Dagur - 24.11.1990, Blaðsíða 5

Dagur - 24.11.1990, Blaðsíða 5
Laugardagur 24. nóvember 1990 - DAGUR - 5 Skyggnst á bak við launadeilumál Sigurborgar Daðadóttur, fyrr- verandi framkvæmdastjóra Einangrunarstöðvar ríkisins í Hrísey: Allt á huldu með framhaldið Sigurborg Daðadóttir, dýralæknir á Akureyri, hefur Iátið af störfum sem framkvæmdastjóri Einangrunarstöðvarinnar í Hrísey, eins og fram kom í frétt í Degi sl. miðvikudag, og hyggst snúa sér að dýralækningum á „meginlandinu“. Léleg launakjör eru ástæða uppsagnarinnar. Einangrunarstöðin er því án framkvæmdastjóra og ekkert liggur fyrir um hvenær nýr framkvæmdastjóri verði ráðinn til starfa. Lögum sam- kvæmt skal framkvæmdastjóri Einangrunarstöðvarinnar vera dýralæknir að mennt, en formaður Dýralæknafélags íslands segir að félagið hafi beint því til félagsmanna að þeir sæki ekki um stöðuna án samráðs við stjórn Dýralæknafé- lagsins, verði hún auglýst. Maitír "'‘wraj'írn llúsaulur Sigurborg hóf störf við Einangr- unarstöð ríkisins í Hrísey í apríl 1986 og lét endanlega af störfum um mánaðamótin september- október sl. í bréfi sem Sigurborg sendi Steingrími J. Sigfússyni, landbúnaðarráðherra, í vikunni, dagsett 20. 11. 1990, segist hún hafa verið orðin óánægð með launakjör sín í ársbyrjun 1989, en sl. vor hafi hana brostið þolin- mæði og sagt upp störfum, vegna þess að í engu hafi verið komið til móts við málaleitan hennar um launaleiðréttingu. Um hvað snýst málið? En um hvað snúast þessar launa- deilur? Sigurborg skýrir þetta í nefndu bréfi til landbúnaðarráð- herra: „Ég var í launaflokki 150 og með 37 fasta yfirvinnutíma, sem voru unnir tímar. Á sama tíma voru deildarstjórar í þínu ráðuneyti í launaflokki 153, (þ.á m. búfræðikandidat og íþróttakennari). Ég hef 6 ára háskólanám að baki auk 3ja námskeiða í Skandinavíu, þar sem ég kynnti mér fósturvísa- flutninga. Sem framkvæmda- stjóri Einangrunarstöðvarinnar bar ég fjárhagslega ábyrgð á stofnuninni, hafði mannaforráð auk þess að bera ábyrgð á ein- angrun dýra vegna smithættu. í mínum launakjörum er engin staðaruppbót þrátt fyrir að vinnu- staður minn sé svo einangraður sem mest má vera. Samkvæmt lögum er dýralækni stöðvarinnar óheimilt að stunda almennar dýra- lækningar í landi. Þarna er í raun verið að svipta viðkomandi dýra- lækni læknisleyfi á meðan hann gegnir þessari stöðu, honum er óheimilt að vinna við sitt fag utan venjulegs vinnutíma. Pessi svipting er í engu bætt. Ég fékk ekki greiddan símakostnað þrátt fyrir að ég hafi notað minn síma töluvert í þágu stöðvarinnar, fyrr en ég sagði upp störfum nú í vor sl. Mér var og er í engu bætt aðstoð vegna flutninga eða hús- næðis. Með þessar staðreyndir lagði ég upp í launabaráttu vorið 1989.“ í þessum orðum er ekki getið beint um þá málaleitan Sigur- borgar að fá greitt fyrir bakvakt- ir, en sem framkvæmdastjóri og dýralæknir Einangrunarstöðvar- innar þurfti hún ætíð að vera til taks ef á þurfti að halda úti í Hrísey. Hefði viljað starfa áfram í nefndu bréfi til ráðherra rekur Sigurborg samskipti sín við landbúnaðarráðuneytið og segir farir sínar ekki sléttar. Fram kemur að ráðuneytismenn, fyrst og fremst Guðmundur Sigþórs- son, skrifstofustjóri, og Jóhann Guðmundsson, deildarstjóri, hafi hvað eftir annað, allt frá fyrstu mánuðum síðasta árs, lofað að ganga í málið, en efndirnar hafi engar verið. í lok bréfsins segir Sigurborg: „Ég hefði gjarnan viljað starfa við Einangrunarstöðina áfram, það er augljóst að enginn vilji er fyrir því í landbúnaðarráðuneyt- inu að hafa mig áfram í starfi framkvæmdastjóra Einangrunar- stöðvarinnar og kemur mér það á óvart því mér er kunnugt um marga aðila sem gæfu mér góð meðmæli, þ.ám. ríkisbókhald. Það er eðlilegt að álykta af framangreindum viðskiptum mínum við ráðuneytismenn að ekki er vilji þar á bæ til að hafa mig áfram við Einangrunarstöð- ina og get ég ekkert sagt né gert við því. Mér þykir aftur á móti mjög óeðlilegt að ekki skuli hafa verið sagt strax í upphafi að ég fengi ekki bætt launakjör, heldur er ég dregin á asnaeyrunum og mér lofað trekk í trekk. Nú er svo komið að ég hef verið at- vinnulaus í 7 vikur vegna þess að þeir hafa lofað og lofað, þannig að ég gat ekki byrjað í öðru starfi þar sem ég átti von á því að fara aftur út í Hrísey þegar þeir stæðu við það sem þeir lofuðu." „Milli steins og sleggju“ Guðmundur Sigþórsson, skrif- stofustjóri í landbúnaðarráðu- neytinu, sagði að fyrir lægi að staða framkvæmdastjóra yrði auglýst ef Sigurborg hyrfi fyrir fullt og allt frá Einangrunarstöð- inni. Guðmundur sagði að á dögun- um hafi Jóhann Guðmundsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðu- neytinu, og Brýnjólfur Sandholt, yfirdýralæknir, verið á Akureyri og ætlað að ná fundi Sigurborgar, en af ýmsum ástæðum hafi ekki verið unnt að koma því í kring. Um það hvort ríkinu sé ekki skylt að hafa dýralækni til staðar í Einangrunarstöðinni, lögum samkvæmt, sagði Guðmundur að lögin gerðu ráð fyrir að ráðsmað- ur og þar með framkvæmdastjóri stöðvarinnar væri dýralæknir. „Að sjálfsögðu er hægt að hafa ýmiss konar form á þessu án þess að brjóta lögin. En fyrst og fremst verður að hugsa um að öryggið sé í lagi við stöðina,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að varðandi kröfur Sigurborgar um bætt launakjör væri ráðuneytið í töluverðum vanda, því búið væri að semja við dýralækna. Strangt til tekið væri hún bundin af þeim samningi. „Við erum á milli steins og sleggju. Annars vegar gildandi samninga og hins vegar að finna einhverja útleið fyrir Sigurborgu. Það verður að byggjast á góðum vilja beggja aðila, vitandi um þau vandamál sem við stöndum í. Það er ekki nóg að við gerum allt sem við getum, því það getur far- ið svo að við náum ekki því fram sem hún vill vegna launadeildar- innar. Það er enginn ómissandi í starfi, maður kemur í manns stað. Hins vegar er Sigurborg mjög góð í þessu starfi og við sjáum eftir henni. En við verðum að leita að manneskju sem sættir sig við það sem við getum boðið,“ sagði Guðmundur. Einangrunarstöðin lögð niður? Guðmundur sagði ekki hafa komið til tals að draga úr starf- semi Einangrunarstöðvarinnar, en hins vegar væri þekkt að menn væru ekki á eitt sáttir um rétt- mæti þess að flytja eingöngu inn Galloway. Hann sagði að bændur hafi látið í ljós óskir um innflutn- ing á öðrum stofnum. „Það er hugsanlegt að opnað verði á það með nýrri lagasetningu. Ef það gerist, þá má segja að rétt sé að endurskoða grundvöll stöðvar- innar með víðtækari verkefni í huga. Ég held hins vegar að vegna þess að þarna er komið töluvert míkið erfðaefni í Gall- oway, liggi næst fyrir að dreifa þeim til bændanna.“ Magnús Guðjónsson, formaður Dýralæknafélags íslands, sagði að félagið hafi talað máli Sigur- borgar við Brynjólf Sandholt, yfirdýralækni, og embættismenn í landbúnaðarráðuneytinu, en þar hafi engin skýr svör fengist um hvað það hygðist fyrir. Magnús sagðist hafa á tilfinning- unni að þetta væri vísbending um að ráðuneytið stefndi að því að leggja Einangrunarstöðina niður í núverandi mynd. „Ég skil ekki hvernig liggur í þessu máli, því það virðast allir vera sammála um að Sigurborg var fáránlega illa launuð í þessu starfi. Hún var með miklu lægri laun en gengur og gerist í stéttinni,“ sagði Magnús. „Viðbrögð manna í landbúnaðarráðuneytinu í þessu máli voru afar skrítin. Menn voru sammála um að þyrfti að leysa málið, en það virtist enginn nenna að taka á þessu. Menn voru annaðhvort að fara til útlanda, eða nýkomnir frá útlöndum og því ekki búnir að setja sig inn í málið. Ég get ekki annað séð en að landbúnaðar- ráðuneytið stefni að því að leggja stöðina niður vegna þess að það hefur með dæmalausum vinnu- brögðum fælt frá sér eina dýra- lækninn í landinu sem er sér- menntaður í fósturvísaflutning- um,“ bætti hann við. Dýralæknar sæki ekki um stöðu framkvæmdastjóra Magnús orðaði það svo að launa- kröfur Sigurborgar hafi verið mjög hógværar og eðlilegar. Hann sagði mjög skýrt í lögum um Einangrunarstöðina að við hana ætti að starfa dýralæknir og því væri starfsemi hennar ólögleg nú. „Landbúnaðarráðuneytið er að brjóta lög. Ég veit ekki til þess að nokkurs staðar í heiminum hafi verið rekin sóttvarnastöð án dýralæknis. Ég vil benda á að í verkfalli dýralækna lagði ráðu- neytið mikla áherslu á að dýra- læknir Einangrunarstöðvarinnar í Hrísey væri undanþeginn verk- falli vegna þeirrar staðreyndar að dýralæknir sóttvarnastöðvar mætti aldrei leggja niður störf, því þá skapaðist sú hætta að sjúkdómar bærust í land. Nú er ráðuneyt- ismönnum hins vegar alveg sama um þetta. Dýralæknafélagið getur út af fyrir sig lítið gert, annað en það að við höfum sagt okkar félags- mönnum að þeir megi ekki sækja um þessa stöðu nema að höfðu samráði við stjórn félagsins," sagði Magnús. Gæti haft alvar- legar afleiðingar Olafur Stefánsson, ráðunautur hjá Búnaðarfélagi íslands, sem hefur fyrir þess hönd haft yfirum- sjón með Galloway-ræktuninni í Hrísey, sagði þá stöðu sem nú væri komin upp mjög alvarlega. Hann sagðist hafa átt góð sam- skipti við Sigurborgu og að hans mati hafi hún unnið mjög gott starf við Einangrunarstöðina. Ólafur sagði ekki orka tvímælis að við stöðina yrði að starfa dýra- læknir með sérmenntun í fóstur- vísaflutningum. „Ég tala ekki um nú, þegar fyrir dyrum stendur eggjaflutningur í land. Það er afar slæmt ef málið leysist ekki og þetta gæti farið að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur stöðvar- innar,“ sagði Ólafur. Hann sagði að út af fyrir sig kæmi þessi afstaða ráðuneytisins ekki á óvart, því að á undanförn- um árum hafi það hvað eftir ann- að brotið lög um Einangrunar- stöðina. Þannig hafi ákvæði lag- anna um aðstöðu í landi til að rækta gripi úr Hrísey ekki verið framfylgt. Á þetta sagði Ólafur að Búnaðarfélag íslands hafi ítr- ekað bent, allt frá árinu 1979, en án árangurs. „Mér finnst land- búnaðarráðuneytið hafa í mörg ár verið afskaplega lítið virkt í framfaramálum landbúnaðar- ins,“ sagði Ólafur. óþh Sigurborg er eini dýralæknirinn hér á landi sem hefur sérþekkingu í fóstur- vísaflutningum. Hér er hún í einni slíkri aðgerð á Möðruvöllum sumarið 1989. Á myndinni til vinstri eru Galloway-nautgripir í Hrísey.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.