Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1939, Blaðsíða 4
6
1920. Heiðursfélagi Ræktunarfélagsins var hann kjörinn
ásamt Stefáni skólameistara á 10 ára afmæli félagsins að
Hólum árið 1913.
Það lýsti glegst áhuga Sigurðar og ósérhlífni við störf
í þágu félagsins, að oft tók hann sig upp frá Hólum að
vetrarlagi og fór gangandi um Héðinsskörð til Akureyrar
til þess að sækja stjórnarfundi félagsins, enda var hann
löngum lífið og sálin í félagsskapnum og hafði yndi af
samstarfinu með ágætismönnunum, Páli Briem og Stefáni
skólameistara. Páls amtmanns naut því miður ekki lengi
við í stjórn félagsins, en áhuga hans og víðsýni í málefn-
um landbúnaðarins er alþjóð kunn. Merki hans og stefnu
héldu þeir Stefán og Sigurður trúlega hátt á lofti meðan
þeirra naut við í stjórn og störfum félagsins.
Kjörorð Sigurðar Sigurðssonar var: Að klæða landið
svo það verði byggilegra. í því felst sú stóra hugsjón, sem
liggur bak við samtökin um stofnun Ræktunarfélags
Norðurlands.
Arið 1919 var Sigurður kosinn forseti Búnaðarfélags ís-
lands og fluttist búferlum til Reykjavíkur, og nokkru síð-
ar var hann kjörinn í hið nýstofnaða búnaðarmálastjóra-
embætti, sem hann gegndi um tug ára. Var áhuginn í því
mikilvæga og ábyrgðarmikla starfi hinn sami og áður, og
vakti hann ýms stórmerk nýmæli á sviði landbúnaðarins,
sem hafa markað djúp spor til áhrifa um langan aldur.
Má þar nefna jarðræktarlögin og hin stórvirku jarð-
vinslutæki, Þúfnabanana, til vinslu hér á landi.
Löngum var hann á sífeldu ferðalagi um bygðir lands-
ins til athugunar og hvatningar. Óteljandi eru þeir fyrir-
lestrar og fræðandi erindi, sem hann hefir haldið um
búnaðarmál á bændanámskeiðum, í búnaðarfélögum víðs-
vegar um landið. Rit hans og ritlingar eru og margir og
yrði hér of langt mál upp að telja.
Til Grænlands fór hann tvívegis á vegum dönsku ríkis-
stjórnarinnar til þess að rannsaka ræktunarmöguleika