Fréttablaðið - 23.11.2002, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 23.11.2002, Blaðsíða 16
23. nóvember 2002 LAUGARDAGUR16 Stjórnmálin geta leikið bæði flokka og einstaklinga grátt og oftar en ekki mega stjórnmála- menn þola að að þeim er vegið úr eigin röðum þegar bitist er um þingsætin og það er ekkert nýtt að menn gangi haltir, reiðir og bugaðir frá prófkjörum og kosn- ingum. Páll Pétursson félagsmálaráð- herra varð nýlega undir í próf- kjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og Vil- hjálmur Egilsson er síður en svo sáttur við niðurstöðuna í próf- kjöri Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi. Þingmennirnir eru þó hvergi nærri einir á báti og stjórnmálasaga liðinnar aldar geymir fjöldamörg dæmi um beiska ósigra. Fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, mátti þannig þola mótlæti í pólitíkinni þegar hann beið afhroð í þingkosning- unum um uppkastið árið 1908. Hannes varð að kyngja ósigrinum þrátt fyrir að eiga að baki farsælt fimm ára stjórnartímabil. Kosn- ingabaráttan var harðari en áður hafði þekkst og kosningarnar voru leynilegar. Kjörsóknin var því góð og nær 60% kusu fram- bjóðendur sem höfnuðu uppkast- inu og var þetta hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem íslenskir kjós- endur völdu róttækari leiðina í sjálfstæðismálum landsins. Þeg- ar þing kom saman var samþykkt vantraust á Hannes og Björn Jónsson ritstjóri var valinn ráð- herra. Hannes komst aftur til valda á aukaþingi 1912, ekki sem ráðherra Heimastjórnarflokksins heldur safnaði hann þorra þing- heims um sig í nýjan flokk, Sam- bandsflokkinn. Persónuleg áföll Það kom öllum að óvörum þegar Hermann Jónasson lagði Tryggva Þórhallsson að velli í Stranda- sýslu árið 1934. Tryggvi hafði verið forsætisráðherra og for- maður Framsóknarflokksins en varð að láta í minni pokann fyrir ungum lögreglumanni. „Það þóttu gífurleg tíðindi á sínum tíma að kornungur maður skyldi velta þessum gamla pólitíkus úr sessi,“ segir Ólafur Hannibalsson blaða- maður en sagn- og stjórnmála- fræðingum sem Fréttablaðið leit- aði til ber saman um að fall Tryggva sé eitt mesta pólitíska áfallið í stjórnmálasögu landsins. Hermann felldi svo sjálfan Jónas Jónsson frá Hriflu í for- mannskjöri Framsóknarflokksins tíu árum síðar en Guðjón Frið- riksson, sagnfræðingur og ævi- söguritari Jónasar, segir sigur Hermanns þá hins vegar hafa komið í rökréttu framhaldi af því sem á undan var gengið. Björn Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varð ekki síður fyrir miklu persónulegu áfalli í kosningunum 1946. Hann hafði gegnt embætti fjármála- og viðskiptamálaráðherra á árunum 1942-1944. Bjarni Benediktsson, þáverandi borgarstjóri og alþing- ismaður, skipaði þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins árið 1942 en 1946 var hann settur í 6. sætið fyrir neðan Björn. Fjöldaút- strikanir urðu hins vegar Birni að falli og ráðherrann fyrrverandi missti öruggt þingsæti en Bjarni færðist að sama skapi upp og treysti sig í sessi. Ragnar Arn- alds, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, segir þessa niður- stöðu með þeim eftirminnilegri og hún sé sjálfsagt „ein mesta bylta sögunnar“. Stuðningsmenn Björns, sem kenndir voru við Vísi, töldu víst að um skipulagðar útstrikanir hefði verið að ræða en Björn hafði verið settur í 5. sætið til að koma í veg fyrir sérfram- boð. Fróðir menn telja að útstrikan- ir hafi ekki haft jafn mikil áhrif síðan. Ólafur Þ. Harðarson stjórn- málafræðingur bendir á að reglur um útstrikanir hafi á þessum tíma verið þess eðlis að miklu minna þurfti til að setja menn niður. „Reglunum var breytt árið 1959 og þá varð þetta erfiðara og í kringum 1983 var reglunum enn og aftur breytt og þá var enn ólík- legra að útstrikanir gætu orðið mönnum að falli. Þetta hefur svo breyst aftur með nýjum kosn- ingalögum og það er orðið auð- veldara að hafa áhrif með útstrik- unum, en varla líkt og fyrir 1959.“ Árið 1959 fóru fram „skrítnar kosningar“ en þá féll Emil Jóns- son, fyrrverandi forsætisráð- herra, fyrir kornungum Matthíasi Á. Mathiesen í Hafnarfirði, sem hafði verið eitt helsta vígi Al- þýðuflokksins. Þá féll Jón Pálma- son frá Akri, forseti sameinaðs þings og fyrrum ráðherra, fyrir Birni Pálssyni á Löngumýri, ná- frænda Páls Péturssonar. Jón undi úrslitunum illa og haft er eftir honum að þetta hafi verið skrýtnar kosningar. „Forsætis- ráðherra féll fyrir strák úr Hafn- arfirði og Forseti sameinaðs þings fyrir fífli í Austur-Húna- vatnssýslu.“ Viðmælendum blaðsins, stjórnmálamönnum og fræði- mönnum, ber saman um að stærsta persónulega áfall stjórn- málamanns sé fall Geirs Hall- grímssonar, formanns Sjálfstæð- isflokksins, í prófkjöri flokksins haustið 1982. Formaðurinn, sem hafði skipað 1. sæti á lista flokks- ins 1979, féll niður í sjöunda sæt- ið. Geir tók þó sæti utanríkisráð- herra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 og sat sem slíkur utan þings til 1986, þegar hann gerðist Seðlabankastjóri. Geir lét af formennsku Sjálfstæð- isflokksins 1983, skömmu eftir prófkjörsófarirnar. Vígamenn halda velli Ólafur Ragnar Grímsson gegndi, líkt og Geir, ráðherraembætti um árabil utan þings og Ólafur Þ. Harðarson segir sögu nafna síns dæmi um að hrakfarir í prófkjöri þurfi ekki að þýða að menn séu búnir að vera í pólitík. Hann féll af þingi 1987 en „sýndi að það þarf ekki að drepa öfluga víga- menn þótt þeir tapi. Hann vann vel innan flokksins og gerði mik- ið úr þeim stofnunum sem hann var í forsvari fyrir. Þá vakti hann athygli sem forseti alþjóðlegra þingmannasamtaka og lagði Svavar Gestsson í formannsslag 1987“. Ólafur varð fjármálaráð- herra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem var stofnuð 1988 eftir að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur slitu stjórn Þorsteins Pálssonar í beinni út- sendingu, eins og frægt er orðið. Ólafur Ragnar sat því sem ráð- herra utan þings til 1991 og grun- aði sjálfsagt engan að hann yrði forseti lýðveldisins nokkrum árum síðar. Albert Guðmundsson hafnaði í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðis- flokksins þegar Geir féll, en Al- bert var illviðráðanlegur í próf- kjörum. „Það var ekki nokkur leið að koma honum frá með prófkjör- um, jafnvel þó reglum væri breytt í þeim tilgangi. Hann átti sinn Hulduher og vann öll próf- kjör,“ segir Ólafur Þ. Harðarson. Forsetar falla Salome Þorkelsdóttir, þáverandi forseti Alþingis, hafnaði í neðsta sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokks- ins árið 1994. Salóme hafði þá gegnt þingmennsku í 15 ár og nið- urstaðan var henni nokkuð áfall. Hún sagði í samtali við Morgun- blaðið eftir prófkjörið að sér hefði verið hafnað algerlega og hún hafi fengið „spark í afturendann.“ Hún var 67 ára gömul þegar þetta gerðist og taldi víst að aldurinn hefði ráðið úrslitum. „Það þurfti að rýma fyrir yngra fólki og mér var hafnað.“ Salome sagðist hafa ákveðið að gefa kost á sér einu sinni enn með það í huga að verða fulltrúi eldri kynslóðarinnar á Al- þingi. „Ég er ósátt við þá köldu rökhyggju að fólk sem er komið yfir sextugt eigi ekkert erindi á vinnumarkaðinn, hvað þá á vett- vang stjórnmálanna.“ Salome vildi berjast fyrir því að breyta þessu viðhorfi en í dag virðist fólk almennt telja meðalaldur þing- manna of háan og að enn sé nauð- synlegt að rýma fyrir yngra fólki. Það er ef til vill táknrænt fyrir þetta að aldursforseti þingsins, Páll Pétursson, mun ekki eiga aft- urkvæmt að loknum kosningum. Páll hefur setið á þingi síðan 1974 og segir Árna Gunnarsson, fyrr- verandi aðstoðarmann sinn, hafa komið í veg fyrir áframhaldandi þingsetu sína. Einn viðmælenda blaðsins viðraði þá kenningu að Páli hljóti að hafa verið ljóst að það væri kominn tími á hann og hann hafi því ef til vill ekki síður brugðið fæti fyrir Árna með því að gefa kost á sér aftur. Honum hljóti að hafa verið ljóst að það væri á brattann að sækja og hafi því hugsanlega séð sér leik á borði með því að taka unga manninn með sér í fallinu. Salome benti hins vegar á það í Morgun- blaðsviðtalinu að hver „stjórn- málamaður hlýtur að skoða hug sinn á fjögurra ára fresti, en er ekki með yfirlýsingar um að hætta eftir átta ár eða fjögur ár, hann veit ekki einu sinni hvort hann verði ofar moldu þegar að því kemur.“ Hvað sem öllum vangaveltum líður ákvað Páll að berjast fyrir sæti sínu þó sagan ynni ekki með honum en það er engin nýlunda að ungir framsóknarmenn ryðji eldri mönnum úr vegi og segja má að fyrir þessu hafi myndast nokkur hefð hjá flokknum í Reykjavík. Árið 1978 varð Þórarinn Þórarins- son, ritstjóri Tímans og alþingis- maður til 19 ára, undir í prófkjöri flokksins þannig að Guðmundur G. Þórarinsson komst á þing árið eftir. Guðmundur sat á þingi fyrir flokkinn á árunum 1979-1983 og 1987-1991 en mátti þá víkja fyrir ungum Finni Ingólfssyni, sem er fyrir löngu orðinn annálaður og útsmoginn baráttujaxl. Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, benti ein- hvern tímann á, skarplega eins og hans var von og vísa, að þó stjórn- mál væru sögð næstelsta atvinnu- greinin, þá hefði hann smám sam- an gert sér grein fyrir því „ að þau eru býsna lík hinni elstu.“ Það veit að minnsta kosti enginn hvert við- skipti þeirra við félaga og and- stæðinga munu leiða, eins og sést ef til vill best á harðjöxlunum tveimur sem nú sitja í stólum for- seta lýðveldisins og forstjóra VÍS. thorarinn@frettabladid.is Heimildir: Gísli Marteinn Baldursson, Ólafur Teitur Guðnason. Bók aldarinnar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Íslenskar tilvitnanir. Hannes Hólm- steinn Gissurarson. Sjálfstæðisflokkurinn í 60 ár. Helgi Skúli Kjartansson. Ísland á 20. öld. Þórarinn Þórarinsson. Sókn og sigrar - Saga Framsóknar- flokksins 1916-1937. Prófkjörshremmingar eru í brennidepli þessa dagana enda ganga aldrei allir sáttir frá þeim hildarleik. Tilgangurinn helgar oft meðalið og harmakveinin eru á tíðum mikil. Mest heyrist auð- vitað í þeim nýslátruðu en í gegnum blóði drifna söguna má enn heyra bergmál gamalla bardaga. Mestu ósigrar stjórnmálamanna samkvæmt Bók aldarinnar 1. Hannes Hafstein tapar þingkosningum 1908 2. Tryggvi Þórhallsson fellur fyrir Hermanni Jónassyni 1934 3. Gunnar Thoroddsen fellur í forsetakjöri 1968 4. Geir Hallgrímsson fellur í prófkjöri 1982 5. Emil Jónsson fellur 1959 6. Björn Ólafsson fellur á útstrikunum 1946 7. Jónas Jónsson fellur í formannskjöri 1944 8. Jón Magnússon fellur 1919 9. Stefán Jóhann Stefánsson tapar formannskjöri 1952 10. Jón Pálmason frá Akri fellur 1959 HANNES HAFSTEIN Fyrsti ráðherrann, skáld og glæsimenni mikið. Valtýr Guðmundsson lét þau orð falla að Hannes hafi drepið hann með glæsimennskunni. Persónutöfrarnir komu þó ekki í veg fyrir herfilegan ósigurinn 1908 sem trónir efst á listanum yfir mestu ósigra stjórnmálamanna á 20. öld í Bók aldarinnar. Sorgarsögur úr pólitík TRYGGVI ÞÓRHALLSSON Hann hafði verið sjálfkjörinn í kosning- unum 1933 og talið var víst að hann myndi halda velli þótt Hermann væri vasklegur frambjóð- andi. Úrslitin urðu þó á annan veg. SALOME ÞORKELSDÓTTIR Varð undir í glímunni við elli kerlingu og samherja sína á Reykjanesi. „Fékk spark í afturendann“, eins og hún orðaði það sjálf. PÁLL PÉTURSSON Er síður en svo fyrsti framsóknarmaðurinn, og líklega heldur ekki sá síðasti, sem verð- ur illa fyrir barðinu á sér yngri mönnum. BJÖRN ÓLAFSSON Var strikaður út á 823 kjörseðlum án frekari breytinga en var auk þess strikað- ur út á 205 kjörseðl- um og Bjarni færður upp í 5. sæti. Á 174 kjörseðlum hafði Björn verið strikaður út ásamt fleirum og loks var sú eina breyting gerð á 95 seðl- um að Bjarni var færður upp í 1. sæti. VILHJÁLMUR EGILSSON „Þetta eru bara örlög mín að lenda í þess- ari stöðu. Ég held ég væri að bregðast stuðningsmönnum mínum, Sjálfstæðisflokknum og þjóðinni ef ég gæfist upp,“ segir Vilhjálmur, sem unir illa niðurstöðunni í prófkjöri sjálf- stæðismanna.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.