Morgunblaðið - 22.09.1996, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 22.09.1996, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. SEPTEMBER 1996 B 11 „Já. Hann er kannski ekki þekktasti jazz- skólinn sem slíkur en er einn virtasti tónlistar- háskólinn í Bandaríkjunum svona í heildina tekið og þá enn frekar á sviði klassískrar tónlistar. Skólinn er að ég held stærsti tónlist- arháskóiinn þar vestra. Hann er almennur háskóli með læknisfræði, bókmenntum og öllu saman, en tónlistardeildin er geysilega stór. Þar var líka prýðileg jazzdeild og ég taldi mig á þeim tíma vera að fá góða kennslu bæði í jazzi og klassískri músík. Tónlistar- deildin er að ég held stofnuð um eða fyrir aldamót. Nemendur koma hvaðanæva úr heiminum. Þar hafa nokkrir íslendingar stundað nám, t.d. Bergþór Pálsson, Sólrún Bragadóttir, Ólafur Árni Bjarnason, Ingi- björg Guðjónsdóttir og Þórunn Guðmunds- dóttir. Ég sótti ákveðna bóklega tíma í hinum ýmsu greinum, í sögu, hljómfræði, tónheyrn og ýmsum hliðargreinum uppeldisfræðinnar. Svo sækir maður einkatíma á sitt hljóðfæri og jafnvel aukahljóðfæri. Ég stundaði einnig nám á önnur blásturshljóðfæri, á flautu, klari- nett, og reyndi að leggja mig eftir að vera fjölhæfur þannig að ég gæti spilað á mörg hljóðfæri. Ég spilaði í stórböndum sem voru mjög góð og spiluðu töluvert. Ég sóttþeinnig nám í bókmenntum og sálarfræði. Ég gat sleppt ýmsum kennslugreinum framan af vegna þeirrar góðu undirbúningsmenntunar sem ég hafði að heiman. Einnig hafði ég farið eitt sumar á Berklee tónlistarskólann í Boston sem er svona meiri jazzskóli." Sigurður lagði áherslu á frásögn sína af tónlistarnáminu með handahreyfingum. Hann varð hugsi, studdi hendi undir kinn, varð alvarlegur á svipinn þegar námslánin bar á góma en brosti þegar hann rifjaði upp samstarfið við hljóðfæraleikara á meginlandi Evrópu. Með evrópskum hljóðfæraleikurum „Ég sæki mín áhrif og innblást- ur einkum í amerískt nútíma bebop frá New York. Svo fylgist maður líka með evrópskri músík og ein- hveijir angar af henni snerta mann. Maður er náttúrlega Evrópumaður sjálfur en ekki svartur Ameríkani. Þessar rætur mætast í manni og takast svolítið á. Það lýríska yfir- bragð sem er á ýmissi evrópskri jazzmúsík annars vegar og svo hins vegar er þessi áhugi minn á nútíma bebopmúsík“ Þú hefur spilað töluvert með evrópskum jazzleikurum? „Ég hef gert það. Ég starfaði um tveggja ára skeið, 93-95, tals- vert mikið með breskum trompet- leikara sem heitir Guy Barker og ég fór í allnokkrar tónleikaferðir með honum um Bretland og spiiaði inn á plötu sem kom út hjá Verve- foriaginu, sem er eitt af þekktari jazzmerkjunum. Þá hef ég talsvert spilað í Skandinavíu og einnig farið með íslenskum hljómsveitum, kannski Jazzkvartetti Reykjavíkur öðrum fremur, og spilað á megin- landinu. Þá hef ég verið að gera einhveija hluti í Svíþjóð með sænskum trompetleikara sem heitir Ulf Adá- ker. Ég fór svo í tónleikaferð með samnorr- ænni hljómsveit sem hann setti saman fyrir nokkrum árum og er enn að starfa með hon- um. Hann skrifaði fyrir mig á síðasta ári konsert fyrir saxófón og strengjasveit sem ég spilaði með Sinfóníuhljómsveit Islands á ferðalagi um landið. Nú í október fer ég til Svíþjóðar og spila þetta verk með Sinfóníu- hljómsveitinni í Umeá á jazzhátíð. Hefur þú ekki spilað á þeim fræga Ronnie Scott jazzklúbbi í London? „Jú, jú, nokkrum sinnum. Og það var mjög skemmtilegt. Nú á tímum er sjaldgæft að komast í það að spila mörg kvöld í röð á sama stað. Á Ronnie Scott er maður ráðinn sex kvöld í viku. Þetta er að mörgu leyti hinn fullkomni jazzklúbbur og aðstæður allar hinar bestu. Ég spilaði þar með Jazzkvart- etti Reykjavíkur og síðar nokkrum sinum með Guy Barker. Þetta er aðal klúbburinn í Bretlandi og var stofnaður snemma á sjötta áratugnum. Ronnie Scott spilar þarna stund- um sjálfur en kynnir iðulega.“ Ég spurði Sigurð um kynni hans af íslensk- um jazzleikurum af eldri kynslóðinni. Það færðist bros yfir andlitið. Hann á greinilega góðar minningar frá þeim árum þegar hann steig sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni. Ómetanlegur skóli „Það var ósköp lítið framboð af íslenskum jazzleikurum af eldri kynslóðinni. Guðmundur Ingólfsson var mjög virkur þegar ég var að byija að spila. Ég djammaði oft með Guð- mundi en var aldrei meðlimur í hljómsveit hans. Svo spilaði ég stundum með Árna Scheving. Það var mér mjög ákveðin inspíra- sjón hvað Guðmundur spilaði mikið og ég fór mjög oft og hlustaði á hann og hafði mjög gaman af því, sérstaklega framan af. Það- er minnisstætt hvað hann var áhugasamur, og lagði sig allan fram í spilamennsku sinni. Það hefðu mátt vera fleiri og fjölbreyttari fyrirmyndir til að líta upp til. Það var auðvit- að mikill missir þegar Gunnar Ormslev féll frá 1982, en þá hafði ég kynnst honum ágæt- lega og spilaði svoiítið með honum en maður var of stutt á veg kominn til að geta náð að meta hann og læra meira af honum. eins og hægt hefði verið ef hann hefði lifað lengur. Starf Jazzvakningar var tals- vert mikið á þessum tíma uppúr 1980 og það var líka eitthvað sem var verulega spennandi og þá voru fluttir inn ýmsir erlend- ir jazzleikarar.“ Manstu eftir einhveijum er- lendum jazzleikurum sem komu hingað á vegum Jazzvakningar og þú varðst fyrir áhrifum af? „Það voru Art Blakey, Dizzy Gillespie og Dexter Gordon og tónleikarnir í Austurbæjar- bíói með Art Blakey voru sérlega minnisstæð- ir. En í rauninni fundum við fyrst og fremst út úr þessu sjálfir, það er mín kynslóð ís- lenskra jazzleikara. Við vorum með hljóm- sveit, Nýja kompaníið, ég, Tómas R. Einars- son og þjóðþekktir mennirnir í dag: Sigurður Valgeirsson, Sveinbjörn I. Baldvinsson og Jóhann G. Jóhannsson, sem er tónlistarstjóri hjá Þjóðleikhúsinu. Eldri íslenskir jazzleikar- ar höfðu tiltölulega lítið fengist við að semja og spila eigin tónlist, en við fundum okkur knúna til að semja eigin tónlist og spila, sem var vissu leyti nokkur nýlunda, þó svo að Nýja kompaníið hafi kannski ekki verið stór- merkileg hljómsveit og margt mátt- finna að leik þeirrar hijómsveitar. Við gáfum út eina plötu á þessum árum á vegum Fálkans sem heitir „Kvölda tekur“. Með tónlist eftir ykkur? „Já, eingöngu. Eldri íslenskir jazzleikarar hugsuðu eftir öðrum brautum. Þeir voru lítið að gefa út plötur og þeir voru ekki að spila eigin tónsmíðar. Mezzoforte voru að gera mjög mikla alvöruhluti á sínu sviði, en það er talsvert mikið annars konar músík, og Björn Thoroddsen var byijaður að spila mik- ið á þessum tíma. Öll þessi kynslóð tekur töluvert annan kúrs heldur en þeir sem á undan voru komnir." Hvernig hefur þetta svo þróast? Hver er staðan í dag? „Þegar ég hugsa til þess núna þá spiluðum við ótrúlega mikið og það er í rauninni rniklu minna framboð í dag af spilamennsku. Það eru miklu fleiri barir í dag en þeir virðast hafa úr minni peningum að spila. Aðstæður í Reykjavík fyrir jazzmúsík eru algjörlega óviðunandi. Það eru tveir staðir sem hægt er að spila á, Kringlukráin og Sólon ísland- us. Það er enginn jazzklúbbur og enginn stað- ur sem heldur úti svona svolítið alvarlegri tónleikum, þó ekki væri nema einu sinni í viku. Skýringanna er kannski að leita í þess- um almennu breytingum á skemmtana- mynstrinu, á framboðinu af almennri afþrey- ingu. Hér með er lýst eftir framtakssömum mönnum til að taka að sér að stofna jazz- klúbb!" Tónlistarskóli F.Í.H. Mér lék forvitni á að heyra Sigurð Flosa- son segja frá Tónlistarskóla F.Í.H.þar sem hann hefur verið yfirkennari undanfarin ár. Hvenær byijaði jazzdeild Tónlistarskóla F.Í.H? „Tónlistarskóli F.Í.H. er stofnaður 1980 og þar var jazzdeild frá upphafi. Hann er fyrstur íslenskra tónlistarskóla til að starfa á öðru sviði en klassískri tónlist eingöngu. Þessi fimmtán, sextán ár frá 1980 hafa breytt viðhorfi manna á íslandi til þessarar tónlistar og menntunar á þessu sviði. Flestir sem eru yngri en þijátíu og fimm ára úr íslenska jazzheiminum hafa farið í gegnum eitthvað af Tón- listarskóla F.Í.H. Ég hef verið yfirkennari jazzdeildarinnar frá því að ég lauk námi 1989. “ Hvernig er skólinn fjármagn- aður? „Það er eins og með aðra tónlistarskóla. Áður greiddi rík- ið laun tónlistarkennara en nú greiðir Reykja- víkurborg laun kennara tónlistarskólans.. Hann er öðru leyti rekinn af skólagjöldum. Hann er í eigu stéttarfélags íslenskra tónlist- armanna, og það er raunar mjög merkilegur hlutur að stéttarfélag tónlistarmanna skuli reka tónlistarskóla og ég held einstakt fyrir- bæri í heiminum. Hér eru háleitar hugsjónir að verki : Að efla og bæta íslenskt tónlistar- líf.“ Og skólinn hefur þá verið eins konar upp- eldisstöð fyrir unga og efnilega tónlistar- menn? „Já, já, algjörlega, og þá sérstaklega í jazz- inum og reyndar líka almennt í ryþmískri tónlist. Já, og skólinn hefur líka verið eins konar félagsmiðstöð þar sem hittast flestir þeir sem kenna við skólann og þarna halda menn sínar æfingar." Og þarna kennir þú sjálfur á nokkur hljóð- færi? „Já, en reyndar kenni ég nú mest bókleg- ar greinar; ég kenni jazzsögu, impróvisasjón, ég kenni samspil og svo kenni ég svolítið á saxófón, en hef þó dregið úr því á síðari árum. Nú orðið kenni ég einnig nemendum sem spila á önnur hljóðfæri í einkatímum, og þá bara impróvisasjón. Þannig er ég með trompetleikara, básúnuleikara og jafnvel söngvara. Þarna eru mörg efni sem eiga eft- ir að koma fram á næstu árum. Nemendur frá okkur hafa staðið sig vel í framhaldsnámi erlendis." Nýi diskurinn Ég spurði Sigurð um nýja diskinn sem er væntanlegur í dreifingu þessa dagana. „Ég er að koma minni inúsík á framfæri og fékk til samstarfs að hluta til sömu menn og ég hafði á síðustu plötu en líka eitthvert nýtt blóð þannig að þetta verði dálítið öðru- vísi, ekki endurtekið, heldur leitað að nýjum straumum. Ég leitaði til tveggja Ameríkana, en eingöngu Skandínava á plötunni þar áð- ur. Ég fékk til samstarfs bandarískan trommuleikara og trompetleikara, sem gefur þessu ákveðinn blæ, og er það von mín að tónsmíðarnar og allt annað hafi eitthvað þró- ast frá síðustu plötu. Þetta er músík af svip- aðri gerð og fyrir sams konar hljómsveit, en von mín er sú að hún marki eitt rökrétt skref fram á við frá síðustu plötu.“ Hvar er diskurinn tekinn upp og hveijir leika með þér á honum? „Hann er tekinn upp í vor í Rauðagerði í sal F.Í.H. þar sem nýbúið er að koma upp fullkomnu stúdíói. Með mér leika á diskinum Eyþór Gunnarsson á píanó, Lennart Ginman, danskur kontrabassaleikari, bandarískur trommuleikari sem heitir John Riley og bandarískur trompetleikari, Scott Wendholt, sem er skólabróðir minn. Sjálfur vonast ég til að ég hafi tekið einhveijum breytingum sem lagahöfundur og saxófónleikari. Þetta er allt nýtt efni frá árunum 1994-6, frá því að síðasti diskur kom út. Kemur þessi hljómsveit fram opinberlega í tilefni af útkomu disksins? „Nei. Það er bara svo dýrt og erfitt að flytja inn svona menn að maður getur ekki gert það nema að hafa íjárstuðning frá opin- berum aðilum eða sjóðum. Ég ætla að setja saman nýja hljómsveit fyrir Rúrekhátíðina sem er spennandi hlutverk." Rúrekhátíðin Það er einmitt í dag sem Rúrekhátíðin er sett í húsakynnum Ríkisútvarpsins við hátíðlega athöfn. Hátíðin barst í tal og Sig- urður var farinn að tjá sig með öllum líkaman- um. Hann stóð uppúr stólnum í vinnuherberg- inu, gekk um gólf og hafði augljóslega ánægju af að ræða um væntanlega tónleika sína á Rúrekhátíðinni. „Þetta er hljómsveit með yngstu kynslóð íslenskra jazzleikara. Ekki að ég sé mjög aldraður maður, heldur eru þeir yngri en ég sjálfur og hafa allir verið nemendur við Tón- listarskóla F.Í.H. meðan ég hef verið kenn- ari þar. Þetta er sextett og ég mun endurút- setja bæði eldri músík svo og þessa músík af nýja diskinum fyrir sextett. Við verðum með tónleika á Hótel Sögu 27. september á föstudegi, og það sem merkilegast er við þá tónleika er að Ríkisútvarpið hefur tekið þá ákvörðun og þá tónlistarráðunaut- urinn, Guðmundur Emilsson, öðr- um fremur, að bjóða þessa tónleika fram í samstarfi Ríkisútvarpsins við EBU (European Broadcasting Union), þannig að þeir verða send- ir út beint til þeirra Evrópulanda innan EBU sem sýna því áhuga. Þetta er auðvitað stórt og mjög spennandi verkefni. Hljómsveitin er skipuð Veigari Margeirssyni trompetleikara, sem er við nám í Florída, píanóleikaranum Agnari Má Magnússyni, sem nemur í Hol- landi, bassaleikaranum Gunnlaugi Guðmundssyni, sem nemur einnig í skóla í Hollandi, Einari Scheving trommuleikara, sem er hér ennþá, en er á förum til Danmerkur, og Óskari Guðjónssyni á tenórsaxófón. Ég er auðvitað ákaflega þakklátur Ríkisútvarpinu fyrir það traust sem það sýnir mér með því að fela mér þetta verkefni." Þú ert þá þessa dagana að ljúka vinnu við útsetningar fyrir þessa samevrópsku útsendingu? „Já, og auðvitað flölmargt ann- að. Skólinn er að hefjast og svo er ég í stjórn Rúrekhátíðarinnar og hef verið það frá upphafi. Við erum búnir að vera að starfa að undirbúningi hennar síðastliðið ár. Hún verður mjög spennandi og skemmtileg, svolítið öðruvísi en síð- asta hátíð, sem aftur var óvenju umfangsmik- il. Það eru mörg spennandi atriði, ekki eitt stórt amerískt eins og verið hefur. Það má minnast á norræna kvennastórsveit sem kem- ur hingað. Nú, svo kemur Skúli Sverrisson frá New York með bandaríska hljómsveit. Það koma bandarískir swingtónlistarmenn og leika með íslenskum slíkum. Það kemur hollenskt tríó sem bassaleikarinn Gunnlaugur Guðmundsson starfar með. Jakob Magnússon stígur að nýju fram í sviðsljósið sem jazz- hljómborðsleikari með tríói Björns Thorodds- en. Þá kemur einnig Pétur Östlund fram með píanótríói, Eyþóri og Þórði Högnasyni, og það er í fyrsta sinn sem Eyþór Gunnarsson leiðir svona píanótríó. Ég nefni það helsta en sjálfsagt hef ég gleymt einhveiju." Og diskurinn þinn kemur þá út á vegum Jazzís? „Já, já, og þetta er áttundi diskurinn sem Jazzís gefur út á örfáum árum.. Fyrsti diskur- inn minn, Gengið á lagið, var sá fyrsti sem Jazzís gaf út. Hann seldist ágætlega hér heima og fór í dreifingu til Svíþjóðar og Noregs, að vísu ekki í mjög stóru upplagi, en seldist þar upp. Að Jazzís standa jazzdeild FÍH, og Jazz- vakning í samvinnu við Japis. Við höfuin gef- ið út diska með Guðmundi Ingólfssyni, Tóm- asi R. Einarssyni, Stefáni Stefánssyni, Stór- sveit Reykjavíkur, Tómasi og Ólafíu Hrönn, Hilmári Jenssyni. Framundan er endurútgáfa á minningarplötu um Gunnar Ormslev, aukin og endurbætt. Þannig að fyrir jólin koma út þrír diskar á vegum Jazzís, þ.e.a.s. fyrir utan minningarplötuna eru það: Minn diskur og svo diskur með tónlist eftir Stefán Stefánsson. Jazzísdiskarnir hafa hlotið mjög góðar viðtök- ur og framtíðin er sem sagt björt í þeim málum . . .“ ALÞJÓÐLEGI jazzkvintettinn á Listahátíð 1996, f.v.: Sigurður Flosason altsaxófónn, Lennart Ginman kontrabassi, Eyþór Gunnarsson píanó, Scott Wendholt trompet og John Riley trommur. Aðstæður í Reykjavík fyrir jazzmúsík eru algjörlega óviðunandi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.