Þjóðviljinn - 10.08.1990, Blaðsíða 17

Þjóðviljinn - 10.08.1990, Blaðsíða 17
„Ég hef ekki haft mikla samúð með þessari ríkisstjórn þangað til nú, enda flest út á gerðir hennar að setja. Eða svo fannst mér að minnsta kosti. En ég verð að segja það, að nú á hún stuðning minn allan. Það getur svo sem vel verið að hann Ólafur Ragnar hafi gert mistök - hver svo sem gerir það ekki? - en að þessu Um hagræðingu sinni brást hann alveg laukrétt við vandanum." Það suðaði á kaffikönnunni þarna í eldhúsinu í Vesturbænum og hin einstæða móðir gerði hlé á máli sínu, meðan hún hellti í boll- ana. Svo hélt hún ótrauð áfram: „Það var vitanlega ekki hægt að láta það viðgangast að heimtu- frekjan í fáeinum mönnum hleypti verðbólguskriðunni aftur af stað og svo vaxtabrjálæðinu beint á eftir henni, þannig að allt efnahagslíf landsins færi í rústir, fyrirtæki yrðu gjaldþrota hrönnum saman og almenningur kæmist á vonarvöl. En þetta var svo sem ekki allt og sumt heldur var í rauninni annað og meira í húfi: það var kominn tími til að einhver hefði hugrekki til að stöðva þennan rumpulýð og segja: alla vega ekki lengra og helst snarlega beint afturábak... “ Ég horfði á skuggaleik sólar- geisla á rósóttu veggfóðrinu og velti því því fyrir mér hvort þetta væri ekki í fyrsta og eina skipti í sumar sem nokkur angi af sól- skini snerti þennan veggblett. En ég var strax rifinn upp úr þessum angurværu hugleiðingum, því nú var hin einstæða móðir komin í ham: „Menn taka kröfum mennta- hyskisins eins og hverjum öðrum baráttumálum starfandi stétta, en hefurðu nokkurn tíma velt því fyrir þér hvað vinnutíminn er í raun og veru langur hjá þessum mönnum,-t.d.hjáþessumkenn- urum sem eru alltaf að væla, hvort sem þeir hafa háskólapróf eða ekki?“ Það vafðist fyrir mér að nefna einhverjar ákveðnar tölur á stundinni, og þá sagði konan: „Þetta getur þú ekki, þótt þú eigir að vera öllum hnútum kunn- ugur, og svo er um fleiri. En sem betur fer hafa stjórnmálamenn- irnir okkar gefið okkur nokkrar þýðingarmiklar ábendingar, ekki síst hann Albert minn. Mér þykir bara illt að þeir skuli aldrei hafa reiknað dæmið út svart á hvítu, en kannske finnst þeim að al- menningur hafi bara gott af því að velta þessu fyrir sér sjálfur. En lfttu nú bara á dærnið." Það suðaði enn á kaffikönn- unni og sólarljósið skein bjartar á rósóttu veggfóðrinu. Hin ein- stæða móðir skar nokkur vfnar- brauð til viðbótar þegar hún var búin að hella aftur í bollana. „Þetta er í rauninni ofur ein- falt. Meðan allir vinnandi menn þurfa að vinna sextíu mínútur á hverri klukkustund, eiga kennar- ar tuttugu mínútna frí á sama tíma. Þetta kannast margir við, en heldurðu að nokkur hafi reiknað út hvað þetta frí er mikið á einu ári: þegar það er dregið saman verður það nefnilega hundrað tuttugu og einn dagur á hverju ári og átta klukkustundum betur. Þessir átta klukkutímar eru ekkert smáatriði, þegar öllu er á botninn hvolft, en bíðum ögn með það. Nú, síðan eiga kennar- ar langt jólafrí, páskafrí og sumarfrí, og verða öll þessi frí samtals fjórir mánuðir á hverju ári, eða hundrað tuttugu og tveir dagar, því auðvitað tekur þessi lýður sér sumarfrí á þeim tíma þegar tveir mánuðir með þrjátíu og einum degi fara hvor á eftir öðrum. Það er sko ekki verið að fara í slíkt frí í febrúar. Einnig má ekki gleyma því að kennarar eiga frí laugardaga og sunnudaga, en það verða samtals hundrað og fjórir dagar á ári.“ Hin einstæða móðir gerði smá- hlé á máli sínu til að anda og drekka í flýti úr kaffibolla, með- an stór húsfluga flögraði um í sól- argeislanum á rósótta veggfóðr- inu. Svo sótti hún í sig veðrið: „En þetta er ekki allt og sumt. Fyrir utan öll þessi stóru frí fellur kennsla niður 1. desember, öskudag, sumardaginn fyrsta, fyrsta maí og uppstigningardag, svo ekki sé gleymt frídeginum ómissandi eftir árshátíð skólans. Loks fá kennarar ýmis dulbúin frí, sem látið er heita að séu tengd skólastarfinu: það eru fjórir svokallaðir „skipulagsdagar" á ári og tveir „foreldradagar“, þeg- ar kennarar rabba við kunningja sína yfir kaffibolla, og einnig eru fimm „upplestrardagar" fyrir vetrarprófin eða milli þeirra og einn dagur fer í afhendingu ein- kunna. Geturðu nú sagt mér hvað þetta verða margir frídagar fyrir kennara á ári?“ Ég verð að viðurkenna að mér vafðist tunga um tönn. Svona hugarreikning höfðu kennarar mínir ekki kennt mér í skóla, en áður en ég gat gert svo mikið sem litla tilraun til að giska á niður- stöðurnar hélt hin einstæða móð- ir sigri hrósandi áfram: „Þetta verða samtals þrjú hundruð sextíu og fimm frídagar á ári, og reyndar átta klukku- stundum betur. Með öðrum orð- um er frítími kennara á hverju ári lengri en almanaksárið sjálft. Það var eins gott að hann Caligula, eða hver sem það var, fann upp hlaupárið: það er eins og hann hafi séð fyrir að það þyrfti að lengja árið til að koma fyrir öllum frítíma þessara kennara. En samt nægir það ekki: það vantar enn átta klukkustundir til að dæmið gangi upp, og þyrfti hlaupárið þannig að vera sjötta hvert ár en þá með tveimur viðbótardög- um.“ Lengra varð samtalið ekki, eða öllu heldur: það fór nú að snúast um Caligúla og gjörningar hans, en á því sviði fannst mér ég standa betur að vígi en í hinni æðri stærðfræði. Samt hefur mér oft orðið hugsað til orða hinnar einstæðu móður þessa daga sem liðnir eru síðan hún reiknaði svo skarplega út fyrir mér vinnutíma kennara. Þó ég sé engan veginn dómbær á það hvort þessar tölur séu réttar, og heldur ekki á reikningslistina og niðurstöðurn- ar, finnst mér ljóst af því sem þessi vox populi í Vesturbænum hafði til málanna að leggja, að almenningur líti alls ekki á störf ýmissa menntamanna eins og kennara sem fulla vinnu og meti launakröfur þeirra eftir því. Nú vita allir, ekki síst stjórnmála- menn sem hafa þegar lagt ýmis- Iegt spaklegt til málanna eins og fram kom í orðum einstæðu móð- urinnar, að hættulegt er að ganga þvert á móti almenningsálitinu. Af því myndi ekki leiða annað en upplausn og ólgu, og færi svo að einhverjar kröfur menntamanna yrðu teknar til greina, kynnu jafnvel einhverjir sem valdið hafa að hóta nýjum snúningi verð- bólguhjólsins. Hér þarf nýja og djarfa stefnu, og á móti þeim kaupkröfum sem almenningi falla svo illa í geð mættu koma tillögur um nýja hagræðingu. Þar sem ekki er víst að allir muni fallast umsvifalaust á út- reikninga einstæðu móðurinnar, er að svo stöddu rétt að miða við heldur varlegri tölur og ganga út frá því að kennarar vinni átta mánuði á ári. Þetta getur almerm- ingur vitanlega ekki talið fulla vinnu, en svipað er þó ástatt um ýmsar aðrar stéttir manna: vand- inn er því eingöngu fólginn í því að finna einhverja aðra stétt sem vinnur heldur ekki nema hluta af árinu og slá starfi hennar saman við störf kennara, þannig að í sameiningu sé hvort tveggja full vinna hvert ár. Sumum kynni ef- laust að detta í hug sjómenn, sem hafa lítið að gera milli vertíða, og vildu þeir fela þeim kennslu á þeim tímum. En reynslan sýnir að í kjarabaráttu sinni eru sjó- menn harðir í horn að taka og hvergi eins meðfærilegir og yfir- völd vildu að kennarar séu og reyndar er nauðsynlegt fyrir hag- ræðinguna. Því er ekki víst að þessi hagræðing skili tilætluðum árangri. Önnur lausn og miklu snjallari kemur þá upp í hugann. Eins og mönnum er kunnugt er fangaárið í reynd talsvert styttra en alman- aksárið, og þótt ekki séu neinar blýfastar reglur um málið, svo yfirvöldum beri ekki beinlínis skylda til að hleypa forhertum og óforbetranlegum refsiföngum út f buskann, eru menn gjaman náð- aðir eftir að hafa setið inni helm- ing tímans, en það jafngildir því, að fangaárið sé ekki nema sex mánuðir á ári. í fljótu bragði virðist þetta ekki ganga upp, þar sem sex og átta eru fjórtán, og árið telur ekki nema tólf mánuði, en allir sálfræðingar og félagsráð- gjafar myndu mæla með bví að fangaárið yrði stytt niður í fimm mánuði til að auðvelda endurhæf- ingu fanganna, og á sama hátt yrðu áreiöanlega allir sammála því að skólaárið yrði ekki lengra en sjö mánuðir til að skólabörn gætu þeim mun lengur lagt stund á hagnýt störf. Þannig félli allt í ljúfa löð og hægt yrði að láta refsifanga sjá um skólakennslu þann hluta ársins sem þeir sætu ekki á bak við lás og slá. Langt mál yrði að telja upp allt það sem vinnast myndi við slíka hagræðingu. Þannig væri auðvelt að láta hagnýta vinnu tugthúslim- anna í skólum landsins standa al- veg undir kostnaði af fangelsis - málum,og mætti á þennan hátt spara andvirði heillar handbolta- hallar á ári, - enda er ekki líklegt að fangarnir yrðu mjög harðir í kjarabaráttunni, meðan mikið er undir því komið að þeir sýni góða hegðun að dómi yfirvalda. Svo má ekki gleyma því hvað fang- arnir gætu kennt börnum og ung- lingum margt sem kæmi þeim sér- staklega vel að notum í íslensku þjóðfélagi: í þessu sambandi liggur við að maður harmi að Hafskipsmenn skuli hafa reynst eins blásaklausir og raun ber vitni (quia res judicata pro veritate ha- beatur), því hvað gætu þeir ekki kennt ungviðinu, - hvernig gætu þeir ekki undirbúið æskuna undir ábatasaman framaferil? Loks myndi sú leið opnast að nýta byggingarnar í tvennum tilgangi og færa jafnvel einhverja hagnýta þætti menntunar beint inn á Hraunið. Þar myndi varla væsa um ítroðsluna. e.m.j. Föstudagur 10. ágúst 1990 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 17

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.