Morgunblaðið - 21.01.1997, Blaðsíða 26
26 ÞRIÐJUDAGUR 21. JANÚAR 1997
MORGUNBLAÐIÐ
LISTIR
Joshua
Bell til Sony
Læknir mótaður í gifs
BRESKI læknirinn Paul
Scarrow átti fyrir skemmstu
hæsta boð á óvenjulegu upp-
boði. Það var á vegum BBC, sem
var að safna fyrir börn í neyð.
Hæstbjóðandi fékk að silja fyrir
hjá listakonunni Kari Furre,
sem gerði nákvæma eftirmynd
Scarrows. Það var ekki tekið
út með sældinni, líkaminn og
andlitið hulið gifsblöndu en
málefnið er gott og ekki öllum
sem býðst að fá af sér eftir-
mynd. Hún verður úr glertrefj-
um, búin hárkollu, aldamóta-
klæðnaði og augum úr gleri.
Verður hún einn af sýningar-
gripum á Thackray-safninu í
Leeds og verður komið fyrir í
eftirmynd af skurðstofu frá
Viktoríu-tímanum.
FIÐLULEIKARINN Joshua
Bell ákvað fyrir skemmstu að
flytja sig um set, kvaddi Decca-
útgáfuna sem hann hefur verið
samningsbundinn undanfarinn
áratug, og gekk til liðs við
Sony. Að sögn hins 29 ára
gamla Bells fannst honum tími
til kominn að breyta ímynd
sinni og taka meiri áhættu.
Upptökur af flutningi hans á
verkum Mendelssohns, Mozarts
og Schumanns þykja ekki kom-
ast í hálfkvisti við það er hann
hefur leikið verkin á tónleikum
og segist hann nú vilja reyna
eitthvað nýtt.
Aðdragandi flutningsins var
hins vegar sá, að því er segir
í BBCMusic að kvikmyndaleik-
stjórinn Framjois Girard bauð
honum að flylja tónlistina í
kvikmynd sem hann vinnur að
og kallast „Rauða fiðlan“. Eng-
inn áhugi var
fyrir hendi hjá
Decca og fékk
Bell ekki leyfi
til að þekkjast
boðið. Sony-
útgáfan var
hins vegar full
áhuga og gerði
samning við
tvímenningana. Þegar Decca
reyndi að fá Bell til að snúa
aftur var það of seint, honum
Ieist mætavel á útgáfustarfið
hjá Sony sem honum þótti
kraftmeira auk þess sem kveðið
var á um mörg spennandi og
óvenjuleg verkefni í samningn-
um við Sony. Eitt fyrsta verk-
efnið verður samvinna við John
Williams um flutning á verkum
Gershwins og að því búnu mun
Bell spreyta sig á bluegrass-
sveitatónlist.
Utgáfa á alneti
Þrír sænskir rithöfundar í stríð við
bókaútgefendur
ÞRÍR sænskir rithöfundar hafa
ákveðið að mótmæla vinnuaðferð-
um bókaútgefenda með því að gefa
bækur sínar út á alnetinu. Þeir Jan
Myrdal, Lars Forssell og Peter Cur-
man segja mótmælin beinast gegn
því að í mörgum stærri bæjum í
Svíþjóð sé enginn skortur á möppu-
dýrum þó engin sé bókaverslunin.
Segja þeir dreifingu á bókum ganga
hægt fyrir sig, stjórnmálamenn
hafí lítinn áhuga á menningarmál-
um og það sama sé að segja um
útgefendur, sem veiti þeim einungis
athygli sem þeir telji vænlega sölu-
vöru þótt listrænt gildi verka þeirra
sé ákaflega vafasamt.
„Við viljum sýna mönnum fram
á það að það erum við, rithöfund-
ar, sem erum atvinnuveitendur og
forlögin sem eru starfsmenn," segir
ljóð- og leikskáldið Forssel, en hann
á einnig sæti í sænsku akadem-
íunni. Ljóðabók hans, „Rimfrost"
geta ljóðaunnendur nálgast á alnet-
inu, http://www.mare-balticum.se,
rétt eins og tvö ritgerðasöfn Myr-
dals um August Strindberg, eitt á
ensku og annað á sænsku, og tvær
ljóðabækur Curmans, eina háðs-
ádeilu og eina „tyrkneska" eins og
hann segir sjálfur.
Lesendur sem aðgang hafa að
alnetinu, fara inn áður uppgefna
slóð, lesa verkið og geta að því
búnu pantað bókina ef þeir vilja.
Pantanir berast til prentsmiðju sem
prentar upp í pantanir. Fullyrða
þremenningamir að bækurnar verði
í hefðbundnu formi en ódýrari en
út úr búð þar sem dreifingarkostn-
aðurinn er enginn. Forssell segir
að þótt höfundamir vilji með þessu
mótmæla, fínnist þeim þetta einnig
skemmtileg aðferð til að feta sig
inn á nýjar brautir.
Bræður munu berjast
KVIKMYNPIR
Laugarásbíó
ELDFIM ÁST
„Feeling Minnesota"
★ ★
Lcikstjóri: Steven Baigelman.
Framleiðandi: Danny DeVito o.fl.
Aðalhlutverk: Keanu Reeves, Ca-
meron Diaz, Vincent D’Onofrio,
Dan Aykroyd, Delroy Lindo, Co-
urtney Love. Fine Line Features.
1996.
ELDFIM ást er saga af tveim-
ur bræðrum sem aldrei geta lát-
ið hvor annan í friði og sérstak-
lega ekki eftir að sá yngri,
greindari og myndarlegri hleyp-
ur á brott með nýgiftri og glæsi-
legri eiginkonu þess eldri, Ijótari
og tvímælalaust heimskari.
Brotthlaupið dregur að sjálf-
sögðu dilk á eftir sér og endar
með ósköpum.
Þetta er ein af myndum Danny
DeVitos og félaga hjá Jersey
Films, sem m.a. voru meðfram-
leiðendur „Pulp Fiction". Þeir
veðja á nýja leikstjóra og ódýrar
myndir með persónulegu hand-
bragði sem standa nær óháðu
bandarísku kvikmyndagerðar-
mönnunum en fabrikkufram-
leiðslunni í Hollywood. Eldfim
ást er dæmigerð mynd fyrir þá.
Hún er kannski líkari einhveiju
frá Gus van Sant en Tarantino
og þótt hún á endanum sé engin
uppgötvun, handritið reikult
nokkuð og framrásin skrykkjótt
er hún lengst af athyglisvert
byijendaverk leikstjórans Steves
Baigelmans, sem vann við það í
samráði við Sundance kvik-
myndastofnunina, miðstöð
óháðrar kvikmyndagerðar í
Bandaríkjunum, undir stjórn
Roberts Redfords.
Eldfima ást er ekki auðvelt
að flokka. Það er í henni svört
kómedía, glæpasaga, ástarsaga
og persónur sem flækjast hver
fyrir annarri í hráslaganum í
Minnesota. Reeves er fremur lít-
ið afgerandi í aðalhlutverkinu og
leyfir hinni ákveðnu Cameron
Diaz, er leikur eiginkonuna
brotthlaupnu af einskærum
þrótti, að stela senunni í mynd-
inni. D’Onofrio ofleikur átakan-
lega sálsjúkan bróðurinn sem
stígur ekki í vitið og virðist eiga
í miklum vandræðum með lík-
amshreyfingar sínar. Til skrauts
eru svo Aykroyd í þokukenndu
hlutverki spilltrar Iöggu, Lindo
sem klúbbeigandi og Courtney
Love sem ótrúlega skilningsrík
gengilbeina.
Sagan um hina eldheitu ást í
bland við bræðraríg hangir alltaf
á bláþræði og fer óvæntar leiðir
að markmiðinu án þess þó að
gera mikið meira en halda áhug-
anum vakandi. Útlitið er hrátt
og hijúft í samræmi við bak-
grunn og samskipti persónanna.
Eldheit ást er fyrir á sem vilja
kynnast öðruvísi bandarískum
myndum en þeim sem fabrikkan
í Hollywood er annáluð fyrir.
Arnaldur Indriðason
MYNPLIST
Listasafn íslands
MÁLVERK
Eirikur Smith. Opið kl. 11-17 alla daga nema
mánud. til 2. febrúar; aðgangur 300 kr. sýning-
arskrá 1.250 kr.
SÚ SÝNING sem nú stendur yfír í efri
sölum Listasafns íslands á verkum Eiríks
Smith frá árunum 1963-1968 er hluti af
sýningaröð safnsins, þar sem tekin eru fyrir
ákveðin tímabil eða valdir þættir úr starfi
valinna listamanna sem hafa markað ákveðin
spor í íslenskri listasögu síðustu áratuga.
Með þessum sýningum gefst kostur á vissri
endurskoðun sögunnar með því að athuga
samhengi viðkomandi listar við samtíma sinn,
það sem á undan fór og loks hvort umrædd-
ur listamaður hefur með þessu framlagi haft
einhver þau áhrif á listþróunina í landinu,
sem marka má af síðari tímum.
Sýningunni hefur verið valin yfirskriftin
„Milli tveggja heima“, og er það vel við
hæfí, enda ljóst að á þessum árum varð eins
konar millikafli í listsköpun Eiríks. Þá hvarf
hann frá þeim strangflatastíl afstraktmál-
verksins, sem hafði verið ríkjandi afl í ís-
lensku málverki allt frá því snemma á sjötta
áratugnum, og þetta millistig varði þar til
að fígúran tók að birtast í myndverkum hans
að þessum tíma loknum.
En í hveiju fólst þessi millikafli? Um að-
draganda hans og inntak fjallar Aðalsteinn
Ingólfsson listfræðingur í úttekt í sýningar-
skrá, þar sem hann rekur að nokkru þróun
listalífsins hér á landi á sjötta og framan af
sjöunda áratugnum. Þar voru tengsl ís-
lenskra listamanna við París áberandi mikil-
vægur þáttur, svo og
þau áhrif sem þaðan
bárst inn í listina hér
á landi. Eðlilega eru
ýmsar af þeim álykt-
unum sem hér koma
fram umdeilanlegar
(m.a. má benda á að
Karl Kvaran var tæp-
ast eini listamaðurinn
sem var menntaður í
Kaupmannahöfn eða
Osló sem kom eitt-
hvað við hræringar í
íslensku listalífi á
sjötta áratugnum, því
Erró og Bragi As-
geirsson voru t.d.
skólafélagar í Osló á
þessum tíma og héldu
sýningar hér heima
fyrir 1960), en heild-
armyndin er skýr;
frönsk áhrif voru
áberandi mikil í þeirri
afstraktlist sem hér
var hin ríkjandi
stefna. Jafnvel þegar
íslenskir listamenn tóku að kynnast banda-
rískum afstrakt-expressjónisma komu þau
áhrif fyrst og fremst til þeirra í gegnum
Evrópu, þó París viki úr sæti sem höfuðborg
íslenskra listamanna eftir 1960.
Það hefur verið
bent á að afstraktmál-
verk íslenskra lista-
manna hafi gjarna
verið náttúruskotið,
ef svo má að orði
komast, en um þetta
atriði segir Aðal-
steinn: „Hvemig sem
strangflatamenn
reyndu að afneita
henni, hvað sem
kenningasmiðir taut-
uðu og rauluðu,
smeygði náttúran sér
inn í verk Islending-
anna með ýmsum
hætti, kannski sem
drög að sjónhring,
sem minning um fjall
eða löngu horfín him-
intungl."
Þessi er einnig
raunin um verk Eiríks
Smith á þessu tíma-
bili, og sést ef til vill
best af því að þó að
margar myndanna á
sýningunni séu án nafns eða einfaldlega kall-
aðar „afstraksjón", er þó víða vísað til fyrir-
bæra náttúrunnar - birtuskila, árstíða eða
veðrabrigða. I úrvinnslunni má merkja tengsl
við verk bandarískra afstrakt-expressjónista
eins og Franz Kline og Willem de Kooning,
og þessi málverk Eiríks bera enn með sér
þann ólgandi kraft glóandi hrauns, sem fól-
ust í sköpun þeirra. Þessi átök koma best
fram í stóru málverkunum, þar sem hrynj-
andi vinnuaðferðarinnar fær best notið sín,
eins og t.d. í „Fjara“ (nr. 2) og „Hrím í borg“
(nr. 6). Slík málverk bera enn í dag vitni
þeim krafti sem skapaði þau, en hið sama
verður tæpast sagt um þau smærri.
Tíminn stendur ekki í stað, og listin ekki
heldur. Þessi kafli í list Eiríks Smith var
mjög mikilvægur á sínum tíma, en þijátíu
árum síðar er ljóst að þarna var um millibils-
ástand að ræða; listamaðurinn (sem og aðr-
ir) áttu eftir að leita á nýjar brautir. Afstrakt-
listin hlaut að víkja, og hlutveruleikinn kom
fram á ný hjá mönnum eins og Eiríki, Ein-
ari Hákonarsyni og fleirum; þeir listamenn
sem tengdust Súm-nafninu leituðu á sama
tíma inn á enn aðrar brautir.
Enn er erfitt að meta gildi þessa tímabils
í íslenskri listasögu til fullnustu, enda margt
að breytast á þessum árum, jafnt meðal lista-
manna sem og í þjóðfélaginu í heild. Eiríkur
Smith tók virkan þátt í þeim breytingum
með persónulegu endurmati, öflugu starfí og
rannsóknum á eigin list, sem um síðir leiddu
hann fram á veg til nýrra viðfangsefna.
Þetta blasir við á veggjum Listasafnsins,
og er vel þess virði fyrir listunnendur að
kynna sér nánar.
Auk greinar Aðalsteins Ingólfssonar eru í
sýningarskrá góðar ljósmyndir af nokkrum
verkum af sýningunni, sem og upplýsingar
um æviferil og sýningarhald listamannsins;
allt gerir þetta skrána að ágætri heimild um
Eirík Smith, sem fengur er að.
Eiríkur Þorláksson
MILLISPIL
EIRÍKUR Smith að störfum, ásamt
Smára syni sínum. 1965.