Morgunblaðið - 17.07.2004, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 17.07.2004, Blaðsíða 35
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. JÚLÍ 2004 35 ✝ Fríður Guð-mundsdóttir fæddist á Núpi í Fljótshlíð 4. júlí 1908. Hún lést á hjúkrunarheimili aldraðra í Víðinesi, 10. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Pétursdóttir, f. í Blöndholti í Kjós 1886, d. 1962, og Guðmundur Er- lendsson, bóndi og hreppstjóri frá Hlíð- arenda, f. 1883, d. 1969. Þau hjónin bjuggu allan sinn búskap á Núpi í Fljótshlíð. Bræður Fríðar voru Leifur Ingi rakari, f. 1910, d. 1985, og Pétur, bóndi á Núpi, f. 1912, d. 1997, sem kvæntist 24. apríl 1945 Önnu Guðjónsdóttur frá Litla-Kollabæ, f. 1922. Þau áttu sjö börn, en eitt er látið. Fríður lauk prófi frá Gagn- fræðaskólanum á Akureyri og hóf síðan störf hjá móðursystur sinni í Hattabúðinni Höddu og lauk hún starfsævi sinni þar níu- tíu og eins árs að aldri. Hafði hún þá sjálf rekið versl- unina síðustu fimm- tán árin. Bjó hún mestan hluta ævi sinnar á Hverfis- götu 35 í Reykjavík. Fríður var stofn- félagi Íþróttafélags kvenna og vann af mikilli atorku fyrir það félag. Hún var í stjórn þess frá árinu 1940 og formaður í 35 ár frá 1950 til 1985. Hún varð heiðursfélagi félags- ins árið 1987. Hún var í ýmsum ráðum og nefndum á vegum íþróttahreyfingarinnar og var sæmd gullstjörnu ÍBR 1976 og síðar gullmerki ÍSÍ. Fríður starfaði einnig mikið fyrir áfeng- isvarnanefnd kvenna og var um tíma formaður nefndarinnar. Hún átti einnig sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélagnna í Reykjavík og hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum. Útför Fríðar fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Skein yfir landið sól á sumarvegi – og silfurbláan Eyjafjallatind gullrauðum loga glæsti seint á degi. Við austur gnæfir sú hin mikla mynd hátt yfir sveit og höfði björtu svalar í himinblámans fagurtærri lind … (Jónas Hallgrímsson.) Hún líður seint úr minni stundin, þegar Fríður Guðmundsdóttir flutti kvæðið Gunnarshólma í allri sinni lengd yfir frændgarði sínum með stolti og öryggi á ættarmóti á Skóg- um fyrir fimm árum, þá komin á tí- ræðisaldur. Það var engu líkara en þarna færi kona sem ætti að baki langa ævi á leiksviði; það hefði mátt heyra saumnál detta í pökkuðum salnum seint á laugardagskvöldi, svo jafnvel börnin þögnuðu og lögðu við hlustir. Þannig var hún Día frænka mín, einstök, og gerði hlutina öðruvísi en aðrir. Día eignaðist ekki mann og börn, en hún eignaðist hvert bein í fjölda barna, bróðurbörnum sínum á Núpi í Fljótshlíð, börnum vina sinna og ættingja. Jafnvel börnum sem litu inn í Hattabúðina Höddu án nokk- urra annarra tengsla, og fundu þar inni vin til frambúðar. Hún hafði lag á að gefa börnum þá tilfinningu að þau væru hvert og eitt aðalvinur hennar, án gruns um öll hin sem áttu hana líka að stórvini. Með lífi sínu lagði Día drjúgan skerf til kvenfrelsis á Íslandi, ekki með kröfugöngum eða hávaða, heldur með fordæminu. Hún áork- aði svo miklu sem var öðruvísi en það sem mömmurnar og ömmurnar gátu áorkað, bundnar yfir umönnun barna og heimilis. Þannig opnaði hún hugi yngri kynslóða fyrir nýj- um möguleikum í krafti kvenna. Lengi vel var Día í þjónustu barnlausra móðursystra sinna í Hattabúðinni Höddu við Laugaveg og síðar Hverfisgötu 35, þeirra Halldóru Pétursdóttur og Sigur- laugar Rósinkrans og hugsaði um þær alla tíð eins og væri hún dóttir þeirra. En hún átti sér líka sjálf- stætt líf þar fyrir utan. Día stofnaði Íþróttafélag kvenna ásamt fleiri konum og var formaður þess lengst af. Undir merkjum þess var lengi starfrækt leikfimi fyrir konur í Miðbæjar- og Austurbæjarskólun- um í Reykjavík. Í.K., eins og félagið var kallað, byggði skíðaskála í Skálafelli um miðja öldina, og var hún vakin og sofin yfir rekstri hans fram á áttræðisaldur. Þaðan eiga margir af vinum hennar og ætt- ingjum ljúfar minningar. Mér eru ógleymanlegir páskadagarnir sem ég dvaldi „uppi í Skála“ á tíunda ári með Díu í hópi ungmenna og Í.K. kvenna. Eina nóttina snjóaði svo mikið að það fennti fyrir opið á skorsteininum, en Día hafði alltaf andvara á sér og kom í veg fyrir að illa færi fyrir fullum skála af fólki. Yngri kynslóðin man best eftir Díu í Hattabúðinni á Hverfisgöt- unni, og man hversu gaman var að koma til hennar og fá mjólk og pönnsu í skonsunni á bakvið, þar sem veggirnir voru þaktir póstkort- um og myndum af ættingjum og vinum frá öllum heimshornum. Ég geymi í hjarta mér sem sögulegt augnablik, þegar ég keypti af henni hatt á níræðisafmæli hennar sem bar upp á laugardag. Búðina hafði hún opna fram yfir hádegi, en mætti síðan í afmælisveisluna sína á efri hæðinni sem Anna Guðjóns- dóttir, mágkona hennar, og bræðradæturnar frá Núpi höfðu búið henni með svo miklum mynd- arbrag. Þótt Día hafi ekki alið börn, þá voru börnin á Núpi jafnt hennar sem Péturs og Önnu, og Hverfis- gatan ættarsetrið eftir að flutt var í bæinn. Áttu þær mágkonur aðdá- unarverða sambúð síðustu árin á Hverfisgötunni og hefur Núpsfjöl- skyldan vakað yfir velferð Díu allt til hennar síðasta andartaks. Fyrir mína hönd og minna þakka ég Díu frænku samfylgdina, og líka Í.K. konunni Fríði Guðmundsdóttur. Ragnheiður J. Jónsdóttir. Kæra frænka, þá er komið að kveðjustund frá þessari veröld og tími með þínu fólki á nýjum slóðum tekur við. Mig langar til að þakka fyrir það að hafa fengið að kynnast þinni skemmtilegu persónu í gegnum tíð- ina. Fyrstu kynni mín af þér voru í Fljótshlíðinni á 7. áratug síðustu aldar þegar við í fjölskyldunni Ak- urgerði 34 lögðum leið okkar í Fljótshlíðina á æskuslóðir afa míns, Gunnars Erlendssonar að Hlíðar- enda. Oftast var tjaldað ofan við bæinn og heilsað upp á bróður afa, Helga og konu hans, en þar hittust þeir bræður og faðir þinn Guð- mundur sem bjó þá á Núpi í Fljóts- hlíð ásamt Pétri syni sínum, frú Önnu Guðjónsdóttur og þeirra stóru fjölskyldu. Það sem var svo minnisstætt við þessar heimsóknir var söngur þeirra bræðra sem ómaði langt fram á nótt en þetta var á þeim tíma þegar ættjarðarlögin voru í hávegum höfð. Oftar en ekki lá leið- in síðan að Núpi á sunnudeginum þar sem okkur var tekið með kost- um og kynjum af heimilisfólki og ósjaldan varst þú þar líka í heim- sókn. Seinna þegar mesti unglingafans- inn var á manni leitaði ég til þín til þess að fá leigðan ÍK-skálann í Skálafelli fyrir vetrarferðir en þennan skála hafðir þú og stelp- urnar byggt upp af mikilli eljusemi og dugnaði. Ekki fengum við fé- lagarnir að greiða háa leigu. Við tókum að okkur viðhald á einhverju sem hafði bilað eða farið úrskeiðis og lofuðum reglusemi og góðri um- gengni. Þetta voru skemmtilegar ferðir og gerðu okkur að betri manneskjum að ég held. Oft hitti ég þig í Hattabúðinni Höddu vegna þessara mála og var alltaf jafn gaman að koma til þín á Hverf- isgötuna. Eitt var það í fari þínu sem var sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með en það var þín óbilandi trú á æsku landsins og ræktarsemi þín við þitt góða íþróttafélag, Íþrótta- félag kvenna – ÍK. Þar held ég að þú hafir verið formaður í 50 ár og ég efa að nokkur manneskja hafi eytt jafn miklum starfskröftum fyr- ir félag sitt svo lengi og alltaf af sama eldmóði. Þar sem ég er að tala um eldmóð þá átti bindindishreyfingin mikinn stuðning í þér og þú lagðir gífur- lega mikið upp úr reglusemi á allan hátt. Einnig voru einarðar stjórn- málaskoðanir þínar mjög skemmti- legar því þú varst mikil sjálfstæð- ismanneskja alla tíð en ekki einhver jákona sem heyrðist ekki í ef henni mislíkaði við forystuna á hverjum tíma. Nú þegar komið er að kveðju- stund vil ég og fjölskyldan mín úr Akurgerðinu þakka þér fyrir alveg einstaklega góða og skemmtilega viðkynningu. Að lokum vil ég geta þess hversu hreykin við vorum og allir þeir sem voru á ættarmótinu að Skógum, sumarið 2000 þegar þú, rúmlega 90 ára, fluttir okkur ógleymanlega ljóðið Gunnarshólma. Það var stórkostlega gert og allir niðjar Hlíðarendaættarinnar voru mjög stoltir af uppruna sínum, svo var þér fyrir að þakka. Megi þú, kæra frænka, hvíla í friði. Minningin um elskulega konu lif- ir. Gunnar Jónasson. Við fráfall Fríðar er markverðum kafla í íslenskri kvennasögu lokið. Fríður var eldhugi sem vann heilshugar að hugsjónum sínum um jafnrétti, réttlæti og náungakær- leika í fegurri heimi. Með þessar hugsjónir að leiðarljósi vann hún ötullega að eflingu Íþróttafélags kvenna (ÍK) allt frá stofnun þess árið 1934, sérstaklega var það henni mikilvægt að starfsemin kæmi börnum og unglingum til góða. Henni var tíðrætt um uppeld- ishlutverk íþróttafélaga og þá ábyrgð sem þau bæru, það að vera heilbrigðar fyrirmyndir. Fríður var trú þeim tilgangi félagsins að stuðla að aukinni íþróttaiðkun kvenna á öllum aldri. Bindindismál voru henni mjög hugleikin. ÍK var í áfengisvarnarnefnd kvenna og í landsambandi gegn áfengisbölinu. Fríður tók þátt í hinum ýmsum vel- gjörðarstörfum og þá sérstaklega tengdum þeim sem höfðu lent ut- angarðs í þjóðfélaginu. Þegar ÍK-félagar hittast er ávallt minnst á Fríði en hún hafði mót- andi áhrif á samferðamenn sína með jákvæðri lífsýn sinni. Oft urð- um við félagskonur vel varar við að nafnið Fríður var lykill sem opnaði margar dyr. Leikfimi og skíðaiðkun voru veigamestar innan ÍK. Það voru uppáhalds iþróttagreinar Fríðar sem hún stundaði langt fram eftir aldri. Skíðaskálinn Laugarból í Skála- felli var byggður af ÍK-konum árið 1938 og var miðstöð félagsmanna bæði sumar sem vetur. Seinni árin var hann notaður mest á veturna, þar fór Fríður fremst í flokki og tók vel á móti öllum með heitu kakói sem henni var einni lagið að gera á köldum vetrardögum. Fríður sá um að leigja skálann út og þegar náð var í lykillinn spjallaði hún við viðkomandi og með heillandi viðmóti sínu var hún fljót að kynnast þeim sem hún treysti fyrir skálanum og gaf þeim nokkur heilræði í veganestið. Oftast voru það ungmenni sem leigðu skálann sem héldu áfram að heimsækja Fríði og undir styrkri leiðsögn hennar byrjuðu að taka þátt í starfi ÍK. Í mörgum tilfellum voru þetta fyrstu skref ungra kvenna í fé- lagsstörfum því má segja að ÍK hafi verið visst tækifæri og uppeldis- miðstöð kvenna sem síðar tóku að sér önnur ábyrgðarstörf í íslensku samfélagi. Það eru margar minningar sem ylja okkur um hjartaræturnar núna þegar við kveðjum ÍK-frömuðinn, og viss söknuður frá þeim tíma þeg- ar við komum við á kaffistofunni í hattabúðinni Höddu en þaðan stýrði hún ÍK lengst af. Þar áttum við ógleymanlegar stundir sem vart finnast í dag. Þar mættist þverskurður af þjóðfélag- inu í kaffi og pönnukökur, oft voru fjörugar umræður um hin ýmsu þjóðþrifamál. Litla kaffistofan minnti því oft á þingheim þar sem tekist var á um málefnin og allir fengu að njóta sín. Þökkum samfylgdina, Fríður. Fyrir hönd Íþróttafélags kvenna, Guðbjörg Pétursdóttir, Anna Margrét Jóhannesdóttir. Í hvert skipti sem ég á leið framhjá rauða timburhúsinu að Hverfisgötu 35 hlýnar mér um hjartaræturnar og ég brosi með sjálfri mér. Húsið og fólkið sem þar bjó hefur tengst fjölskyldu minni órjúfanlegum vináttuböndum í marga áratugi. Föðursystir mín Sigga, sem ung fór til London, á þriðja áratugi síðustu aldar að læra hjúkrun, eignaðist þar góða vin- konu, hana Dóru sem var þar í námi í hattasaumi. Ekki var al- gengt á þeim tíma að ungar konur tækju sig upp og flyttu búferlum til þess eins að mennta sig, hitt var miklu algengara að þær giftu sig og sinntu börnum og búi. En þetta voru framsýnar og kjarkmiklar konur sem báðar urðu framarlega á sínu sviði. Dóra stofnaði hattaversl- un á Hverfisgötunni í húsi systur sinnar Sigurlaugar. Þegar foreldrar mínir fluttu til Reykjavíkur um miðja síðustu öld var erfitt að fá íbúðir í höfuðstaðn- um, en vegna vináttu Siggu frænku og Dóru voru þau svo heppin að fá leigt á Hverfisgötunni í lítilli bak- íbúð við hliðina á hattabúðinni. Día systurdóttir Dóru hóf snemma störf í hattabúðinni. Hún vann þar og bjó í sama húsi í yfir 70 ár og varð strax uppáhaldsvinkona fjölskyldunnar í bakíbúðinni. Tvö eldri systkini mín fæddust meðan fjölskyldan bjó í þessu húsi og satt best að segja var ekki hægt að hugsa sér betri nágranna en hina barngóðu Díu. Öll börn hændust að henni enda vildi hún allt fyrir þau gera. Hún var alltaf í góðu skapi og hafði ótrúlegan húmor fyrir uppá- tækjum þeirra og tilsvörum. Þær Dóra fylgdust glaðar með syst- kinum mínum út um gluggann á Hverfisgötunni meðan þær saum- uðu og gerðu við hatta og hentu til þeirra tvinnakeflum eftir því sem þau tæmdust. Þegar ég fæddist var fjölskyldan flutt í Miðtún og þegar ég var skírð varð Día guðmóðir mín. Vináttan hélst og Día kom oft að heimsækja okkur. Það ríkti alltaf gleði þegar við hittumst. Ef hún kom í heim- sókn leið ekki á löngu þangað til hún dró upp úr veski sínu gotterí og annað góðgæti handa okkur börnunum, svo sat hún með okkur kvöldstund, horfði á sjónvarpið, spjallaði og dottaði þess á milli, allt saman mjög afslappað. Stundum báðum við hana að fara í splitt því hún var svo liðug og okkur fannst svo sniðugt að svona virðuleg hatta- dama kæmist í splitt, en Día var alla ævi mikil íþróttakona, stundaði bæði leikfimi og skíði. Skemmtileg- ast fannst mér að heimsækja hana í hattabúðina. Ég fékk að máta alla hattana og samstundis varð ég ótrúlega glæsileg prinsessa eða hefðarfrú. Inn af hattabúðinni á bak við þungt flauelistjald var svo annar heimur, kaffistofan. Þar safnaðist saman hið ólíklegasta fólk bæði venjulegt og allskyns furðufuglar. Día hafði pláss fyrir alla og öllum leið vel með henni. Ég held að ég hafi varla komið inn fyrir tjaldið öðru vísi en einhver væri í heim- sókn að fá sér kaffi og pönnukökur eða gotterí hjá Díu. Þá var gaman að vera eins og fluga á vegg og hlusta á alls konar skemmtilegar sögur. Eftir að strákarnir mínir, Skúli og Egill, fæddust höfðu þeir ekki síður gaman af því að heimsækja Díu í hattabúðina. Það var svo gam- an að fylgjast með þeim spjalla við Díu. Þeir einlægir og stóreygir og hún grallaraleg fitjaði svolítið upp á nefið og deplaði augunum fast aftur ef henni fannst þeir segja eitthvað sniðugt. Ég man þegar hún datt einu sinni í neðstu tröppunni í hús- inu og fótbrotnaði að Egill sagði við hana: ,,Ég er svo feginn Día að þú dast bara úr einni tröppu en rúll- aðir ekki niður allar tröppurnar úr risinu því þá værirðu öll brotin“ og Día hló svo mikið og sagðist vera svo þakklát að eiga vin sem hugsaði svona fallega til sín. Þannig munum við Díu, alltaf glaða og gefandi okkur endalaust af hlýju sinni og kímni. Fyrir það verðum við fjölskyldan öll ævinlega þakklát. Sigríður Bachmann. Það er margs að minnast um Díu frænku þó svo að kynni okkar stæðu einungis frá því hún var hálf- áttræð. Frásögurnar voru margar enda hafði hún farið víða á sinni ævi. Heimsóknirnar voru tíðar í hattabúðina Höddu á Hverfisgötu enda líkari umferðarmiðstöð, þar sem manni fannst gestir og gang- andi vera aðalatriðið en afgreiðsla í búðinni algjört aukaatriði. Þarna talaði maður að vild en var svo sussaður niður ef kúnni kom inn. Þá þögnuðu allir og við fylgdumst með kænskunni í Díu selja alla þessa dýrindishatta sem komu beint úr hátískunni. Día kunni sitt fag mjög vel og reyndi því að moka öllu út sem á hausinn fór. Día var ávallt hnarreist og sýndi af sér góð- an þokka enda í fínu formi. Á átt- ræðisaldri munaði hana ekki um að skella sér í splitt, bara svona til að kenna okkur ungu stelpunum hvernig fara ætti að hlutunum. Kom þá áralöng leikfimisiðkun hennar til góða. Día var ötull stuðn- ingsmaður íþrótta og fannst dásam- legt að heyra að fólk stundaði ein- hverja hreyfingu. Þegar myndir birtust af ættingjunum á íþróttasíð- unum voru þær klipptar út og hengdar upp á töflu í búðinni. Hún var stolt af sínu afreksfólki. Día var bindindismanneskja enda benti hún á að íþróttir og áfengi færu ekki saman. Día var alltaf vel til höfð og pass- aði sig á að setja alltaf upp hatt þegar farið var út fyrir hússins dyr. Svo gætti hún þess að veskið væri undir handleggnum og haldið þétt að líkamanum eins og hefðarkonu sæmir. Día sótti svo oft eitthvað sniðugt úr veskinu, stakk hendinni í vasann hjá manni og gerði margan þannig nokkru ríkari. Allir áttuðu sig á gjafmildinni og meira að segja ókunnugir menn af götunni. Menn komu snauðir inn en fóru fjáðir út hvort sem það var af mola, pönnsu eða pínku aur. Día gat ekki neitað fólki þó svo hún væri ekki fjáð af þeim grænu. Hún var hlý mann- eskja sem vildi öllum vel og gat fyr- ir engan mun talað illa um fólk. Fólk var bara ekki vont. Hún tók vel á móti öllum enda vinamörg og lögðu margir leið sína til hennar. Minning hennar lifir. Anna Kristjánsdóttir. FRÍÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR Minningarkort Hjartaverndar 535 1825 Gíró- og greiðslukortaþjónusta

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.