Morgunblaðið - 08.04.1982, Qupperneq 24

Morgunblaðið - 08.04.1982, Qupperneq 24
72 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 8. APRIL 1982 „Urðum að aka á keðjum í aurbleytunni“ Rætt vid Pál Sigurðsson á Kröggólfsstöðum, sem fyrstur manna stundaði farþegaflutninga á norðurleiðinni Páll Sigurösson frá Kröggólfsstööum í bæjarferó. „Þegar ég var að alast upp var allt flutt á kerrum í minni sveit, en ég er fæddur árið 1906 að Hólum í Hjaltadal. Þar var faðir minn, Sigurður Sigurðsson, seinna búnað- armálastjóri, skólastjóri. Svo atvikaðist það þannig að ég fór suður og vann sex mánuði hjá Agli Vilhjálmssyni á verkstæðinu, þá var ég aðeins 18 ára gamall. Fyrir sunnan tók ég bæði minna og meira prófið og er ökuskírt- einið mitt númer 641 og var ég þv! meðal þeirra fyrstu, sem tók bílpróf hér á landi.“ — Það er Páll Sigurðsson á Kröggólfsstöð- um í Ölfusi, sem þarna rifjar upp fyrstu kynni sín af bílum. Páll vann við það fyrstur manna að aka langferöabílum milli Reykjavíkur og Sauðárkróks og síðar milli Reykjavíkur og Akur- eyrar, eða í 16 ár. Eftir það var hann ráðinn af Vegagerð ríkisins að reka gististaðinn Fornahvamm, þar sem hann aðstoðaði einnig bíla við að komast yfir Holta- vörðuheiðina, sem var oft illfær, annaðhvort vegna aurbleytu eða snjóa. Seinni árin hefur Páll starf- að við hrossaflutninga og þekkja allir hestamenn Pál á Krögg- óifsstöðum. — En gefum Páli orð- ið aftur: „Eftir að hafa verið hjá Agli Vilhjálmssyni fór ég aftur norður. Þá hafði Jóhann á Mælifellsá keypt Ford-vörubíl, sem var í flutningum milli Sauðárkróks og Varmahlíðar. Jón var ekki búinn að taka ökupróf, svo hann bað mig um að aka fyrir sig, sem ég gerði um tíma. Síðar fór ég svo tvær vertíðar til Vestmannaeyja og ók vörubíl fyrir útgerð Gísla Jónssonar, en á bíln- um flutti ég fisk og bein. Ég vann svo eitt ár hjá Thor Jensen á Korpúlfsstöðum og upp úr því fór ég að hugsa um norður- ferðir. Ég réðist þá í það að kaupa mér hálfkassabíl af Chevrolet- gerð, sem tók 10—12 manns. Bíll- inn var með palli, sem byggt hafði verið yfir hér heima, og þótti þetta voða fínt. Byrjaði ég svo að flytja farþega norður í Skagafjörð og Húnavatnssýslu, en í þá daga var lítið farið á Akureyri, enda nær ófært á bílum þangað." Hvernig gast þú, ungur maðurinn, keypt þér bíl? nÉg var búinn að vinna lengi við plægingar á hestum sem ungling- ur á hverjum einasta bæ í Skaga- firði og var búinn að safna svolitl- um peningum og svo hjálpaði pabbi mér líka. En ég var fljótur að safna upp í þá skuld." Hvað var það sem dró þig að bíl- um á þessum árum? „Nú, ég vildi helst alltaf vera á ferðalögum, þó það væri bara á hestum. Pabbi var mikið á hesta- ferðalögum við landmælingar og fór ég oft með honum, en hann átti 80 hross." Hvers vegna fórst þú þá ekki í búskapinn? „Ég var ekki beint spenntur fyrir því, þó ég hafi alltaf átt skepnur, bæði hross og kindur." Varst þú einn um að aka í Skaga- fjörðinn? „Nei, við vorum tveir, hinn hét Pétur Sigurðsson frá Syðra-Vatni í Lýtingsstaðahreppi. Seinna kom svo Kristján Kristjánsson, sem rak Bifreiðastöð Akureyrar, inn á þessa leið. Kristján varð mjög um- svifamikill á norðurleiðinni. Hann var með 10—12 bílstjóra í vinnu auk þess sem hann átti drossíur, sem einnig voru hafðar í langferð- um. Kristján hafði aðstöðu bæði á Akureyri og í Reykjavík þar sem Hótel Esja er nú, en þar hafði hann verkstæði og innflutning á Ford-bílum. Eftir að BSA byrjaði að aka þessa leið, kom Kristján að máli við mig og vildi fá mig í vinnu til sín, því hann kærði sig ekki um samkeppnina. Ég seldi honum hálfkassabílinn og fór að vinna hjá honum á rútunum og þar var ég í 16 ár eða þangað til Kristján hætti." Hvaða leið fóruð þið norður? „Það var farið um Þingvöll upp hjá Skógarkoti og Hoppmannaflöt og svo norður Kaldárdal niður hjá Húsafelli og norður hjá Reykholti og svo auðvitað yfir Svignaskarðið og upp Norðurárdalinn, yfir Katt- arhrygg og svo norður úr. Seinna fór maður svo að aka til Akureyrar, eða upp úr 1930. En sú leið var afar erfið. Það var til dæmis ekki hægt að fara Öxna- dalsheiði í Giljareitinn nema aft- urábak, til að ná beygjunni. Það var 2—3 metra kafli, sem aka þurfti þannig, til að hægt væri að rétta bílinn betur af, svo aftur- hjólin færu ekki fram af, en fyrir neðan var snarbrött hlíð.“ Voru farþegarnir ekki hræddir? „Þeir fóru margir út úr bílnum á meðan og gengu þennan spöl. En það var svo sem ekkert að óttast og aldrei kom neitt fyrir." Hvernig voru vegirnir á þessari leið svona almennt? „Þetta voru mest moldargötur og maður þurfti oft að keyra á keðjum á sumrin, þegar aurdrull- an var mikil, en ók svo keðjulaus þegar þurrt var. Það kom oft fyrir að við festum okkur í forinni. En þá var ekki annað að gera en að grafa frá öllu saman, tjakka bíiinn upp á boddyinu og láta hjólin lyft- ast og púkka svo grjóti undir að aftan. Þannig reyndi maður að mjaka bílnum áfram, þangað til hann var laus úr drullunni. Þetta gat tekið helvíti langan tíma, ef það var fátt fólk í rútunni, en það þótti öllum sjálfsagt, sem voru í bílnum, að hjálpa til.“ Hvenær fóru svo vegirnir að skána? „Það var ekki fyrr en í kringum 1940, þá fóru að koma malarvegs- kaflar inn í verstu moldarvegina og eftir það fóru vegirnir skánandi og hafa aldrei verið betri en und- anfarin fimm ár.“ Lentuð þið aldrei i neinum svaðil- forum á þessum árum? „Ég get ekki sagt það, en maður lenti oft í vondum veðrum á Holtavörðuheiðinni. Einu sinni vorum við að koma tveir að norð- an og vorum með fullan bíl af fólki. Þá var það nokkuð nórðan við sæluhúsið, rétt sunnan við Konungsvörðu, sem kölluð var, að ég sagði við fólkið að ég væri hel- víti hræddur um að veðrið mundi herða, þegar ég tæki beygjuna upp úr, en það var oft hvasst á þessu svæði. Þetta var að haustlagi og kominn snjór utan með veginum. Við vorum þarna hver á eftir öðr- um og allt í einu snúumst við nær jafnt út af í einu. Það var andskot- ann ekki farandi út úr bílnum vegna hvassviðris, en við vildum þó freista þess að komast upp í sæluhúsið, en þangað voru 4—5 kílómetrar. Þaðan ætlu$um við að reyna að ná sambandi við setulið- ið, sem staðsett var i Reykjaskóla, en þeir voru oft hjálpsamir í svona tilfellum. Fólkið sat í bílunum meðan við fórum og var ekki í neinni hættu. Þegar við vorum komnir út, komumst við að raun um að varla var hægt að ganga þennan spöl vegna hvassviðris, svo við urðum að skríða nær alla ieið- ina. Þegar við vorum svo um það bil að komast að sæluhúsinu, þá snarlægir. Við hlupum þá aftur til baka og fórum að moka frá eins og vant var og höfðum bílana upp. — Maður mátti aldrei vera að hugsa um að gefa sig í þá daga. En svo voru það árnar, þær voru oft óbrúaðar og illar yfirferðar. Yfirleitt stoppuðum við aldrei í ánum, þessir sem voru á stóru bíl- unum, því við vorum alltaf þannig útbúnir. En maður gat lent í því að þurfa að hnýta í og draga aðra bíla upp og stundum voru það margir bílar í einu, sem við þurft- um að hjálpa, og tafði þetta okkur." Hvaða ár voru verstar? „Andakílsá var helvíti slæm, eins var vandræði að komast yfir Brynjudalsá í Hvalfirði. Erfitt var lika að komast yfir Fossá í Hval- firði þótt hún væri brúuð, því það var svo þröngt niður að brúnni." Hvernig fóruð þið í árnar? „Svona heldur á undanhaldi, svo straumurinn færi fremur á hlið bílsins, þá var minni hætta á að vatn kæmist inn á hann og dræp- ist á bílnum. Annars vorum við vanir að fylla kveikjuna af feiti, svo ekkert vatn kæmist þar að. Stundum gátum við keyrt fjörurn- ar, þegar það var háfjara, þá lent- um við á miklu grynnra svæði." Hvað tók ferðin svo langan tíma? „Tvo daga hvora leið. Þá var farið á einum degi frá Reykjavík til Blönduóss og gist þar, næsta dag var svo farið á Akureyri. í bakaleiðinni var fyrsta daginn farið að Reykjum í Hrútafirði og að Grænumýrartungu og gist þar á þessum myndarlegu sveitar- heimilum. Þaðan var svo farið til Reykjavíkur.“ Hvað undi fólk sér við á leiðinni? „Það talaði saman og stundum söng það sér til skemmtunar." Var fólkið ekkert að staupa sig i rútunni? „Nei, andskotinn, kannski ein- staka karl. Það stóð í bílnum að það væri bannað að reykja og drekka, en það var ekki alltaf far- ið eftir því, þó það væri býsna oft.“ Var BSA eitt um hituna á norður- leiðinni á þessum árum? „Já, lengst af eða þangað til við fengum samkeppni frá Bifreiða- stöð Steindórs, sem hafði aðallega stundað fólksflutninga fyrir sunn- an, þetta hefur líklegast verið 1943—’44. En upp úr því varð harðvítugur slagur um farþegana. Við hjá BSA reyndum eins og við gátum að ná í sem flesta farþega, og þar eð við höfðum fleiri rútur, gátum við látið eina rútuna fara á undan áætlun til að taka upp far- þega, sem biðu á vegarkantinum og verið þannig á undan Steindóri. Bílstjórarnir hjá Steindóri klög- uðu okkur fyrir lögreglunni og sögðu að við stælum frá þeim far- þegum og vorum við kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglunni á Akranesi. En við höfðum ekki brotið nein lög, maður opnaði bara bíldyrnar og sagði: „Gjörið þið svo vel,“ en allir vildu fara með okkur því fólkið þekkti okkur svo vel. Steindór hélt samkeppnina út í tvö sumur en gafst svo upp.“ Nú voru engar talstöðvar í bílun- um á þessum árum, hvað var tekið til ráða þegar billinn bilaði? „Þá var bara að komast í síma og alltaf var eitthvað af hinum bílunum í topplagi svo þeir gátu haldið áfram með farþegana. Þeg- ar einhver bílanna bilaði varð ég venjulega eftir til að gera við og sjá um að allt gengi vel, því ég sá um rútuna suður. Venjulega höfð- um við með okkur varahluti eins og drif og stimpla, kveikju og þess háttar. En ef vantaði stykki í bíl- inn, þá var sendur bíll með það og verkstæðismaður með og gert var við á staðnum. Meira að segja þeg- ar vélarnar brotnuðu, þá var kom- ið með nýuppsetta vél og vorum við þá búnir að kippa biluðu vél- inni úr og þá var bara að setja hina ofan í. Þetta gerðum við í nær hvaða veðri sem var og auð- vitað gat maður verið dofinn á höndunum, ef það var kalt, en það var þó furðu lítið, andskoti hvað maður þoldi þetta.“ Ég hef heyrt að þú hafir verið ein- stakur greiðamaður, alltaf tilbúinn til að hjálpa? „Já, það þýddi ekki annað, ef maður hefði alltaf sagt nei, þá hefði maður ekki verið lengi á sama stað." Kftir 16 ár hjá BSA fórst þú svo í Fornahvamm? „Já, þegar Kristján hætti vildi ég ekki halda áfram keyrslunni.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.