Tíminn - 23.12.1942, Side 12

Tíminn - 23.12.1942, Side 12
12 T í M I N N Helgi Hjörvar: Sæmundur í Oftlega hefur nafn þessa manns staðið í dálkum Tímans, og mun ekki of oft kveðið, þó að það komi hér eitt sinn enn. Flestum lesendum þessa blaðs mun þetta nafn hafa verið sem tákn eitt, fyrst og fremst um það, að íslandsbanki hafi á sinni tíð ekki haft allgóð höld á fé sínu. Ekki verður sú saga rakin hér, né raskað gömlum ritn- ingum. En hér megið þér, lesendur góðir, sjá höfuð þessa manns og ráða þar af, hvort sá maður muni verið hafa með öllu lítill fyrir sér, sem þennan svip bar. Aldrei sá ég svo nafn þessa manns, hvorki i dálkum Tímans né annars staðar, að það fyllti ekki hug minn óljósri sælu, draumi hinnar fyrstu bernsku, ilmi af rúsínum og gráfíkjum, þrá æskunnar að öðlast þau gæði lífsins, sem á var vant í föðurhúsum. Því að „Sæmundarbúð" var undraheimur bernsku'minnar, en Sæmundur í Hólmin- um fyrsta glæsimennið, sem ég sá, svo að mér væri það ljóst, hversu hann bar af öðrum mönnum. Enginn maður var slíkur höfðihgi í framgöngu, slíkur skartmaður; honum fylgdi framandi ilmur af vindlum með gullnu bandi; fötin hans voru þunn og mjúk, og eitthvert handbragð á þeim, sem var langt að komið; allt var glæsilegt, sem honum kom við, reiðtygin hans, tví- hleypan hans, stígvélin hans. Sæmundur var maður vel ættaður; faðir hans var Halldór smiður á Búðum, Sæ- mundsson, smiðs, Guðmundssonar prófasts á Staðarstað (1797—1836), en annaj: sonur séra Guðmundar var „Þorgeir í Lundinum góða“, prestur á Lálandi, vinur Jónasar Hallgrímssonar og þeirra Fjölnismanna. Halldór faðir Sæmundar hafði framast er- lendis I skjóli séra Þorgeirs föðurbróður síns; hann var .vaskur maður og ágætur. Þá voru Búðir enn allveglegt kauptún. Halldór smiður fórst í Faxaflóa, í Reykja- víkurferð á útmánuðum 1864; þá var Sæ- mundur sonur hans lítt kominn á 3. ár. Hann var fæddur 3. des. 1861, degi fyrr en Hannes Hafstein. Þá nótt, sem skiptápinn , varð, sagði Sæmundur, barnið, við móður sína: „Sérðu ekki, að hann pabbi er kom- inn; hann stendur við rúmið“. En Sæ- mundur var mjög skyggn alla ævi, en duldi það svo fyrir öllum, að þetta vita menn af því einu, að hann sagði stundum við þá, sem hjá voru: Hver er þessi maður? En þann mann sá hann einn; brá honum þá jafnan sjálfum og eyddi öllu, og lét einskis spyrja sig um þá hluti. Móðir Sæmundar, kona Halldórs smiðs, var Guðrún Sæmundardóttir skipasmiðs, Sigurðssonar, stúdents í Geitareyjum. Seg- is Oscar Clausen, að ættmenn Geiteyinga hafi borið mjög af öðrum mönnum um þau héruð. Þau Halldór áttu þennan son einan bama, og bjó Guðrún ekkja síðan allt sitt líf, og var kölluð maddama Guðrún, þvi að maður hennar var „sigldur", en þau bæði göfugra manna. En ströngum siða- reglum var uppi haldið í Breiðafirði og kauptúnum Snæfellsness i þann tíð og lengi síðan. Holger Clausen tók við verzlun á Búðum upp úr 1870 og réð Sæmund ungan í þjón- ustu sína; féll honum vel við hann, en þessi kynni réðu örlögum Sæmundar. Fór hann 18 ára til Haínar, á vegum Clausens, Stykkisliólmi nam þar verzlunarháttu og kynntist heldri mönnum í danskri kaupmannastétt. Þessi námsför setti án efa það mót á hinn unga mann, sem hann bar síðan alla ævi. Þá tók Holger Clausen við verzlun föður síns í Stykkishólmi og fór Sæmundur til hans þangað, er hann kom heim. Eftir það var hann í Stykkishólmi til dauðadags. Hann kvæntist Magdalenu Sörensdóttur Hjaltalin, en dótturdóttur Sveinbjarnar Egilssonar. Um þá frændkonu sina gerði Gröndal þessa orðaþraut í æsku hennar: Hvað er það, sem rennur í Síberíu, en dansar i Stykkishólmi? Litlu síðar hóf hann sjálfur verzlun, fyrst við lítinn húsakost, en brátt reisti hann „Sæmundarbúð“, nýja sölubúð og veglega á þeim tíma; hafði hann og jafnan mikinn húsakost og góðan. Hann var frábær snyrtimaður í allri umgengni, og hefir mér orðið það ljósara síðar meir, hver þrifnaður og reglusemi var á öllum hlutum í verzlunarhúsum hans, úti sem inni. Það hefir sagt mér maður, sem réðst til Sæmundar á unga aldri, um 1912, að það hafi lengi verið kvíði sinn, hvern morgun, að hafa nú ekki lagt hvern hlut á sinn stað í skrifstofunni, en það átti að vera hans fyrsta verk að taka þar til. En auga húsbóndans var strangt og sást aldrei yfir neitt. Kenndi Sæmundur mörgum ungum manni þannig, svo að þeir gleyma aldrei hinum stranga og góðviljaða hús- bónda, sem enga óreglu þoldi. Faðir minn fluttist sunnan af Mýrum í harðærunum eftir 1880, að Drápuhlíð í Helgafellssveit; gerði hann það móður minni að skapi, og fór þó nauðugur úr átt- högum sínum, en hún þráði sínar bernsku- stöðvar. Hann var þá fátækur. Þá voru tvær verzlanir í Stykkishólmi, Grahms-Handel (eins og yfir dyrunum stóð fram um alda- mót) og Clausensverzlun. Það skildi ég eitt sinn á föður mínum, fremur en hann segði mér það, að á þessum frumbýlings- árum sínum átti hann eitthvert sinn mikla þröng í búi og fór ofan í Hólm. Hann mun hafa verzlað við Grahm, það sem var, og sjálfsagt skuldað. Fór hann nú bónleiður til þeirrar búðar; leitaði hann þá ásjár hins unga manns> sem fyrirsvar hafði í Clausensbúð, Sæmundar Halldórssonar. Fékk hann þar leyst vandræði sín, og á ein- hvem hátt með því trausti eða veglyndi, sem hann gleymdi aldrei síðan. Síðar varð hann efnaður bóndi um nokkurt skeið, svo að sótt var eftir viðskiptum við hann, en Sæmundur var þá orðinn kaupmaður. Var honum þá metnaður að leggja inn ullina hjá Sæmundi og láta hann einan njóta viðskiptanna. Þannig varð Sæmundarbúð dýrðarheimur bernsku minnar. Þegar ég stálpaðist, komst ég sjálfur 1 reikning, og var slíkt mikill viðburður. Enn á ég í eigu minni tvo hluti úr Sæ- mundarbúð, lítinn kassa læstan og rak- hníf, sem ég snerti nú ekki framar. Þegar fastir viðskiptamenn voru búnir að taka út, var eftir sú- hátíðastund að koma inn í stofu og drekka kaffi; þar voru á borði silfurkanna og silfurker, og þar var „píanó“ og stórvaxin blóm, og myndin af Napóleon, þar sem hann ríður krapið á flóttanum frá Rússlandi. En frammi 1 búð- inni var eyra á veggnum; þaðan lá pípa Sæmundur Halldórsson upp í skrifstofu Sæmundar sjálfs, uppi á loftinu. Ef blístur heyrðist, for einhver búð- armaðurinn og lagði sitt eyra við málm- eyrað á veggnum og heyrði þá, hvað talað var uppi. Allt þetta skynjaði barnshugur- inn og gleymdi aldrei síðan. Það var einhverju sinni, að mikið af glansmyndum var komið í.Sæmundarbúð; það voru katólskar myndir, María með sundurstungið hjartað, utan klæða, og ann- að í þeim stíl. En ef satt skal segja, þá sá ég víst í einhverri þoku elskuna sjálfa í andliti guðsmóðui’ og girntist þessar myndir harla mjög, enda tók ég eitthvað af þeim. Sæmundur gekk þarna um, sá víst hve mjög ég var snortinn af opinberun listarinnar. Þó að hann talaði fátt, fann og einhvernveginn, að honum þótti minna um þessar myndir en mér. Síðar meir hefir mér skilist, af hve mikilli menningu hann tók á þessum hlut. Hann bað mig að koma með sér inn í stofu; þar tók hann fram stóran stranga af allt annari tegund mynda og sýndi mér. Það voru eirstungur, eftir frægum listaverkum allar, ætla ég nú. Hann tók margar af þessum myndum og gaf mér; sagði að hann sæi að mér þætti gaman að myndum. Þar í var Kristur í Emaus eftir Rembrandt og fleiri myndir eftir hollenzka meistara, mynd af regnskúr, sem ég man vel eftir, en hefi hvergi rekist á síðar. Þessar myndir allar átti ég lengi og þótti mér góð eign. Það var löngu nokkuð síðar, að ég kom á skipsfjöl hér á Reykjavikurhöfn á fögru vorkvöldi, og var á heimleið, vestur á Snæ- fellsne.s. Þá hitti ég þar Sæmund Halldórs- son. Hann var þá að koma úr siglingu, og var mjög glaður. Hann spurði mig um skólavist mína, sem var lítillar frásagnar verð, og fór vinsamlegum orðum um frama minn, sem einnig var lítill. Þá þéraði hann mig, og var það út af fyrir sig viðburður. Ekki man ég hvert skipið var; það hefir líklega verið Ceres; en við komum snemma dags í Stykkishólm. Ég hafði fjárhags- áhyggjur þungar. Samskipa mér var skóla- systir mín, sem var einhverjum mun auð- ugri en ég; hafði hún lánað mér smám- saman stórfé, sem nam nú alls 18 krónum, en var sjálf 1 háska, nema hún fengi þetta fé áður en við skildum, en hún átti lengra að fara. Sætti ég lagi á þilfari skipsins og spurði Sæmund, hinn alvalda mann, hvort viðlit mundi að fá peningalán til hausts, svo sem 20 krónur. Ekki aftók hánn það. Ég hefi átt að minnsta kosti 2 krónur 1 vasanum, því að ég hafði nú heldri manna sið og bauð skólasystur minni að borða með mér uppi á veitingahúsi. Þar fengum við kjötsúpu, og sú kjötsúpa var harla góð. En nú var skuldin mikla. Verst var að ná í Sæmund; hjá honum var gestkvæmt, þar

x

Tíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.