Morgunblaðið - 29.06.1991, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 29.06.1991, Blaðsíða 39
reér i’/.Ul HUDAQHADUAJ (JIQAJHKUOHOM MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. JÚNÍ 1991 88 39 voru margar hlýju hendurnar sem hlúðu að henni lasburða þannig að henni mætti líða sem best. Elskuleg tengdamóðir mín og besta vinkona hefur kvatt mig að sinni. Þótt aldurinn hafi verið hár er söknuðurinn samt mikill. Þakk- læti er mér efst í huga, þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þakklæti fyrir kær- leika hennar og umhyggju sem hún bar fyrir fjölskyldu okkar, þakklæti fyrir allt sem hún kenndi mér. Guð blessi minningu hennar. Margrét Helgadóttir Hvenær sem ég gríp á strengjum lútu minnar, kenni ég trega - Hver veit nema sál hennar sem dó, dvelji þar um sinn. (Japanskt ljóð; Helgi Hálfdanarson þýddi) Ekki get ég sagt að mér hafi brugðið er sonur Þorgerðar hringdi til mín laugardagsmorguninn 22. júní sl. og sagði mér að móðir sín hefði verið að kveðja. En ég fann til trega og í huga minn komu minn- ingar um kynni mín og fjölskyldu minnar af þessari góðu konu. Þau kynni stóðu á fímmta tug ára og öll eru þau á einn veg, traust og góð, og alltaf voru gefin góð ráð ef eftir þeim var leitað. Þorgerður fæddist að Höfða- brekku í Mýrdal 20. janúar 1897, dóttir hjónanna Rannveigar Einars- dóttur og Jóns Brynjólfssonar vega- verkstjóra. Hún ólst upp að Höfða- brekku og í Vík og þar giftist hún Einari Erlendssyni 24. júlí 1920. í Vík hófu þau sinn búskap og bjuggu þar allt þar til þau fluttu á Hrafn- istu í Reykjavík fyrir rúmum ára- tug. Einar lést fyrir fáum árum. Það var Þorgerði mikill missir og var hún örugglega tilbúin að fylgja honum eftir. Því það var hennar bjargfasta trú að það væri önnur tilvera eftir þetta jarðneska líf. Þorgerður og Einar eignuðust þrjú börn auk fóstursonar sem lést af slysförum um aldur fram. Hann varð öllum harmdauði sem ti! þekktu, ekki síst Þorgerði, en þá sem oftar hjálpaði trúin henni. Er Einar lést minntist ég hans nokkrum orðum. Þau orð áttu raun- ar við þau bæði og verða því ekki endurtekin hér. En um hana Þor- gerði mína mætti skrifa margt og mikið. Þó veit ég ekki hvort það hefði verið henni að skapi, hefði kannski fundist það oflof. En ég á henni svo margt að þakka. Og þess- ar línur festar á blað til að þakka allar samverustundir, fyrr og síðar. Þorgerði kveð ég við þær dyr sem nú hafa verið opnaðar henni og sem hún var tilbúin að ganga inn um, svo að höfð séu hennar eigin orð. Börnum hennar, tengdabörnum og niðjum öllum, svo og bræðrum hennar sem lifa systur sína í hárri elli, sendi ég og fjölskylda mín inni- legar samúðarkveðjur. Fari góð kona í friði. Helga Einarsdóttir Mig langar í nokkrum orðum að minnast ömmu minnar, Þorgerðar Jónsdóttur, sem lést 22. júní sl. Lítill strákur var ég sendur til sumardvalar í Vík í Mýrdal. I mín- um huga var þetta þorp höfuðborg heimsins, því þar bjuggu amma og afi, í gömlu fallegu húsi sem stóð í brekkunni, þar sem gamli vegur- inn byijaði að hlykkjast upp á Reyn- isfjallið. Þetta hús hét Grund. Oft var amma mín kennd við þetta hús og kölluð Gerða á Grund. Það varð fastur liður í tilveru bemskunnar, að fá að dvelja hjá ömmu og afa sumarlangt. Bestu minningar barn- æskunnar eru samofnar sumrum í Vík og návist ömmu og afa, sem alla tíð reyndust mér svo vel. Þegar ég heimsótti ömmu á Hrafnistu síðustu æviárin, riíjaði hún oft upp liðna atburði þessara tíma. Eg furðaði mig stundum á hversu minni hennar var gott, þó hún væri komin á tíræðisaldur. Andlega var amma stálhraust allt fram í andlátið, þó ellin hefði hrak- að heilsunni að öðru leyti. Amma var hamingjusöm mann- eskja. Hún lifði í sátt og samlyndi við sitt samferðafólk og var virt og metin af þeim sem henni kynntust. Þegar liðið var á ævikvöldið sagði amma við mig eitt sinn: „Ég var heppin, ég hef átt gott líf.“ Það var gæfa hennar að ganga lífsveginn með góðum manni, afa mínum sem lést 1987. Þorgerður Jónsdóttir og Einar Erlendsson giftu sig 24. júní 1920 í Víkurkauptúni. Þau eignuð- ust þijú börn, Erlend, Steinunni og Erlu. Fóstursonur þeirra var Björn Bergsteinn sem lést í bílslysi 1986. Afkomendur ömmu og afa eru orðn- ir margir. Þegar ég heimsótti ömmu á Hrafnistu í síðasta sinn var nýkom- inn í heiminn sonur minn þá um nóttina. Eins og ætíð, við tímamót í lífi afkomenda, fagnaði amma af sínu hlýja hjarta með fallegum orð- um. Einlægur áhugi hennar fyrir velferð fjölskyldu sinnar var ríkur þáttur í fari hennar. Þetta fundum við öll og henni var sýnd ræktar- semi, sem hún mat mikils. Það var því ofl gestkvæmt hjá ömmu bæði á Grund og Hrafnistu, enda fjöl- skyldumeðlimir tíðir gestir og vina- hópurinn stór. Þorgerður amma hafði ákveðnar og ígrundaðar skoðanir á lífinu og tilgangi þess. Lífsgátan var henni ætíð hugleikin. Hún var berdreymin og efaðist aldrei um líf handan þessa lífs og umbun góðra gjörða. Vitur maður sagði eitt sinn góðvilj- aðan hug búa yfir konungsríki. Yfir slíku ríki bjó hugur ömmu. Þegar ævisól gengur til viðar lýsa stjörnur endunninninganna. Við sem Þorgerði þekktum geymum minninguna um góða manneskju. Ómar Logi Gíslason Uppi á Víkurbökkum stendur Grund, gamalt timburhús, gult með grænu þaki. Ég kom þangað fyrst fyrir um það bil 25 árum, mennta- skólapiltur með allt á hornum mér. Reyndar hafði ég hitt hjónin í eystri endanum áður. Einar Erlendsson og Þorgerður Jónsdóttir voru nefni- lega afi og amma stúlkunnar sem ég gekk á eftir í þann tíð og nú er konan mín. Það er sagt að fátt sé unglingum hollara en umburðarlyndi. Kannski var það einmitt þetta sem laðaði mig að Þorgerði. Það skipti engu hvernig ég reyndi að koma fram árásarkenndum skoðunum, öllu var tekið með jafnaðargeði þess sem hefur hæfileikann til að skilja hism- ið frá kjarnanum. Á þessum tíma var guðrækni bernskunnar fyrir nokkru tekin að dofna í bijóstinu og kenningar kirkjunnar orðnar að kerlingabókum. Trúin hafði vikið fyrir sannfæringunni um eigið ágæti og að menn skyldu taka af- leiðingum gerða sinna, hvort sem þelr tækju ákvarðanir vísvitandi eða fyrir tilviljun aðstæðna; milligöngu kirkjunnar þyrfti ekki til, enda nægilegar sögulegar forsendur fyrir hendi sem sýndu hvernig prestar og prelátar hefðu gegnum tíðina misnotað þessa stofnun. Það var þess vegna ferskt og hvetjandi að ræða við Þorgerði ömmu um þessi efni, því að hún var vel trúuð og hafði velt þessum málum fyrir sér í að minnsta kosti fimmtíu ár en ég bara í fímm! Henni var guðdómurinn augljós alls staðar en streð mannanna í firringu sinni og eftirsókn eftir vindi var henni strit blindaðs námuklárs. „Spiritismi er frat,“ sagði ungl- ingurinn, „afneitun einfeldninga á tilvist dauðans, skipulagður flótti raggeitanna!" „Kannski er hann það,“ svaraði gamla konan, „en hvernig skýrirðu þá að mig dreym- ir óorðna hluti? Hvernig skýrirðu að ég finn í bijóstinu hver atburða- rásin verður?" í mörg ár reyndi ég að finna raunsvör við þessum spurningum. Hvernig gat hún vitað þetta með prófið? Og að drengurinn myndi deyja? Gat það verið að ég hefði rangt fyrir mér en hún rétt, ég sem var í háskóla og meira að segja að læra læknisfræði! „Einfald- asta skýringin á þessu,“ sagði hús- móðirin í Víkinni, „er að tímaskyn okkar sé blekking hreyfingar, að allir hlutir eigi sér stað undireins. Rás tímans sé upp og niður, sífelld hringrás óregluleg, en ekki stöðug framrás eins og ferð himintungl- anna blekkir okkur til að halda.“ Síðar lasnaðist Þorgerður og veiktist, elli fór að líkama en ekki sál. Þau Einar fóru á mölina 1975, á Hrafnistu, og leið oftast sæmilega vel. Sjóbirtingurinn í Grenlæk heill- aði eins og oft áður, 1936 veiddi liann þar fyrst og síðan ár hvert meðan kraftar leyfðu. En elli hélt áfram verki sínu, óbiluð, sífelld, og ferðirnar austur í Vík og Landbrot tók af. Einar lést 1987. Þorgerður varð asmaveik og liða- sjúk á miðjum aldri, stöðugt versn- andi. Síðustu árin móð í hjólastól. Verkirnir stöðugir, brak í hveijum lið. Verkjalyf í lágmarki: „Þau trufla sálarstyrkinn," sagði hún og lærðar umræður um vond áhrif langvarandi verkja á sálina breyttu þar engu um. Þessi harka ein- kenndi hana. En sálin var spræk sem fyrr; ótrúlega minnug mundi hún atburði ævinnar; þú gast flett henni eins og bók. Hálfblind en sí- lesandi, sjór’ reynslu og þekkingar. Fram á síðustu stundir fylgdist hún með atburðum umheimsins. „Deyðu á réttum tíma!“ þrumar Friðrik Vilhjálmur Nietzche yfir mannkyni. Og Þorgerður hlýddi því kalli. Hún kom í stól sínum til veislu nöfnu sinnar 30. maí sl. Hrókur í horni, sífellt að tali við litlu mann- eskjurnar eins og þá fullorðnu. 16. júní veiktist hún af lungnabólgu, varð meðvitundarlítil morguninn eftir að dóttirin kom frá Ameríku og dó að morgni dags 22. júní. Það var daginn eftir að nóttina fór að lengja enn á ný og himin- tunglin að flytja þá sem eftir lifa, aftur inn í vetrarmyrkrin. Seglbúðum, Sigurður Árnason. Fleiri greinar um Þorgerði Jóns- dóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Minning: Hrafnhildur Helga- dóttir — Vopnafirði Fædd 25. júní 1917 Dáin 23. júní 1991 Að morgni sunnudagsins 23. júní lokaði amma okkar, Hrafnhildur Helgadóttir, augunum sínum í hinsta sinn. Einhvern veginn gerir maður sér ekki grein fyrir því að hún sé ekki lengur á meðal okkar. Amma okkar var sú sem alltaf tók vel á móti okkur þegar við þurftum að leita ráða eða illa lá á okkur. Hún vissi alltaf hvemig bregðast skyldi við og kunni svör við svo ótal mörgu. Alltaf gaf hún sér tíma fyrir okkur, kenndi okkur skemmtileg sönglög, las upp úr ævintýrabókum eða sagði sögur. Við vorum alltaf glöð eftir heimsókn til ömmu. Þegar við svo fórum að stálpast og fara burt á veturna vildi hún alltaf vita um alla okkar hagi og hvatti okkur óspart áfram í því sem við vomm að gera. Ef einhver misklíð kom upp hvatti hún okkur til að leysa það sem fyrst, líta á málin frá báðum hliðum og vera þakklát fyrir það sem okkur var gefið. Hún virtist geta gefið endalaust af sér án þess að ætlast til einhvers í staðinn. Henni virtist nóg að við kæmum til hennar og spjölluðum góða stund. Hún var stolt þegar okkur gekk vel og lét alla sem heyra vildu vita af því. Hún hafði yndi af börnum og Ijómaði þegar hún talaði um lang- ömmubörnin sín. Alltaf fylgdist hún með því sem var að gerast og kunni skil á öllu sem við vorum að gera alveg sama þó tímarnir breyttust. -] Hún var eins og klettur sem allt- af var hægt að treysta á og ást hennar og umhyggja er nokkuð sem mun fylgja okkur alla tíð. Amma átti engan sinn líka og nærvera hennar gerði okkur öll að betri manneskjum. Hennar er sárt saknað en það er okkar trú að hún vaki einnig yfir velferð okkar uppi í himninum og að henni líði vel. Enn ég stari eftir þér út í bjarta heima. Hlýju þína í huga mér hygst ég árlangt geyma. (Hélublóm G.Þ.) Barnabörnin á Vopnafirði Okkur langar til að minnast með örfáum orðum móður okkar Hrafn- hildar Helgadóttur sem lést þann 23. þessa mánaðar. Mamma var ein af þessum hetj- um hversdagslífsins, sem ekki láta mikið fyrir sér fara utan síns heimil- is. En þar var hún sú styrka stoð, sem alltaf var tilbúin til að veita alla þá umhyggju og ástúð, sem hún átti í svo ríkum mæli. Við minn- umst mömmu oftast vinnandi, því sveitakona með níu manns í heimili átti ekki oft frístund. Ef hún var spurð, hvort þetta hafi ekki verið erfitt, sagði hún, að hún hefði ekki þurft annað en ganga út í gott veð- ur, eða hlusta á maríuerluna sína syngja, þá hafí öll þreyta og áhyggj- ur horfið. „Ég hef alltaf haft svo gaman af að lifa,“ sagði hún. Einnig er sterk minningin um hana syngjandi, því mamma söng við öll sín störf og kunni reiðinnar býsn af ljóðum og lögum, sem við lærðum af henni og sungum með. Hún var bókelsk og þó sérstaklega ljóðelsk, og var alltaf að finna ein- hveijar ljóðlínur, sem hún klippti gjarnan út úr blöðum og geymdi í gömu stóru matreiðslubókinni sinni. Stundum fannst okkur nær að kalla þá bók eitthvað annað en mat- reiðslubók, svo full var hún af þess- um úrklippum. Hún sagði okkur hvað blómin hétu og fuglarnir, og væri til nátt- úruunnandi, þá var það hún mamma. Hún var einstakur dýra- vinur, og oft mátti sjá hana með hundana, kettina, heimalningana og jafnvel kýrnar í halarófu á eftir sér, þegar hún gekk um túnin heima. Þó voru hestarnir hennar mesta uppáhald, og fátt þótti henni skemmtilegra, en fá sér sprett á góðum hesti. Annað sem gerir mömmu alveg einstaka í minningu okkar, er að hún tók alltaf þátt í öllu með okk- ur. Kynslóðabil var nokkuð sem hún þekkti ekki, og þegar við uxum úr grasi og byijuðum hvert af öðru að sækja skemmtanir, þá var alveg sjálfsagður hlutur að segja mömmu allt sem gerðist. Oftar en ekki var það hápunktur skemmtunarinnar. Hún gekk með okkur í gegnum rokk-, bítla- og hippatímabil, eins og ekkert væri, og ‘dansaði með okkur í eldhúsinu á kvöldin. Hún skammaði okkur stundum, ráðlagði okkur oft, en fyrst og síð- ast var hún okkar besti félagi og vinur sem vissi allar okkar sorgir og sigra. Tengdabörnum sínum tók hún sem hún ætti þau sjálf og vildi allt fyrir þau gera, og barnabörnin voru sólargeislar hennar á efri árum. Það var líka alltaf talið sjálfsagt að öli íjölskyldan hittist hjá mömmu og pabba, og oft var þar þröngt á þingi. Þá var hún glöðust þegar sem flest- ir komu. Síðustu árin urðu henni erfið, hún barðist við ólæknandi sjúkdóm og leið oft mikið. Ráðþrota stóðum við álengdar og sáum henni hráka. Nú er þetta stríð á enda og við finnum til léttis, samfara djúpum söknuði. Við kveðjum hana með erindi úr ljóði æskuvinar hennar, Þorsteins Valdimarssonar: Þó mig frá þér íjarskans blámi teygi, finn ég glöggt, sú líftaug slitnar eigi, sem að tengir sálu mína þér. Gnýi stormar! Fölni rósir rauðar! Rökkvi af nóttu! Hnigi vonir dauðar! Móðir kær! Þín mynd sinn ljóma ber. Börnin Nú er hún elsku amma okkar dáin. Eftir erfið veikindi sem reyndu mikið á hana get.ur hún nú hvílst. Að eiga að setja á blað örfá orð er mjög erfitt, því í hugum okkar eru minningar sem eru efni í heila bók. Fyrir okkur borgarbörnin eru minningarnar bundnar við sumrin, því sumrin voru okkar tími með ömmu og afa. Þrátt fyrir að við hittum hana nær eingöngu þá, vissi hún alltaf allt um okkar hagi. Hún var þeim hæfileikum gædd að geta skilið okkur sem börn og unglinga, sett sig í okkar spor og tók virkan þátt í gleði jafnt sem sorgum. Aldr- ei hneykslaðist hún á uppátækjum okkar sem þó voru oft lífleg og aðrir fáruðust yfir, heldur hafði gaman af. Að koma til ömmu og afa á Garð var sem ævintýri í hugum okkar, að læðast inn í sjúkrastofur og skoða hin ýmsu tól og tæki, eltast við köttinn í þvottahúsinu, klifra í klettunum eða leggjast á gólfið í stofunni og hlusta á Þijú á palli. Allt virðist þetta svo ljóslifandi nú þegar hún er farin, minningar þess- ar eru okkur mikils virði og munu seint gleymast. Er við eltumst fækkaði ferðum okkar austur, en aldrei leið þó lang- ur tími milli heimsókna annaðhvort hennar suður eða okkar austur og kom þá berlega í ljós hve vel hún fylgdist með okkur öllum. Mann rak stundum í rogastans þegar hún byijaði að spyija um kunningja og vini sem hún nær alltaf vissi nöfnin á eða áhugamálum sem mann grun- aði ekki að hún vissi um og er það merkilegt þegar haft er í huga að við barnabörnin eru 19 talsins og barnabarnabörnin orðin 6. En svona var hún amma okkar lífsglöð og næm á allt og alla í kringum sig og gaf okkur meir en orð fá lýst. Við vitum að amma hafði gaman af að ferðast um land- ið og við huggum okkur við það að nú getur hún ferðast til allra þeirra staða sem hana dreymdi um að sjá. Við vitum að hún mun halda áfram að fylgjast með okkur í þeim heimi sem hún nú dvelur n Elsku afi okkar, um leið og við kveðjum ömmu viljum við þakka fyrir stundirnar sem við áttum með ykkur, því þó að amma sé nú farin lifir hún enn í hjörtum okkar. Inga, Daddi, Siffa og Hrafnhildur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.