Skessuhorn


Skessuhorn - 31.07.2013, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 31.07.2013, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 31. JÚLÍ 2013 Nú er ég þunnur nokkuð og nú er vísan búin Vísnahorn Blaðið Austurland var gefið út af sósíalistum á Austurlandi eins og nafn blaðsins gefur til kynna. Fljótlega hóf göngu sína í því vísnaþáttur sem Davíð Áskelsson kennari sá um. Í fyrsta þætt- inum hvatti Davíð menn til að senda sér efni í þáttinn og sagði að heimilisfang sitt væri box 56 í Neskaupstað. Gárungarnir hófu að grín- ast með heimilisfang umsjónarmannsins en Davíð birti þá eftirfarandi vísu í næsta blaði: Úr íbúðinni ætla loks yfirvöld að bera mig. En fjandi er hart að flytja í box. -Fyrr læt ég nú skera mig. Eftir Einar Svein Frímann er þessi vísa sem mun hafa birst líklega fyrst í þáttum Davíðs: „Elskið alla menn“, kvað Mannsins sonur, en mörgum þótti krafan nokkuð stór. Þá sagði Fjandinn: „Elskið allar konur“, og allir hlýddu. Síðan fór sem fór. Watergate málið var á sínum tíma mik- ið í fréttum enda hafa stundum verið skrifað- ar fréttir af minna tilefni. Eitthvað mun hafa verið ort um það líka og þessi er held ég eft- ir Rósberg Snædal. Allavega er handbragðið líkt því: Uppi dottar englasveit, enda er drottinn lotinn, ber þess vottinn Watergate, víða er pottur brotinn. Þegar þetta er ritað er allavega þurrkur og heyskaparhljóð í þeim sem eiga nokkuð und- ir jarðargróða. Meðan enn var ekki algengt að hlöður væru á bæjum heldur var hlaðið upp í heygarða eða tóftir stóð Sigurður Einarsson í Bakkakoti úti eitt sumarkvöld og horfði á ná- granna sinn hlaða heyi í tóft en í baksýn þoku- beltuð Skarðsheiðin: Yndisfögur aftangyðjan allar gyllir fjallarendur og þokubeltar Þorbjörn miðjan sem þar í tóftarkolli stendur. Mörgum hefur þótt nóg um sólarleysið í sumar og veit svo sem enginn hvernig það endar. Mannskepnan er líka kröfuhörð og ekki auðvelt að gera henni til hæfis. Það hef- ur reyndar gert óþurrkasumar á landinu fyrr og einhvern tíma orti Albert í Skógum um Landeyinga sem börðu sér ákaft undan rign- ingunni: Landeyingum leiðist væta líða böl og þrautir. Það má ekki þar við bæta þeir eru nógu blautir. Fyrir margt löngu var ort í óþurrkatíð á Norðurlandi: Þetta er engin þerritíð, - þrýtur ró og friður, ýmist regni eða hríð æla skýin niður. Það er nú einhvern veginn þannig að aldrei rignir fullkomlega jafnt á réttláta og rangláta. Allavega finnst það fæstum. Jón Gíslason á Glammastöðum orti samt: Þó gæfan bjóði gall mér rammt þá gefur ´ún hunang vinum veðrið gott hún verður jafnt að veita mér sem hinum. Kristján frá Djúpalæk byrjaði á eftirfarandi vísu um misskiptingu lífsgæðanna: Himinn blánar öðrum yfir, alltaf gránar minn. Heiðrekur Guðmundsson frá Sandi botn- aði: Annan smánar allt sem lifir. Eltir lánið hinn. Til er það fyrirbrigði í vísnagerð sem nefn- ist slitruháttur og var Stefán heitinn Jónsson fréttamaður mikill meistari á því sviði. Nokkr- ir hafa þó borið við að halda uppi merkinu og Einar Baldvin Pálsson orti eftirfarandi um fótboltahetju eina ágæta: -otelli er brattur Bal- bolta -lega sparkar fal- -ar hann mótherjana mal- og móðinn -veg úr dregur al- Örlygur Benediktsson reyndi sig líka við slitruháttinn með þessum afleiðingum: Slit- nú skal hér reyna -ru, rembings- við í -kasti. Kveð- þér sendi kankvís -ju, kær- minn vinur -asti. Í- er snúin þessi -þrótt, þolin- krefst hún -mæði. Leiftur- þó oss lánast -skjótt lítil- þetta -ræði. Einar Baldvin Pálsson orti einnig um ný- fætt sveinbarn erlendis: BB fréttir segir C, -sið nú einnig logar Fé- -taprins er nú borinn Bre- -bet sér fær Elísa- te. Friðbjörn Guðnason las einhverju sinni fréttir frá Hrísey er birtust í blöðum. Var þar rætt um meinlega aflatregðu en hins veg- ar var óvenju mikið um barnsfæðingar enda ekki fiskiríið að tefja menn frá öðru. Þá kvað hann: Enginn maður ugga fær eyjuna í kringum, af þessum sökum þögull grær þungi í Hríseyingum. Enginn sækir út á mið aflann fyrir trega, en ásókn hefur inn á við aukist verulega. Prestar eru nú löngu hættir að húsvitja og fylgjast með atlæti og menntunarþroska barna og ungmenna. Þetta voru þó merkilegir siðir en fóru oft illa með meltinguna hjá blessuðum prestunum ef þurfti að drekka mikið af sterku kaffi yfir daginn. Prestur einn í Þingeyjarsýslu kom að bæ á húsvitjunarferðalagi og bóndi trúði presti fyrir því, að sonur sinn væri skáld- mæltur nokkuð en einkum léti honum vel að yrkja andleg ljóð. Til sannindamerkis þar um hafði hann yfir þessa vísu eftir strákinn: Veróldin leikur á rílla í rauna húsi, bendist á biti og sylla í blessuðu drottins húsi. Ekki var prestur nema hóflega trúaður á að sálmakveðskapur sem þessi yrði tekinn upp í messusöngsbækur enda mun ekki hafa orðið úr því. Hallur Magnússon byggingameistari í Seattle var uppalinn í Stakkahlíð í Loðmund- arfirði og eftir hann er þessi staka. Þér var löngum létt um vik og laginn varstu greyið. En þú hefur ótal asnastrik um ævi þína dregið. Það er nú orðið töluvert magn og misgáfu- legt sem ég hef bullað á síðum Skessuhorns um dagana en vonandi einhverjum til ánægju. Væri gott að lesendur hefðu í huga þessa ágætu vísu Sigurðar Breiðfjörð þegar þeir sjá eitthvað hjá mér eða öðrum sem mætti bet- ur fara: Þegar dæma einhvern á oss það fræðin letra fallegt er að færa þá flest á veginn betra. Ætli við endum svo ekki þáttinn á vísu Pét- urs Stefánssonar: Innritast ég ætti á Vog allri heilsu rúinn. Nú er ég þunnur nokkuð og nú er vísan búin Með þökk fyrir lesturinn Dagbjartur Dagbjartssson Hrísum 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Um fimmtíu þátttakendur voru á námskeiði dr. Gerds Heuschmanns sem haldið var af Endurmennt- un Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri um helgina undir heit- inu „Í þágu hestsins“. Námskeiðið var haldið í minningu Reynis heitins Aðalsteinssonar. Athygli vakti meðal þátttakenda að engir starfandi gæð- inga- og íþróttadómarar, kynbóta- dómarar, forystumenn í hrossarækt og hestaíþróttum, né framleiðendur reiðtygja, tóku þátt. Dr. Heuschmann er dýralæknir og fyrrverandi keppnisreiðmaður sem skar upp herör gegn vondri þjálf- un og reiðmennsku í keppni á heit- blóðshestum. Hann hefur gefið út efni þar sem hann setur fram gagn- rýni sína og hugmyndir. Þar kemur meðal annars fram að könnun sem gerð var í Hollandi fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að 70% keppnis- hesta eru felldir og eða hverfa úr keppni átta vetra og yngri. Gerd spyr um ábyrgð dómara, sem verðlauna reiðmennsku sem slíkt hlýst af sem og ábyrgð dýralækna. Hann segir að gildi gömlu klassísku meistaranna séu að engu höfð í dag. Markmið þeirra hafi verið að byggja upp „heil- brigða sál í hraustum líkama“. Áður fyrr hafi hermaðurinn átt líf sitt und- ir vel tömdum og þjálfuðum hesti. Ekki hafi þýtt að hlaupa yfir kafla í þjálfuninni. Í dag ráði peningar ferð- inni. Hestar séu drifnir í keppni löngu áður en þeir hafi aldur, þroska og þjálfun til. Þjálfarar og knapar, oftar en ekki að áeggjan gráðugra eigenda, þvingi hesta í falskan höf- uðburð, sem hafi hættulegar afleið- ingar fyrir hestana. Vegna þess að þá geti hesturinn ekki notað hálsinn sem þá jafnvægistöng sem náttúran ætlaði honum. Lendhryggjaliðir verða að vera frjálsir Dr. Heuschmann segir að það sé ekki hlutverk löngu bakvöðvanna að halda á knapanum. Þeir eigi að vera slakir og frjálsir. Séu þeir yfirspennt- ir og stífir stytti hesturinn skref aft- urfótanna. Þeir verði þar af leiðandi of beinir og megnið af álaginu í nið- urslaginu lendi á kjúkuliðnum. Al- gengasta örsök þess að keppnishest- ar falli úr leik séu kvíslbandabólgur. Að mati dr. Heuschmanns er önn- ur algeng örsök fyrir því að hestur- inn stífar bakið sú að hnakkurinn er hafður of aftarlega. Hann segir að engin byrði megi koma á langa bak- vöðvann yfir lendhryggjaliðum. Oft- ar en ekki megi rekja taktgalla og helti til þess að hnakkurinn sé stað- settur of aftarlega, eða hann sé ein- faldlega of langur fyrir viðkomandi hest. Því skal þó bætt við að rangt þjálf- aður hestur getur virst draghaltur í taumhring án hnakks, jafnvel eftir langa hvíld. Á námskeiðinu sýndi dr. Heuschmann áhrifaríkt myndband af 6 vetra hrossi sem þrír dýralækn- ar höfðu úrskurðað með ólæknandi helti og sagt eigandanum að setja það í sláturhús. Eftir fimm skipti í taum- hring hjá Heuschmann var hrossið orðið óhalt. Lykillinn var einfaldlega sá að fá hrossið til að lækka hálsinn og fá bakið til að fjaðra. Áþreifanleg dæmi Í verklegum tíma í lok námskeiðs- ins sýndi dr. Heuschmann fram á fleiri áþreifanleg dæmi máli sýnu til stuðnings. Hestar sem valdir voru af handahófi af stjórnendum nám- skeiðsins sýndu greinileg viðbrögð eftir því hvar og hvernig hnakkur- inn var staðsettur. Hross sem voru spennt og ójöfn á gangtegundum, ef ekki hölt (taumhölt) sýndu greini- leg viðbrögð til batnaðar um leið og hnakkurinn var færður framar, eða ef sett var stopp undir fremri hluta hans þannig að aftasti hluti hnakks- ins lyftist frá lendhryggjaliðum. Einnig gat dr. Heuschmann þess að hnakkar mættu heldur ekki vera of þröngir að framan vegna þess að það geti hindrað hreyfingar herðablaðs- ins. Miklar umræður spunnust í kjöl- farið um lengd og gerð hnakka og nauðsyn þess að skoða þá hluti betur. Dr. Heuscmann áréttaði þó sérstak- lega að vandamálið væri mun oft- ar í hnakknum, fremur en hnakkur- inn sjálfur. Það er að segja reiðmað- urinn. „Leg mover vs. Backmover“ Dr. Heuschmann segir að þrátt fyr- ir að hestur sé með stíft bak vegna rangrar reiðmennsku geti hann eft- ir sem áður lyft framfótunum og þar með hrifið áhorfendur og dómara. Slíkur hestur sé hins vegar það sem gömlu meistararnir kölluðu „leg mo- ver“ (hestur í vanlíðan með spennt og stíft bak) en ekki „back mover“ (sáttur hestur með fjaðrandi bak), sem ætti að vera hið eftirsótta takmark allra góðra reiðmanna. „Vel taminn og þjálfaður hestur, sem fær nægan tíma til að styrkjast og ná jafnvægi undir knapa, endist betur og líður að sjálfs- sögðu miklu betur. Fyrir utan hvað það er miklu skemmtilegra að ríða á þannig hesti. Alveg yndisleg tilfinn- ing. Stór heitblóðshestur er lungam- júkur á brokki ef hann er „backmo- ver“. Það mun sennilega taka lang- an tíma að breyta ríkjandi viðhorfi. Peningar og auglýsingamennska eru sterkt afl. En ég er tilbúinn til að eyða ævinni í að berjast fyrir málstað hestsins,“ segir dr. Gerd Heusch- mann. Jens Einarsson Vel sótt námskeið dr. Gerds Heuschmanns á Hvanneyri Prófað var að færa hnakkinn fram og aftur til að sjá hvort hann hefði áhrif á jafnvægi gangtegundanna – sem hann gerði sjá grein. Frumkvæðið af þessu námskeiði kemur frá Karolu Schmeil og má sjá hana, Gerd Heuschmann dýralæknir og Ásdísi Helgu Bjarnadóttur verkefnisstjóra Endur- menntunar LbhÍ.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.