Morgunblaðið - 30.07.1985, Síða 20

Morgunblaðið - 30.07.1985, Síða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 30. JÚLÍ 1985 Gera þeir gys að Hæstarétti? — eftirSkafta Jónsson Það ætti að vera grundvallar- regla, að maður sem brotið er gegn geti leitað réttar síns, án þess að leggja eigið mannorð og sinna nánustu að veði og eiga á hættu á rógsherferð. Því virðist þó ekki að heilsa, ef brotamaður er úr lögreglunni í Reykjavík. Það er að minnsta kosti með ólíkindum, hversu menn á öllum stigum máisins, sem kallað hefur verið „Skaftamál“ en ætti frekar að kalla „löggumál“, hafa lagt sig fram um að gera mig tortryggi- legan og koma á mig því orði að ég sé ofstopamaður, sé laus höndin, sé slæmur faðir og fleira í þeim dúr. Ófrægingarherferð Ekki er nokkur vafi á því, að ófrægingarherferð þessi er sprott- in úr búðum lögreglunnar og Jóns Oddssonar, hæstaréttarlögmanns, sem í þessu máli varði stjúpson sinn. Þarf ekki að benda á annað en frásagnir af málflutningi fyrir sakadómi og Hæstarétti, greina- skrif og lesendabréf. Sérstaklega er vert að benda á grein Ragnheiðar Davíðsdóttur, lögreglukonu, í DV um daginn, þar sem hún gefur sér forsendur um hvern mann ég hafi að geyma. Sama má segja um viðtal við rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, sem birtist í Morgunblaðinu í fyrra, nýlega viðtöl við formann Lögreglufélags Reykjavíkur og viðtöl við Jón Oddsson, hæstarétt- arlögmann, í Helgarpóstinum. Tilgangur þessarar herferðar er aðvörun til borgaranna. Það á að kenna okkur í eitt skipti fyrir öll, að það borgar sig ekki að fara í mál við lögregluna, það er of dýru verði keypt. Til hvers leiðir það? Lögreglan getur ætíð hagað sér að vild, án þess að nokkur leggi í að amast við háttsemi hennar. Hvar er réttaröryggið þá? Með ólíkindum er að fylgjast með viðbrögðum lögreglumanna við dómi Hæstaréttar. Eina álykt- unin, sem hægt er að draga af þeim, er, að þeir hafi talið sig „ósnertanlega" með öllu. Raunar segir Einar Bjarnason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, það í viðtali við Morgunblaðið um síð- ustu helgi, og er það áréttað í leið- ara blaðsins á þriðjudaginn var, þar sem niðurstöður Hæstaréttar eru vægast sagt frjálslega túlkað- ar. Hvað vakir fyrir leiðarahöf- undi veit ég ekki, en hann klippir út úr dómnum og setur í gæsa- lappir það, sem sýnir mig í sem verstu ljósi. Svo setur hann fram fullyrðingu eins og þessa: „Hlut- verk lögreglunnar er oft vanþakk- látt. Leiða má rök að því, að i Skaftamálinu hafi lögreglumaður- inn verið dæmdur fyrir að gæta þess ekki nægilega vel, að sá sem kærði hann fyrir hrottaskap, færi sér ekki að voða.“ Þarna er ekki lítið sagt, og sú spurning hlýtur að vakna á hvaða forsendu hægt sé að leiða rök að slíku. Mér er ekki kunnugt um að neitt slíkt hafi komið fram í for- sendum dómsins. Hins vegar er þetta það, sem Jón Oddsson hefur lagt hvað ríkasta áherslu á í málflutningi sínum, samtímis því sem hann rifjaði upp bernskubrek mín og hverjir ófriðarins menn faðir minn og bróðir væru, enda sagði ríkissaksóknari fyrir Hæstarétti, að verjandinn hefði tileinkað sér starfsaðferðir er- lendra óvandaðra starfsbræðra sinna sem hefðu atvinnu af því að verja stórglæpamenn. Hefði kosið frið Ég hefði kosið að friður ríkti um Hæstaréttardóminn og skil raun- ar ekki af hverju forsvarsmenn lögreglumanna og Jón Oddsson kusu það ekki líka. Ég tel að þeir megi afar vel við una, því að í dómnum, eins og auðvitað verður að vera, endurspeglast framar öllu öðru sú meginregla, að allur vafi eigi að skýrast sakborningi í hag. Dómurinn telur „viðurhlutamikið" að ýmsir hlutir séu nægilega sannaðir og svo framvegis, en tel- ur þó mína frásögn af ofbeldis- verkinu trúverðuga. En fyrst aðrir hafa orðið til þess að gagnrýna og rangtúlka dóminn leyfi ég mér að nefna þau atriði sem ég á erfitt með að sætta mig við, en það er hversu lítið er gert úr framburði hlutlausra vitna að handtökunni í Leikhúskjallaran- um. Þau báru öll, að ég hefði verið rólegur og á leið út þegar lögregl- una bar að garði. Framburður lögreglumannanna og starfsfólks skemmtistaðarins virðist einn lagður til grundvallar. Hér hlýtur Hæstiréttur að vera að undir- strika vald lögreglumanna til að handtaka menn og krefja þá skýr- inga eftir á, það er, að borgurum beri i einu og öllu að hlýða kalli lögreglu. Út af fyrir sig er það sjónarmið, sem ég hef oft fengið að heyra, en hins vegar fæ ég ekki skilið að ekki sé vitnað til annarra vitnis- burða um mína háttsemi. Nægir í því sambandi að benda á vitnis- burð Jóhönnu Jónasdóttur og Mal- inar Örlygsdóttur, sem gátu ekki orða bundist þegar þær sáu frétta- tilkynningu Rannsóknarlögreglu ríkisins í blöðunum. Viðtal við þær birtist í DV í desember 1983, nokkrum vikum eftir atburðina. Vandkeyrð salatfot í viðtölum við Einar Bjarnason kemur fram, að ákærðu í málinu hafi orðið fyrir mikilli mannorðs- árás. Mér finnst þess vegna ástæða til að það komi fram, að hvergi nokkurs staðar í umfjöllun Skafti Jónsson „Meö ólíkindum er að fylgjast með viðbrögö- um lögreglumanna viö dómi Hæstaréttar. Eina ályktunin, sem hægt er aö draga af þeim, er, að þeir hafi talið sig „ósnertanlega“ meö öllu.“ fjölmiðla hef ég orðið þess áskynja, að um lögreglumennina sem slíka hafi verið fjallað. Ein- stökum atburðum hefur verið lýst, en ekkert verið gert til að draga fram í dagsljósið, hvort mennirnir eru ofstopamenn, ábyrgðalausir í einkalífi, eða yfirleitt hvernig þeir eru í sínu daglega lífi. Einnig héldu fjölmiðlar yfir þeim vernd- arhendi, sem var sjálfsagt mál, með því að birta ekki nöfn þeirra fyrr en opinber ákæra var gefin út. Ég held að það væri fróðlegt fyrir ýmsa, sem hafa tjáð sig opinberlega um þetta mál, að bera mannorðsárásina á þá saman við umfjöllun um mína persónulegu hagi, fjölskyldutengsl og fleira, sem komið hefur frá Jóni Odds- syni, stjúpfoðurnum og verjandan- um. Einar Bjarnason, og raunar Morgunblaðið í leiðara, hafa klif- að á því, að eftir þennan dóm sé sýnt, að réttarstaða lögreglu- manna sé svo óviss, að ekki sé við unandi. Mér hefur verið sagt, af mönnum sem þekkja vel til, að engin stétt njóti jafn styrkrar réttarstöðu og lögreglumenn. Þeir eru opinberir starfsmenn og njóta allra réttinda sem sllkir. Einnig kveða lög á um ríkara ör- yggi þeim til handa en almennt tíðkast. „Lögreglumenn eiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns,“ segir í lagagrein. Lögreglumenn hafa líka haldið því fram, að niðurstaða Hæsta- réttardómsins hljóti að kalla á aukið mannahald, því að fleiri menn þurfi í útköll, ef svo rík skylda sé lögð á lögreglumenn varðandi gæslu handtekinna. Með þetta í huga skýtur það óneitan- lega dálítið skökku við, að í málinu sem hér um ræðir, sátu tveir lög- regluþjónar í rólegheitum frammi í bílnum meðan aðeins einn lúskr- aði á mér „af gáleysi" aftur í. Hefði ég í raun og veru verið hættulegur umhverfi mínu og sjálfum mér, þar sem ég lá hand- járnaður á gólfi bílsins, hefði ekki verið eðlilegra, að tveir menn hefðu „gætt“ mín og aðeins einn setið frammí? Kannski eru salat- fötin svo vandkeyrð, að tvo þurfi til? Samskotin á lögreglustödinni Ekki síst hafa lögreglumenn hneykslast á því, að ríkissjóður skuli ekki látinn borga málskostn- að og bætur sem dæmda í málinu ber að greiða mér. Það er eins og þeir skilji ekki að maðurinn var dæmdur fyrir að halda sig ekki innan þess ramma sem lög og góð- ar starfsreglur segja til um. Menn geta gert sér í hugarlund hvað gerðist, ef vinnuveitandanum bæri að greiða slíkt tjón. Hvar eru mörkin? Ætti ríkisvaldið kannski að afplána fangelsisdóm, sem lögreglumaður kynni að hljóta vegna brots í starfi? Samskotin á lögreglustöðinni eru svo kapituli út af fyrir sig. Hér er manni refsað með sektum og virðingin fyrir Hæstarétti er ekki meiri en svo á lögreglustöðinni að menn ætla að skipta refsingunni á milli sín. Þeir hefðu sennilega boðist til að sitja fangelsisdóm af sér til skiptis ef um sllkt hefði verið að ræða. Áður en ég lýk þessum orðum, finnst mér ástæða til að láta það koma fram, að eini þáttur minn í málaferlunum var sá að kæra at- burðinn til lögreglustjóra strax eftir að hann átti sér stað. Lög- reglustjóri vísaði síðan málinu til rannsóknarlögreglu og frá þeim tíma hef ég engin áhrif getað haft á hvernig það æxlaðist. Það var ríkissaksóknari sem ákærði menn- ina og hann ákvað hvernig ákæra var úr garði gerð á grundvelli þeirra rannsókna sem fyrir lágu. Hlutverk ríkissaksóknara er að stuðla að þvi að hið rétta og sanna komi í ljós og lýsa staðreyndum í flutningi málsins. Hann tók það sérstaklega fram í málflutningi fyrir Hæstarétti, að hann harmaði þau vinnubrögð sem viðhöfð hefðu verið af hálfu verjanda í málinu og fólgin væru í persónulegum árásum á mig. í þeim orðum er mergurinn málsins fólginn. Hæstiréttur tók undir með ríkis- saksóknara varðandi þetta þegar hann átaldi Jón Oddsson fyrir að leggja fram alls konar gögn, sem ekki komu umfjöllunarefninu nokkurn skapaðan hlut við. Stjúpfaðirinn og verjandinn Það er erfitt að kæra svona at- burð ef það kallar á viðbrögð af því tagi sem Jón Oddsson hefur viðhaft. Þó ber að virða honum til vorkunnar að hann var að verja stjúpson sinn og það hefur hugs- anlega skert dómgreind hans. Hann hafi í blindni talið sér heim- ilt að beita öllum þeim óhróðri, sem hann gerði. Og líka talið sér heimilt að trufla svefnfrið fjöl- skyldu minnar með margendur- teknum símhringingum að næt- urlagi. Ég held að Jón Oddsson hafi lit- ið svo á, að eina vörn skjólstæð- ings síns væri að sverta mannorð mitt, þannig að fólk tæki ekki mark á mér og hugsaði með sér: „Þetta pakk sem lendir í kasti við lögregluna getur sjálfu sér um kennt — annað hvort er það útúr- drukkið eða ofstopamenn.“ Ekki dreg ég í efa, að lögreglu- menn séu langflestir góðir og gegnir starfsmenn, sem vilji veg og vanda sinnar stéttar sem mest- an. Hins vegar hljóta að vera inn- an um misjafnir menn, og þegar þeir verða uppvísir að brotum í starfi, ættu viðbrögðin að vera þau að leitast við að uppræta slíkt — leitast við að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Hið öndverða virðist því miður hafa gerst í þessu máli. Stéttarfélagið hefur slegið skjaldborg um þann sem dæmdur var í málinu — einstakir menn geysast fram á ritvöllinn og tala um hann sem fórnarlambið og lögreglumenn leyfa sér að fjalla um málið í útvarpsþætti á forkastanlegan hátt, aðeins ör- fáum dögum eftir að þeir fá birta óhróðursgrein um mig í blaði, en hér á ég við Ragnheiði Davíðsdótt- ur, stjórnanda þáttarins „Gesta- gangs“ á rás 2. Þessi viðbrögð eru vafasöm og til þess eins fallin að ala á ótta almennings um það, að samtrygg- ing lögreglu sé slík, að borgarinn megi sín einskis gagnvart henni. Eftir lífsreynslu undanfarinna tæpra tveggja ára, hef ég velt því fyrir mér, hvort ég myndi gera það sama, ef ég á ný kæmi „meidd- ur af gáleysi" út úr lögreglubíl. Niðurstaðan er sú, að ég teldi það vart þess virði. Ég er sammála Einari Bjarnasyni um það, að það er skárra að láta berja sig en standa i svona stríði. Skafti Jónsson P.S. Þetta er í fyrsta skipti sem ég set staf á blað um þetta mál og ég er nokkurn veginn viss um að fyrir það á ég eftir að fá eina kær- una enn frá hæstaréttarlögmann- inum Jóni Oddssyni. Hún berst mér sjálfsagt í einu skeytinu enn. Höíundur er blaðamaður. V&höfium hækkaó vextina! 18mánaða Búnaðarbankans bera óumdeilanlega hæstu vextina. BÚNAÐARBANKINN TRAUSTUR BANKI TÍMA8/EB

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.