Dagblaðið Vísir - DV - 25.10.1990, Blaðsíða 5

Dagblaðið Vísir - DV - 25.10.1990, Blaðsíða 5
FIMMTUDAGUR 25. OKTÓBER 1990. 5 í hjarta okkar vitum við að ísland er eitt besta land veraldar eða það besta, og gjöfult getur það verið ef rétt er á málum haldið. En hvað er þá að, er kerfið brenglað og landinu kennt um? Það skyldi þó aldrei vera? Mér er nær að halda að leitun sé að lýðræðisríki þar sem ofstjórn og kerfishroki lifa jafn góðu lífi og hér. Ert þú sammála eða hefur þú verið svo lánsamur að þurfa aldrei að sækja réttlætismál til ríkisvaldsins og koma hvarvetna að lokuðum dyrum? Ekki get ég státað af því né heldur fjöldi fólks sem leitað hefur til mín. Sj álfstæðismenn verða að berjast gegn sívaxandi drýldni kerfisins. Það gera ekki aðrir. Tækifærin til framfara blasa hvarvetna við og draumarnir rætast þegar frelsisafl fólksins leysist úr læðingi. Með þetta í huga göngum við nú til prófkjörs um frambjóðendur í örlagaríkum Alþingiskosningum. Vindar frjálsræðis leika nú um alla Evrópu og stjórnlyndi er hvarvetna hafnað. Gömul baráttumál verða að veruleika eftir langa bið. Því fögnum við og horfum vonglöð fram á veginn. Þessum umbyltingum hef ég kynnst við störf mín að alþjóðamálum, fyrst sem formaður utanríkismálanefndar og nú Evrópunefndar Alþingis. í samskiptum okkar við Evrópubandalagið eigum við margra góðra kosta völ og þurfum aldrei að fórna neinum fiskveiðiréttindum ef hyggilega er á málum haldið. Að nýju býðst nú stóriðja og stórvirkjanir. Auðlegð sú sem felst í hreinu umhverfi er mikilvæg á sviði ferðamála og matvælaframleiðslu. Þessi tækifæri eigum við hiklaust að nýta. Hver sigurinn af öðrum vinnst nú í landhelgismálum og auður sá sem fólginn er í menntun og verkkunnáttu vex nú óðfluga. Hægt verður því um vik að bæta kjörin þegar þjóðin losnar úr álögum vinstristefnu. Pá linnir líka blekkingunni um kjörin og skattana, enda er nú hver maður að sjá í gegn um hana. Ljósast snýr þetta að láglaunafólki sem borgar háa dulda skatta þótt-það eigi ekki til hnífs og skeiðar í bókstaflegri merkingu. Sú staðreynd að kjara- og aðstöðumunur er nú meiri á íslandi en verið hefur í áratugi er svartasti blettur þjóðlífsins. Það er frumskylda Sjálfstæðisflokksins þegar hann fær völdin að snúast gegn þessu siðleysi því aðrir gera það ekki. Með auknum þrótti atvinnulífsins verður auðvelt að bæta hag sjúkra og aldraðra, efla menningu og menntir og sækja fram á öllum sviðum. Allt blasir þetta við ef okkur tekst að sigla framhjá boðum og nýta einstakt tækifæri til mikilla sigra. Við þurfum að stilla saman strengina þótt sjálfstæðismenn geti aldrei orðið sammála um alla hluti, enda yrði þá lítið úr heilbrigðri þjóðmálaumræðu. Ég hef barist gegn forsjárhyggju og ofríki og í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hef ég talið mig leggja mest á vogarskálarnar sem talsmaður athafnafrelsis og framfara. Það hefur glatt mig að finna hvatningu og stuðning sjálfstæðisfólks í Reykjavík við störf mín. Fyrir fjórum árum sóttist ég eftir þingsæti í Reykjavík, höfuðvígi frjálslyndis á íslandi og fékk örugga kosningu. Nú sækist ég eftir afgerandi umboði þínu til enn aukinna áhrifa og forystuhlutverka til áframhaldandi baráttu gegn kerfishyggju og ofsköttun. Með bestu kveðju, W. Eyjólfur Konráð Jónsson

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.