Þjóðviljinn - 29.09.1989, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 29.09.1989, Blaðsíða 10
Um snúning Ef ferðalangur í ævintýraleit skyldi slæðast til borgarinnar Konya á Anatólíuskaganum miðjum einhvern tíma árla vetrar, má búast við að undarleg sjónhverfing mæti augum hans: hvarvetna eru á ferli menn í snjóhvítum, síðum ullarkuflum með glampandi augu og upphafin andlit, þeir koma í röðum og mynda hringi, og undir örvandi bumbuslætti og alls kyns hljóð- færaleik snúast þeir kringum sjálfa sig með alveg ótrúlegum hraða, eins og fjárhundar í elting- arleik við eigið skott, svo varla verður greint. f beinu sambandi Það er ekki nema von, þótt menn spyrji í forundran hvað hér sé á seyði og hvaða þambara vambara þeysingssprettir þetta séu eiginlega á hund-tyrkjans grund. En frá því er löng saga, og verður nú að fara rúmlega þús- und ár aftur í aldir. Á þeim tíma var svo komið að trú Spámanns- ins teygði sig yfir öll menningar- ríki heims (en engum heilvita manni hefði þá dottið í hug að telja Vestur-Evrópu meðal þeirra), og stóðu vísindi og, heimspeki þar í meiri blóma en dæmi höfðu verið til um langt skeið: alls staðar unnu menn af miklu kappi við að leggja grundvöllinn að nýrri ljósfræði, stjörnuspeki, algebru og gullgerðarlist, og sigurvinningum mannsandans virtust engin tak- mörk sett. En samt voru ekki allir ánægðir með þetta athæfi: þeir töldu að þessi fræði gervöll sner- ust ekki um annað en hjóm og hégóma og hefðu það eitt í för með sér en villa mönnum sýn. Því höfnuðu þeir vitsmunastefnu af hvaða tagi sem var, sem hlyti að þeirra áliti að leiða menn afvega frá réttri trú, og leituðu í staðinn að annarri leið til að nálgast það eitt sem skipti máli: með meinlætalifnaði, vökum, hug- leiðslu og uppljómun reyndu þeir þannig að komast í beint, per- sónulegt samband við leyndar- dóma Allah. Sú hreyfing sem hófst á þenn- an hátt var nefnd „súfismi“ - en það er talið dregið af arabíska HUGVEKJA orðinu „suf“ sem þýðir ull - og var róttæk uppreisn gegn þeirri skynsemishyggju sem þá var út- breidd meðal Múhameðstrúar- manna. í stað þess að fara út í einhverjar guðfræðilegar bolla- leggingar til að ráða rúnir tilver- unnar héldu fylgismenn hennar, hinir svonefndu „dervisjar“, sínu striki, og reyndu sífellt að finna æ fullkomnari aðferðir til að nálg- ast almættið. Fyrir áhrif frá hin- um mikla spekingi Al-Ghazzali fóru þeir að nota söng og tónlist til að komast í hugljómun, og hef- ur það mjög einkennt siði þeirra upp frá því. En síðan tóku þeir einnig að leggja stund á trúar- legan og dulrænan skáldskap, og risu þá upp meðal þeirra trúarleg skáld, sem vísuðu veginn í enda- lausum bálkum, þar sem dulræn ljóð og skýringar í lausu máli skiptust á. Eitt af þeim var persneska skáldið Abu Hamid Muhammad ibn-Ibrahim, sem orti undir nafninu Farid ud-din Attar, og er eitt helsta verk hans „Dæmisagan um fuglana“, sem segir frá því þegar fuglamir vildu kjósa sér konung og síðan frá langri ferð þeirra, undir leiðsögn herfuglsins (af ættkvíslinni upup- idae) til fjallsins Kaf, þar sem hinn guðlegi fugl Simurgh hefur aðsetur sitt. En eins og hvert barn getur skilið, er þetta allt saman táknrænt um leit mannssálarinn- ar að leyndardómum Allah, undir leiðsögn dulspekikennar- ans, og síðan samlögun sálarinn- ar að guðdóminum. Háttlaus snúningur Á þennan hátt urðu aðferðirn- ar við að komast í beint samband við leyndardóma Allah sífellt fjölbreyttari og fullkomnari, og komu upp ýmsar greinar „der- visjanna“ sem lögðu áherslu á mismunandi brautir. Má nefna meðal þeirra hina svonefndu kal- andariyah eða „flökku-dervisja“ og rufaiyah, eða „öskur-der- visja“, sem komust í hugljómun með ópum og óhljóðum. En það var þó að lokum skáldið Mevlana Celaleddin Rumi, samtímamað- ur Sturlu Þórðarsonar, sem fann fullkomnustu leiðina. Á hans dögum hafði landið umhverfis borg hans Konya um langt skeið verið bardagavöllur múhameðs- trúarmanna og herja Býsanz,. sem háðu þrotlausa baráttu öldum saman um yfirráð í þessum heimshluta, og var þar allt í rúst- um, en almenningur hafði víða tekið þann kostinn að grafa sig niður í holur til að sleppa undan hetjudáðum hinna stríðandi kappa. Um leið og Mevlana Cel- aleddin Rumi orti lausavísur þús- undum saman í svo löngum bálk- um, að það eitt var nóg til aö upphefja hvaða þverhaus sem var í glampandi hugljómun, fann hann það út, að besta aðferðin til að nálgast Allah var samt sú að snúast stanslaust í kringum sjálf- an sig með eins miklum hraða og unnt var, látlaust og þrotlaust undir þvingandi bumbuslætti, eins og þarna væri á ferðinni ein- hver mann-skopparakringla, og láta engan svima aftra sér, uns svo kom að rústir og sviðið land runnu saman í eitt, upp sneri nið- ur og niður upp og hægri og vinstri féllust slagandi í faðma: þá lukust upp allir dýpstu leyndar- dómar almættisins í gegnum ein- hverja dulræna móðu í þessu herjaða landi. Þannig varð til regla hinna svonefndu mawlawi- yah, eða „snúnings-dervisja", og hefur hún haldið áfram að snúast í Konya, þar sem Mevlana Celal- eddin Rumi liggur grafinn, allar götur síðan, en einnig dreifst víðar um lönd múhameðstrúar- manna. Á vissum hátíðisdögum eiga menn því kost á að virða fyrir sér snúninginn og sjá með eigin augum þau áhrif sem hann hefur, a.m.k. á aðra. Þótt þessum stríðandi herjum Býsanzmanna og áhangenda spá- mannsins hafi í aldalöngum skinndrætti sínum tekist að leggja héruðin kringum Konya í rústir virðast stríðstól þeirra og bram- bolt harla léttvæg við hliðina á öllu því sem fundið hefur verið upp síðan. Og má til sanns vegar færa, að síðast þegar stórstyrjöld geisaði í Evrópu hafi ekki tekið nema fáar klukkustundir að E.M.J. valda ámóta eyðileggingu og áður þurfti vikur og mánuði til að koma í verk. Stöðugt eru fundnar upp nýjar leiðir, og nú fyrir skömmu opnaði Karl Filippusson laxveiðimaður af Wales augu manna fyrir einni þeirra, sem ýmsum hafði sést yfir: hélt hann því fram að húsameistarar og gatnahönnuðir í Lundúnum hefðu valdið meiri spjöllum á borginni eftir stríð en þýska hern- um hefði tekist í samanlögðum loftárásum sínum á stríðsárunum sjálfum, og benti m.a. á skýja- kljúfahverfin umhverfis Páls- kirkjuna. Þýski herinn óþarfur Vera má, að þessi samanburð- ur komi Reykvíkingum nokkuð á óvart, þar sem þeir þekkja fyrri hlutann sem betur fer ekki af eigin raun. En undir stjórn þess ötula borgarstjóra, sem einna helst mætti líkja við grískan guð, en það er Póseidon sem bar viðurnefnið „borgarbrjótur", hafa þeir hins vegar fengið þeim mun betur að kynnast því hvernig arkitektar og skipuleggjendur nútímans geta leikið borgar- landslag. Og segja má að hér sé dugnaðurinn jafnvel ennþá meiri: í Reykjavík þurfti nefni- lega engan þýskan lofther til að eyðileggja sögulegar byggingar og tæta upp gömul og dýrmæt hverfi þannig að byggingameist- arar gætu síðan leikið lausum hala, - borgaryfirvöldin ruddust sjálf fram í eyðileggingunni eins og risaeðla með tannpínu. Þótt þróunin hafi hér stefnt í sömu átt og á heimaslóðum Karls Filipussonar er ástæðan því ekki að öllu leyti sú sama, og kannske er það einmitt þess vegna sem árangurinn er ennþá hrikalegri. Á íslandi er eins og stjórnmála- menn og aðrir athafnamenn þurfi að eyðileggja einhver mikilvæg menningarverðmæti til að sýna að þeir séu menn með mönnum og vera teknir alvarlega, og til að firra öllum misskilningi verði þeir að réttlæta það með einhverjum rökum sem jafngilda á mæltu máli „afþví bara“: ef einhvers staðar í þessu strjálbýla landi er að finna gamalt og vel varðveitt hús með mikið menningarsögu- legt gildi, verða alltaf einhverjir stórkarlar in spe til að uppgötva að á þessum stað og hvergi annars 10 SÍÐA — NYTT HELGARBLAÐ Föstudagur 29. september 1989 staðar þurfi alveg nauðsynlega að byggja HúS verslunarinnar, Höll verslunarinnar, Hof verslunar- innar, Slot verslunarinnar, Dom- us mercatorum, Leikvang versl- unarinnar, Bæ verslunarinnar, Skýjakljúf verslunarinnar eða eitthvert annað monthús í þeim dúr. Þegar áformað var að breyta blaði í Hólabiskupsdæmi í fyrsta dagblað landsbyggðarinnar, þurftu aðstandendur þess að undirstrika það með því að finna fallegt gamalt hús og sérlega vel varðveitt og brjóta það niður með stálkúlu. Og borgmeistarinn í bæ Ingólfs, sem virðist setja markið hátt, lét sig ekki muna um minna en eyðileggja Fjalakött- inn, eitt allramerkasta hús sem nokkurn tíma hefur risið í þessari borg, og var það slíkt meistara- verk eyðileggingarinnar, að þess vegna gæti hann hér eftir sofið rólegur á lárviðarsveignum: eng- inn efast um kjark hans og stór- mennsku og nafn hans verður ör- ugglega letrað glæstu letri á bók sögunnar. Síbería í Árbæ Þegar gamalt hús er rifið gerist tvennt: eljuverk fyrri tíðar er máð burtu og jafnframt kemur einhver skelfing í staðinn, - kannske einhver afskræmislegur kubbur eða þá einfaldlega útþan- in grámygla blikkbeljuhagans. Á þessu sviði er eins og þau álög hvíli á skipulags- og bygginga- meisturum á skerinu, að þeir þurfi að apa eftir öll þau mistök sem hafa verið gerð annars stað- ar, eða jafnvel þau mistök sem menn í öðrum löndum hafa haft vit á að gera ekki. Ef einhver skyldi halda, að svo lærðir menn hljóti að vita hvað þeir eru að gera, og því sé eitthvert dulið system í galskapnum, geta þeir sest niður og hugleitt það að á þessu úruga útskeri skuli nánast heilli kynslóð húsameistara hafa þótt það snjallræði mikið að byggja hús með flötum þökum, rétt eins og þeir hefðu fengið menntun sína í Kúvait og ekki komist yfir það. Síðan er ekki annað eftir en opna augun, horfa á skörðin sem urðu eftir þegar gömul hús voru rifin eða flutt í einhverja Síberíu- vist, líta á kumbaldana sem eru að rísa upp hingað og þangað með alls kyns útskotum úr stáli, gleri og steinsteypu, hver í mót- sögn við annan í furðulegri sam- blöndun stfltegundanna, og fylgja eftir hraðbrautunum sem liggja inn í borgina með alls kyns akreinum, brúm og skiptingum, og veita inn í gömlu hverfin ein- hverju syndaflóði af bifreiðum, þannig að fótgangendur verða eins og einhverjar furðuskepnur fornaldarinnar og allt venjulegt mannlíf er að drukkna. Naumast er hægt að þekkja ýmsa gamal- kunna staði lengur, - þeir eru orðnir eins vinalegir og áningar- staðir þar sem hraðbrautir mæt- ast í miðvestrinu. En fyrir hugvit borgarstjórans má vera að þessi sundurlausa sýn verði að einhverju æðra innsæi. Á einum hæsta stað borgarinnar, hitaveitutönkunum á Öskjuhlíð, er nú verið að reisa hálfkúlulaga útsýnishús, sem er ýmsum dular- fullum eiginleikum búið. Þarna uppi geta Reykvíkingar tekið sér stöðu eins og dervisj arnir í Kony a og þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því á þessari tækniöld að snúa sér sjálfir í hring: það er út- sýnishúsið sjálft sem þyrlast af stað með þá eins og risavaxin skopparakringla, og hvaða sjón- hverfingum skyldi nú bregða upp þegar þeir þeytast þarna með ofsahraða hring eftir hring eftir hring umvafðir alls kyns ullhvít- um gufustrókum? Ef þeir snúast nógu lengi þangað til allt fer að renna saman í eitt, er kannske von til þess að í öllum óskapnað- inum reki þeir að lokum glyrn- urnar í eitthvert glimt af leyndar- dómum almættisins. e.m.j.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.