Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1971, Síða 10
inn er ólseigt torf, eða að minnsta kosti meira og minna
tyrfinn og ófrjór, hefir ekki verið raktaður til þess að hann
breytist í frjómold, þar sem smáverugróður getur dafnað
og stuðlað að því að efni jarðar leysist og verði jurtunum
tiltæk. Jarðvegur hinna nýju túna er nær „dauður“, þótt
ekki sé hann gerilsneyddur sandur, og leggur nær ekkert af
mörkum gróðrinum til þroska og þrifa. — Auðvelt er að
ganga úr skugga um þetta: Ef spilda í nýlega ræktuðu túni
fær engan áburð eitt ár, þó ekki sé lengur, sprettur oftast
nær alls ekkert, spildan verður ekki Ijáberandi. Þetta er sem
sagt dauð jörð, engin ræktun jarðar. Leggist bújörð í eyði,
þar sem er slíkt óræktað eða harkaræktað tún, og jarðvegur-
inn hefir aldrei náð því að verða rœktuð jörð (,,kulturjord“),
hverfur allt óðara aftur til upphafs síns, túnið verður rytju-
jörð, sem engan nytjagróður ber, engu betri en áður var,
þegar fyrst var farið að brjóta landið til ræktunar, gott ef
það verður ekki öllu lakara til beitarnota en það þá var. —
Slíkar ræktunarframkvæmdir eru mikil hörmung og stefna
— við kólnandi tíðarfar — í hreinan voða. Dapurt hve fáir
gera sér það ljóst, nauðsyn þess að taka upp aðra og betri
ræktunarháttu, sem er tiltölulega auðvelt, að minnsta kosti
í öllum hinum veðurfarslega betri byggðum landsins.
Berum þetta saman við gömlu túnin taðrœktuðu, þar sem
sléttað var með þaksléttuaðferðinni, borið vel undir þök-
urnar o. s. frv. í flestum sveitum eru eyðitún, þannig til
komin, sem halda áfram að spretta ár eftir ár, þótt þau fái
engan áburð og liggi oft undir ágangi búfjár. Þótt eyðitúnin
verði ekki kafloðin við þessar aðstæður, er oft á þeim sæmi-
leg slægja árum saman eftir að jarðirnar fóru í eyði. Og þar
við bætist, og má sannarlega vekja athygli, að þau eru ókalin
þegar bændur í næsta nágrenni eru hrjáðir af kali og arfa í
nýræktartúnum sínum. Þetta hafa allir séð, sem nokkuð hafa
litið í kringum sig í sveitum landsins. Sumarið 1970 skeði
það jafnvel, að kalhrjáðir bændur heyjuðu í allmiklum mæli
á eyðitúnum, sem ekki höfðu notið áburðar til fleiri ára, en
sennilega hefir þar verið um að ræða gamalræktuð tún. Hitt
er kunnugt að nýlega skjótræktuð tún, ræktuð með tilbún-
12