Óðinn - 01.01.1932, Qupperneq 16

Óðinn - 01.01.1932, Qupperneq 16
16 ÓÐINN ana. Við gengum á undan samhliða 5 saman spölkorn, og snerum svo aftur til hestanna, fór- um svo enn brautina á undan þeim, og þá tókst að koma þeim á eftir okkur. Var þá komin 15 manna braut í snjóinn, en hún þurfti að vera svo breið að hún tæki baggana. Þessu hjeldum við áfram yfir alla heiðina vestur á brún, en tveir menn voru á eftir með hestana. Lengra var enginn vegur að fara með hestana, enda var þá komið fram á nótt og veður skuggalegt, norðanstormur og farið að fenna í brautina. Jón Sigurðsson hjelt áfram og 4 menn með honum og báru 2 heypoka hver ofan að Böðvarsdal; en tveir áttu að fara til baka með hestana, en til þess voru allir ófúsir. Þó varð það úr að Jón Þorkelsson, vinnumaður Jóns Sigurðssonar, fór með þá, og jeg með honum. Jón var þrek- maður og harðger, enda kom það sjer vel þá um nóttina. Brautin var víða orðin full af snjó og veður hið versta. Þó gekk sú ferð slysalaust. Daginn eftir kom Jón Sigurðsson og förunaut- ar hans. Hafði hann sent mann frá Böðvarsdal inn á Vopnafjörð, með brjef til hreppsnefndar- oddvita, og skorað fast á hann að senda tafar- laust matbjörg til þessara heimila; en heybjörg mundi hann og Hlíðarmenn annast um. Var það á orði haft að brjef Jóns hefði verið »lög- eggjan«, enda hreif það. Pjetur Guðjohnsen, sem þá var oddviti, sendi þegar menn með matbjörg út til dalanna. Bráðustu þörfinni var nú fullnægt, en ekki mundi þetta hey endast lengi handa mörgum gripum. Sendi Jón því enn um næstu bæi til að leita hjálpar með eina ferð enn. Flestir brugð- ust vel við því, er þeir sáu hversu ótrauðlega hann vann að þessu, enda var Runólfur bóndi vinsæll meðal Hliðarmanna. Tveim dögum síðar lögðum við því enn af stað 9 saman með Jóni. Hestar voru notaðir eins og fyr upp á heiðarbrún, en þar lögðum við sinn töðupokann hver á bakið og hjeldum vestur heiði. Töðupokana skildum við eftir til og frá á heiðinni, því nú var í ráði að reyna að reka austur það sem gengið gæti af fjenaði. Var því álitið nauðsynlegt að hafa hey til að teygja það áfram. Segir ekki af ferðum okkar vestur, en að Böðvarsdal komum við seint á degi. Var þegar farið að búast til ferðar og velja úr það af fjenaði sem gangfært þótti. Ekki var talið fært að leggja af stað fyr en um lágnætti, því þá fraus svo að færi var fyrir kindur og lausan mann, en á daginn linaði snjóinn af sólu, enda þótt aldrei sæi vel til sólar fyrir ísaþoku. Jón Sigurðsson sendi mann inn að Eyvindar- stöðum, sem er kotbær innar í dalnum, og bauð þeim að láta fje sitt fara með, það sem ferða- fært væri, því þeir voru að þrotum komnir með hey. Þeir brugðust illa við og kváðu það vera að reka það út í opinn dauðann, en þó varð það úr að þeir komu með nokkrar kindur. Við lögðum af stað nálægt kl. 12 um nóttina. Ekki man jeg með vissu hvað fjeð var margt, en það mun hafa verið nálægt 100. Allir heima- menn fylgdu okkur á leið, sem ferðafærir voru, enda var þess þörf, því seint gekk að reka ung- lömb og magrar skepnur frá húsum. Við náð- um uppundir efstu brekku áður en færið þraut, en eftir það var ekki um annað að gera en að raða hópnum i sporaslóð í smáhópum, ganga svo meðfram, og teygja það áfram með hey- tuggum í hendi sjer. Komu þá töðupokarnir í góðar þarfir. Við þetta vorum við að þaufa í 3 dægur, en að lokum komum við öllu lifandi austur af heiðarbrúninni. Þar náði strax til jarð- ar og hvildum við þar lengi. Við vorum svo heppnir að við fengum besta veður alla leið; hefði storm gert, þá var fjeð allt í voða statt, og tvísýnt að allir hefðu verið ferðafærir þegar það var yfirgefið. Ekki var öllu lokið með þessu. Nú voru naut- gripir, hestar og nokkrar kindur eftir í Böðv- arsdal, sem ekki voru ferðafærar. Var þvi búinn út einn leiðangur enn með hey á 15 hestum. Ekki man jeg hvað margir fóru með þá lest, því jeg var ekki með í þeirri ferð, og jeg hygg enginn okkar, sem fóru næstu ferð á undan. Sú ferð tókst vel, því nú var brautin orðin svo troðin yfir heiðina að víða kendi jarðar, enda seig nú snjórinn með degi hverjum. Varð nú komist með hesta alla leið ofan að Böðvarsdal. Um sama leyti greiddi sundur hafísinn svo bát- um varð við komið. Sendi þá hreppsnefndin næg- ar kornvörur til dalanna handa mönnum og skepnum, svo öllu var borgið. Þá tók líka all- an snjó á fám dögum. Þó var eilthvað meira flutt af heyi norður, þvi ef jeg man rjett, þá var talið að 30 hestburðir hefðu verið fluttir þangað það vor. ★ ★ ¥

x

Óðinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Óðinn
https://timarit.is/publication/205

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.