950, hverfur yf- ir móðuna miklu. Þeir voru of margir horfnir áð- ur, og nú bættist Sigurður óli í hópinn. Sigurður Óli var fæddur 8. sept- ember 1929 í Steinholti i Glerár- þorpi við Akureyri, sonur hjón- anna Guðrúnar Rósinkarsdóttur og Brynjólfs Sigtryggssonar. Þau áttu síðar lengi heima í Krossa- nesi utan við Akureyri, og þar ólst Sigurður Óli upp. Þaðan gekk hann daglega í Menntaskólann á Akureyri að vetrinum, og það var til þess tekið, hve stundvís hann var og hve vel hann sótti skólann, þó að hann ætti lengstan skólaveg allra nemenda. Bekkurinn okkar var ekkert sér- staklega samrýndur í skóla og hef- ur ekki haidið hópinn neitt að ráði eftir að við kvöddumst sólbjartan júnídag fyrir nærri 34 árum. Líklega var einkennið á bekkn- um helst það, að þar voru saman komnir margir nem^ndur með mótuð viðhorf og ákveðna afstöðu. Þeir vissu hvað þeir vildu og vildu ekki. Þeir vildu ekki vera hópur sem léti að stjórn foringja. Þeir vildu vera óháðir jafningjar hvers sem var, en jafnframt vinir vina sinna. Árin í MA eru eftirminnileg á margan hátt, þó mest fyrir það, að þar kynntumst við hvert öðru, nemendurnir. Þar kynntist ég Sig- urði óla á þann hátt, að seint mun fyrnast. Þau kynni vóru merkileg að því leyti, að þau sögðu sögu um manninn, persónuleika hans, áhugamál, samviskusemi, dugnað og ósérhlífni, og sú saga spáði rétt um framtíð hans. Þau kynni sýndu, að Sigurði óla mátti treysta til hvers þess, sem hann tók sér fyrir hendur. Hann brást aldrei, hvorki kennurum, nemendum, kunningjum sínum né eigin lífsviðhorfum. Hann var fremur fáskiptinn og alvarlegur við ókunnuga, en glettinn og skemmtilegur í góðra vina hópi. Eftir að samvistum okkar Sig- urðar Óla í skóla lauk hittumst við sjaldan, en ég frétti oft af honum og alltaf sömu söguna. Hann var víða í fararbroddi, vann verk sín af þörf, en ekki til að láta á sér bera og hafði traust allra sam- fylgdarmanna sinna. Það er þungt að sjá á bak góðum dreng, sem fellur alltof snemma frá. Eg sendi fjölskyldu hans sér- stakar samúðarkveðjur. Stefán Aðalsteinsson Það er sárt að sjá á bak góðvilj- uðum gáfu- og dugnaðarmönnum á besta aldri, en enginn þekkir þau rök, sem til þess hljóta að liggja, að þeir skuli kallaðir burt. Okkur er harmur í huga, þegar samferða- menn í blóma lífsins hverfa skyndilega af þessum heimi, en enginn má sköpum renna. Lítt

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.