Morgunblaðið - 01.04.2001, Page 16
ÍÞRÓTTIR
16 SUNNUDAGUR 1. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Svörin eru mörg og ekki allir sam-mála hvað valdi. Sérstaklega þar
sem fremur góður fótbolti hefur verið
leikinn í deildinni í
vetur, opin sóknark-
nattspyrna einkennt
leik Roma, Lazio og
Juventus auk þess
sem minni spámenn eins og Atalanta
og Perugia hafa átt góða spretti. Er
deildin lélegri en fyrr eða er dáðleys-
ið í Evrópu tímabundið fyrirbrigði?
Flestir eru á því að um hvort tveggja
sé að ræða, árangurinn í Evrópu sé
sannarlega ömurlegur, svo reyndar
að óheppni og tilviljanir hljóti að hafa
eitthvað með málin að gera. Var tap
Roma gegn Liverpool á dögunum
tekið sem dæmi um það.
„Það að besta lið Ítalíu skuli tapa á
móti liði sem hefur verið fremur
ósannfærandi í ensku deildinni í vet-
ur og hefur verið með marga lykil-
menn í langvarandi meiðslum er
hreinn skandall. Capello talaði af lít-
ilsvirðingu um Liverpool fyrir leikina
og sagði þá ekki beinlínis „Il Manc-
hester“ (eins og Ítalir kalla Man. Utd
ævinlega). Honum hefði verið nær að
vinna heimavinnuna sína, Liverpool-
menn mættu agaðir til leiks á Ólymp-
íuleikvanginum og slógu sofandi
sauði út af laginu,“ sagði blaðið Corr-
iere della Sera en bætti við að vissu-
lega hefði vantað lykilmenn hjá
Roma og liðið alls ekki sýnt eðlilegan
leik. Juventus og Lazio byrjuðu leik-
tíðina illa og voru afar lengi í gang en
eru vissulega komin á betra ról nú og
myndu sjálfsagt spjara sig meðal
hinna bestu ef þau væru enn með í
baráttunni. Mílanóliðin eru í móki,
Inter nánast í dauðadái eftir háðug-
lega útreið í forkeppni Meistaradeild-
arinnar og þjálfaraskipti í kjölfarið.
Milan höktir áfram með þungt og
ímyndunarsnautt lið sem væri full-
komið miðlungslið ef framherjinn
kraftmikli Andry Schevcenko héldi
því ekki gangandi. Eftir jafnteflið
gegn Deportivo á heimavelli lét síðan
Silvio Berlusconi, eigandi félagsins,
þjálfarann Alberto Zaccheroni fara
og fékk Cesare Maldini og Mauro
Tassotti til að taka við. Markmiðið
ekki síst að koma í veg fyrir frekari
háðung Milan sem gæti spillt fyrir
Berlusconi í þingkosningunum í vor.
En slæm byrjun sem kann að orsak-
ast af því að deildarkeppnin byrjaði
mánuði síðar en í flestum öðrum lönd-
um og meiðsli og breytingar hjá stór-
liðunum skýra ekki alla hörmungina.
Kostulegar afsakanir
Byrjum á bröndurunum: Ítalir eru
sérfræðingar í að tína til undarleg-
ustu afsakanir fyrir eigin mistökum
og misgjörðum. Ein vinsælasta kenn-
ingin meðal knattspyrnuáhuga-
manna er sú að ítölsk lið njóti ekki
sannmælis hjá evrópskum dómurum
vegna þess að Ítalir eigi enga hátt-
setta fulltrúa hjá Knattspyrnusam-
bandi Evrópu og því líðist stórmóðg-
andi dómgæsla eins og hjá
Spánverjanum Garcia Aranca í leik
Roma og Liverpool á Anfield á dög-
unum! Önnur er sú að vegna hinna
miklu peninga sem fengist hafi fyrir
sjónvarpsrétti skipti árangurinn á
vellinum á einni leiktíð minna máli en
áður en nafn liðsins og árangur yfir
lengra tímabil meira máli. Zaccher-
oni sagðist til dæmis ævinlega hafa
stefnt að einu að fjórum efstu sæt-
unum í deildinni, það væri það sem
krafist væri af honum („Haldið þið að
þjálfari Man. Utd sé beðinn um að
tryggja Meistaradeildarsæti?“ spurði
Gazzetta dello Sport með fyrirlitning-
artón yfir metnaðarleysinu). Þriðja
kenningin er að þriggja stiga reglan
hafi grafið undan gömlum og góðum
gildum í ítalskri knattspyrnu, liðin
séu orðin of sókndjörf og leggi ekki
nægilega rækt við sterka vörn og
skyndisóknir, hið fræga „catanaccio“-
afbrigði.
Sannarlega skemmtilegar kenn-
ingar.
En þungaviktarmenn eins og
landsliðshetjan fyrrverandi og núver-
andi ráðherra íþróttamála, Gianni
Rivera líta í aðrar áttir. „Við erum
hættir að byggja upp lið en röðum í
staðinn saman hópum af andlausum
erlendum leikmönnum.“
Það er kannski heldur ódýrt að
benda á innrás útlendinganna í þessu
sambandi en Rivera hefur vissulega
mikið til síns máls, í haust voru yfir 80
erlendir leikmenn af misjöfnum gæð-
um fengnir til ítalskra liða – færri en
30 þeirra hafa náð að skapa sér fast
sæti í liðum sínum.
Útlendingar að
eyðileggja varnarhefð?
Gengi ítalskra liða hefur farið mjög
hnignandi eftir að Bosman-dómurinn
féll fyrir nokkrum árum. Engin
deildakeppni hefur fengið annað eins
flóð af erlendum leikmönnum yfir sig
og hvergi hafa verið eins gríðarlegar
breytingar gerðar á leikmannahóp-
um liðanna milli ára. Virðist sem
Bosman hafi brugðið sér í líki njálgs
hjá eigendum liðanna, slíkur hefur
æðibunugangurinn verið. „Bosman-
dómurinn hefur haft þær afleiðingar
að lið geta leitað að leikmönnum í all-
ar stöður alls staðar í heiminum og
iðulega verður þetta auma púsluspil
án allra karaktereinkenna,“ segir Ar-
rigo Sacchi, fyrrverandi landsliðs-
þjálfari, og Claudio Ranieri, þjálfari
Chelsea, tekur í svipaðan streng:
„Vandræðin á Ítalíu byrjuðu með hol-
skeflu erlendra varnarmanna. Ein-
beiting þeirra er ekki eins góð og
Ítalanna. Fyrir Bosman-dóminn voru
erlendu leikmennirnir næstum alltaf
miðvallar- eða sóknarleikmenn og öll
lið höfðu traustan hóp Ítala í öftustu
varnarlínu,“ segir Ranieri og bendir á
AC Milan undir stjórn Sacchi og Cap-
ello sem besta dæmið. Og víst er að
erlendir varnarleikmenn áttu löngum
erfitt með að komast að á Ítalíu, Þjóð-
verjarnir Hans-Peter Briegel og
Andreas Brehme eru einir örfárra
dæma um varnarmenn sem slógu í
gegn, Englendingurinn Des Walker
besta dæmið um hið gagnstæða. Í
dag streyma alls kyns skussar suður
eftir með fáeina landsleiki jafnvel að
baki. Eitt kostulegasta dæmið var
þegar AC Milan keypti danska ofur-
bakvörðinn Steinar Nilssen! Þeir
seldu hann að vísu fljótlega en svona
fuglar hefðu verið stoppaðir í tollin-
um hér áður fyrr.
Milljónaeigendur
í Bosman-þoku
„Þið hafið eyðilagt knattspyrnuna
okkar,“ sagði með stríðsletri á forsíðu
La Gazzetta dello Sport á dögunum
eftir að Lazio, Juve og Roma höfðu öll
gert í buxurnar í Evrópu og var orð-
unum beint að eigendum liðanna.
„Rekstur ítalskra stórliða hefur verið
í miklu ójafnvægi undanfarin ár,“
segir Gazzettan, „forríkir eigendurn-
ir eru eins og litlir krakkar í risastórri
dótabúð og eru alsælir yfir því að
geta keypt allt dótið í búðinni.
Hömluleysinu á hreyfingum leik-
manna milli landa fylgir að menn
kaupa og selja leikmenn eins og þeir
séu á flóamarkaði. Krafan hefur auð-
vitað alltaf verið um skjótan árangur
hjá eigendunum en nú er svo komið
að menn kaupa bara og kaupa leik-
menn daginn út og inn þegar illa
gengur. Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé
fyrir lið að eiga sterkan hóp leik-
manna í því mikla leikjaálagi sem er í
dag getur varla vísað á gott að menn
séu með 30–40 manna hóp landsliðs-
manna innanborðs.“ Liam Brady sem
lék með Juventus og Inter á árum áð-
ur tekur undir þessi orð. „Á Ítalíu eru
alltof margir leikmenn sem telja sig
eiga rétt á sæti í liðunum. Við erum
ekki að tala um 15 leikmenn með til-
kall til sætis í aðalliði, eins og t.d. hjá
Man. Utd, heldur 25. Það hlýtur að
vera höfuðverkur að velja menn á
bekkinn. Þegar ég spilaði með
Juventus (og varð meistari 2 ár í röð)
valdi liðið sig sjálft.
Við vorum með 5–6 varamenn,
mest unga leikmenn sem gerðu sér
grein fyrir að þær ættu ýmislegt
ólært og sættu sig við stöðu sína. Í
dag skapa leikmenn, sem telja sig
eiga að vera í liðinu en eru það ekki,
óróa og því er ómögulegt fyrir þjálf-
arana að skapa liðsanda,“ segir
Brady.
Virðast allnokkur sannindi í þess-
um orðum. Flest sterkustu lið Evr-
ópu í dag eru lið sem hafa byggt upp
lið hægt og rólega og yfirleitt er
kjarni liðsins heimamenn (upp aldir
hjá liðunum eða allavega innlendir
leikmenn). Þetta gildir um Manchest-
er United og Arsenal í Englandi, Ba-
yern München og Leverkusen í
Þýskalandi, Real Madrid, Deportivo
og Valencia á Spáni.
Barcelona reyndi nýbreytni, að
flytja nánast heilt landslið inn í einu
en sú tilraun hefur reynst brokkgeng.
Það er síðan kaldhæðni örlaganna að
Claudio Ranieri skuli í ljósi ofan-
greindra orða sinna stýra liði sem er
dæmi um „ítölsku Bosman-veikina“,
dæmalaust mistækum milljónaher
„Il Chelsea di Londres“.
Yfirburðirnir liðin tíð
En þrátt fyrir hrakfarirnar síðustu
2 ár getur vart öll von verið úti fyrir
land sem hefur átt 8 sigurvegara af
síðustu 12 í Evrópukeppni félagsliða
og 4 af 12 í Meistaradeildinni. Topp-
baráttan í Serie A er geysiskemmti-
leg og flestum ber saman um að fall
Roma gegn Liverpool hafi verið slys;
sigling þeirra í deildinni sýni það.
„Ítalski fótboltinn á ekki beinlínis í
krísu, hinir voru bara betri í Evrópu-
keppninni í vetur,“ segir Dino Zoff,
þjálfari Lazio. Landsliðsþjálfarinn
Giovanni Trapattoni telur að ítölsku
deildinni hafi ekki farið aftur. „Miklu
frekar er að hinir hafi náð okkur, iðu-
lega byggt leik sinn á ítalskri fyrir-
mynd. Þar til nýlega léku allir bestu
útlendingarnir á Ítalíu, nú eru þeir
úti um allt. Til langs tíma höfðum við
deild sem var með tæknilega yfir-
burði, bjó yfir betri stíl og var takt-
ískt betur skipulögð. Sú tíð er liðin.“
Hvaða deildakeppni þykir Ítölum
sjálfum svo best í dag? Um það eru
bæði blaðamenn og aðdáendur sam-
mála, Primera Liga – spænska deild-
in. Þangað líti menn í dag eftir
glæstri og árangursríkri knatt-
spyrnu. Enska og ítalska deildin fá
svo tiltölulega jafnmörg atkvæði í
öðru til þriðja sæti.
Ítölsk félagslið hafa flest mætt svefndrukkin til leiks í Evrópumótunum
Góða
nótt,
Evrópa!
Reuters
Argentínumaðurinn Diego Simeone, leikmaður Lazio, og aðrir leikmenn með ítölskum liðum,
hafa þurft að játa sig sigraða í Evrópukeppninni. Hér verður Simeone undir í keppni við Eirik
Bakke, leikmann Leeds, í Meistaradeild Evrópu í Róm á dögunum.
ÍTÖLSK félagslið hafa átt afar slöku gengi að fagna í Evrópukeppn-
um í vetur. AC Milan féll úr Meistaradeildinni fyrir skömmu og er
þar með ekkert ítalskt lið eftir í Evrópukeppninni. Á sama tíma eru
fjögur ensk lið eftir í keppninni og hvorki fleiri né færri en sjö
spænsk lið. Fyrir 10 árum áttu Ítalir fimm lið í keppninni á sama
tímapunkti, áðurnefnd lönd engin. Er þessi leiktíð ekki burðug byrj-
un á nýjum áratug en á síðasta áratug réðu ítölsk félagslið lögum og
lofum í Evrópu og unnu til hvorki fleiri né færri en 13 Evróputitla
fyrir utan einhverjar „vináttudollur“ sem kenndar eru við HM
félagsliða og meistara meistaranna í Evrópu. Ítalir taka þessum tíð-
indum að vonum þunglega og spyrja hvað orðið hafi um yfirburði „il
campionato piu bello del mondo“ – fallegustu og bestu deild-
arkeppni í heimi.
Einar Logi
Vignisson
skrifar