Þjóðviljinn - 10.03.1984, Side 10
10 SÍÐA - ÞJÓÐVIL.IINN Helgin 10. - 11. mars 1984
Barna- og unglingaleikritiö Amma
þó! eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur
var nýlega frumsýnt í Þjóðleikhús-
inu og hefur það vakið umræðu og
umtal. Höfundurinn fer á vit ævin-
týrisins og er það nýlunda, því að
hingað til hef ur Olga Guðrún fyrst
og f remst verið kunn fyrir raunsæi í
verkum sínum. Við heimsóttum
hana á f immtudag tii að forvitnast
svolítið um afstöðu hennar tii fanta-
síu og realisma og eins um hvað
hún væri að starfa um þessar mund-
ir.
- Hvernig hafa þér þótt viðtökurnar við
leikriti þínu?
- Ég er mjög ánægð með þær að flestu
leyti, aðsókn hefur verið góð og ég hef ekki
orðið vör við annað en að krakkar og full-
orðnir skemmti sér prýðilega á sýningum.
Leikdómarnir í fjölmiðlunum voru hins
vegar misjafnir, ýmist mjög jákvæðir eða
mjög neikvæðir. Það er áberandi í málflutn-
ingi hinna neikvæðu að þeir virðast vera að
krefjast einnar ákveðinnar tegundar leik-
húss, þar á ég við vandamálastefnuna, sem
ríkt hefur undanfarið í leikhúsum víða um
lönd. Þetta þykir mér hættuleg einsýni, hún
hefur í för með sér stöðnun og dautt
leikhús. Mér finnst þessi krafa vinstri
manna um klisjulausnir í sósíalrealískum
anda hræðilega hvimleið. Hægri íhaldssemi
og fordómar eru nógu andskoti erfið viður-
eignar, en vinstri íhaldssemi er tífalt verri.
Það má ekki bíta sig í eina þrönga staðlaða
formúlu og útiloka allt annað. Nú er svo
komið að ævintýri er nánast klúryrði.
Listin felst í hinu ósagða
- Og það hentar þér ekki?
- Það hentar engum rithöfundi að vera
bundinn á klafa tískufyrirbæra. Listamenn
verða að vera framsæknir, prófa sig áfram.
Það ættu vinstri menn auðvitað líka að vera,
og þeir mættu gjarnan andskotast til þess að
styðja við bakið á vinstri sinnuðum lista-
mönnum oftar en þeir gera. Ekki með oflofi
eða yfirdrengskap, heldur með áhuga og
hvatningu. Menn verða að átta sig á mikil-
vægi tilraunarinnar.
- Þú lítur þá á þetta leikrit sem tilraun?
- Svo sannarlega. Það er tilraun til að búa
til svolítið annarskonar leikhús fyrir börn
en tíðkast hefur hér. Það er troðfullt af
boðskap og rammpólitískt, þó ekki sé það á
þennan staðlaða máta. Við erum að búa til
leikhús, ekki kennslustund þar sem boð-
skapurinn er nákvæmlega vigtaður og
mataður oní börnin. Og við notum í þessari
tilraun öll þau meðöl sem okkur þykir
henta: Ævintýri, ýkjustíl, farsa og mátu-
legan skammt af raunsæi, svo eitthvað sé
talið. Hvert þessara elementa hefur sinn
tilgang, þau eru ekki þarna „af því bara“.
En alvöruþrungnu sósíal-realistarnir ein-
blína á „Vandamálin" í verkinu, vilja láta
leysa þau skýrt og skorinort og skítt með
það þótt öllum drepleiðist gamla lumman.
Þeir tala um „óljósan“ boðskap ef hann
tekur á sig aðrar myndir en þessa einu
sönnu svart-hvítu. Þetta sýnir ekki einungis
skilningsskort þeirra á eðli leikhússins,
heldur er þetta hróplegt vanmat á börnun-
um, boðskapnum og listinni.
- Þú ert sem sagt að fara aðra leið að
sama marki?
- í og með. Mig langar til þess að koma
ákveðnum skilaboðum áleiðis til áhorf-
enda, en ekki á þann veg að allir meðtaki
einhvern einn Stóran-sannleik, heldur kýs
ég að hver fari heim með sitt. Það er alls
ekki eftirsóknarvert fyrir listamann að allir
nemi það sama af verkum hans. Þá er það
ekki list. Listin felst í hinu ósagða og óskil-
greinda, sem vekur mismunandi tilfinning-
ar og hugrenningar hjá þeim sem nýtur
verksins. Listaverk hljóta að kalla á fjöl-
breytta upplifun.
Börn hafa heilbrigðara vit
- Telurðu að börn og unglingar séu
kröfuharðir eða kröfulitlir áhorfendur?
- Þeir eru kröfuharðir á sína vísu, en á
öðrum forsendum en þeir fullorðnu. Barn
hefur annað gildismat en við sem erum full-
orðin og skemmtir sér yfir öðru. Það verður
að taka tillit til margs þegar maður semur
fyrir börn. Það má gjarnan gera töluverðar
kröfur til þeirra, ef manni tekst að gera það
á þeim nótum sem vekja áhuga þeirra. En
það á ekki alltaf að vera að hafa vit fyrir
þeim. Þau hafa oft miklu heilbrigðara vit en
þeir fullorðnu sem löngu eru búnir að
gleyma hvað er rétt og hvað rangt, og hvað
það raunverulega er sem skiptir máli í líf-
inu.
- Fyrir hvaða aldursflokk er er Amma
þó?
- Mér sýnist krakkar á skólaaldri njóta
þess best. En þetta er auðvitað einstak-
Realisminn
og fantasían
Rætt við
Olgu Guðrúnu
Árnadóttur
rithöfund
OlgaGuðrún:Hægriíhaldssemiogfordómarerunóguandskotierfi& viðureignar, en vinstri íhaldssemi er tífalt verri. Ljósm. -eik.
lingsbundið líka. Ég hef heyrt um miklu
yngri börn sem hafa setið hin áhugasöm-
ustu alla sýninguna. Þau hafa auðvitað ekki
tök á að skilja söguþráðinn í smáatriðum,
en þau geta fengið sitthvað útúr þessu samt,
trúi ég. Mér finnst það líka mikilsvert að
leyfa litlum krökkum að kynnast andrúms-
lofti leikhússins, oft skynja þeir miklu fleira
en maður hefði ætlað.
- Þú átt litla dóttur, hefur hún séð leikrit-
ið?
- Já, hún Salka er einmitt í yngri kantin-
um, - rétt rúmlega þriggja ára. Hún er al-
gjör leikhúsrotta, situr sem bergnumin í
hvert sinn sem hún kemur í leikhús og vill
ekki þaðan út meir. Ég tók hana með mér á
nokkrar æfingar og hún var ekkert nema
augu og eyru. En hún er auk þess þrælhlut-
dræg, einsog gefur að skilja. Leikrit eftir
mömmu er auðvitað miklu merkilegra en
önnur leikrit, -hún myndi án efa sitja undir
hvaða ósköpum sem væri af eðlislægri sam-
kennd með mér.
- Ert þú á leið frá realismanum yfir í
fantasíuna?
- Ekkert frekar. Leiðir liggja til allra
átta, og svo tekur maður bara þann strætó
sem er líklegastur til að skila manni á leiðar-
enda í hvert sinn. Auðvitað hlýtur sú leið
sem maður velur að ráðast nokkuð af efni-
viðnum hverju sinni, - einu efni hentar best
raunsæisbúningur, öðru ýktur stíll o. s. frv.
Ég vil helst fara víða og læra að notfæra mér
leiðakerfið eftir bestu getu. Mig langar ekki
til að festast í sama hringsólinu.
- Sumir hafa sagt að amman í verkinu
þínu minnti dálítið á Línu Langsokk.
- Það er kannski dálítið til í því. Þessi
kvenpersóna hefur sínar eigin reglur og sína
eigin siðfræði, og uppgjöf er ekki til í henn-
ar orðabók.
Ég er ekkert
sérlega félagslynd
- Ertu að hugsa um að hella þér út í
leikhúsið á næstunni?
-Mér finnst mjög gaman að vinna í
leikhúsi, og það er bæði tilbreyting og viss
léttir í því fólginn að koma til starfa með
öðru fólki, þegar maður hefur lengi setið
einn við sitt pot. Þetta var líka ákaflega
góður og elskulegur hópur að eiga sam-
skipti við, fólkið sem vann að sýningunni,
og þessi tími var mér lærdómsríkur og
ánægjulegur. En svo er líka afskaplega gott
að hverfa aftur að ritvélinni eftir svona
törn. Ég held ég hafi ekki bein í að vinna
lengi í senn í leikhúsi, ég er ekkert sérlega
félagslynd, oftast finnst mér best að vinna
ein. Þörfin fyrir einveruna fer sívaxandi, og
það kemur sér ágætlega. Tíminn er líka orð-
inn svo dýrmætur, það er svo margt sem mig
langar til að koma í verk og eftir að ég fór að
lifa fjölskyldulífi er orðið enn mikilvægara
að ráðstafa vinnutímanum vel. Það hefur
verið mér ágæt lexía, því þegar tíminn er af
skornum skammti þarf maður að temja sér
skipuleg vinnubrögð, annars kemur maður
engu í verk.
- Hverju eru að vinna að núna?
- Ég er með skáldssögu í smíðum og ætla
að einbeita mér að henni í bili.
- Er hún fyrir börn, unglinga eða fullorð-
ið fólk?
- Það verður að ráðast. En hún er hins
vegar um allt þetta. Þetta er uppvaxtarsaga
stúlku sem fædd er um svipað leyti og ég,
uppúr 1950. Þó ekki sjálfsævisaga. Hana
skrifa ég ekki fyrr en ég er komin á astral-
planið, finn mér þá einhvern góðan miðil,
sérhæfðan í ósjálfráðri skrift. Eg er ekkert
að sóa tímanum í endurminningar hérna
megin, nóg er af áhugaverðari verkefnum.
Mig blóðlangar til að fikta svolítið við ljóða-
gerð og svo vildi ég gjarnan hafa tíma til að
skrifa meira fyrir börn og unglinga.
Bölvanlega,
þakka þér fyrir
- Hvernig gengur svo að lifa af ritstörfun-
um?
- Bölvanlega, þakka þér fyrir. Þó er ég
vafalaust betur sett en margur annar, í bili
að minnsta kosti, ég hef notið góðs af
Launasjóði rithöfunda sl. tvö ár svo um
hefur munað, annars væri ég löngu orðin
gjaldþrota. Það segir sig sjálft að það er
ekki hægt að vinna kauplaust mánuðum og
jafnvel árum saman að verki sem maður fær
svo greitt fyrir sem svarar þrennum lágum
mánaðarlaunum. Auðvitað er maður gal-
inn að velja sér þetta hlutskipti, en það er
nú svona. „Aldrei aftur“ segi ég við sjálfa
mig í hvert sinn sem ég hef lokið einhverju,
- og er svo sest aftur við ritvélina næsta dag.
Samhliða ritstörfunum hef ég tekið að mér
þýðingar á bókum og leikritum, svona til að
rétta greiðsluhallann, og það er oft
skemmtileg vinna - maður lærir mikið á því
að þýða. Vitaskuld fylgja því líka viss for-
réttindi að geta ráðið sínum vinnutíma
sjálfur, það kom sér til dæmis oft vel þegar
stelpan mín var yngri að geta annast hana á
daginn og unnið þá á kvöldin og á nóttunni í
staðinn. Þetta bjargast allt einhvern veg-
inn, ekki síst ef'maður er svo heppinn að
eiga góðan mann sem finnst það sem maður
er að gera einhvers virði, og eldar, skúrar,
þvær upp og ryksugar með bros á vör vikum
saman, á meðan ritvélaglamrið berst úr lok-
uðu herbergi frá morgni til kvölds.
-GFr