Helgarpósturinn - 09.05.1996, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 09.05.1996, Blaðsíða 6
6 FIMMTUDAGUR 9. MAI1996 , „Hef engan frið fyrir fólki sem óskar eftir því að ég bjóði mig fram til forseta.“ Eg fæ engan frið fyrir fólki sem óskar eftir því að ég bjóði mig fram til forseta. En ég hef ekki tekið ákvörðun ennþá og segi ekki meira um málið í bili,“ sagði Jón Baldvin Hanni- balsson, formaður Alþýðu- flokksins, í samtali við Helgar- póstinn í gær. Samkvæmt traustum heimildum blaðsins gaf Jón Baldvin það hins vegar sterklega í skyn á fundum með þingflokki Alþýðuflokksins og framkvæmdastjórn síðastliðinn mánudag að yfirgnæfandi líkur séu á að hann láti slag standa og bjóði sig fram. Tilkynningar þar um sé að vænta í næstu viku. Ætlunin mun hafa verið að bíða með yfirlýsingu um framboð þar til framboðsfrest- ur rennur út 24. maí, en ólíklegt er að menn geti setið á sér svo lengi. Hann hafi fundið fyrir mjög breiðum stuðningi fólks sem er það mjög á móti skapi að Ólafur Ragnar Grímsson hirði forsetaembættið fyrir- hafnarlaust eins og nú eru líkur á og sjálfur megi hann ekki til þess hugsa. „Jón Baldvin hefur bókstaflega misst úr svefn við tilhugsunina um að Ólafur Ragnar verði forseti," segir samstarfsmaður Jóns til fjölda ára. Vitað er að andstæðingar Ólafs Ragnars úr öllum flokkum hafa að undanförnu leitað að frambjóðanda sem þeir gætu sameinast um. Þeim þyki Ijóst að Guðrún Pétursdóttir, Guð- rún Agnarsdóttir og Pétur Kr. Hafstein muni ekki veita Ólafi Ragnari neina raunhæfa keppni. Nafn Jóns Baldvins hafi komið æ oftar upp í umræð- unni og hann sé talinn eini mað- urinn sem eigi möguleika á að sigra fyrrverandi formann Al- þýðubandalagsins. Smiðir sam- særiskenninga halda því fram að Össur Skarphéðinsson sé að espa formanninn upp í framboð og ætli sér síðan formannsstól- inn í Alþýðuflokknum. Þessu neitaði Óssur eindregið í sam- tali við blaðið. Staðan snarbreyttist Innan Alþýðuflokksins eru skiptar skoðanir um það hvort formaðurinn eigi að fara í fram- boð eða ekki. Sumir telja brýnt að Jón Baldvin leiði flokkinn enn um sinn og fari því ekki í framboð. Aðrir segja að þrátt fyrir að það yrði mikill missir fyrir flokkinn og stjórnmálabar- áttuna yfirleitt ef Jón Baldvin færi fram og næði kjöri sem for- seti, þá verði að líta til þess að hann sé öllum þeim kostum bú- inn sem prýða mega forseta. Þetta er meðal annars skoðun Gunnars Inga Gunnarssonar, læknis og formanns Alþýðu- flokksfélags Reykjavíkur. „Það er í sjálfu sér mikill missir fyrir íslenska pólitík að Fréttaskýri Öllum að óvörum er komin upp ný og gjörbreytt staða í framboðs málum til embasttis forseta íslands. Síðustu daga hefur mjög verið þrýst á Jón Baldvin Hannibalsson, formann Alþýðuflokksins, um framboð. Þegar Sæmundur Guðvinsson skoðaði málið kom í Ijós að niðurstaðan virðist vera augljós... Jón Baldvin œtlar á Bessastaði sjá á eftir Jóni Baldvini. Hins vegar hef ég ekki hitt nokkurn mann sem efast um hæfileika hans til þess að gegna forseta- embættinu. Hann hefur allt sem þarf í það og ég mundi styðja hann í það starf,“ sagði Gunnar Ingi í samtali við HP. „Jón Baldvin hefur ekki svar- að því hvort hann muni gefa kost á sér. Það eru blendnar til- finningar sem bærast með okk- ur sem stöndum með honum í pólitík og höfum mikið álit á honum sem stjórnmálamanni. Annars vegar að sjá á eftir hon- um úr pólitíkinni en hins vegar að sjá hann á leið á Bessastaði sem næsti forseti íslands. Ef Jón Baldvin gefur kost á sér er ég viss um að mikill fjöldi fólks mun fylkja sér um hann og stað- an í kosningabaráttunni snar- breytist. Ég tel að Jón Baldvin eigi mikla möguleika á sigri, ef af framboði hans verður," sagði Gunnar Ingi Gunnarsson. Gegn Olafi Ragnari Áhrifamaður í Sjálfstæðis- flokknum kvaðst í samtali við blaðið hafa áhuga á framboði Jóns Baldvins svp fremi sem hann gæti skákað Ólafi Ragnari. „Sjálfstæðismenn kjósa þann sem getur sigrað Ólaf Ragnar. Ýmsir úr okkar hópi hafa stutt framboð Guðrúnar Pétursdótt- ur eða Péturs Kr. Hafstein. Þetta fólk þarf því ærna ástæðu til að hlaupast undan merkjum. Sú ástæða verður hins vegar fyrir hendi ef skoðanakannanir sýna að hvorugt eigi möguleika á sigri en Jón Baldvin sé líkleg- ur til að vinna Ólaf Ragnar. Þá munu fjölmargir sjálfstæðis- menn styðja Jón Baldvin Hanni- balsson, enda hefur hann þá hæfileika sem þarf í þetta emb- ætti og er vel kynntur á alþjóð- legum vettvangi," sagði þessi viðmælandi blaðsins. Leðjuslagur Samstarfsmaður Jóns Bald- vins í Alþýðuflokknum, sem ekki á sæti á Alþingi, sagði þessa umræðu um framboð for- mannsins koma sér á óvart. Hann hefði haldið að Jón Bald- vin hefði engan áhuga á emb- ættinu, enda væri hann stjórn- málamaður af hugsjón og á Bessastöðum væri ekki hægt að stunda stjórnmál. „Það sem af er þessari viku hefur gosið upp mikil umræða um forsetaframboð Jóns Bald- vins. Maður heyrir fólk úr öll- um flokkum tala á jákvæðum nótum um þetta. Persónulega hugnast mér betur að kjósa Jón Baldvin sem forseta heldur en Ólaf Ragnar. Hins vegar vil ég sjá hann áfram sem formann flokksins og veit ekki hvaða af- leiðingar það gæti haft fyrir Al- þýðuflokkinn ef formaðurinn fer í framboð. Þó ber að líta á það að ekki verður hann for- maður til eilífðar. En það er að minnsta kosti ljóst að ef Jón Baldvin fer fram gegn Ólafi Ragnari þá verður það leðju- slagur, því báðir eru kunnir að öðru en því að láta hlut sinn í neinu,“ sagði þessi krati. Annar háttsettur flokksmað- ur kvaðst vera algjörlega and- vígur forsetaframboði for- mannsins. Fylgi við flokkinn væri mjög bundið persónu Jóns Baldvins og flokkurinn þyrfti á honum að halda. „Það getur hvaða peð sem uppfyllir lág- markskröfur gegnt starfi for- seta, enda valdalaust skraut- embætti. Það væri sóun á hæfi- leikum Jóns Baldvins að hann settist í helgan stein á Bessa- stöðum á besta aldri og skaði fyrir íslensk stjórnmál. Auk þess yrði framboð af hans hálfu honum sjálfum og flokknum til skaða, því ég hef ekki trú á að hann næði kjöri. Þetta mál veld- ur nú þegar titringi í flokknum. Jón Baldvin á það til að vera fljótfær en ég vona að hann flani ekki að neinu í þessu máli og láti skynsemina ráða,“ sagði þessi flokksbróðir Jóns. Framboð líklegt Á göngum Alþingis er hugs- anlegt framboð Jóns Baldvins mjög til umræðu. Einn af þing- mönnum Framsóknarflokks sagði í samtali við blaðið að það væri svo sem eftir öðru að Jón Baldvin ryki í framboð þótt ekki væri nema til þess að kom- ast í góðan hasar í nokkrar vik- ur. Þingmaðurinn vildi hins vegar engu spá um gengi Jóns Baldvins í baráttunni um Bessa- staði, en taldi ljóst að þar yrði um að ræða einvígi milli hans og Ólafs Ragnars. Það væri óneitanlega nokkuð einkenni- leg staða eftir að búið væri að fullyrða árum saman að þjóðin vildi ekki stjórnmálamann á Bessastaði. Helgarpósturinn náði tali af Össurí Skarphéðins- syni alþingismanni í gær og spurði hvort hann yrði var við mikinn áhuga á því að Jón Bald- vin bjóði sig fram til forseta. „Það er töluverður ófriður af þessum framboðshugleiðing- um Jóns Baldvins í mínu dag- lega lífi. Það vill svo til að við höfum skrifstofur á sama gangi og síðustu daga hefur verið lítill vinnufriður fyrir alls konar fólki sem er að leita að Jóni Baldvini til að þrýsta á hann um fram- boð. Það væri því mjög farsælt ef ákvörðun í málinu lægi fljót- lega fyrir svo hann geti þá sett upp skrifstofu úti í bæ en ég haldið áfram að vinna að lög- gjafarstörfum,“ sagði Össur. Hann kvaðst verða var við talsverðan áhuga hjá fólki kringum hugsanlegt framboð Jóns Baldvins. „Það stafar kannski af því að íslendingar eru keppnismenn og um nokk- urra vikna skeið hefur virst sem úrslit væru ráðin. Ólafur Ragn- ar hefði þetta í hendi sér og aðrir frambjóðendur ekki náð því flugi sem menn töldu fyrir- fram. Af því Ólafur er búinn að vera að skrönglast á toppinum svo iengi hafa margir á tilfinn- ingunni að hann sé búinn að vera forseti í áratug og kominn tími til að skipta um forseta. Þessar kringumstæður skapa frjóan jarðveg fyrir óvæntum frambjóðanda. Mér þykir ekki ólíklegt að svo fari að reyndur stjórnmálamaður gefi kost á sér á næstu dögurn," sagði Össur. Aðspurður hvort hann ætti við Jón Baldvin svaraði hann því játandi. Össur þvær hendur sínar Eins og vikið var að í inngangi að þessari samantekt heyrast þær raddir að Össur Skarphéð- insson sé þess mjög hvetjandi að Jón Baldvin fari í forseta- framboð. Þá opnist leið fyrir Össur að taka við formennsk- unni. Össur var spurður hvort þetta væri rétt. „Jón Baldvin er fulltíða mað- ur og hefur reynslu og þroska til að taka ákvörðun um þetta algjörlega á eigin spýtur. En ég held að hann mundi sóma sér vel sem góður forseti. Slægð mín í pólitískum efnum er hins vegar mjög orðum aukin. Ég er eins og barn í samanburði við þessa refi sem eru hér í þinginu og hef hvorki greind né útsjón- arsemi til að láta mér koma til hugar að ýta Jóni Baldvini vini mínum í framboð til forseta ein- ungis til að geta orðið formaður Alþýðuflokksins. Ef Jón fer í framboð og segir af sér for- mennsku þá tæki Guðmundur Ámi Stefánsson varaformaður við. Ég hef marglýst því yfir að ég hef engan áhuga á að verða formaður Alþýðuflokksins. Eftir því sem árin færast yfir mig og ég hníg að aldri taka önnur áhugamál, eins og skriftir bóka um Þingvallaurriðann og löngu látna presta, auk áherslu á barnauppeldi, allan þann tíma sem ég hef aflögu frá löggjafar- störfum hér á samkundunni," sagði Össur. Hann bætti síðan við og gætti angurværðar í röddinni: „Ef svo fer að það verður þörf á nýjum formanni Alþýðu- flokksins innan skamms þá mun ég ekki blanda mér í þá baráttu. Þess í stað mun ég hokra að mínu á lítilli skrifstofu í hálfrökkri og skrifa um ástalíf urriðans í Þingvallavatni og sálma sem séra Bjöm Halldórs- son, prófastur í Sauðlauksdal, orti á ofanverðri átjándu öld.“ Pressa á báða bóga Af samtölum við ýmsa má ráða að það er pressað á Jón Baldvin á báða bóga. Annars vegar af þeim sem vilja að hann fari í forsetaframboð og hins vegar af þeim sem vilja ekki að hann fari fram. Síðdegis í gær hélt Jón Baldvin vestur til Isa- fjarðar. Krati þar á bæ sagði í samtali við blaðið að mjög skiptar skoðanir væru um hugsanlegt framboð Jóns. Sjálf- ur var þessi maður þess ekki fylgjandi að Jón Baldvin færi fram, en sagði það út af fyrir sig ánægjuefni að Isfirðingar þættu helst koma til greina í embætt- ið. En ef Jón færi fram mætti hann eiga vísan stuðning flestra flokksmanna og mikinn almennan stuðning þjóðarinn- ar. Almennt búast menn við að Jón Baldvin tilkynni ákvörðun sína í næstu viku, en framboðs- frestur rennur út 24. maí.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/286

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.