Morgunblaðið - 05.07.1980, Side 16
16
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 5. JÚLÍ 1980
texti
HEIMSÓKN í PORTÚGAL jóhanna kristjónsdóttir 3. grein
Frá einum básanna, þar sem aöallega voru íþróttaskór og karlmannaskór. Séö yfir hluta sýningarbásanna í Kristalshöllinni.
Að skoða skó í Kristalshöllinni í
Oporto og slaka sér á sveitaball
Eitt af mörgum erindum mínum í Oporto var
að skoða mikla og veglega skósýningu,
MOCAP-5 sem stóð þar yfir í þrjá daga í
Kristalshöllinni, ágætri sýningarhöll og um
áttatíu og fjögur fyrirtæki sýndu þar
framleiðslu sína. Þar sá ég í bæklingi, að átta þeirra
flytja inn skó til Islands. En þó svo að við kaupum
töluvert af skóm frá Portúgal er það afar lítið brot af
heildarskóinnflutningi okkar og er eitt af því, sem
Portúgölum finnst, að við mættum gera í ríkara mæli á
móti öllum saltfiskkaupunum, sem þeir eiga við okkur.
Til skósýningar þessarar, sem er nú haldin tvisvar
ár hvert og nú í fimmta sinn, streyma fjölmargir gestir
erlendir sem innlendir. Fyrsta skósýningin var ósköp
smá í sniðum, en hefur síðan orðið æ myndarlegri og
voru menn á einu máli um, að þessi væri sú hin
glæsilegasta. Þeir gestir sem til sýningarinnar koma
eru vitanlega einkum þeir sem eru í skóbransanum og
einnig voru nokkrir útlendir blaðamenn á sýningunni.
Við komuna var hverjum gesti afhentur stór og
þekkiiegur poki, sem reyndist fullur af fróðlegum
upplýsingum um skóframleiðslu Portúgala, myndir af
sýningarbásum og auðvitað hin ómissandi púrtvíns-
flaska.
Engin formleg athöfn var þegar sýningin hófst, en
ýmsir framámenn borgarinnar komu á vettvang og
aðstoðarviðskiptaráðherrann Armando Souse e
Almeida hafði komið fljúgandi frá Lissabon. Þessi
sýning er haldin fyrir frumkvæði Fundo de Fomento de
Exportacao, en í forsvari Fundo í Oporto er Jose Barros,
en fjöldi manns hafði auðvitað lagt hönd á plóginn við
að koma upp sýningunni.
Elza Neto starfsmaður Fundo í Oporto hafði
yfirumsjón með framkvæmdinni og gekk hún um ganga
með aðstoðarráðherranum og framámönnunum og
sýndi þeim básana. Svo var haldin tízkusýning og sú
var svo tvisvar dagana þrjá sem sýningin stóð yfir.
Þetta var fjðrleg og litrík sýning og kenndi þar margra
grasa. Annars fannst mér í fljótu bragði setja mestan
svip á útvistarskór hvers konar, kvenskór, sem höfðu
þau einkenni helzt að vera léttir og mildir bandaskór,
ellegar lágar og þægilegar mokkasíur.
Ég gekk þarna um öðru hverju þessa þrjá daga, horfði
einu sinni á tízkusýninguna og skrafaði við hina ýmsu
framleiðendur. Að vísu vantaði að þarna væri með eitt
fyrirtæki sem ég veit að selur mikið af skóm til Islands,
einkum barnaskóm það heitir JIP og hefur margsinnis
unnið til viðurkenninga fyrir vandaða vöru. Hin
fyrirtækin sem ég sá að höfðu ísland á blaði hjá sér
voru MOGLI, ANDANTE-TRIO, FEC, MARINO,
PORTISA CALSUPER, MELIOR, PILAR og FEMINA.
öll þau fyrirtæki fengu einkunnina, góð gæði í bæklingi
sem var gefin út í sambandi við sýninguna, innkaupaað-
ilum til glöggvunar, og sum jafnvel að gæði væru
stórgóð.
Til að gefa nokkra hugmynd um hversu öflug
skó-framleiðsla Portúgala er að verða, skal á það bent,
að árið 1979 framleiddu þeir 14,3 milljón pör af skóm, að
verðmæti sem svarar 57 milljörðum ísl. króna. Áætlað
er að framleiðslan á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi
verið 4 milljón pör.
Sé hugað að því, hvaða þjóðir kaupa mest af skótaui
frá Portúgal reynast það vera Bretar með 21,3 prósent
og síðan koma Sviar og Vestur-Þjóðverjar með 13,1
prósent. Frakkar kaupa 10,5 prósent, og efstir Norður-
landaþjóða á eftir Svíum eru Norðmenn með 8,4
prósent. ísiand nær því að vísu að komast á blað en ekki
meira en svo: 0,3 prósent árið 1979 eða samtals 33.990
pör skóa.
Skóframleiðslunni í landinu hefur stórfleygt fram
síðustu ár bæði hvað varðar magn og gæði og má
hikstalaust fullyrða að Portúgalar séu komnir í fremstu
röð hvað þessa framleiðslugrein snertir, alténd það sem
bezt gerist þar. Þar til á allra síðustu árum hafa flestar
verksmiðjurnar verið heldur smáar og afkastageta
takmörkuð, en hlúð hefur verið að þessari iðngrein með
þeim árangri sem m.a. varð séður á MOCAP-5.
Þegar ég var í Oporto síðast, minnist ég þess, að ég
heimsótti örlítið fyrirtæki sem heitir AJAX og það
rifjaðist einnig upp fyrir mér, að einn eigandinn Sancho
Gomes da Silva sagði mér þá frá stórhuga fyrirætlun-
um þeirra bræðranna sem verksmiðjuna áttu um að
byggja nýtt hús. Væru þeir búnir að fá land, en óvíst
hvenær þeir réðust í framkvæmdir eða hvort þeir
treystust til þess.
Eg leitaði því að gamni mínu upp sýningarbás þessa
fyrirtækis og þar er reyndar da Silva fyrir og það verða
fagnaðarfundir. Hann býður mér samstundis það sama
síðdegi að koma til Fiáes og sjá: hann er nefnilega
búinn að byggja. Hann lét ekki sitja við orðin tóm og
kom og sótti mig og Luisu Agapito, sem er fulltrúi á
viðskiptaskrifstofu Portúgala í Osló og við brunuðum í
góðviðri dagsins til Fiáes sem er svo sem hálftíma
keyrsla frá Oporto. Þar hafði heldur betur skipt um.
Björt og myndarleg verksmiðja, þar sem virtist fyrir
öllu hugsað, ekki sízt þörfum starfsmanna, stóð á
fögrum stað í útjaðri Fiáes. Bróðir da Silva, Manuel
kom með okkur og við gengum um og skoðuðum og mér
fannst hreint ótrúlegt að sjá þetta, því að mér voru í
minni þröng og rangalaleg húsakynnin sem ég hafði
vitjað rúmlega þremur árum áður.
Ajax er fjölskyldufyrirtæki í orðsins fyllsta skilningi.
Faðir þeirra hóf reksturinn á sínum tíma og fjórir af
sex bræðrum koma við sögu hans nú. Þeirra hugsjón er
sú helzt og bezt að framleiðslan sé vönduð og vegleg og
starfsfólkinu líði vel og þeir voru greinilega öllum
stundum sjálfir að atast í þessu. Framleiðslugeta Ajax
er nú um eitt þúsund pör á dag og þeir framleiða
einvörðungu kvenskó, flytja aðallega út til Hollands,
Noregs og Danmerkur, auk þess sem fer á innanlands-
markaðinn. í handbók sýningarinnar fengu þeir vitnis-
burðinn góð/mikil gæði. Da Silva gerði það raunar ekki
endasleppt við okkur Luisu, á leiðinni til Oporto aftur
um kvöldið, bauð hann okkur í gómsætan málsverð á
notalegum veitingastað, sem ég man nú reyndar ekki í
bili hvað heitir.
Annað kvöld skósýningarinnar hélt undirbúnings-
nefnd MOCAP-5 öllum þátttakendum og hinum ótal
mörgu innlendu og erlendu gestum sem til sýningarinn-
ar höfðu komið, samkvæmi eða „sveitaball" í Quinta da
Paradela, skammt fyrir utan Oporto. Þar voru bornir
fram aðskiljanlegir og dæmigerðir portúgalskir réttir
með stuttu millibili allt kvöldið, vínið flaut í stríðum
straumum, sýndir voru skemmtilegir og litfagrir
þjóðdansar og loks var slegið upp almennu dansiballi
fram eftir nóttu þar sem menn stigu dans af mikilli
innlifun.
Hinu er ekki að neita, að daginn eftir voru ýmsir
menn í Kristalshöllinni framlægri, bæði sýnendur og
gestir. En hvað nú um það. Þetta hafði verið góð veizla.