Morgunblaðið - 06.10.1985, Blaðsíða 18
18 B
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGAR 6. OKTÓBER1985
Við heyrum oft að kunnátta
íslendinga í kristnum fræðum
sé svona heldur í neðri mörkun-
um. Ekki verður kveðinn upp
neinn dómur um það hér en mig
langar til að benda á að hin
kristna arfleifð er orðin svo
samgróin menningu okkar að við
notum kristin hugtök oft nokkuð
óvarlega. Þetta á t.d. við um
skírnina. í skírninni verður ein-
staklingurinn hluttakandi nýs
veruleika, Guð gefur honum nýtt
líf. Einstaklingurinn verður hluti
af líkama Krists, kirkjunni.
Þessvegna þótti mönnum við
hæfi að taka sér nýtt nafn til að
auðkenna það nýja líf, sem hófst
með skírninni. Nafngiftin fylgdi
skírninni eftir, henni til árétt-
ingar. Nú á dögum fá börn nafn
um leið og þau eru tekin inn í
hið kristna samfélag, um leið og
þau eru skírð. Þessi nafngift er
sérstök athöfn og um hana gilda
ákveðin lög. í lögum um manna-
nöfn segir m.a:
„Hver maður skal heita einu
íslensku nafni eða tveim og
kenna sig til föður, móður eða
kjörföður og jafnan rita nafn og
kenningarnafn með sama hætti
alla ævi.“ Þessi lög koma skírn-
inni sjáifri í raun og veru ekkert
við. Skírn og nafngift eru tvær
aðgreindar athafnir þótt því sé
ekki að neita að vel fari á því
að gefa einstaklingi nafn um leið
og hann öðlast þegnrétt í ríki
Guðs. Þessar ólíku athafnir eiga
vel saman og prestar eru raunar
skyldaðir til þess með lögum að
hafa eftirlit með því að lögum
um mannanöfn sé hlýtt. En börn
eru skírð og nefnd. Aftur á móti
eru skip, bílar, hús, vegir, kettir,
hundar, hrafnar og þvíumlíkt
nefnd, en ekki skírð.
Nöldur?
Eflaust þykir einhverjum hér
geðvonskulega ritað. Meiningin
með þessum skrifum er þó ekki
sú að vera með ámæli, heldur að
benda á að ýmis orð, sem við
notum hversdagslega og hugsum
ekki mikið um, eiga sér oft stór-
merkilegan bakgrunn. Þetta hef-
ur ekki síst lokist upp fyrir mér
við það að hlusta á málræktar-
þætti í útvarpi og lesa greinar
um íslensku eftir hinn frábæra
málspeking og kennara, Gísla
Jónsson, en þær gefur að líta í
blaði þessu vikulega. Móðurmál
okkar gefur stórkostlega mögu-
leika. Hvert orð er heil saga í
allri sinni dýpt. Málþankar eru
skemmtilegir og geta jafnvel
orðið mönnum eins og mér, sem
erfiðlega gengur að tala hnökra-
lausa íslensku, til nokkurs ábata.
Mörgum þykja ráð og ábend-
ingar málræktarmanna óttalegt
nöldur. Tja, nöldur er kannski
ekki rétta orðið, málspekingarnir
nöldra ekki beint, þeir eru með
svo mikið af umvöndunum, þeir
vanda um fyrir fólki, þeir ... já,
þeir prédika?
Aö prédika
Orðabók Menningarsjóðs hef-
ur þetta að segja um sögnina „að
prédika": „1. flytja prédikun,
ræðu við guðsþjónustu, 2. halda
skoðunum fast fram, boða.“
Orðabókin tilfærir ennfremur
dæmið „að prédika bindindi“.
Samkvæmt þessu er tvennskonar
merking lögð í það „að prédika".
Annarsvegar prédika menn í
kirkjum og það atferli er hlut-
laust, ef svo má að orði kveða. í
þessari merkingu er það alveg
undir hælinn lagt hvort menn
prédika vel eða illa. Hin merk-
ingin er að, mínu viti neikvæð.
Hún er líka algengari. „Þetta var
nú ljóta prédikunin," segja menn.
Foreldrar „prédika" yfir ódælum
krökkum. Stjórnmálamenn
„prédika" yfir villuráfandi kjós-
endum. í þjóðfélagi, þar sem ekki
er í tísku að hafa skoðun á hlut-
unum, afsaka menn sig oft eftir
að hafa sagt skoðun sína með því
að segja góðlátlega: „Annars
ætlaði ég ekki að vera með neina
prédikun hérna."
Góöar fréttir
Orðið „prédikun" er af kirkju-
iegum uppruna. Til okkar kemur
orðið úr latínu en forveri latn-
esku sagnarinnar er gríska sögn-
in „kéryssó“. Sú sögn getur þýtt
að hrópa út fréttir, boða, gefa
yfirlýsingu en einkum virðast
menn hafa lagt þá merkingu í
sögnina að það séu góðar fréttir,
sem fluttar eru, sigurfréttir eða
eitthvað í þá veruna. Hin kristna
boðun hefur frá öndverðu verið
góðar fréttir, sigurtíðindi.
Fyrstu prédikararnir fluttu það
erindi að Jesús Kristur hefði
sigrað dauðann og sé upprisinn.
Þessi sigurtíðindi hljóma enn í
kirkjum landsins. Prédikunin er
enn það að hrópa þessar ótrúlegu
fréttir út um heiminn.
Bakgrunnur sagnarinnar „að
prédika“ er því fjarri því að vera
nokkuð leiðinlegt eða umvöndun-
arsamt. Það er orðið „fagnaðar-
erindi", sem er miðlægt í þessum
bakgrunni. Prédikunin á að
flytja mönnum gleðitíðindi um
sigur og hvetja þá til að skoða
líf sitt í ljósi þeirra frétta.
Prédikarar
Þeir, sem prédika, eru kallaðir
prédikarar. Kristin kirkja hefur
átt marga góða prédikara. Við
íslendingar eigum fjölmarga
Orðsins boðendur, sem hafa frá-
bær tök á móðurmálinu. Aðrir
voru ekki neinir ræðusnillingar
en heppnaðist engu að síður að
flytja samtíð sinni tíðindin góðu.
Sumir prédikarar eru ógleyman-
legir, aðrir gleymdust fljótt. Enn
aðrir sömdu skemmtilegar ræður
þó að misjafnlega létu menn af
boðskapnum. í bókinni Presta-
sögur, sem Oscar Clausen ritaði,
er að finna mörg gullkorn úr
prédikunum íslenskra klerka
fyrr á öldum. Þessi eru eftir séra
Þórð Jónsson, prest í Reykjadal
í Hrunamannahreppi 1728-1759:
„Ef allir menn yrðu að einum
manni, allir hestar að einum
hesti, öll fjöll að einu fjalli, allir
steinar að einum steini og öll
vötn að einu vatni, þá skyldi sá
stóri maður stíga upp á þann
stóra hest, taka í hönd sér þann
stóra stein, ríða með hann upp á
það stóra fjall og kasta honum í
hið stóra vatn; þá yrði mikið
bullum-hlúnk. Eins mun verða,
þegar þessi veröld hrapar til
helvítis."
„Hann Jón hérna í Kotinu átti
sér hest, vakran reiðhest. Og
þegar hann fór upp með ánni, sá
hann einn örn og einn lax. Og
örninn var fastur með fótinn í
laxinum, og laxinn vildi rífa
undan erninum lærið. — Góðir
bræður! Svona fer djöfullinn með
oss. Þegar við erum búnir að ala
hann í vetur og í fyrravetur og
veturinn þar fyrir, meinið þér
ekki, að hann muni vilja rífa
undan oss hið andlega lærið?“
Prestur nokkur, sem uppi var
á 18. öld og þótti ekki merkilegur
prédikari, endaði eina ræðu sína
þannig:
„Hvar mundi það lenda á sín-
um tíma, sá lifnaðarmáti, sem
nú yfirgengur í þessari sýslu,
hórurí, lauslæti, drykkjuskapur,
þjófnaður, agg, reiði, flokka-
dráttur, öfund, svik, bakmælgi
og annað því um líkt. — Hvar
mundi það lenda, segi ég enn og
aftur, þegar sá voldugi myrkr-
anna konungur kemur til að
endurgjalda einum og sérhverj-
um þann eða þann glæp, sem
hann hefir með þeim eða þeim
líkams lim framið, með því sár-
beittasta píslarfæri, sem hann,
sá voldugi myrkranna konungur,
getur verst upp fundið í því dík-
inu, sem vellur af eldi og brenni-
steini. Hvar munduð þið þá
standa, nema rauðir af blygðun
yðar andlits, — skömminni
klæddir. — Amen!“
Innihald pré-
dikunarinnar
Hin góðu tíðindi kirkjunnar
við samtíð sína eru ekki píslir
vítisglóðanna. Innihald krist-
innar prédikunar er heldur ekki
fallegar kenningar, djúp speki
né þægilegt orðagjálfur. Páll
postuli segir í I. Korintubréfi:
„Er ég kom til yðar, bræður,
og boðaði yður leyndardóm Guðs,
kom ég ekki með frábærri
mælskusnilld eða speki. Eg ásetti
mér að vita ekkert á meðal yðar,
nema Jesú Krist og hann kross-
festan. Og ég dvaldist á meðal
yðar í veikleika, ótta og mikilli
angist. Orðræða mín og prédikun
studdist ekki við sannfærandi
vísdómsorð, heldur við sönnun
anda og kraftar, til þess að trú
yðar væri eigi byggð á vísdómi
manna, heldur á krafti Guðs.?
Góðkunningi minn sagði mér
að sér fyndust prédikarar nú-
tímans taka alltof mikið mark á
þessum orðum Páls. Þeir prédik-
uðu af lítilli andagift. Þeir væru
langt frá því að vera eldmóðugir.
Krossinn og dómurinn væru víðs-
fjarri en hin þægilega fyrirgefn-
ing væri of áberandi.
Ekki er ég viss um að Páll
postuli sé þarna rétt skilinn af
þessum góðkunningja mínum.
Það er aftur á móti rétt skilið
hjá honum að fyrirgefningin er
mjög miðlæg í prédikun kirkj-
unnar. Það má svo setja spurn-
ingarmerki við þá fullyrðingu að
boðskapurinn um fyrirgefningu
syndanna eigi að vekja mönnum
tilfinningu um þægindi og nota-
legheit.
Fyrirgefning
= fyrirskipun
„Þegar Jesús fyrirgefur, þá
fyrirskipar hann líka. Þetta á við
um sérhvern kristinn einstakl-
ing, ekki síst þann, sem hefur
verið trúað fyrir prédikunar-
embættinu."
Þetta er kafli úr prédikun eftir
þýska guðfræðinginn Helmut
Gollwitzer, sem ég leyfi mér að
reyna að þýða hér lauslega. Goll-
witzer talar í þessari prédikun
um neyð prédikarans, spor, sem
prédikarar standa í á hverri
stundu. Þeim, syndugum mönn-
um, er falið að flytja Orð Guðs
inn í samtíð sína. Hvernig geta
þeir valdið því? Og ekki aðeins
prédikarar eiga í þessari trúar-
nauð. Hver einasti kristinn
maður stendur andspænis þess-
ari spurningu. Hvernig geta
breyskir menn verið ljós heims-
ins og salt jarðar?
„Svar Jesú felst í því að hann
felur þér hlutverk. Þannig svarar
hann þér. Og þannig er þér fyrir-
gefið. Meiri gæti fyrirgefningin
ekki orðið. Jesús segir ekki ein-
ungis: Þér er fyrirgefið. Hann
segir líka: Þú átt að verða þjónn
minn og hjálpari. Lífi okkar,
hinna óverðugu, er gefið þetta
mikla gildi. Og með því að leyfa
Jesú að nota okkur, þannig þökk-
um við honum fyrirgefninguna.
Reynum ekki að rekja eigin
breyskleika til rótar heldur höld-
um ótrauð áfram í trú og í trausti
og köstum út netinu. Sá maður,
sem gerir fyrirgefninguna að
eign sinni og notar hana til að
vekja sér vellíðan kann ekki að
þakka fyrir það, að honum er
fyrirgefið.
Fyrirgefning er fyrirskipun.
Farið! hrópar Jesú. Farið með
fagnaðarerindið inn í heiminn,
inn í skrifstofurnar, inn í verk-
smiðjurnar, inn í nágrenni ykk-
ar, inn í skólana, inn í stjórn-
málin, inn í líf annarra og verðið
þar eitthvað nýtt.
Það er ekki nóg að skreyta lífið
með örlitlu kristnu skrauti. Boð-
un okkar er sú að lífið í Guði,
trú á fyrirheit hans, traust til
elsku hans og hlýðni við boð hans
sé eini möguleiki mannsins til
raunverulegs lífs. Þessu lífi reyn-
um við að lifa í veikleika okkar.
Þetta er okkur fyrirskipað, þetta
er hlutverk þess kristna, bæði í
þjóðlífi og einkalífi. Hér dugar
ekki að segja: Þetta er mér um
megn, eða: Svona lagað gengur
ekki í heiminum. Það, sem Jesús
segir, það gengur."
Eg vona, lesendur góðir, að þið
séuð einhvers vísari um merk-
ingu þess „að prédika".
SAJ