Morgunblaðið - 24.02.1984, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 24.02.1984, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 24. FEBRÚAR 1984 Þingflokkur íhaldsflokksins. Jón Þorláksson og íhaldsflokkurinn eftir Hannes H. Gissurarson Árið 1924 er eitt merkilegasta árið í stjórnmálum íslendinga á þessari öld. Ber einkum til þess stofnun íhaldsflokksins hinn 24. febrúar 1924 ásamt þeirri tilraun, sem síöan var gerð undir forystu Jóns Þor- lákssonar til að snúa við þróuninni til aukinna ríkisafskipta, en hún tókst í sumu og mistókst í öðru. í stuttri blaðagrein verður þessi saga ekki rakin nema lauslega, en fullt tilefni er til að minnast íhalds- flokksins á sextíu ára afmæli hans, þótt hann hyrfi inn í Sjálfstæðis- flokkinn fimm árum eftir stofnun- ina. Aðdragandinn að stofnun íhaldsflokksins Með stjórnarskrárbreytingunni 1915 voru nýjar leikreglur settar í íslenskum stjórnmálum, fjöldi kjósenda bættist við, landskjör hófst. Sú hugmynd hafði og borist til landsins, að einstakir hópar gætu bætt kjör sín með því að skipuleggja harðsnúið lið tii stjórnmálabaráttu og grípa ríkis- valdið. Samkvæmt þessari hug- mynd gegndi ríkið ekki svipuðu hlutverki og dómari í knatt- spyrnukeppni, heldur hlutverki verkstjóra yfir vinnuflokki, er skipti með mönnum verkum og skammtaði þeim kjör. Samkvæmt henni voru menn ekki einstakl- ingar, heldur hópverur — bændur, verkamenn eða efnamenn. Jónas Jónsson frá Hriflu og ólafur Frið- riksson höfðu farið á skyndinám- skeið í hinstu rökum tilverunnar í útlöndum, komið hugfangnir heim og tekið til óspilltra málanna: Jón- as við að skipuleggja bændur, ólafur verkamenn, í stéttarflokka. En til voru þeir, sem héldu fast í þá viðteknu hugmynd heima- stjórnaráranna, að atvinnulífið gæti vaxið af sjálfu sér, ef ríkið léti það í friði, að hver væri sinnar gæfu smiður, að menn ættu að bæta kjör sín sjálfir, gera fremur út á fiskimiðin en ríkissjóð. Skáld þessarar gömlu og góðu skoðunar voru þeir Jón Trausti og Guð- mundur Friðjónsson. Jón Trausti hæddist í skáldsögunni Bessa Jón Þorláksson gamla árið 1918 að jöfnunarsinn- um: Upp með dalina! Niður með fjöllin! Guðmundur orti um sjálf- stætt fólk, sem sótti það eitt til annarra, er það gat greitt fyrir — svo sem ekkjur, sem lögðu metnað sinn í að koma börnunum upp án hjálpar. ríkis eða sveitarfélags, en stofnuðu ekki stéttarfélög eða skrifuðu lesendabréf í blöð. Þetta fólk hafði íslendingseðlið — það eðli, sem hafði rekið menn til ís- lands á níundu öld undan ofríki og ofsköttun Haralds lúfu. Stjórnmálamaður þessarar skoðunar var umfram allt Jón Þorláksson, 47 ára gamall, þegar hér var komið sögu, dúx í skóla, einn fyrsti verkfræðingur lands- ins, náinn samverkamaður Hann- esar Hafsteins, síðan kaupmaður í Reykjavík, orðinn einn efnaðasti maður höfuðborgarinnar vegna einstakrar eljusemi og hagsýni. Hann hafði ásamt fleiri forkum í verslun og útgerð — mönnum, sem höfðu hafist til efna og áhrifa af dugnaði, en ekki orðaflaumi eins og Jónas Jónsson og Ólafur Frið- riksson — skipulagt kjósendafélag í Reykjavík í lok fyrri heimsstyrj- aldarinnar, þegar hætt þótti við, að jöfnunarsinnar næðu meiri- hluta í bæjarstjórn. Þetta félag var Sjálfstjórn, en segja má, að það sé hið reykvíska upphaf að lhaldsflokknum og síðan Sjálf- stæðisflokknum. (Nafnið var sett saman úr nöfnum beggja hinna gömlu flokka, Sjálf-stæðisflokks- ins og Heima-stjórnar-flokksins.) Erindi Jóns Þorláks- sonar í Bárubúð Heimsstyrjöldin fyrri kom miklu ólagi á fjármál og pen- ingamál á íslandi eins og annars staðar. Þegar í upphafi styrjaldar- innar hvarf íslandsbanki, þáver- andi seðlabanki, af gullfæti. Þetta merkti, að bankinn þurfti ekki lengur að miða seðlaútgáfu við gullforða, og hafði þær afleið- ingar, að seðlaútgáfa stórjókst og við það verðbólga, en hún var um 60% árið 1917. Afskipti ríkisins af viðskiptum jukust, ýmis höft voru sett, einkasölur ríkisins stofnaðar. Mikil lausung var og í stjórnmál- um, stéttarflokkar þeirra Jónasar Jónssonar og ólafs Friðrikssonar létu ófriðlega, en ekkert eitt afl var til viðnáms. Frá 1917 voru hér samsteypustjórnir, fyrst undir forystu Jóns Magnússonar, síðan Sigurðar Eggerz, reikular í ráði, en enginn einn samstilltur þing- meirihluti. Jón Þorláksson settist á þing ár- ið 1921 og hóf þegar að skipu- leggja flokk, er gæti markað sömu aðhaldsstefnu í fjármálum og pen- ingamálum og fylgt hafði verið á landshöfðingjatímabilinu og heimastjórnarárunum. Hann var sannfærður um það, að leiðina úr fátækt í bjargálnir gætu einstakl- ingarnir úti í atvinnulífinu miklu betur varðað með hugviti sínu en ríkið. Þessi flokkur, sem var í fyrstunni mjög lauslegur, gekk undir nöfnunum Sparnaðarbanda- lagið og Borgaraflokkurinn. Eftir kosningarnar 1923 voru þeir menn margir á þingi, sem höfnuðu hinni nýju hugmynd þeirra Jónasar Jónssonar og Ólafs Friðrikssonar um harðari stéttabaráttu og víð- tækari ríkisafskipti. Og síðan var það, að Jón Þorláksson flutti er- indi undir heitinu „Fjárstjórn fs- lands 1874-1922“ í Bárubúð í Reykjavík hinn 14. febrúar 1924. f því rakti hann í sundur ríkisreikn- ingana, sýndi, að ríkið hafði verið rekið af gætni á árunum fyrir um 1916, en síðan með miklum og jafnvel vaxandi halla. Þetta gerði hann með glöggum rökum og í Ijósu máli eins og honum var lag- ið. Erindið var sannkallað þrek- virki, vakti mikla athygli og varð til þess, að 20 þingmenn stofnuðu flokk til viðreisnar með yfirlýs- ingu 24. febrúar, en Jón var kosinn formaður hans. f þessum flokki voru ýmsir framkvæmda- og menntamenn: Björn Kristjánsson, bankastjóri og kaupmaður, Ingi- björg H. Bjarnason skólastjóri, Jón Ólafsson í útgerðarfélaginu Alliance, Jón Magnússon, fyrrver- andi forsætisráðherra, Magnús Guðmundsson skrifstofustjóri, dr. Magnús Jónsson dósent og margir fleiri. Stjórn íhalds- flokksins 1924—1927 Miklu máli skiptir að skilja, að íhaldsflokkurinn var annars eðlis en Framsóknarflokkur Jónasar Jónssonar og Alþýðuflokkur Ólafs Friðrikssonar. Hann var ekki stofnaður í því skyni að grípa ríkisvaldið og beita því til hags- bóta einhverri einstakri stétt, heldur til þess að koma lagi á rekstur ríkisins, peningamál og fjármál, og til þess að minnka af- skipti ríkisins af atvinnulífinu, ekki síst með því að létta höftum af og leggja einkasölur niður. Hann var með öðrum orðum ekki stofnaður í hugmyndafræðilegum tilgangi í sama skilningi og stétt- arflokkarnir, þótt stofnendur hans deildu flestir eða allir sömu skoðun á eðlilegri verkaskiptingu ríkis og markaðar. Heili Jóns Þorlákssonar var áttaviti hins nýja flokks, og hann var formaður hans. Því hefði mátt ætla, að hann yrði forsætisráð- herra þeirrar stjórnar, sem flokknum var falið að mynda. Svo varð þó ekki. íhaldsflokkurinn hafði ekki á að skipa nema 20 þingmönnum af 42 og varð því að leita stuðnings nokkurra utan- flokksþingmanna. Hann fékk þennan stuðning, en gegn því, að Jón Magnússon yrði forsætisráð- herra. Jón var mannasættir, greindur maður og gegn, en lítill skörungur, ekki eins „umdeildur" og nafni hans Þorláksson. Jón Þorláksson varð fjármálaráð- herra, en Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Næstu þrjú árin var síðan unnið að því að koma á festu í fjármálum og pen- ingamálum þjóðarinnar, snúa við þróuninni til aukinna ríkis- afskipta. Jón þurrkaði upp það skuldafen, sem fyrri stjórnir höfðu sökkt sér í, höftum var létt af, einkasölur voru lagðar niður og gengi krónunnar var fest. Ihaldsflokkurinn hlaut nafn sitt af því, að hann hugðist halda í út- gjöld ríkisins, gæa hófs. Slík stefna er alltaf vandskýrð. Menn einblína á það, sem stjórnir gera, en sést yfir hitt, hvað einstakl- ingarnir geta gert, ef stjórnir láta það ógert. Sagnfræðingar, sem skrifa af mikilli hrifningu um framkvæmdasama stjórnmála- menn, gleyma því stundum, til hvers annars hefði mátt nota féð, sem þessir stjórnmálamenn not- uðu til að reisa sér minnismerki. Þeim sést yfir hina „ósýnilegu hönd“ markaðarins, sem Adam Smith nefndi svo: hávaðalaus og nauðungarlaus viðskipti einstakl- inganna. Jón Þorláksson vissi, að hann var ekki að fara með eigið fé sem stjórnmálamaður. Hann var ekki gefinn fyrir það að gera góðverk á kostnað annarra eins og sumir stjórnmálamenn á okkar dögum. Hann skildi, að stjórnviska fólst í því að láta það ógert, sem ein- staklingarnir geta gert miklu bet- ur af sjálfsdáðum en stjórnmála- mennirnir fyrir þá. Hann átti það til að vitna í þau orð William Gladstones, að peningarnir væru miklu betur komnir í vösum borg- aranna en í greipum stjórnmála- mannanna, en hagfræðileg rök sótti hann einkum til hins heims- kunna sænska vísindamanns Gustav Cassels. Stefnu sína skýrði hann frábærlega í áðurnefndu er- indi, einnig í ritinu Lággenginu, sem hann gaf út haustið 1924 um peningamál, og í tveimur ritgerð- um, „íhaldsstefnunni" frá 1926 og „Milli fátæktar og bjargálna" frá 1929. Tókst tilraunin? Sú tilraun, sem gerð var á árun- um 1924—1927, tókst í mörgu. íhaldsstjórnin var viðreisnar- stjórn. Jón Þorláksson, sem bætti við sig forsætisráðherrastarfinu við lát Jóns Magnússonar 1926, skilaði hallalausu ríki, traustum gjaldmiðli, frjálsara atvinnulífi, víðara svigrúmi einstaklingsanna árið 1927. Þetta hafði reynst heillaspor, þróuninni til aukinna ríkisafskipta hafði verið snúið við. En ekki verður annað sagt en til- raunin hafi mistekist í öðru. Mestu máli skiptir, að íhalds- flokkurinn tapaði kosningunum 1927. íhaldsflokkurinn varð ekki varanlegur á vettvangi stjórnmál- anna, hann sameinaðist Frjáls- lynda flokknum í Sjálfstæðis- flokknum 1929. Hvað hafði mis- tekist? Verið getur, að tap íhalds- flokksins hafi verið óhjákvæmi- legt í einum skilningi. Hugmynd Jónasar Jónssonar og Ólafs Frið- rikssonar var þá rísandi, en hin gamla og góða hugmynd heima- stjórnaráranna, frjálshyggjan, hnígandi, þótt þetta hafi snúist við á okkar dögum. Eftirspurn eft- ir atvinnufrelsi var þá minni en framboð þess, ef svo má segja. Mér sýnist, að tvær aðrar ástæður hafi líklega verið til taps íhaldsflokksins. í fyrsta lagi hafi áróður flokksins verið klaufa- legur, talsmenn hans kunnu ekki að hrífa unga fólkið, héldu ekki fimlega á vopnum í hinni nýju baráttu, mættu ekki hugmynd með hugmynd. í öðru lagi hafi flokkurinn skaðast á því, að ýmsir menn stóðu utan hans, Jakob Möller, Sigurður Eggerz, Benedikt Sveinsson og fleiri, sem mynduðu síðan Frjálslynda flokkinn. Hvað olli þessu? Sennilega það hvort tveggja, að væringarnar, frá heimastjórnarárunum voru ekki gleymdar og að Jón Þorláksson og stuðningsmenn hans voru ekki mjög hrifnir af fjármálastjórn Sigurðar Eggerz á árunum fyrir 1924. í þessu viðfangi má minnast á þrjár söguskoðanir, sem eru í meira lagi hæpnar. Hin fyrsta er, að Jónas Jónsson frá Hriflu hafi verið höfundur íslensku flokka- skiptingarinnar. Þetta er alrangt. Að sjálfsögðu er enginn einn mað- ur höfundur hennar, en Jón Þor- láksson kemst þó miklu nær því að vera það en Jónas. Hann skipu- lagði fjölmennari og öflugri flokk og hafði miklu skýrari hugmyndir um flokkaskiptinguna. önnur söguskoðun er, að íhaldsflokkur- inn hafi tapað kosningunum 1927 vegna gengishækkunarinnar 1925. Þetta fær alls ekki staðist. Hvers vegna vann flokkurinn landskjörið 1926, ef svo var? Og hvaða fylgi tapaði hann vegna hennar? Fylgi útgerðarmanna? Þriðja söguskoð- unin er, að fhaldsflokkurinn hafi verið íhaldsflokkur og Frjálslyndi flokkurinn frjálslyndur flokkur í hinni venjulegu stjórnfræðilegu merkingu þessara orða. En sann- leikurinn er sá, eins og ráða má af ritum þessara tveggja flokka, að íhaldsflokkurinn var í rauninni frjálslyndur flokkur eða frjáls- hyggjuflokkur og Frjálslyndi flokkurinn íhaldsflokkur! íhalds- flokkurinn aðhylltist atvinnufrelsi og alþjóðahyggju, en Frjálslyndi flokkurinn þjóðernishyggju. Segja má, að stofnun Sjálfstæð- isflokksins hinn 25. maí 1929 hafi fremur falist í nafnbreytingu íhaldsflokksins en sameiningu við Frjálslynda flokkinn, svo áhrifa- lítill sem sá flokkur var orðinn. En íhaldsflokkurinn reyndist þrátt fyrir það áfangi, ekki leiðarendi, myndun borgaralegs fjöldaflokks var ótrúlega torsótt á íslandi. En við, sem horfum á íhaldsflokkinn úr sextíu ára fjarlægð, ættum að meta þá menn að verðleikum, sem tóku undir forystu Jóns Þorláks- sonar til varnar hinni gömlu og góðu íslensku hugmynd um traust ríkisvald, en takmarkað, og sæmi- legt svigrúm einstaklinganna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.