Morgunblaðið - 08.12.1973, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 08.12.1973, Blaðsíða 12
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 8. DESEMBER 1973 12 Jóhann Hafstein: Þegar hætt var við að slíta stjórnmála- samskiptum við Breta Þetta er síðari greinin, sem ég skrifa um þýðingarmikil málefni, sem borið hefur á góma hjá utan- ríkisnefnd að undanförnu, en ég tel mjög mikils um vert, að al- menningur hafi ekki brenglaða vitund um það, hver afstaða utan- rfkisnefndarmanna hefur verið. Þann 11. september sl. tók hæstvirt ríkisstjórn sig til og ákvað, að brezku ríkisstjórninni yrði tilkynnt, að héldu herskip hennar og dráttarbátar áfram ásiglingum á íslenzk skip, sæi ís- lenzka ríkisstjórnin sig tilneydda að krefjast slita stjórnmálasam- skipta milli landanna. Ekki beið rfkisstjórnin boðanna með að Iáta fjölmiðlum í té vit- neskju um þessa samþykkt. Síðan þótti þó hæfa að boða til fundar í utanríkisnefnd síðari hluta dags- ins. Á þeim fundi utanrikisnefnd- ar, að gerðum hlutum af hálfu ríkisstjórnar, létu fulltrúar Sjálf- stæðisflokksins í utanríkisnefnd, Geir Hallgrimsson og Matthías Á. Mathiesen, m.a. bóka eftir sér, að engin greinargerð hefði verið lögð fram um það, hvað í raun fælist í ákvörðun ríkisstjórnar- innar eða hvað hún ætlaðist fyrir. Ákvörðun rikisstjórnar- innar væri tekin án samráðs við stjórnarandstöðuflokkana, þrátt fyrir gefin loforð, og án samráðs við utanríkisnefnd, eins og lög mæla þó fyrir um og skylt er. Sjálfstæðismennirnir bentu á, að ekki væri skynsam- legt, að ákvörðunin um slit á stjórnmálasambandi væri skil- orðsbundin og sízt af öllu við at- burði í framtíðinni, sem umdeil- anlegir gætu verið. Ennfremur væru slit á stjórnmálasambandi við annað ríki hin örlagaríkasta aðferð, sem við hefðum yfir að ráða gagnvart því. Sjálfstæðis- mennirnir létu bóka: „Þótt ætla megi, að stöðvun slíkra samskipta (þ.e. slit stjórnmálasambands við Breta) valdi okkur íslendingum meira tjóni en Bretum, sem vegna stærðar yrðu tæplega að nokkru ráði efnahagslega varir við slíkar aðgerðir, þá getum við Islending- ar dæmt aðgerðir Breta svo hart, að við getum ekki hugsað okkur, heiðurs okkar vegna, að hafa ein eða nein samskipti við þá, nema þeir bæti ráð sitt." Loks bentu nefndarmenn sjálf- stæðismanna á hættuna á því, að slíkar aðgerðir einangruðu okkur frá vinveittum aðilum í Bretlandi, sem væru með tilstyrk almenn- ingsálitsins þar að reyna að fá fram breytingu á stefnu brezku ríkisstjórnarinnar í landhelgis- málinu og hefði orðið mikið ágengt. Var nú kyrrt i bili, en ekki lengi. Þar kom nú, að Bretar gerðu tillögu um það, að alþjóðleg nefnd skyldi skera úr um, hvort um ásiglingu væri að ræða eða hvort íslendingum eða Bretum væri um að kenna, ef til kæmi. Um það tókum við sjálfstæðismennirnir af skarið mjög tvimælalaust. Ég sagði í viðtali við Morgunblaðið þann 20. september sl. eftirfar- andi: „Það á að mínu áliti að vera algjörlega á valdi íslenzkra stjórn- valda að meta það, hvort hugsan- legur árekstur milli framan- greindra aðila á miðunum við Is- land gefi tilefni til slita stjórn- málasamskipta af Islands hálfu. Yrði þá byggt á skýrslum eftir sjópróf og fyrir sjódómi. Is- lendingar hafa ætíð gefið gagn- aðila kost á því, að fulltrúar hans mæti fyrir sjódómi. Islendingar ,hafa,ætfð gefið gagnaðila kost á því, að fulltrúar hans mæti fyrir sjódómi hér á landi, þegar því er að skipta, til þess að túlka sinn málstað." Þetta sjónarmið árétt- uðum við fulltrúar Sjálfstæðis- flokksins f utanríkisnefnd á fundi, sem haldinn var síðari hluta sama dags, þann 20. septem- ber. Innan nefndarinnar varð enginn ágreiningur um slíkan skilning. Þá kemur að fundi utanríkis- nefndar, sem haldinn var 26. sept- ember, og er e.t.v. einn söguleg- asti fundur, sem um langt skeið hefur verið haldinn í utanríkiv nefnd. Þá hafði brezk freigáta siglt á íslenzkt varðskip, og nú var um það að ræða að tjá sig um, hvort slíta skyldi stjórnmálasamband- inu þá þegar, eða hvað gera skyldi. Utanrfkisráðherra sagði, að ríkisstjórnin hefði ekki tekið ákvörðun í þessu máli. Ákveðið hefði verið að fara þá leið að heyra fyrst álít utanríkisnefndar. Nýir siðir höfðu venð teknir upp síðan utanríkisnefnd var boðuð þann 11. september til þess að fjalla um gerðan hlut í ríkis- stjórninni. Ráðherra kvaðst síðan vilja skýra nefndinni frá því, að sendiherra Breta hefði í dag gengið á fund forsætisráðherra og flutt honum skilaboð frá Heath, forsætisráðherra Bretlands. Enn hefðu ekki aðrir ráðherrar en for- sætisráðherra og utanríkisráð- herra séð þetta bréf, en hann kvaðst samt vilja lesa meginefni þess fyrir nefndinni. Utanríkisráðherra tjáði nefndar mönnum, að sendiherrann hefði skýrt nokkuð nánar bréf brezka forsætisráðherrans og sagði þá, að það, sem Bretar teldu koma til greina, væri fækkun togara á mið- unum, að útiloka verksmiðju- og frystiskip, minnka heildaraflann og viðurkenna friðunarsvæði. Til- gangurinn með tillögum brezka forsætisráðherrans væri sá að reyna að fresta slitum á stjórn- málasamskiptum og fá þannig svigrúm til þess að undirbúa nýjar viðræður um bráðabirgða- samkomulag. Utanríkisráðherra tjáði nefnd- inni, að forsætisráðherrann áliti koma til greina að fresta slitunum á stjórnmálasamskiptum, en þó ekki nema örfáa daga og einnig með því skilyrði, að utanríkis- nefnd samþykkti það einróma. Rétt er, að menn viti, hvernig utanríkisnefndarmenn tjáðu sig, ekki sízt með hliðsjón af þeirri þróun mála sem siðan hefur orð- ið. Eysteinn Jónsson kvaðst ekki sjá, að hér væru neinar nýjar til- lögur á ferðinni. Hann sagði, að sér litist illa á að breyta fyrirætl- unum okkar. I bréfi Heaths væri ekkert nýtt og hann kvaðst óttast að hika nú við að framkvæma áætlun ríkisstjórnarinnar um stjórnmálaslit. Skilaboð brezka forsætisráðherrans væru „fleyg- ur“. Við ættum að ákveða strax að slíta stjórnmálasamskiptum, sag- ði Eysteinn Jónsson. Ekkert virtist bera á milli þeirra Þörarins Þörarinssonar, formanns nefndarinnar, og Ey- steins Jónssonar, um það, hvað gera skyldi. Magnús Kjartanssson ráðherra kvaðst telja sjálfsagt að slíta nú stjórnmálasamskiptum við Breta. I bréfi brezka forsætisráðherrans væri ekkert nýtt. Hann kvaðst telja, að það væri nú orðin al- menn skoðun á Islandi, að við ættum ekki lengur að bjóðast til að semja á neinn hátt við Breta varðandi fiskveiðilögsögu okkar. Bjarni Guðnason kvaðst vilja taka sérstaklega fram, að hann sæi ekki aðra leið en að slita stjórnmálasamskiptunum. Ann- ars yrði litið svo á, að ríkisstjórn- in væri búin að missa tök á málinu. Matthías Á. Mathiesen óskaði nú eftir fundarhléi. Hann kvaðst vilja ræða við formann Sjálfstæð- isflokksins, en við höfðum rætt málin fyrir fundinn, er ég hins vegar ekki sat. Eftir fundarhléið sagði Bene- dikt Gröndal, að hann hefði fyrr á fundinum talið koma til greina að fresta í nokkra daga slitum á stjórnmálasamskiptum til að athuga, hvaða tillögur Bretar hefðu aðrar en þær, sem kæmu fram í bréfi Heaths. En við nánari athugun teldi hann, að við ættum ekki að fresta slitunum. Nú las Matthías Á. Mathiesen yfirlýsingu frá sér og Jóhanni Hafstein, varðandi bréf brezka forsætisráðherrans. Bókunin var svohljóðandi: „Ut af orðsendingu þeirri, sem borizt hefur á fund utanríkis- nefndar frá brezka forsætisráð- herranum til forsætisráðherra Is- lands dagsettri í dag, þar sem látínn er í ljós vilji brezka for- sætisráðherrans til þess að leysa nú deilumál þjóðanna, teljum við rétt, að kannað verði til hlitar, hvað fyrir brezka forsætisráð- herranum vakir nánar, og for- sætisráðherra lslands ákveði stuttan frest til þessarar athug- unar." Ennfremur bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins almennt um afstöðu sína til málsins, og hefur sú bókun áður verið birt. Ég vil þó minna á þessi efnisatriði, en við bentum á, að Bretar gætu með framferði sinu neytt til þess, að stjórnmálasambandi milli land- anna yrði slitið, enda væri lífi sjómanna, bæði íslenzkra og brezkra, stofnað i bersýnilega hættu með aðgerðum Breta á fiskimiðunum. Þvi miður drægi ekki ur hættunni á Islandsmiðum né linnti deilunni milli þjóðanna við slit stjórnmálasamskipta, ef af þeim yrði. Það bæri því að halda áfram alvarlegum tilraunum til þess að ljúka sem fyrst hinni hættulegu deilu, sem stofnaði mannslífum í voða, enda væri nú mjög skammt í hafréttarráð- stefnu Sameinuðu þjóðanna, en þróun mála öll á þá lund, að þar fallist meiri hluti þjóðanna á 200 mílna auðlindalögsögu. Ég hefi stuðzt við fundargerðar- bókun utanríkisnefndar, en hygg þó öruggt, að ég brjóti hvergi trúnað, þar sem öll þessi mál hafa að meira eða minna leyti áður verið rædd í fjölmiðlum án þess þó, að rétt heildarmynd hafi fengizt. Allir vita, að forsætisráðherra réð því, að farið var að ráðum sjálfstæðismanna. Hann fór siðan til Bretlands til viðræðna við brezka forsætisráðherrann, og nú er deilan leyst um sinn. Forsætis- ráðherra okkar á skilið þakklæti fyrir, svo sem allir þeir, er að farsælli úrlausn málsins hafa stuðlað. Endurminningar Friðriks Guðmundssonar Friðrik Guðmundsson Endurminningar I—II GilsGuðmundsson gaf út. Vfkurúlgáfan — Guðjón Elfasson 1972—1973. Stundum heyrist amast við endurminningaflóðinu. Það má vel vera að margt sé gefið út af slíkum bókum, sem ekki eigi er- indi til almennings, og ekki er nógu vel sagt, og ævisöguritarinn hafi frá ósköp litlu að segja, sakir þess að ævi hans hefur verið við- burðasnauð, eða hann hefur ekki lag eða hæfiieika til að gera ævi- feril sinn sögulegan, og kunni ekki að krydda frásögnina. Eg held þó að varla gefi svo lélega ævisögu, að hún veiti ekki ein- hverjar upplýsingar um mannlegt líf, sem betur er geyait ettgleymt Mér virðist, að Istendingar eigi alltof fáskrúðugar bókmenntir af þessu tagi, einkum þó frá fyrri timum. Það er hægt að telja á fingrum sér þær sjálfsævisögur, sem ritaðar hafa verið fyrir 1900, en þær eru taldar til gersema nú og má t.d. nefna ævisögu þeirra Jóns Indfafara og séra Jóns Stein- grímssonar, sem báðar bregða upp skýrurn myndum af mannlifi þeirra tíma og höfundum sjálfum. Ilér er á ferðinni 2. útgáfa af ævisögu 19. aldar manns, bónda í Þingeyjarsýslum og Kanada, sem góðra gjalda er verð, bæði sakir þess að hún er skrifuð með fjöri og nær yfir vítt svið. Friðrik var fæddur á Víðihóli á Hólsfjöllum 24. júni 1861, en andaðist i Kanada 3. mai 1936, eða 75 ára að aldri. Hann var alinn upp á Hóls- fjöllum, og gerðist þar bóndi, er hann hafði aldur til, en fluttist búferlum norður í Þistilfjörð, og bjó þar þangað til hann fluttist árið 1905 til Vesturheims. Fyrst var hann í Winnipeg, en gerðist síðan bóndi i Mozartbyggð I Kanada. Hann ritaði um landnám í Vatnabyggðum í Almanak Ólafs Thorgeirssonar 1917—1918, og þessar endurminningar, sem fyrst birtust í Ileimskringlu, blaði Vestur-íslendinga, en voru síðan sérprentaðar eftir letri blaðsins árið 1932, og eru þær fyrir löngu ófáanlegar. Friðrik lauk ekki við minningar sínar, en hann var búinn að missa sjönina, þegar hann byrjaði að skrifa, og síðan ritaði hann þær á ritvél með blindletri, enda segir hann: „Þegar ég í myrkrinu sit fyrir framan ritvélina mína...“ Þrátt fyrir augljósa ágalla, sem að miklu leyti stafa af því, að Friðrik var orðinn aldraður, þegar hann skrifaði minn- ingarnar og blindur, eru kostir þeirra svo miklir, að þeim má skipa á bekk meðal góðra ævi- sagna. Hann skýrir frá mörgum ógleymanlegum atburðum og mönnum, ferðaiögum og mann- fundum með ágætum. Friðrik var gáfumaður, eins og faðir hans hafði verið, mikill áhugamaður um landsmál, og taldi ekki eftir sér langferðir til þess aðgetaorðiðþátttakandi í fundum og samtökum, sem höfðu að markmiði bættan hag þjóðar- innar. Friðrik var gæddur góðum frásagnarhæfileikum og verða manni margar mannlýsingar hans minnisstæðar. Frásögn hans um séra Amljöt Ólafsson í Sauðanesi, sem var einn af merkismönnum 19. aldar fyrir margra hluta sakir, varpar á hann skýru ljósi, kosti hans og galla, og svo er um fleiri frásagnir Friðriks. Fyrri kona Friðriks var dóttir Jakobs Hálfdánssonar kaupstjóra Kaupfélags Þingeyinga á Húsa- vík, og hafa þær mægðir eflaust átt þátt í því að vekja Friðrik til áhuga fyrir þjóðfélagsmálefnum. Friðrik kann frá mörgu að segja frá langri ævi i tveimur heims- álfum og verður enginn vonsvik- inn eftir lestur minninga hans. Þær eru bæði hinar fróðlegustu og skemmtilestur. Jóh. Gunnar Ólafsson. j

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.