Óðinn - 01.07.1922, Qupperneq 22
70
ÓÐINN
Guöni H. Johnsen kaupmaður.
Guðni Hjörtur Johnsen, kaupmaður og útgerðar-
maður, andaðist að heimili sínu í Vestmannaeyjum
18. janúar síðastliðið ár aðeins 32ja ára gamall, eftir
stutta legu í taugaveiki. Foreldrar hans voru þau
hjónin Anna Sigríður Arnadóttir Þórarinssonar frá
Hofi í Oræfum og Jóhann J. Johnsen, kaupmaður í
Vestmannaeyjum, dáinn 1893, sonur J. Johnsen kaup-
manns á Djúpavogi. Ráku þeir feðgar, faðir og afi
Jóhanns sál., lengi verslun á Austurlandi, Djúpavogi,
Seyðisfirði og víðar. En móðir Jó-
hanns var Guðfinna Jónsdóttir prests
Austmanns á Ofanleiti í Vestmanna-
eyjum Jónssonar prests á Kálfa-
felli í Fljótshverfi, af Höfðabrekku-
ætt, sem komin er af Eyjólfi lög-
manni Einarssyni í Dal og Helgu
dóttur Jóns biskups Arasonar. En
móðir sjera Jóns Austmanns og
amma Guðfinnu var Guðný Jóns-
dóttir, dóttir hins nafnkunna pró-
fasts Jóns Steingrímssonar á Kirkju-
bæjarklaustri og Þórunnar Hannes-
dóttur Scheving. Með fráfalli Guðna
sál. var stórt skarð höggvið í borg-
arahópinn í Vestmannaeyjum, og
áttu Eyjarnar þar á bak að sjá
góðum og nýtum dreng, enda átti
hann þar miklum vinsældum að
fagna, sökum prúðmannlegrar fram-
komu, drenglundar sinnar, óeigingirni og hjálpsemi
við aðra, og mun hans verða þar lengi minst sem
hins besta manns. Guðni heitinn ólst upp hjá móður
sinni — föður sinn misti hann, eins og áður er getið,
þegar hann var í bernsku — og naut hjá henni guð-
rækilegs og góðs uppeldis og menningar; var hann
hjá henni þar til hann kvæntist, nema þann tíma, sem
hann var til náms annarstaðar, á Verslunarskólanum
í Reykjavík og víðar. Hann kvæntist rúmt tvítugur
eftirlifandi ekkju sinni, Jóhönnu Erlendsdóttur trje-
smíðameistara í Reykjavík, og lifir hún mann sinn
ásamt 3 börnum þeirra, en eitt mistu þau í æsku.
Á fyrstu búskaparárunum reisti hann sjer steinsteypu-
hús, sem er eitt af myndarlegustu íbúðarhúsunum í
Vestmannaeyjum, ásamt útihúsum og fiskhúsum, sljett-
aði og ræktaði að fuilu stórt tún úr óræktuðum móa.
Reglusemi og góð umgengni einkendi alt, sem hann
hafði undir höndum. Hann var meðal frumherjanna
í mótorbátaútvegnum, sem hefur gerbreytt Vest-
mannaeyjum fjárhagslega; var og einn af þeim, sem
fyrst studdu að því, að Vestmanneyingar öfluðu sjer
björgunarbáts. Hann var fyrir nokkrum árum byrj-
aður að reka verslun, og vann sjer þar, eins og ann-
arstaðar, fullkomið traust, sökum áreiðanleika í öll-
um viðskiftum. Guðni heitinn var með hæstu mönnum
vexti, fríður sýnum og karlmannlegur, bókhneigður
maður og greindur vel. Honum var og mjög sýnt
um íþróttir, hugprúður og lá ekki á liði sínu. Þeim,
er þetta ritar, er kunnugt um, að tvisvar lagði hann
sig í beina lífshættu, fil að bjarga mönnum úr lífs-
háska. Hann mun og hafa verið
talinn einhver allra besti bjarg-
sigamaður í Vestmannaeyjum, með-
an hann lagði stund á það í upp-
vextinum. En það er starf, sem
ekki er heiglum hent. — Æfiferill
þessa manns var ekki langur,
en hann byrjaði lífsstarfið ungur,
og starfaði meðan tími vanst, og
var því búinn að framkvæma meira
en gerist um marga á hans aldri.
Og víst mun samborgurum Guðna
sál. og öllum, sem kynni höfðu af
honum, mikil eftirsjá að honum,
sem sjálfsagt hefði átt eftir að
vinna margt gott og nýtilegt starf,
hefði honum enst aldur íil. Og æ
munu vinir hans og vandamenn
með söknuði geyma minninguna
um hann og hinar mörgu ánægju-
stundir, er þeir nutu á hinu skemtilega heimili þeirra
hjóna. — Hann var jarðsunginn við Landakirkju í
Vestmannaeyjum og hvílist þar í kirkjugarðinum við
hlið ættmenna smna, er þar hvíla í fimm liðu. Fylgdi
honum til grafar meiri mannfjöldi en dæmi hafa verið
til áður þar í Eyjum.
Vestmanneyingur,
&
Sumarblíðan.
Þessi blíða’ er himneskt hnoss,
hugans eyðir meinum.
Náttúrunnar kærleikskoss
kveykir líf í steinum.
Fnjóskur.
Guðni H. Johnsen.