Morgunblaðið - 20.08.1995, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 20.08.1995, Blaðsíða 18
18 SUNNUDAGUR 20. ÁGÚST 1995 MORGUNBLAÐIÐ Samhent í einu og öllu Lífínu er hreint ekki lokið þó að starfslok séu framundan en mis- jafnt er eins og mennimir eru margir hvað þeir taka sér fyrír hendur. Hildur Friðriksdóttír ræddi við Jón Skaftason og Hólm- fríði Gestsdóttur sem skelltu sér í nám til Bandaríkjanna, hann í alþjóðastjómmál en hún í amerískar bókmenntir. Morgunblaðið/Þorkell HÓLMFRÍÐUR Gestsdóttir og Jón Skaftason á heimili sínu. Ó AÐ þeim fari fjölgandi- sem á efri árum láta gamlan draum um há- skólanám rætast eru þeir sjálfsagt ekki margir sem sækja erlenda háskóla. Jón Skaftason og kona hans Hólm- fríður Gestsdóttir eru þó dæmi um slíkt. Að sjálfsögðu kom ekki annað til greina en að bæði færu í nám því þau eru samhent í flestu sem þau taka sér fyrir hendur eins og að sækja sinfóníutónleika, stunda skíði á veturna og sund á hveijum morgni. Þau segjast ekki geta verið án þess, enda voru þau mætt í laugarnar nánast rétt eftir að flugvélin sem þau komu með frá Bandaríkjunum lenti á Keflavíkurflugvelli. Jón lét af embætti sýslumanns Reykvíkinga 67 ára að aldri, eða tæpum þremur árum áður en nauð- syn krafði, og héldu þau hjón til Bandaríkjanna síðastliðið haust. Komu þau til landsins í sumar með skemmtilega reynslu að baki ogjafn- vel opin fyrir frekari uppátækjum. „Annaðhvort er að fara í frekara nám eða leggjast í ferðalög," sögðu þau brosleit í samtali við Morgun- blaðið þegar þau voru innt eftir hvað tæki nú við. Þau segjast geta hugsað sér að dveljast 2-3 mánuði á ári erlendis, en taka jafnframt fram að síðastlið- inn vetur hafi verið sérstakur, því þau hafi búið hjá dóttur sinni, tengdasyni og barnabörnum. „Það er kannski ekki sambærilegt að dveljast langdvölum erlendis og hafa fjölskylduna hjá sér eða vera án hennar," segir Hólmfríður og undir það tekur Jón. „Hitt er annað mál, að maður verður mun víðsýnni af því að ferð- ast og sjá hvernig annað fólk lifir. Óhjákvæmilega fer maður að bera saman hvað á að taka til fyrirmynd- ar og hvað ber að varast því öll þjóð- félög hafa sínar góðu og slæmu hlið- ar,“ bætir hann við. Upplagt tækifæri Tildrög þess að þau drifu sig í nám voru að Helga dóttir þeirra hafði fengið stöðu til þriggja ára við Alþjóðabankann í Washington. Hún hvatti foreldra sína ítrekað til að flytja tímabundið til sín, meðal ann- ars vegna þess að hún vissi af áhuga föður síns á alþjóðastjómmálum og kvað möguleikana í Bandaríkjunum marga og fjölbreytilega. Auk þess ætlaði tengdasonurinn að ljúka MA-prófi í almannatengslum og gat því ekki gætt bús og bama í sama mæli og áður. Þegar rúmt ár var eftir af starfstíma Helgu ákváðu þau loks að slá til. „Ég lét því af störfum 2'h ári áður en ég þurfti þess raunverulega með til þess að missa ekki af þessu tækifæri," segir Jón. „Við komum til Washington í september og vorum því of sein að skrá okkur á haust- önn, en gengum þess í stað í Smith- sonian-félagið. Á vegum þess hlust- uðum við á fjölda fyrirlestra og fór- um meðal annars í haustlitaferð." í þeirri ferð vakti það athygli Hólmfríðar að þegar komið var að helli, sem erfitt var að komast að, tók fararstjórinn fram, að þeir sem vildu taka þátt í ferðinni yrðu að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir bæru sjálfir ábyrgð á lífi sínu og limum. „Mér fannst þetta athygl- isvert og hugsaði hvort ekki væri þörf á slíku hér á landi, þar sem menn æða yfir hverasvæði og önnur hættuleg svæði,“ segir hún. Amerískar bókmenntir og málefni ESB Þegar kom að því að velja nám eftir áramótin valdi Hólmfríður am- erískar bókmenntir, því hún hafði mestan áhuga á að þjálfa talaða ensku og taldi möguleikana einna mesta þar. „Mér fannst tímarnir ánægjulegir, enda var prófessorinn sérstaklega skemmtilegur. Við lás- um sögur sem síðan var fjallað um í tímum," segir hún. Þar sem hún treysti sér ekki til að keyra bíl í Bandaríkjunum kom það í hlut Jóns að aka henni í skól- ann og úr því hann var kominn þang- að gat hann alveg eins setið í tím- um. „Gegnum tíðina hef ég ekki les- ið mikið af fagurbókmenntum heldur hefur tíminn frekar farið í lestur ýmissa fagrita. Það kom mér því á óvart hvað mér fannst gaman að lesa hinar ýmsu sögur eftir amerísku höfundana," segir hann. Málefni ESB Sem aðalnámsefni í George Ma- son-háskólanum valdi Jón sér fag sem nefnist „Evrópusambandið og hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi". „Ég fann fljótlega að iítið var fjallað um fiskveiðimál, enda falla þau ekki undir stærstu áhugamál Bandaríkj- anna frekar en hinna sex ríkja, sem stofnuðu ESB á sínum tíma,“ segir Jón. Hann hafði því tal af deildarfor- setanum, sem reyndist vera Iri að nafni Desmond Dinan, en fyrir hans tilstuðlan varð námsefni um ESB viðurkennt við háskólann. „Það varð úr að hann bauð mér að sækja tíma hjá sér án endurgjalds. Sá var mun- urinn að greinin sem ég tók próf í var meira viðskiptaeðlis, en hjá Desmond Dinan komu stjórnmálin meira við sögu, þannig að námið spannaði víðara svið.“ Jón telur sig hafa haft töluvert gagn af náminu þótt það hafi verið kennt út frá bandarískum sjónarmið- um. Hann kveðst alltaf haft ísland í huga og borið aðstæður saman. Mikið hafi verið fjallað um viðskipta- hlið ESB og Bandaríkjanna og hina ýmsu staðla, sem samræmingin byggist á. Hann skilaði tveimur próf- ritgerðum og fjallaði önnur um fisk- veiðistefnu ESB en hin um afstöðu íslands til ESB. Nauðsynlegt að taka afstöðu Jón kveðst ekki hafa kynnt sér málefni ESB ítarlega áður en hann hélt utan, en segir augljóst og eðli- legt að deildar meiningar séu um aðild að sambandinu. „Bandalagið er fyrir hendi og það skiptir okkur máli. Við þurfum að taka afstöðu til þess hvort við viljum standa innan eða utan þess á grundvelli sæmilegr- ar vitneskju um hvar hagsmunir okkar liggja." - Hver er þín skoðun? „Ég vil ekki segja mikið á þessari stundu. Ég gekk að náminu með opnum huga til að kanna rökin með og á móti. Auðvitað liggja allar stað- reyndir rnála ekki fyrir fyrr en á reynir með samningum með hvaða kjörum við komumst inn. Ég er þó þeirrar trúar að bæði íslendingar og Norðmenn verði orðnir aðilar að ESB fljótlega upp úr næstu aldamótum.“ - Hvers vegna? „Vegna þeirrar samrunaþróunar sem virðist óstöðvandi í Evrópu. Ég 'held að það versta sem gæti hent okkur væri að öll Vestur-Evrópa yrði í ESB en við stæðum utan þess. Við verðum að meta hvort plúsarnir eða mínusarnir verða fleiri með til- liti til aðildar. Við gætum ákveðið að standa utan sambandsins, jafnvel einir, en þá skulum við líka standa algjörlega klár á því, að það kostar okkar eitthvað varðandi lífskjör." Pólitískt skítkast í Bandaríkjunum Þegar talið berst að pólitík lifnar Jón allur við, hann fær glampa í augun og ljóst er að þar er komið inn á áhugasvið hans. Hún hefur alla tíð verið hans ær og kýr og hann sat meðal annars á þingi í rúm 19 ár eða frá 1959-1978. „Ég var mjög heppinn að vera í Bandaríkjunum þegar kosningar fóru fram,“ segir hann og lýsir baráttu þeirra Olivers North og Chuck Robb, sem voru í framboði í Virginíu-fylki. „Ég reyndi að komast á framboðs- fundi hjá þeim en það virtist ekki vera aðferð sem þeir notuðu, því baráttan fór aðallega fram með aug- lýsingum í sjónvarpi, þar sem þeir tíndu allt hið versta fram hvor um annan,“ segir hann og lýsir andstöðu sinni við þessa baráttuaðferð. Hann tekur fram, að þrátt fyrir að hann hafi ekki haft sérstaklega mikið álit á gæðum stjórmálabarátt- unnar hér á landi finnist honum hún standa þrepi ofar en það sem hann varð vitni að í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn gefi sér að almenn- ingur nenni ekki að hlusta á stjórn- mál og þess vegna safni þeir saman frösum eða slagorðum, sem þeir láta dynja á fólki. - En svo við snúum okkur að íslenskri pólitík. Nú er reyndar langt um liðið síðan þú varst á þingi, en telur þú að einhvern tíma verði hægt að reka íslenska pólitík án hrossakaupa þingmanna sín á milli? „Nei, ég held að seint verði hægt að uppræta það. Hrossakaup eiga sér einnig stað á milli flokka. Hvern- ig er ekki lífið sjálft? Ef einhver er ekki nægilega sterkur til að hafa allt sitt fram verður hann að semja, er ekki svo?“ - Þá er spurningin hvort hagur landsheildarinnar eigi að gjalda fyrir hagsmuni einstakra kjördæma? „Nei, ég held að jöfnun atkvæðis- réttar sé réttlætismál sem styrkir lýðræðið í landinu." í andstöðu við flokkinn Þegar Jón er spurður hvers hann minnist einna helst frá þingmanna- árum sínum segir hann að land- helgismálið sé honum ofarlega í huga, svo og bygging álversins, þar sem hann hafi verið i erfiðri aðstöðu. „Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu öll Viðreisnarárin 1959-1971. Yfírleitt taldi stjórnar- andstaðan sér skylt að vera á móti öllu sem frá stjórninni kom og í ál- málinu var lögð rík áhersla á að allir yrðu að vera á móti. Við Björn Pálsson hlýddum ekki og af því er ég stoltur í dag. Það er alltaf erfitt að geta ekki með góðri samvisku fylgt sannfær- ingu sinni því hér á landi eins og annars staðar vilja flokksforingjar gjarnan geta ráðið hvernig þingliðið greiðir atkvæði," segir hann og bætir við eftir stutta umhugsun: „Það er nú ekki alltaf rétt sem þeir segja og gera blessaðir." - En hvernig var að vera eigin- kona þingmanns? spyr ég Hólmfríði. „Það var bara ágætt," svarar hún og hlær við. „Maður kynntist mörgu skemmtilegu fólki, sem alltaf var gaman að hitta. Núna erum við far- in að hittast einu sinni til tvisvar á ári í félagsskap sem nefnist Félag fyrrverandi alþingismanna og það finnst okkur reglulega gaman." Ástin fer ekki í manngreinarálit Þegar Hólmfríður er innt eftir því hvort hún sé pólitísk, segist hún ekki vera það, en Jón grípur fram í og segir að hann hafi aldrei reynt að hafa áhrif á hana. „Ég hef auðvit- að alltaf kosið Jón og stutt hann,“ heldur hún áfram og lætur eins og hún heyri ekki innskot hans, en í ljós kemur að þegar þau Jón kynnt- ust í Menntaskólanum á Akureyri mættust tveir andstæðir pólar, hann var af sterkum framsóknarættum í Siglufirði og Skagafirði en hún alin upp af sjálfstæðisfólki á Seyðisfirði. „Ég var nú svo ung þegar við kynntumst og fékk ekki kosningarétt fyrr en eftir að við giftum okkur. Eg hef því alltaf fylgt Jóni að mál- um,“ segir Hólmfríður án þess að blikna þrátt fyrir að eiginmaðurinn, ljósmyndarinn og blaðamaðurinn þjarmi að henni að fá hana til að viðurkenna eitt og annað í þessum efnum. Talið berst að því hvort pólitík gangi í ættir og Jón segir að pólitík hafi aldrei verið haldið að honum heima fyrir. „Ég vissi auðvitað hvaða flokki foreldrar mínir tilheyrðu og pabbi var á framboðslistum til bæj- arstjórnar í Siglufirði. Ég býst við að ef maður á góða foreldra hafi skoðanir þeirra óbeint áhrif á við- komandi." Undir þetta tekur Hólm- fríður en bætir við að börn verði eflaust umburðarlyndari gagnvart öðrum skoðunum ef foreldrarnir eru ekki „harðir beinlínumenn". Ekkert barna þeirra hefur starfað innan stjórnmálaflokka að sögn Jóns og sjálfur kveðst hann ekki vera mjög flokkspólitískur nú orðið. „Eft- ir því sem árin líða hef ég meiri áhuga á erlendri flokkapólitík en innlendri," segir hann. „Því mér verður æ ljósara hver áhrif alþjóða- stjórnmál hafa á kjör íslendinga.“ Fjórir lögfræðingar Eflaust má lengi deila um hvort pólitík gangi í ættir eða ekki en þeg- ar þijú af fjórum bömum feta í fót- spor föður síns í atvinnumálum hlýt- ur það að flokkast undir ættgengi. Þannig völdu Gestur, Helga og Gunn- ar að gerast lögfræðingar en Skafti fór snemma til sjós, lauk prófi frá Stýrimannaskóla íslands og síðar stundaði hann nám í London School of Economics og spönsku í Malaga. í lok viðtalsins göngum við um vel snyrtan garð við heimili þeirra hjóna og Hólmfríður sýnir stolt lerki- tré sem klippt var til í fyrra og hef- ur fengið sérkennilegt útlit en óneit- anlega mjög fallegt. Þegar þau eru spurð hver sjái aðallega um garðinn, segir Hólmfríður að hann sé verk þeirra beggja en Jón segist ekki þekkja önnur blóm en fífil og sóley. „Ég hef hins vegar málað húsið á hveiju sumri, en ætli ég geri það nokkuð í sumar," segir hann, enda liggur ekkert á. Hann hefur allan heimsins tíma framundan þar sem hann er sestur í helgan stein.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.