Morgunblaðið - 16.03.1980, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 16.03.1980, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 16. MARZ 1980 Stefán Eiríksson Akureyri - Minning Fæddur 3. maí 1926. Dáinn 3. mars 1980. „Guðsdyrnar opnuðust hart og hljótt. Hirðsveinar konungsins réttu út arma.“ (E. Ben.) Stefán Eíríksson kvaddi þennan heim á náttmálum hinn 3. mars, en þá voru liðnar réttar þrjár vikur, frá því er hann veiktist skyndilega og hastarlega og var þá ekki hugað líf. Þessar þrjár vikur í biðsal dauðans voru honum hel- sjúkum og ástvinum hans erfiður tími að þreyja, en hann bar þessa hinstu raun í þessu lífi með stillingu og karlmennsku sem hetju sómdi. Hann vissi líka flestum öðrum betur, að lífið slokknar ekki við brottför þess úr jarðneskum líkama, heldur fæðist til annars heims, meiri þroska og hærri miða. Höfundur lífsins sleppir ekki hendi af neinni mannssál, en hefir ætlað henni að feta hina seinförnu og stundum ógreiðu leið til þroskans, leiðina heim. Þess vegna kveið Stefán engu, vissi sálu sinni borgið í hendi hins hæsta höfuðsmiðs. Ör- uggur steig hann fyrir dómara allra tíma. Stefán Eíríksson fæddist 3. maí 1926 á Sveinsstöðum í Lýtings- staðahreppi í Skagafirði, en flutt- ist með foreldrum sínum ársgam- all að Lýtingsstöðum og ólst þar upp til 11 ára aldurs. Hann var sonur hjónanna Rutar Ófeigsdótt- ur og Eíríks Einarssonar og var elstur 7 systkina. Hin eru Ófeigur, sýslumaður og bæjarfógeti, Akur- eyri, Bergur, rak síðast prjóna- stofu í Kópavogi, en lést fyrir fáum árum, Helgi, andaðist á unglingsaldri, Óskar, fyrrum bún- aðarráðunautur, en nú starfs- maður hjá Ispan hf., Akureyri, Ragnar, búnaðarráðunautur í Skagafirði, býr í Gröf á Höfða- strönd, og Birna, húsmóðir á Akureyri. í Skagafirði átti Stefán glaða og bjarta bernsku, og þar náði hann að skjóta þeim rótum, sem aldrei slitnuðu, þó að hann hyrfi á aðrar slóðir, og um þær rætur rann hinn rammi safi þjóðlegrar menningar, kveðskapar og sagnalistar honum í merg og bein. Hvar sem hann var og fór, var hann alltaf Skagfirð- ingur, og honum þótti alltaf vænt um bernskuslóðirnar. Þar vildi hann una, og þar átti hann góða vini, sem honum var yndi af að hitta. Þangað reikaði hugurinn oft, og þangað lá leiðin oft, hvort sem var gangandi í ófærð á snjóþungum vetrardegi ellegar ak- andi greiðan veg á björtu sumar- kveldi að lokinni önn dagsins. Árið 1937 brá Eiríkur faðir hans búi og fluttist með fjölskyldu sína til Akureyrar. Hér átti Stefán heima upp frá því, fyrst í Innbæn- um, síðar á Oddeyri. Hér eignaðist hann nýja vini og félaga, nýja leiki og önnur viðfangsefni. Lífsbarátta kreppuáranna fyrir stríð var hörð, og viðbrögð manna við fátæktinni urðu einnig að vera hörð, ef þeir áttu að halda velli og reisn sinni. Og annað kom ekki til mála. Vinnan var boðorðið, lausn- arorðið. Skagfirska fjölskyldan var einbeitt, ólöt og samhent, og með þá eiginleika að vopni komst hún vel af. Synirnir voru líka ágætir íþróttamenn, auk þess sem þeir voru góðir verkmenn. Stefán stundaði margvísleg störf, eftir að hann komst á unglingsaldur, bæði á sjó og landi. Hann var skarpur til vinnu, laginn og lipur, og því var hann alstaðar vel séður á vinnustöðum. En þar kom fyrir honum, eins og hendir margan góðan dreng, að hann átti um skeið í vök að verjast fyrir ásókn Bakkusar, sem gerði honum á ýmsan hátt erfitt fyrir, meðan sú barátta stóð, en það var sem betur fór ekki lengi. Góð öfl studdu hann í þessari baráttu við freistingar vínsins og komu hon- um til liðs, svo að honum tókst að sigra þær og koma heill úr þeirri viðureign. Bæði var, að þá var Dísa komin til skjalanna, og Ólafur Tryggvason í Hamraborg, sem mörgum hjálpaði í svipuðum kröggum, lagði sig allan fram um að bjarga og það tókst. Og ekki aðeins það, heldur fann Olafur fljótt að Stefán var búinn miklum andlegum krafti og öflugum dul- argáfum, þótt hann væri hvorki skyggn né miðill, og orka hans og næmleiki á þessu sviði voru óvenjuleg. Þess vegna fékk Ólafur Stefán til þess að vinna með sér næstu árin til hjálpar öðrum, og nutu þess margir, sem voru hjálp- ar þurfi. Fleiri voru reyndar í þessum samstarfshópi, og þarna hlaut Stefán þá þjálfun, reynslu og þekkingu um samband þessa heims og annars, sem kom honum að góðu haldi síðar. Já, Dísa var komin til skjal- anna, þessi heilladís Stefáns, hollvættur og verndarvættur. Hún heitir Jódís Kristín Jósefsdóttir og er frá Búrfelli í Hálsasveit, en er oftast kennd við Lækjarkot í Þverárhlíð. Þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband 10. júní 1950. Síðan hefir sambúð þeirra verið ein sólskinssaga. Þau eign- uðust tvö börn, Eirík, sem er starfsmaður hjá Híbýli hf. á Akureyri, kvæntur Ingibjörgu Dóru Hansen, og Huldu, sem er gift Þorsteini Kormáki Helgasyni, rafvirkja og búa þau í Svíþjóð um þessar mundir. Barnabörnin. eru orðin 5, einstaklega elsk að afa sínum og voru honum miklir gleðigjafar. Stefán gerðist umboðsmaður og afgreiðslumaður Morgunblaðsins á Akureyri 15. janúar 1962 og annaðist það starf með aðstoð konu sinnar upp frá því til ævi- loka. Er þar skemmst af að segja, að fyrir hans atbeina var hafin stórsókn við að auka útbreiðslu blaðsins í bæ og héraði, og tókst það vel vegna dugnaðar og hygg- inda Stefáns, sem í þessu efni sem öðrum reyndist. hugmyndafrjór, tillögugóður og harðfylginn. Öll starfsemin var í röð og reglu, og allt, sem Stefán sagði og gerði, stóð eins og stafur á bók. Það hefir fylgt afgreiðslumönnum Morgun- blaðsins á Akureyri, allt frá því er Jón Þorsteinsson, lögfræðingur og skákmeistari, starfaði við dreif- inguna í æsku sinni, að vera gæddir næstum yfirnáttúrulegu minni á það, hverjir áskrifenda sæktu blað sitt sjálfir hverju sinni og til hverra þyrfti að bera blaðið. Stefáni mun sjaldan hafa skeikað í þessu, það var a.m.k. ekki hans sök, ef fyrir kom, að menn fengu ekki blað sitt á réttum tíma. Innheimta og fjárreiður voru líka í stökustu reglu svo og fyrir- greiðsla, svo sem í sambandi við auglýsingar, sem hann annaðist venjulega fyrir Akureyringa, sem þurftu að auglýsa í Morgunblað- inu. Allt var með bestu skilum á báða bóga, allt hreint og ljóst og glöggt. Fyrir allmörgum árum var Stefán fenginn til að gerast út- breiðslustjóri Morgunblaðsins á Norðurlandi og Norðausturlandi og stjórna dreifingu þess á þessu svæði, og fór honum þetta starf einnig prýðilega úr hendi. í þriðja lagi var hann fréttaritari í forföll- um mínum og mér til styrktar, þegar mikið lá við, og kann ég honum miklar þakkir fyrir alla lipurð og hjálpsemi, sem ég fékk að njóta frá hans hendi í þessu efni sem öðrum. Það var líka fyrir hans orð og ummæli, að ég fékk í fyrstu að spreyta mig á þessu verkefni. Einn er sá þáttur í starfi Stefáns við afgreiðslu Morgun- blaðsins, sem ég tel ekki ómerkastan, þótt lítið kunni að bera á honum út í frá, en það er umgengni hans við blaðburðar- börnin og uppeldisleg áhrif hans á þau. Alltaf var hann við þau kátur og reifur og brýndi fyrir þeim kurteislega framkomu við kaup- endur og aðra þá, sem þau áttu skipti við, á sama hátt og hann ætlaðist til þess, að börnin nytu kurteislegs viðmóts af hálfu við- skiptamanna. Hann krafðist af- dráttarlausrar skilvísi barnanna á blöðin til kaupenda og reglusemi við dreifinguna, og einnig gekk hann ríkt eftir hreinum skilum þeirra á innheimtufé og lausasölu- peningum til þess að venja þau á skilvísi, ráðvendni og heiðarleika. Það brást heldur aldrei, að hann stæði þeim skil á umsaminni þóknun, og oft gaukaði hann að þeim gjöfum og glaðningi. Öllum þótti þeim vænt um Stefán, virtu hann og dáðu og vildu í öllu gera honum til geðs. Honum hélst líka vel á blaðburðarfólkinu, og fast var sóst eftir að komast í starfið. Hér má heldur ekki gleyma hlut Dísu, sem hefir unnið mikið við afgreiðslu blaðsins, einkum hin síðari ár, því að hjá henni hafa börnin alltaf átt góðu að mæta, og hún hefur umgengist þau á sinn glaðlega og ljúfmannlega hátt. Meðan Stefán starfaði með Ól- afi Tryggvasyni að hjálp við sjúka menn og aðra þá, sem hjálpar þurftu við, kom stundum til liðs við þá Guðrún Sigurðardóttir frá Torfufelli í Eyjafirði, akureysk húsmóðir, göfug kona og góð, búin óvenjulegum og fjölbreyttum dul- argáfum, svo sem skyggni og fjarsýni. í þessu sambandi tók miðilsgáfa hennar einnig að koma í ljós, og svo varð, að það kom í hlut Stefáns að stjórna miðils- sambandi hennar hérna megin, en Haraldur Níelsson stjórnaði frá hinum heiminum. Þetta samstarf þeirra hófst árið 1952, og allt fram á síðustu ár, þegar heilsa beggja tók að bila, héldu þau reglulega fundi mánaðarlega með föstum, en fámennum hópi samstarfs- manna eða sitjara, sem svo eru nefndir. Þar að auki héldu þau oft fundi, þegar eitthvað sérstakt kallaði að. Upp af þessu miðilsstarfi spruttu afar merkilegir hlutir. Tilgangur starfsins var framar öllu að verða öðrum að liði, annaðhvort þessa heims eða ann- ars, og afla fræðslu um þá veröld, sem við tekur og allir eiga í vændum að hverfa til fyrr eða síðar, hvort sem þeir trúa því eða ekki. I augum Guðrúnar og Stef- áns þurfti ekki að sóa kröftum sínum til að afla sannana fyrir framhaldslífi. Það hafði verið sannað rækilega fyrir löngu, svo að ekki þurfti um að bæta, og á þeirri sönnun er kristinn dómur reistur. Fræðslu- og þekkingarleit var aðalviðfangsefnið á fundunum fyrstu árin. Upp frá því spruttu tvær bækur, sem Stefúán gaf síða: út, „Leiðin til þroskans" 1958 og „Leiðin heim“ 1969. Efni þeirra og innihald mælti miðillinn fram í dásvefni (transi), en Stefán tók jafnharðan upp á segulbönd og ritaði síðar upp eftir segulböndun- um. Efni fyrri bókarinnar var hljóðritað á árunum 1954—1957, en hinnar síðari á árunum 1958— 1964. Um tilgang útgáfunnar segir Stefán svo í formála bókarinnar „Leiðin heim“: „Líkamsdauðinn er það eina, sem hver einasti maður á með vissu í vændum, og því er fræðslan um það, sem við tekur nauðsynleg. Kaflarnir, sem ég afhendi hér þeim, sem vilja af þeim læra, veittu mér stór svör, þegar ég tók á móti þeim, og þeir svara alltaf fleiri og fleiri spurningum mínum, eftir því sem ég les þá oftar. Ég vona, að þeir veiti öðrum hið sama. Þeir eru að verða mér helgur dómur, því að ég veit, að þeir hafa mikinn sannleik fram að færa. Ykkur, sem þá lesið, er gefið tækifæri til þess að eignast og njóta hans, ef þið viljið. Ef þið hafnið honum, þá bíður hann við dyrnar, og hann hættir aldrei að bíða og vera til.“ Aðalbjörg Sigurðardóttir, ekkja Haralds Níelssonar, kemst svo að orði um sömu bók: „Hér er ekki um venjulega sannanafundi að ræða, heldur er það fræðsla um æðri heima, leið- beiningar og huggunarorð, þrung- ið kærleika til vegvilltra manna og óvenjulega háleitu mati á lífinu og aðstæðum öllum hér í heimi." En þó að þessar tvær bækur væru hinar fróðlegustu og for- vitnilegustu, var þó enn ókomið frá miðilssambandi Guðrúnar það rit, sem mér þykir miklu merki- legast og furðulegast þeirra dul- rænu fyrirbrigða, sem ég þekki til. Þar á ég við söguna um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, sem kom út í tveimur bindum hjá Skuggsjá á árunum 1973 og 1974. Þessi saga er, að ég hygg, algert einsdæmi. Hún var tekin á segulbönd, sem vissulega eru vel varðveitt, á tímabilinu frá 9. mars 1970 til 6. apríl 1972, beint af vörum miðils- ins. Stefán vélritaði allt efnið eftir segulböndunum, en ég samræmdi starsetningu og greinamerkja- setningu, lagfæðri málfar á ein- staka stað og gekk að öðru leyti frá handritinu til prentunar að beiðni Stefáns. Einnig annaðist ég prófarkalestur. Þetta var yndislegur tími. Sjaldan hefi ég unnið að verkefni, sem mér hefur þótt ljúfara og ánægjulegra, og ég er hjartanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að veita þessa litlu aðstoð við útgáf- una. Margar spurningar vöknuðu við lesturinn, og Stefán lagði þær jafnharðan fram fyrir sögumann, séra Þórð Jónsson í Hítardal, á næsta miðilsfundi, og fékk venju- lega glögg svör og skýringar. Einnig átti Stefán samtöl við ýmsa aðra framliðna menn um efnisatriði sögunnar og jafnvel óskyld efni, og eru þau sambönd öll geymdá segulböndum. Þó að segulböndin með sögunni sjálfri séu hin merkilegustu, tel ég þessi samtöl engu ómerkari, ekki síst samtölin við séra Þórð, séra Hailgrím Pétursson og Brynjólf biskup. Yfirleitt er sagan af því, hvernig bókin varð til, fágætlega merkileg og einstök í sinni röð. Góð var andleg návist þessara manna, ekki síst séra Þórðar, og vænt þykir mér um spóluna, þar sem hann talar til mín langt mál utan dagskrár með sinni lágværu, stillilegu og blíðlegu rödd. Þeim Guðrúnu og Stefáni var fyllilega ljóst frá upphafi þessa verks, að útkoma bókarinnar mundi valda úlfaþyt og óþægindum fyrir þau sjálf. Það létu þau ekki á sig fá og töldu málefnið mikilvægara en svo, að slíkt yrði til hindrunar. Eitt er víst, að ekkert okkar, sem komum við þessa sögu á einn eða annan hátt, vann að verkinu í von um fjárhagslegan ábata eða til að hljóta frægð af, heldur litum við á hlutverk okkar sem þjónustu við málefnið og þörf löngu liðins fólks til að koma sannleikanum á fram- færi. „Árum saman hef eg varið flestum tómstundum mínum til úrvinnslu þessa efnis. Sagan er orðin hluti af lífsvitund minni, og persónur hennar eru mér kærar og ógleymanlegar. Margt hef eg tekið mér fyrir hendur í þessari jarðvist minni, en á engu hef eg lært jafnmikið sem af'starfi mínu við sögu Ragnheiðar Brynjólfs- dóttur, og eg veit, að þeir dagar koma, að eg fæ að sjá og skilja enn þá meira," segir Stefán í eftirmála síðara bindis. Enn fremur segir hann: „í þögn og friði unnum við þetta verk. Með friði færðum við lesend- um það. Með þögn og friði höfum við tekið og munum taka því, sem þeim finnst við verðskulda fyrir að skila þessari sögu í hendur þeirra. Tíminn geymir hlut hvers og eins af hverju máli. Við flettum þeim blöðum síðar." + Eiginmaöur minn og faölr okkar, BOGI SIGURÐSSON, Tómasarhaga 40, andaöist 14. þ.m. Jaröarförin fer fram frá Fossvogskirkju kl. 3 miövikudaginn 19. marz. Þeim er vildu minnast hins látna er vinsamlegast bent á LíknarsJÓÖI. Sigurlaug Eggertsdóttir, Elín, Birgír og Eggert. í Maöurinn minn og faöir okkar, STEFÁN EIRÍKSSON, Noróurgötu 54, Akureyri, ^röur jarösunginn frá Akureyrarkirkju, mánudaginn 17. marz kl. 13.30. Jódís Kristín Jósefsdóttir, Eiríkur Stefánsson, Hulda Stefánsdóttir. t Faöir okkar, tengdafaöir og afi, BETÚEL JÓN BETÚELSSON, frá Göröum, Aöalvík, Laugarnesvegí 106, Reykjavík veröur jarösunginn frá Fossvogskirkju mánudaginn 17. marz kl. 13.30. Börn, tengdabörn og barnabörn. t SVEND A. JOHANSEN, stórkaupmaóur, andaöist þriöjudaginn 11. marz í Kaupmannahöfn. Jarðarförin hefur fariö fram. Börn og tengdabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.