Morgunblaðið - 08.02.2001, Blaðsíða 24
KOSNINGARNAR Í ÍSRAEL: SIGUR SHARONS
24 FIMMTUDAGUR 8. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSRAELSKIR kjósendur sýndu í
forsætisráðherrakosningunum á
þriðjudag að þeir hefðu misst trúna á
að Ehud Barak, fráfarandi forsætis-
ráðherra, gæti tryggt frið við Palest-
ínumenn og öryggi landsins. En þótt
ísraelska þjóðin hafi fylkt sér að baki
Ariel Sharon, leiðtoga Likud-flokks-
ins, óttast margir að sigur hans þýði
skipbrot friðarferlisins.
Atkvæði féllu líkt og spáð hafði ver-
ið í skoðanakönnunum, en samkvæmt
bráðabirgðaúrslitum hlaut Sharon
59,5% atkvæða og Barak 40,5%. End-
anleg úrslit eiga að liggja fyrir á
þriðjudag í næstu viku.
Barak hringdi í Sharon og játaði sig
sigraðan strax og útgönguspár höfðu
verið birtar á þriðjudagskvöld. Síðar
um kvöldið sagði hann af sér sem leið-
togi Verkamannaflokksins og kvaðst
myndu láta af þingmennsku og hætta
afskiptum af stjórnmálum, að
minnsta kosti um sinn. Í ávarpi til
stuðningsmanna sinna varði Barak
stefnu sína í friðarmálum og kvaðst
þess fullviss að hann hefði gert rétt í
því að bjóða Palestínumönnum um-
talsvert landsvæði í skiptum fyrir
frið. „Við höfum tapað orrustunni en
við munum vinna stríðið. Þótt við
göngumst undir vilja kjósenda hvik-
um við ekki frá sannfæringunni um að
við séum á réttri braut,“ sagði Barak í
ávarpinu, en hann tók við embætti
forsætisráðherra í júní 1999.
Sharon hét því hins vegar í sigur-
ræðu sinni að koma á „öryggi og ein-
ingu meðal þjóðarinnar“. Hann tók
skýrt fram að hann myndi halda frið-
arumleitunum við Palestínumenn
áfram og sagði að til þess að ná frið-
arsamningum þyrftu báðir aðilar að
fallast á sársaukafullar tilslakanir.
Hvatti hann Palestínumenn til að láta
af ofbeldisverkum og ganga að samn-
ingaborðinu.
Sharon freistar þess
að mynda þjóðstjórn
Ariel Sharon verður sjötti forsætis-
ráðherrann á einum áratug og sá ell-
efti síðan Ísraelsríki var stofnað árið
1948. Fyrsta verkefni hans er að
mynda nýja ríkisstjórn og það verður
væntanlega ekki heiglum hent. Ekki
var kosið til þingsins að þessu sinni og
Sharon þarf því að kljást við sömu
þingskipan og reyndist forvera hans
þung í skauti. Ótalmargir flokkar eiga
sæti á þinginu og þar eiga jafnan
miklar sviptingar sér stað. Það segir
sína sögu að Benjamin Netanyahu,
fyrrverandi forsætisráðherra og leið-
togi Likud-flokksins, kvaðst í des-
ember hafa fallið frá því að keppa við
Sharon um útnefningu flokksins, þar
sem hann teldi ómögulegt að mynda
starfhæfa stjórn við núverandi skipan
þingsins.
Í sigurræðu sinni boðaði Sharon
myndun þjóðstjórnar, eins og hann
hafði heitið í kosningabaráttunni.
Hann bauð Verkamannaflokknum
sérstaklega til samstarfs, en þátttaka
hans er afar mikilvæg, því ella þyrfti
Likud-flokkurinn að mynda stjórn
með mörgum litlum flokkum strang-
trúaðra og hægrimanna, sem óvíst er
að gætu myndað tryggan meirihluta.
The Jerusalem Post hafði í gær eftir
nánum vini Sharons að Barak hefði
lýst sig fylgjandi myndun þjóðstjórn-
ar í símtalinu á þriðjudagskvöld.
Skoðanir munu vera skiptar innan
Verkamannaflokksins um stjórnar-
þátttöku, en það ræðst væntanlega að
miklu leyti af því hver tekur við leið-
togahlutverkinu af Barak.
Sharon skipaði í gær sérstaka
nefnd til að vinna að stjórnarmynd-
uninni. Samkvæmt ísraelskum lögum
verður sigurvegari kosninganna að
mynda stjórn innan 45 daga frá því
endanleg úrslit eru tilkynnt, eða fyrir
30. mars, ella þarf að boða til nýrra
forsætisráðherrakosninga.
Umdeildur
harðlínumaður
Ariel Sharon hefur alla tíð skipað
sér í sveit með harðlínumönnum og er
æði umdeildur. Þegar hann hrökklað-
ist úr framlínu ísraelskra stjórnmála
árið 1983 hefðu eflaust fáir búist við
að hann ætti eftir að verða kjörinn
forsætisráðherra nærri tveimur ára-
tugum síðar, þá kominn á áttræðis-
aldur.
Sharon er fæddur árið 1928 og
sautján ára gamall gekk hann til liðs
við hreyfingu sem barðist fyrir stofn-
un Ísraelsríkis. Hann komst síðan til
metorða innan ísraelska hersins en
tók sæti á þingi árið 1973. Hann
stjórnaði sem varnarmálaráðherra
innrás Ísraelshers í Líbanon árið
1982. Ári síðar neyddist hann til að
segja af sér ráðherraembætti eftir að
rannsóknarnefnd Ísraelsstjórnar
átaldi hann fyrir að hafa ekki komið í
veg fyrir fjöldamorð sem kristnir fal-
angistar frömdu í flóttamannabúðum
Palestínumanna í Líbanon. Hann
uppskar þá hatur araba, þótt ábyrgð
hans á ódæðinu sé umdeilanleg. Shar-
on tók þó aftur sæti í ríkisstjórn og
gegndi meðal annars embættum
landbúnaðarráðherra, húsnæðis-
málaráðherra og utanríkisráðherra.
Hann var einn helsti talsmaður land-
náms gyðinga á herteknu svæðunum,
enda þvertekur hann nú fyrir að land-
nemabyggðirnar verði lagðar niður.
Sharon tók við leiðtogaembættinu í
Likud-flokknum eftir að Benjamin
Netanyahu beið ósigur fyrir Barak í
kosningunum árið 1999.
Óvissa um framhald
friðarumleitana
Viðbrögð Palestínumanna við kjöri
Sharons hafa verið blendin. Palest-
ínska sjálfstjórnin lýsti því yfir að hún
myndi starfa með hinum nýkjörna
forsætisráðherra. „Við virðum val
ísraelsku þjóðarinnar og vonum að
friðarferlið haldi áfram,“ sagði Yasser
Arafat, leiðtogi sjálfstjórnarinnar, í
gær. Fatah-samtök Arafats hvöttu
sjálfstjórnina hins vegar til að mynda
hvorki tengsl við Sharon né ganga til
viðræðna við hann og boðuðu frekari
mótmæli á sjálfstjórnarsvæðunum.
Þá sagði palestínski upplýsinga-
málaráðherrann, Yasser Abd-Rabbo,
að kjör Sharons væri „vanráðnasti at-
burðurinn í sögu Ísraels“.
Í yfirlýsingu frá Hamas-hryðju-
verkasamtökunum segir að sigur
Sharons gefi þeim tilefni til frekari
andstöðu og fleiri hryðjuverkasamtök
Palestínumanna tóku í sama streng.
Þrátt fyrir að Ariel Sharon hafi í
sigurræðunni reynt að sannfæra
heimsbyggðina um einlægan vilja
sinn til að semja frið við Palestínu-
menn eru fréttaskýrendur nokkuð
uggandi um framhald friðarferlisins.
Palestínskir embættismenn lýstu
því yfir í gær að ekki yrði litið við
neinum tillögum af hálfu Ísraela sem
gengju skemur en þær sem Barak
lagði síðast fram, en þær fólu meðal
annars í sér að Palestínumenn fengju
yfirráð yfir nær öllum Vesturbakkan-
um og Gaza-svæðinu. Sharon hefur
hins vegar hafnað því að eftirláta Pal-
estínumönnum stjórn yfir meira land-
svæði en þeir hafa nú þegar. Palest-
ínumenn gera einnig kröfu um yfirráð
yfir hinum arabíska hluta Jerúsalem,
sem Barak hafði lýst sig reiðubúinn
að ganga að, en Sharon útilokar að
borginni verði skipt.
Auk þess sem Sharon er almennt
mun harðari í afstöðunni til Palest-
ínumanna og krafna þeirra en Barak
vantreysta Palestínumenn hinum ný-
kjörna forsætisráðherra vegna fortíð-
ar hans. Það mátti til dæmis heyra á
eftirfarandi yfirlýsingu palestínska
útvarpsins í gær: „Saga Sharons er
lituð blóði og fjöldamorðum.“ Ekki
stoðar að uppreisn Palestínumanna
braust út eftir umdeilda heimsókn
hans á Musterishæðina í Jerúsalem í
lok september á síðasta ári.
Á hitt ber að líta að stefna Baraks í
friðarmálum naut augljóslega ekki
stuðnings meðal ísraelsku þjóðarinn-
ar og erfitt er að fullyrða að friðar-
samningar hefðu örugglega náðst á
næstunni ef hann hefði setið áfram í
embætti. Samkvæmt nýrri skoðana-
könnun á vegum háskólans í Tel Aviv
virðist það vera ríkjandi skoðun með-
al þjóðarinnar að tilslökunarstefna
Baraks hafi verið Palestínumönnum
hvati til að þrýsta sífellt á um meiri
eftirgjöf af hálfu Ísraela og að það
hafi komið í veg fyrir að samkomulag
næðist. Þetta gæti átt við rök að
styðjast.
Þá er ljóst að Sharon stendur og
fellur með friðar- og öryggismálunum
og líklegt verður að teljast að hann
leggi sig fram um að ná árangri.
Ísraelskir kjósendur höfnuðu stefnu Ehuds Baraks í forsætisráðherrakosningunum á þriðjudag
Sharons
bíða erfið
verkefni
Ísraelskir kjósendur höfnuðu stefnu
Ehuds Baraks í friðarmálum og tryggðu
Ariel Sharon yfirburðasigur í forsætisráð-
herrakosningunum á þriðjudag. En
því fer þó fjarri að Sharon eigi náðuga
daga fyrir höndum, eins og fram kemur í
grein Aðalheiðar Ingu Þorsteinsdóttur.
Ekki er hlaupið að stjórnarmyndun á hinu
sundurleita þingi Ísraels, auk þess sem for-
sætisráðherrans bíður það erfiða verkefni
að kveða niður átökin á sjálfstjórnar-
svæðum Palestínumanna.
Jerúsalem. AFP, AP, Reuters, The Daily Telegraph.
Reuters
Palestínskur flóttamaður les fréttir í dagblaði af kjöri Ariels Sharons í
flóttamannabúðum í Jórdaníu í gær.
AP
Ariel Sharon flytur sigurræðu
sína aðfararnótt miðvikudags.