Þjóðviljinn - 06.09.1987, Page 2
FLOSI
\iku
skammtur
af Þingvallaraunum
Mér er sagt að íslendingar séu búnir að
þreyja þorrann og góuna í þessu landi í ellefu
aldir, frjálsir eða ófrjálsir eftir því hvernig kaupin
hafa gerst á eyrinni.
Ég er ekki klár á því hvenær ófrelsið var mest
né í hvaða efnum, maður er nú einusinni ekki
sagnfræðingur. Þó leyfi ég mér að ganga út frá
því sem vísu, að þjóðin hafi þurft að sæta boð-
um og bönnum í þessi ellefuhundruð ár og að
talsvert hafi stundum skort á að menn gætu um
frjálst höfuð strokið, einsog það er kallað á fínu
máli.
Eitt var íslendingum þó löngum frjálst, en það
var að hleypa heimdraganum og fara á Þingvöll.
Ég er ekkert að segja að sauðsvartasti al-
múginn hafi alltaf komist á staðinn, nema þá til
að láta drekkja sér eða höggva af sér höfuðið,
hvaðþá að múgamenn fengju að reisa þar búðir
í dentíð eða sumarbústaði á síðari árum. Nei,
nei, slíkt var aldrei ætlað öðrum en góðu fólki.
En hvað um það, öll þessi ár hefur það verið
umtalsverður unaðsauki ákaflega mörgum ís-
lendingi að skunda á Þingvöll og treysta sín heit,
eða einfaldlega að njóta þar veðurblíðunnar og
náttúrufegurðarinnar í faðmi fjallanna og fjöl-
skvldunnar, eða einfaldlega í góðra vina hópi.
I ellefuhundruð ár hafa menn tekið hesta sína
og riðið á Þingvöll, stungið klárunum næturlangt
í Hestagjá, sem augljóslega var til þess brúks
sérhönnuð af blessuðum skapara himins og
jarðar.
í ellefuhundruð ár tjölduðu menn á þessum
dýrlega stað í fallegu lautardragi sem þeim fór
svo að þykja vænt um af því þar áttu draumar
það til að rætast. Stundum lögðust menn undir
feld í tjaldi sínu til að ráða framúr vanda þjóðar-
innar.
Fróðir menn telja að í ellefuhundruð ár hafi
jafnvel á Þingvöllum gerst í duiitlu dragi dulítið
sem enginn vissi, nema tjaldbúar, nokkrir þrest-
ir og kjarrið græna inn við Bolabás, já og Ár-
mannsfellið fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar
og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
í ellefuhundruð ár var fólkið í landinu frjálst að
því að koma á Þingvöll og njóta staðarins sem
væri hann almenningseign. Geta þar um frjáls
höfuð strokið.
Já, góðir hálsar. Svona var þetta nú í ellefu-
hundruð ár.
Ekki veit ég hvenær Þingvallanefnd tók til
starfa, en hitt þykist ég vita með fullri vissu að
frá upphafi voru miklar vonir bundnar við störf
hennar, vegna þess að löngum völdust í hana
svo afskaplega skynsamir og góðir menn.
Og Iandsmenn fór að dreyma um allt það sem
gera má á Þingvöllum til að laða þangað fólk.
Merkja göngu- og reiðleiðir um Þingvalla-
skógana, gera braut umhverfis vatnið, eins og
gert er umhverfis heiðavötn meðal siðmennt-
aðra þjóða. Já semsagt bæta þar alla aðstöðu
til útivistar í lengri eða skemmri tíma.
Já allir urðu svo undur vonglaðir og kátir. Nú
yrði gaman að koma á Þingvöll.
En að því kom að draumró manna var harka-
lega raskað. Það hefur nefnilega verið að renna
upp fyrir fólkinu í landinu á undanförnum árum
að Þingvallanefnd virðist þeirrar skoðunar að
það sé vanhelgun á staðnum að koma þar,
tjalda eða tylla niður hjólhýsi til fleiri en einnar
nætur. Að ekki sé nú talað um að stinga klárun-
um sínum í Hestagjá yfir blánóttina, einsog
raunar hefur verið gert í ellefuhundruð ár.
Allt virðist þetta, að dómi Þingvallanefndar,
vera hin grófustu helgispjöll.
Bannað er að tjalda, nema við jaðrana á
hraðbrautinni, sem liggur gegnum garðinn,
semsagt í rykinu, skítnum og skarkalanum, hjól-
hýsi eru bönnuð. Allt virðist miða að því að gera
fólki það Ijóst að landsins börn eru óvelkomin á
Þingvöll, nema auðvitað þeir sem eiga þar
sumarbústað, en það er nú önnur saga. Og
árangurinn lætur ekki á sér standa. Fólk er hætt
að koma til Þingvalla.
Það var svo á miðvikudaginn var að tillögur
Þingvallanefndar um framtíðarskipulag þjóð-
garðsins á Þingvöllum birtist í Mogganum.
Megininntak tillagnanna er að fjarlægja öll
hús austan Almannagjár, nema náttúrlega að-
setur klerksins, sem er í leiðinni þjóðgarðsvörð-
urog talsmaður nefndarinnar. Og að sjálfsögðu
verður ekki hróflað við sumarbústöðum.
Eftir stendur, að í raun og veru á ekki að
fjarlægja neitt nema Valhöll. I staðinn á svo að
byggja menningarhöll einhversstaðar í Kára-
staðalandi, menningarhöll þar sem beitt verði
allri þeirri kynningar- og fræðslutækni sem völ
er á til að fræða menn um þjóðgarðinn, halda
ráðstefnur og þing, taka á móti þjóðhöfðingjum
og ganga örna sinna við toppskilyrði.
Vonandi fá arkítektarnir í Þingvallanefnd að
teikna menningarhöllina og sjá um byggingu
hennar fyrir sanngjarna umbun, og umfram allt
að gera hana þannig úr garði að engan langi,
eftir að hafa í hana komið, að leggja ieið sína
niður á sjálft Þingvallasvæðið og vanhelga það
með nærveru sinni.
Það að höfundar skýrslunnar hafa svo brenn-
andi áhuga fyrir svæðinu vestan Almannagjár
fyrir almenning á sér gild rök, sem birtust í Morg-
unblaðinu á miðvikudaginn var og hljóða svo
orðrétt:
...svæðið vestan Almannagjár hefur ekki
aðdráttarafl í augum aimennings einsog á
stendur, þó það hafi, í raun og veru uppá
ýmislegt að bjóða. Til dæmis er þar að finna
kalt vatn á 50 metra dýpi (Tilv. lýkur)
Það er ekki ónýtt ef Þingvallanefnd tekst bæði
að bægja fólki frá Þingvöllum og finna í leiðinni
staði í nágrenninu sem ekki hafa aðdráttarafl í
augum almennings, þó þar sé kalt vatn á 50
metra dýpi.
Nú ríður bara á að gera þeim fáu sem enn
álpast til Þingvalla, þó óvelkomnir séu, lífið svo
leitt að þeir hætti að koma þar og vanhelga
staðinn með dvöl sinni.
Og þá verða Þingvellir bara fyrir þjóðgarðs-
vörðinn einan, en hann verður þeirrar hamingju
aðnjótandi að messa um ókomin ár í tómri Þing-
vallakirkjunni.
í viðskiptum sínum við eigendur Valhallar
getur hann svo lagt útaf orðum Lúkasar:
- Og hann gekk inní helgidóminn og tók
að reka út þá sem voru að selja og sagði við
þá:
— Þér hafið gert helgidóminn að ræn-
ingjabæli.
2 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 6. september 1987
„Látt’ekki svona Salóme!
Hvar er ævintýralöng-
unin núna?"