Morgunblaðið - 18.12.1983, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 18.12.1983, Blaðsíða 16
64 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 18. DESEMBER 1983 Minning: Eiríkur Jóhannes- son - skátaforingi Fæddur 9. september 1900 Dáinn 12. desember 1983 íslendingar fengu stjórnarskrá 1874. Þótt lítið pappírsblað væri, reyndist það þjóðinni töfragripur. Þá losnaði um fjötra erlends stjórnvalds, sem öldum saman hafði hert að, og úr læðingi leyst- ist innibyrgð orka þúsundanna. Alltaf síðan eru landsmenn önnum kafnir í tvíþættu starfi. Annars vegar í margþættri fram- farabaráttu á innlendum vett- vangi, og hins vegar áframhald- andi sókn að fullkomnu stjórnar- farslegu frelsi. Og baráttusveit- inni bættist liðsmaður þann 9. dag septembermánaðar aldamótaárið. Þá fæddist Eiríkur í baðstofunni í Skaftholti í Gnúpverjahreppi. Móðir hans var Margrét Jónsdótt- ir frá Álfsstöðum á Skeiðum, ætt- uð úr Árnesþingi, en faðirinn Jó- hannes Eggertsson, vefari. Jó- hannes var afkomandi Jóns Þor- valdssonar og Helgu Hákonar- dóttur í Deildartungu í Borgar- firði. Eiríkur var næst-yngstur sjö systkina, sem nú eru látin nema Þorgeir bóndi í Túnsbergi í Hrunamannahreppi. Eiríkur Jóhannesson ólst upp með góðu fólki að Reykjum á Skeiðum. Rómaði hann jafnan heimilisbrag allan á því mann- marga heimili og bar einkar hlýj- an hug til fósturforeldra sinna og uppeldissystkina. Arangur framfarabaráttunnar kom smátt og smátt í ljós. Þess nutu ungmennin í Skeiðahreppi, sem annars staðar, þar sem heima í héraði var vilji og atorka til um- bóta. Ný skipan kom á fræðslu- kerfið 1907, og Skeiðamenn reistu skólahús. Eiríkur sótti nám í hið nýja skólahús og lauk skyldunám- inu fermingarárið. Honum sóttist allt nám mjög vel, en hugann heillaði tónlistin. Næstu árin vann Eiríkur alla algenga sveitavinnu sem til féll, en las allt sem hann komst yfir. Vetrarlangt 1918 dvaldi hann í Reykjavík og kynnt- ist m.a. séra Friðrik Friðrikssyni, starfsemi KFUM og séra Sigur- birni Á. Gíslasyni. Eiríkur var þát.ttakandi í áfangasigri og fögn- uðinum sem fylgdi fullveldinu. Allt.af síðan virti hann r.ijög helgi fullveldisdagsins 1. desember. Þáttaskil urðu í lífi Eiríks, þeg- ar hann tvítugur að aldri kvaddi æskustöðvarnar og settist nem- andi í Lýðháskólann í Sunnmæri í Noregi. Gerðist það fyrir tilstilli séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar. Fjögurra ára dvöl við nám og störf átti á flestan hátt vel við skaphöfn hins unga manns. Vináttan og trúnaðurinn, sem hann ávann hjá góðu fólki í Noregi þessi námsár varð honum ómetanlegt. Aldrei hefur skuggi á þetta vináttusam- band fallið, en böndin styrkst með gagnkvæmum heimsóknum, síðast á nýliðnu hausti. Frá Noregi hvarf hinn ungi maður til ættlandsins. Þar vildi hann lifa og starfa, og þar átti hann eftir að leysa af hendi fjöl- margt í þágu lands og lýðs. Fæst af því verður hér talið, enda ekki að skapi Eiríks að tíundað sé. Um veturnætur 1925 fluttist Eiríkur til Hafnarfjarðar og þar var heimili hans alltaf síðan. Fyrsta áriö starfaði hann á vegum KFUM og K, en um páska 1927 varð hann starfsmaður St. Jós- efssystra, sem reist höfðu sjúkra- hús í Firðinum og starfrækt hafði verið misserislangt. Þar vann hann til dauðadags. f störfum Eiríks fyrir spítalann í hálfan sjötta áratug reyndi á fjölþætta hæfileika hans og stað- föstu lyndiseinkunn: Trúræknin, tónlistin, leiklistin, hjálpsemin, umburðarlyndið og félagshyggjan. Trú Eiríks á manninn og lífið, trúnaður hans við fósturjörðina og þjóðernið, allt þetta gerði hon- um kleift að inna af hendi hin margbreytilegustu störf. Og ætíð með þeirri glöðu þjónustusemi og ríku ábyrgðarkennd sem er aðal hins góða starfsmanns. Eiríkur „var alltaf viðbúinn". Og einu gilti í hverju störfin voru fólgin; kennslu á hljóðfæri og söng, garð- rækt eða gæslu sjúkra, aðstoð við lækna og hjúkrunarfólk, línþvott- ur, vélgæsla eða smíðar. Þó mun einn þátturinn í lífs- starfi Eiríks hafa verið honum kærastur, en það er þjónustan sem hann veitti í Guðshúsi sínu. Þar var hann kirkjuorganisti í 56 ár. Eiríkur fylgdist ætíð vel með öllu sem gerðist, bæði utan húss og innan. Hann lagði á ráð til um- bóta og bættrar starfsaðstöðu í spítalanum og gladdist yfir hverju því sem vel til tókst í þessu efni. f skjóli St. Jósefssystra hefur heimili Eiríks verið í hálfa öld. Þegar horft er til þess, starfs- vettvangsins í spítalanum og organistaþjónustunnar í kapell- unni má öllum ljóst vera, að sam- starf þeirra við Eirík hefur bæði verið langt og mikið, og kunnugt er að það hefur leitt af sér gagn- kvæma vináttu og traust. Nú, þegar Eiríkur Jóhannesson hverfur af vettvangi, færa St. Jós- efssystur honum innilegustu þakkir. Þakkir fyrir störfin hans öll í þeirra þágu, spítalans og hinnar Heilögu Kirkju Krists. Þakkir fyrir alla hans órofa tryggð og vinsemd í smáu og stóru og biðja honum blessunar Guðs hins hæsta um tíma og eilífð. Undir þessar þakkir og fyrirbænir taka einnig heilshugar þær Mercy-systur frá írlandi, sem eiga heima í spítalanum eða hafa verið þar lengur eða skemur. Samtök starfsfólksins við stofn- anir St. Jósefssystra í Hafnarfirði er átt hafa Eirík Jóhannesson að samstarfsmanni stuttan tíma eða langan, sakna nú góðs félaga og vinar, og vita, að vandfyllt verður í skarð drengskaparmannsins. En staðfesta jafnframt, að hann nú við hin miklu ferðalok, ásamt samfylgdarmönnum getur glaðst yfir því hversu vel hann hefur ávaxtað sitt pund á löngum, far- sælum starfsdegi. Framlag Eiríks Jóhannessonar til annarra velferðar- og menning- armála verður ekki rakið hér ít- arlega, enda þótt af því sé mikil og merkileg saga. En þrjátíu ára starf með Leikfélagi Hafnarfjarð- ar, á þeim tima sem það var og hét, og leikstjórn og leiðbeiningar með öðru leiklistarfólki krefst áhuga og fórnfýsi. Sama má segja um þann félagsskap sem Eiríkur nefndi „óskabarnið , Lúðrasveit Hafnarfjarðar. Þeim samtökum vann hann margt nytsemdarverk- ið, líka eftir að hann hætti að leika með á hljóðfæri. Rúmlega fertugur að aldri gerðist Eiríkur félagi í skátahreyfingunni. Kunn- ugir vita að hann var í raun skáti allt sitt líf. Starf Eiríks með skát- um, eldri sem yngri, gladdi aðra og veitti honum mikla ánægju. Hann vissi að skátasamtökin eru virkt afl öllum til mannbóta og því kaus hann aö leggja þeim liðsinni. Eiríkur Jóhannesson hefur aldr- ei sýnt linkind í liðssveit þeirri sem hann fæddist til fyrir áttatíu og þremur árum, eða brugðist því sem honum var til trúað, og hann lagði sig allan fram til að verja aðra því áfalli. Eiríkur Jóhannesson var þrek- legur meðalmaður á vöxt. Þykkur undir hönd, bjartur yfirlits, augun snör og skutu gneistum við skap- brigði, ennishár, munnsmár, bros- ið hlýtt en glettið. Yfirbragðið í heild lýsti hógværri skapfestu. Hann var kvikur á fæti lengst af, sjór af fróðleik, sögumaður ágæt- ur og skemmtinn, en einkar um- talsfrómur. Eiríkur Jóhannesson vann störf sin með ágætum allt til siðasta dags, hafi hann þökk fyrir sam- fylgdina. Öldnum bróður hans og öðru venslafólki vottast innileg samúð. Sig. Guðmundsson Hann Eiríkur okkar Jóhannes- son er látinn, farinn heim, eins og við segjum stundum skátarnir. Hann lést hinn 12. desember síðastliðinn, 83 ára að aldri. Lát hans þurfti því ekki að koma okkur á óvart, en samt er það nú svo, að það gerði það. Það var svo stutt síðan Eiríkur var með okkur með hýra brosið sitt, góðlátlegu kimnina og óbug- andi áhugann á skátastarfinu, fyrir heill og hamingju Hraunbúa og gæfu og gengis Hjálparsveitar- innar. Við skátarnir í Hafnarfirði munum hann Eirík. Hann var svo snar þáttur í hafnfirsku skáta- starfi, einn af hinum traustu hornsteinum sem félagsbragurinn og félagsandinn í Hraunbúum hvíldi á og mun gera enn um langa framtíð. Ljósálfum og ylfingum var hann uppspretta skátaanda og skyldu- rækni. Skátunum var hann félagi og vinur, alltaf viðbúinn að vekja gleði og góðvild, hlýja hugsun, söng og líf. Hjálparsveitinni var hann tákn hins trausta og trúa skáta, sem aldrei gleymdi kjarna og lífsvið- horfi skátahreyfingarinnar, — brautryðjandans sem ávallt var reiðubúinn að hjálpa öðrum, miðla oðrum og leggja sig fram um að vera alltaf og ævinlega viðbúinn, að bregðast fljótt og vel við hverj- um þeim vanda sem að höndum bæri. Þannig var hann sjálfur bæði hreinn og heilsteyptur í orðum og öllum verkum allt til hinsta dags, vakandi og sívinnandi að öllu sem miðaði að meira manngildi, dreng- skap og dug. Við munurn hann Eirík með gít- arinn við eldinn, syngjandi skáta- söngva, stundum að kenna okkur nýjan skátasöng, sem hann hafði búið til. Við munum góðlátlegu gaman- semina hans, glettið blik í auga, hlýja handtakið og orð hans við kulnaðar glæður varðeldsins, til þess sögð að efla skátaandann, hjálpsemina, réttsýnina, tilfinn- inguna fyrir landi okkar, náttúru- fegurð þess, gögnum og gæðum og til þess að vekja lotningu og trú á honum sem öllu ræður og allt þetta hefur skapað. Og við munum hann Eirík á vormótunum í Krýsuvík, á skáta- mótum hérlendis og erlendis, út- deilandi kakói og góðu skapi, hlé- drægur og allt að því feimnislegur, en þó svo nálægur og hlýr. Ji, þessir dagar, þeir koma í huga [mér enn, já, þessa daga, þá muna fullorðnir [menn. Þótt árin líði er andinn þó samur [ogjafn. Sem skátar og vinir vift eigum margt yndilegt minningasafn," sagði Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi á Akureyri í einum sinna skátasóngva. Þetta á svo víða vel við og kemur í hugann nú þegar við Hraunbúar kveðjum Eirík Jóhannesson hinstu kveðju. Með honum er genginn góður drengur, en eftir lifir minningin um ómetanlegan félaga, vin og mannræktarmann. Nú eru komin leiðarlok. Eiríkur er farinn heim. Hraunbúar og Hjálparsveitarmenn í Hafnarfirði þakka honum fyrir langa og góða samfylgd, já fyrir allt og allt. Guð blessi minningu þessa góða skátabróður okkar. Með skátakveðju. F.h. Skátafélagsins Hraunbúar og Hjálpar- sveitar skáta í Hafnarfirði, Hörður Zóphaníasson. Sunnudaginn 11. desember hringdi ég til vinar míns, Eiríks Jóhannessonar, til þess að bjóða honum með okkur hjónunum að Skátalundi, skála St. Georgsskáta við Hvaleyrarvatn. Sagði hann mér þá að hann væri lasinn og kæmist ekki með. Morguninn eftir frétti ég að Eiríkur hefði látist þá um nóttina. Eiríkur á spítalanum, eins og hann var kallaður meðal kunn- ingja sinna, fluttist ungur til Hafnarfjarðar eftir að hafa verið í skóla í Noregi, þar sem hann eign- aðist trausta og góða vini er hann ræddi oft um, þar upplifði hann sina rómantík og unaðsstundir. Hann heimsótti Noreg og vini sína þar eins oft og honum var unnt, hann hafði unun af því að segja vinum hér heima ferðasöguna og sýna þeim myndir þaðan. Fljótlega eftir að St. Jósefssyst- ur reistu sjúkrahús í Hafnarfirði fékk Eiríkur starf við sjúkrahúsið og var hann svo lánsamur að geta starfað þar til dauðadags, eða í rúm fimmtíu ár, við vinsældir vinnufélaga og sjúklinga. Ég kynntist Eiríki á mínum unglingsárum er ég starfaði með bróðursyni hans, sem bjó hjá Ei- rfki í litla húsinu á Suðurgötu 43. Þar var gott að koma og voru oft margir ungir menn þar saman- komnir. Ég minnist þess að þar lærði ég að spila bridge og vorum við oft við þá iðju á heimili Eiríks. Nokkru fyrir 1950 gekk Eiríkur í skátafélagsskapinn og störfuðum við þar mikið saman, því Eiríkur varð strax einn af máttarstoðum þess félagsskapar. Hann starfaði mikið fyrir skátana og átti stóran þátt í því að „Hressingarskáli Hafnarfjarðar" við Strandgötu var keyptur og gerður að skáta- heimili er nefnt var Hraunbyrgi. Erfiðlega gekk með rekstur Hraunbyrgis og man ég sem þá var gjaldkeri félagsins að margan reikninginn greiddi Eiríkur úr eigin vaaa, en laun hans voru aldr- ei mikil í krónum talið. Er stofnuð var deild St. Georgs- skáta hér í Hafnarfirði var Eirík- ur einn af hvatamönnum og drif- fjöður þess. Hann varð Gildis- meistari hér í Hafnarfirði og síð- an Landsgildismeistari og fórst honum það vel úr hendi. Eiríkur hafði með vörslu Skátalunds að gera, allt frá byggingu skálans og var unun að sjá hve vel hann hugsaði um skálann og hve hann undi sér þar. Eirfkur var einstakt prúðmenni, ljúfmenni og barngóður með af- brigðum, hann var ungum mönn- um til fyrirmyndar og væri vel ef við ættum sem flesta með fram- komu hans. Hann var mikill mús- ikmaður, m.a. spilaði hann á orgel, var organisti í kirkju St. Jósefs- systra. Þá var hann einn ötulasti félaginn í Lúðrasveit Hafnarfjarð- ar, hann spilaði á gítar og stjórn- aði söng bæði á varðeldum, kvöld- vökum og öðrum skemmtunum. Einnig var hann vel hagmæltur og eru ótal skátasöngvar eftir hann. Ég og kona mín þökkum Eiríki alla hans velvild og góða vináttu er við þáðum af honum, ættingj- um og vinum hans vottum við samúð. Eiríkur á örugglega góða heim- komu. Guð blessi hann. Ólafur K. Guðmundsson Elsti félagi okkar, Eirikur Jó- hannesson, er fallinn frá. Ferill Eiríks sem skáta var óvenjulegur, því hann var orðinn 45 ára þegar hann varð skáti og starfaði hann síðan óslitið til dauðadags í Hraunbúum, Hjálpar- sveitinni og f Gildinu, einnig var hann virkur Gilwellskáti. Hann var einn af aðalhvata- mönnum þess að St. Georgsgildi væri stofnað hér í Hafnarfirði ár- ið 1963, en þá höfðu verið stofnuð gildi í Reykjavfk og á Akureyri. St. Georgsgildin hafa það m.a. að markmiði að styðja við og styrkja skátastarf hvert í sínu byggðarlagi og eru hluti af alþjóð- legum samtökum eldri skáta og annarra velunnara skátahreyf- ingarinnar. Gildin stofnuðu með sér lands- samband, Landsgildið, og var Ei- ríkur Landsgildismeistari 1965— 1969. Það þótti sjálfsagt að fela Eiríki forystu fyrir gildinu og stjórnaði hann því fyrstu fjórtán árin á sinn hógværa og jákvæða hátt. Hann var óþreytandi í því að beita sér fyrir og vinna að hinum ýmsu verkefnum til styrktar hinu almenna skátastarfi. Árið 1966 byggði gildið skála við Hvaleyrarvatn, og hefur hann ver- ið mikið notaður af yngri skátum. Eiríkur var frá upphafi aðalum- sjónarmaður skálans og nú allra sfðustu árin, eftir því sem heilsa og aldur hans leyfðu, en hann var oröinn 83 ára gamall er hann lést. Heiðursfélagi Hafnarfjarðar- gildisins var hann kjörinn á 15 ára afmæli þess 1978. Stjórn Bandalags íslenskra skáta sæmdi Eirík æðsta heiðurs- merki hreyfingarinnar, Skáta- kveðjunni, árið 1980 fyrir fram- úrskarandi störf í þágu skáta- hreyfingarinnar. Eirfkur var glaðvær og hafði mikið yndi af söng og tónlist. Hann samdi lög og fjölmörg skátaljóð, sem mikið eru sungin þar sem skátar koma saman. Okkur eru ofarlega i huga þær stundir þegar Eiríkur sat með gít- arinn og kenndi ný lög og ljóð og stjórnaði söng. í ítarlegu blaðaviðtali, sem birt- ist í Borgaranum árið 1977, sagði Eiríkur m.a.: „Ég vona ég verði ekki svo gamall, að ég geti ekki lagt skátahreyfingunni lið." Hon- um varð vissulega að ósk sinni, því að þrátt fyrir háan aldur auðnað- ist honum að sinna áhugamálum sínum og starfi fram á síðasta dag. Hópurinn, sem nú kveður góðan vin og félaga, er fátækari en áður en minningin um góðan dreng mun lifa. Við þökkum honum brautryðj- endastarfið og samfylgdina. Gildisfélagar í Hafnarfirði. Eiríkur Jóhannesson er „farinn heim" eins og sagt er á skátamáli, ef til vill á það ekki að koma nokkrum manni á óvart að maður nokkuð á níræðisaldri kveðji þennan heim, en þegar verið var með Eiríki datt engum aldur í hug. Hann var einn þeirra fágætu manna, sem aldrei virðast eldast. Eftir að Eirikur kynntist skáta- hreyfingunni var hann alla tíð sannur skáti og starfaði af lífi og sál. Árið 1981 var hann þátttakandi í alþjóðaþingi St. Georgsgilda í Frakklandi og tók þátt í þriggja vikna hringferð um Frakkland og Lúxemborg, en ekki var hann fyrr lentur á íslandi en hann tók sér flugfar til Akureyrar til að taka þátt í landsmóti skáta í Kjarna- skógi. Nú síðast, fyrir um þremur vik- um, aðstoðaði hann Björgvin Magnússon við foringjanámskeið á Ulfljótsvatni á vegum nýstofn- aðs Skátasambands Kjalarness- þings. Eiríkur hefur frá upphafi verið einn af máttarstóplum St. Georgsgildanna á íslandi. Hann var Landsgildismeistari árin 1%5—1969 og ritstjóri Bálsins um árabil. Það mun hafa verið eitt af hans síðustu verkum er hann fyrir nokkrum dögum ritaði grein og orti ljóð til birtingar í jólablaði Bálsins í tilefni tvítugsafmælis Landsgildisins. Við færum Eiríki bestu þakkir fyrir heilladrjúg störf í þágu skáta og gildishreyfingar og óskum hon- um góðrar heimferðar. St. Georgsgildin i íslandi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.