Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1957, Blaðsíða 141
ÍSLANDSKLUKKAN í SMÍÐUM
141
um önnur efni, sem hafa verið höfundinum hugstæð. Þar má finna drög að ýmsum
greinum, sem hafa birzt eftir hann um þessar mundir. Þannig verður hægt að dagsetja
Minnisbók a örugglega. A bls. 37 eru undir fyrirsögninni Neðanmálsgrein tvær setn-
ingar, sem birtast síðan orðrétt — einmitt sem neðanmálsgrein — í greininni „Illa er
komið íslending“ í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti, maí 1942. Á bls. 41 er klausa
úr uppkasti að greininni Landbúnaðarmál í sama tímariti, 2. hefti, október 1942. Á bls.
39 eru nokkrar athugasemdir í sambandi við grein á móti Jónasi Jónssyni, Blaðaskrij
um einkamál, í Þjóðviljanum 11. nóvember 1942. Svo eru bls. 76—89 allskonar tölur
frá Alþingiskosningunum sumarið 1942. En nákvæmust er dagsetningin á bls. 43:
„Akureyri 11. júní geflogen“.
Samanburður á þessari minnisbók og fyrsta uppkastinu (A) að Klukkunni leiðir í
ljós, að höfundurinn hefur notað a um leið og hann samdi handrit sitt. Tölusetning
kafla og glefsur þær úr sögunni, sem eru í a, koma nákvæmlega heim við uppkastið.
Rétt á eftir fyrrnefndri dagsetningu á Akureyri er skrifað: „Þrettándi kapítuli, bls.
129“. En sami kafli í handritinu byrjar einmitt á bls. 129 — m. a. s. á allt annarri
pappírstegund en kaflarnir á undan. Það er eðlilegt, að slík breyting skyldi hafa átt sér
stað í sambandi við ferðalag höfundarins.
Neðst á síðustu blaðsíðu minnisbókarinnar stendur: „1. bd. Kristsbóndinn 2. bd. Hið
ljósa man.“ Skáldið hefur þá enn ekki kosið fyrsta bindinu endanlegt nafn. Það er
engin furða, að Jón Hreggviðsson skuli hafa komið til greina við skírn þeirrar bókar:
,,Kristsbóndinn“ er söguhetja upphafsbindisins með líkum hætti og Snæfríður er sögu-
hetja miðbindisins og Arnas söguhetja lokabindisins. Að örlög hins ljósa mans eigi að
verða uppistaða næsta bindis, er höfundinum ljóst þegar í a: „Byrja annan hluta verks-
ins á sögu um Snæfríði“ (112). En hlutverkum þeirra Jóns og Snæfríðar er lýst hnitti-
lega á sama stað: „Segja sögu Snæfríðar að öðrum þræði við sögu Jóns Hreggviðs-
sonar eins og sópran við djúpan bassa.“
Minnisbók b er í svartri vaxdúkskápu. Brotið er stærra en í a, blaðsíðan 142x222
mm, með 23 línum. í bókinni eru alls 70 blöð, og eru þau af höfundinum tölusett bls.
1—140.
Þessi minnisbók hefst á fyrirsögninni: „Halldór Kiljan Laxness Um Jón Hreggviðs-
son“. Á bls. 1—16 fylgja ýmsir útdrættir úr heimildum viðvíkjandi máli Jóns. Það er
ekki óhugsandi, að þessi kafli sé elztur af öllu því efni, sem finnst í minnisbókunum
þrem. Skriftin virðist vera frá öðrum tíma en annarsstaðar í b, blekið með dekkra en
um leið daufara lit, stundum greinilega bliknað. Á bls. 1 er Jón nefndur Nikulásson,
en annars aldrei í drögum þeim að Islandsklukkunni., sem ég hef séð. Það bendir til
þess, að Halldór hafi einu sinni hugsað sér að láta söguhetju sína vera Nikulásson.
Framan við fyrirsögnina á bls. 1 hefur seinna verið skrifað orðið „Memos“ með
öðru, blárra bleki. En höfundurinn vísar annarsstaðar til b einmitt undir því heiti. t. d.
í Minnisbók c: „Sjá nótu um Árferði í memos (stórri nótisbók) bls. 68“ (18); en sú
nóta finnst þar á sínum stað. Eða í fyrsta uppkastinu (A) að Mani, á undan Sextánda
kapítula: ..Sjá svarta nótisbók, ,memos‘ bls. 9“ (254).