Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1984, Side 57
um sláttutíma, hafi hann heyrt líkt nautsöskri við sjóinn, hvar við að kýr
hans flykktust þangað.
Fór hann þá eftir þeim, til að varna því, að þær hlypu í sjó, ef nauthvals
öskur væri. Var þá kýr ein komin til kúa hans, er hafði blöðru fyrir nösum.
Hann rak þessa kú, ásamt hinum, heim og inn í fjós sitt og sprengdi
blöðruna, er var fyrir nösum hennar.
Reyndi þá þessi kýr ekki framar, til að vilja hlaupa í sjóinn. Þessi kýr lifði
lengi hjá honum, mjólkaði mæta vel, og komst jafnaðarlega nýborin í 22 til
24 merkur. Margir kálfar áttu að vera aldir upp undan henni, og á orði haft,
að allir hefðu orðið vænir gripir.
Fleiri gamlar sagnir, um slíkar sækýr, eru til, og litum þeirra allstaðar lýst
gráum, og með blöðru fyrir nösum.“
Svo er að skilja, að þetta hafi gerzt á æskuárum Þórunnar,
sem hefur svo að líkindum sagt Jóni þetta, en Jón er fæddur
um 1791 og dáinn 1861. Er þvi líklegast að þetta hafi átt að
gerast síðast á 18. öldinni.
Jón Bjarnason var hinn merkasti fræðimaður, og talinn
sérstaklega fær í stærðfræði og mælingafræði. Hefur hann
skilið eftir sig mikil handrit um þjóðfræði og náttúrufræði, en
mikið af því eru afskriftir annarra handrita og bóka.
2. „Sœhesturinn“í Grímsey.
I inngangi greinar minnar í síðasta Ársriti, var getið um
„sæhestinn í Grímsey“, en heimildin um hann, mun vera
eftirfarandi klausa úr ritinu „Allrahanda“, eftir séra Jón
Norðmann, sem var prestur í Grímsey 1846-1849, og síðar á
Barði í Fljótum:
„Á Básum ! Grimsey, er sagt að einu sinni hafi sést hestur, með blöðru
fyrir nösunum, reka höfuðið inn um eldhúsglugga að næturtima.“ (Allra-
handa, nr. 161, bls. 23. Útg. Finns Sigmundssonar í safnritinu „Menn og
minjar“ IV. hefti. Rvik 1946).
Mér vitanlega, er þess hvergi annarsstaðar getið, að hestar
gangi úr sjó, og því síður að þeir hafi blöðru fyrir nösum. Er
því líklegast að þarna sé átt við sækú, enda er oft mjótt á
mununum milli þessara sæskepna, eins og fram kemur í síðari
hluta greinarinnar, þar sem fjallað er um sæskepnur er sést
hafa síðustu áratugina. Þeim var stundum lýst þannig að eins
líktist hesti eins og kú.
59