Þjóðviljinn - 05.01.1990, Page 2
SKAÐI SKRIFAR
Eg gagnrýni íslensk
sjónvarpsleikrit
Ég, Skaði, er sannfærður um það, að óáran sú sem yfir þjóðina
gengur só alltaf söm að stærð og umfangi eins þótt tímarnir breytist.
Það er semsagt alltaf eitthvert hallæri í landinu.
Áður fyrr gengu yfir okkur svartadauði, stórabóla og eldgos ösku-
mikil. Nú sitjum við hinsvegar uppi með ríkisstjórn Steingríms Her-
mannssonar og íslensk sjónvarpsleikrit og má ekki á milli sjá hvort er
þungbærara.
Þetta var ég svona að hugsa upphátt eftir að ég sá nýjasta íslenska
sjónvarpsleikritið á nýjársdagskvöldið var. En það vildi svo til að hjá
mór sat frændi minn Valur, en hann er filmufrík af versta tagi og ræðst
eins og sá grimmi ránfugl sem hann heitir eftir með ofsa á hvem þann
sem efast um að frelsun heimsins búi í uppbyggingu myndskeiðanna.
Hvaða rugl og íhald er þetta í þér Skaði, sagði Valur. Fannstu ekki
þessa ísköldu óhugnaðarspennu sem fikraði sig upp eftir sálinni þegar
enginn vissi hvort brjáluðu konunni tækist eða tækist ekki að henda
litlu stúlkunni í sjóinn?
Mér fannst það meiningarlaust, sagði ég.
Bull er þetta í þér, karlskratti, sagði Valur. Getur líf og dauði verið
meiningarlaus?
Svo finnst mér ómerkilegt að láta kvenmanninn sem er að reyna að
semja ódauðlegt kvikmyndahandrit, já og vel á minnst, af hverju gera
persónur í íslenskum bíómyndum aldrei annað en fela sig í afkima til
að geta samið ódauðleg handrit? Já mér fannst semsagt ómerkilegt
að láta þennan lögulega kvenmann fá allan leyndardóm vitavarðarins
réttan að sér í draumi fyrirhafnarlaust.
Þú skilur þetta ekki skaði, sagði Valur. Þetta er einmitt hið sérís-
lenska kvikmyndafiff. Við erum svo sykkisk og dulræn, við fáum vitrun
um það sem aðrir grafa upp með einhverjum bjánalegum Sherlock-
stælum. Ertu kannski á móti íslenskri menningu eða hvað?
Nei, sagði ég. Og vertu ekki með þetta lýðskrum hér meðan enginn
heyrir. Ég er bara á móti því að eyða miljónum í að segja ekki neitt.
Segja ekki neitt? sagði Valur hneykslaður.
Já, sagði ég. Þessu fólki liggur andskotann ekkert á hjarta. Mórall-
inn er, að einstæðar mæður sem ætla að komast upp í kvikmynda-
heiminum eiga ekki að fara með börnin sin með sér út á klettótta
strönd þar sem klikkað fólk býr. Vissu fleiri og þögðu þó.
Þú skilur ekki það sem máli skiptir, sagði Valur. Og það er að þetta
fólk skiptir engu höfuðmáli í listrænni mynd. Aðalpersónurnar eru alls
ekki kvikmyndaskvísan og vitavörðurinn.
Ekki það nei? sagði ég.
Alls ekki. Aðalpersónan er kvikmyndavélin sjálf, sem dansar með
sitt forvitna auga og gerir hafið drungalega og klettana ferlegu að
römmum táknum um örlög mannfólksins hér á heimsenda köldum, já
persónusafnið er hafið og grjótið og kvikmyndavélin sem tengjast í
römmum þríhyrningi myndskeiðappgjörs manneskjunnar við sjálfa sig
um aldir alda.
Jæja, sagði ég. Þú lætur svona. Ég skipti mér ekki af því. Eitthvað
var þetta nú skárra en næstsíðasta skelfingin, Nóttin nóttin, eða hvað
hún hét.
Það var líka stórsnjöll mynd, sagði Valur. Það eru einhverjir bjánar
sem ekki kunna gott að meta sem halda að höfundur hennar hafi verið
að lýsa misheppnuðu skemmtanalifi í Reykjavík eða eitthvað svo-
leiðis. Þetta fólk er svo menntunarlaust að það ætti að bíta gras. Skilja
menn ekki, að saga unga mannsins var hin eilífa saga um hreinsunar-
eldinn, goðsagan í þríveldi, Ódysseifur í Hadesar skuggaveröld, Orfe-
us að leita að Evrídís, Dante að marséra um sitt helvíti og hefur ekki
lengur Virgil sér til aðstoðar því að nútímamanneskjan hefur glatað
virkum menningartengslum við fortíðina og eigrar um í sínu nútímavíti,
þar sem kampavínið og mellurnar eru dýrari en nokkurt kredítkort þolir.
Ég nennti ekki að hlusta lengur á þetta kjaftæði.
Valur minn, sagði ég. Sú mynd var auðn og tóm eins og saman-
lagðir timburmenn þjóðarinnar eftir jólasukkið. Aldrei hafajafn margir
menn lagt á sig eins mikinn tíma og fyrirhöfn til að segja jafn lítið og í
þeirri voluðu mynd.
Jæja, sagði Valur. Og hvað var það svo sem sagt var að þínum
fáfróða dómi?
Það kom þarna undir lokin, sagði ég, þegar kærustuparið var farið
að kyssast eins og í Hollywood. Og það var þetta: Sá sem getur
teiknað á ekki að vera að puða við að læra læknisfræði. Meira var það
nú ekki.
RÓSA-
GARÐINUM
SÆLIR ERU
HÓGVÆRIR
Ég held að allir sem koma nálægt
fjármálum hljóti að telja að staða
okkar fyrri aðaleigenda (Stöðvar
tvö) hafi styrkst verulega við
samningana á gamlársdag. Það er
betra að eiga 50 prósent í litlu en
100 prósent í engu, sagði Hans
Kristján Árnason.
D V
UPP STÍGUR
STEINGRÍMSSÓL
Meðal annars er greint frá því að
forspár maður telji sig sjá ljóma
yfir Islandi seinni hluta næsta árs.
Steingrímur Hermanns-
son í áramótaávarpi
TIL ÞESS KOM
HANN KARLINN
Hér heima finnst mér hæst bera
komu Jóhannesar Páls páfa, það
er að segja sá atburður er hann
kraup á kné og kyssti Miðnes-
hrepp.
Morgunblaóið
HVARERÍHEIMI
HÆLI TRYGGT?
Ég er mikill Coca cola drykkju-
maður, en í byrjun desember
fann ég breytingu á bragðinu af
þessum ágæta drykk.
Morgunblaðið
VIÐSTÍGUMNÚ
ORÐIÐ SVO MERKI-
LEG MENNINGAR-
SPOR
Er það mat Landlæknis að nú séu
íslendingar engir eftirbátar ann-
arra norðurlandabúa hvað
„stress“ varðar.
Tíminn
MIKIL ER FIRRING-
IN NÚ TIL DAGS
Hálffertugur maður hefur verið
ákærður fyrir skírlífisbrot. Mann-
inum er gefið að sök að hafa átt
samfarir við konu án þess að hún
gerði sér grein fyrir því hver hafði
samfarir við hana.
D V
SVO MÆLTI
ZARAÞÚSTRA
Það er þá enginn einn ákveð-
inn spámaður að spá fyrir forsæt-
isráðhera íslands?
- Það spáir enginn sérstaklega
fyrir hann. Það gerir hann sjálfur
og þá helst uppi á fjöllum í fallegu
umhverfi í kyrrðinni, sagði
Steingrímur Hermannsson.
DV
FUNDIN
EILÍFÐARVÉL
Aldraður frændi minn hringdi í
mig og fór að ræða um þann
vanda sem steðjaði að þessum
(nýju) búgreinum. Hann lagði til
að seiðin yrðu notuð til að ala
loðdýrin eða öfugt.
DV
2 SIÐA — NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 5. janúar 1990