Morgunblaðið - 24.04.2001, Qupperneq 32
LISTIR
32 ÞRIÐJUDAGUR 24. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er ekki ofsögum sagt að
Mozart kemur sífellt á óvart, þrátt
fyrir sérlega opinskáan stíl með alls
konar tiltektum í tónskipan, og má
nærri geta að samtímamönnum
hans hafi oft þótt nóg um, fyrst enn
í dag er ýmislegt að finna í tónmáli
hans sem er efni til undrunar, fyrir
utan snilld hans, sem er eins og sí-
streymandi og tær fjallalind.
Tónleikar Magneu Tómasdóttur
og Gerrit Schuil, sem haldnir voru í
Salnum sl. sunnudag, hófust nefni-
lega á konsertaríunni Bella mia
fiamma, K. 528, sem Mozart samdi
fyrir Josefu Duschek er hann var í
Prag að færa upp Don Giovanni, á
haustdögum 1787. Í þessari aríu er
að finna tónhendingu byggða á
trítónusferli (stækkuð ferund eða
minnkuð fimmund) og segir sagan
að Mozart hafi ætlað að hrekkja
Josefu, því trúlega hefur þetta tón-
bil verið erfiðara fyrir söngvara á
átjándu öld en það er fyrir kollega
hennar í dag. Þetta er sérkennilega
samansett og erfið aría, er var flutt
af öryggi, en eins og Alfred Ein-
stein segir er þetta tæplega verk
fyrir almennan konsert en miklu
fremur það sem kalla mætti „æf-
ingaverk“, því það er eins og Moz-
art hafi ætlað að reyna á þolrifin í
söngkonunni, svo erfitt er þetta
söngverk í flutningi.
Söngvar Beethovens við trúarljóð
Gellerts eru í raun sálmalög og það
er aðeins í því síðasta, Busslied, og
þá helst undir lokin, að Beethoven
bregður á leik með kontrapunkt-
ískum undirleik. Það lag, sem
þekktast er úr þessum lagaflokki,
er Þitt lof, ó, Drottinn og það söng
Magnea glæsilega og sömuleiðis var
Busslied vel sungið, enda er það
veigamest þessara sex Gellerts-
söngva.
Síðasta viðfangsefnið fyrir hlé
var Ecco il puncto – Non piu di
fiori, tónles og aría Vitellíu úr óp-
erunni Clemenza di Tito, K. 621,
eftir Mozart. Þetta er ekki síður
erfið aría en Bella mia fiamma og er
auk þess mjög krefjandi í túlkun, en
þessi ópera fjallar um ástir, afbrýði
og launráð og var flutningur Magn-
eu sérlega áhrifamikill í þessari erf-
iðu aríu, þar sem Vitellía, undir lok
óperunnar, ásakar sjálfa sig og lýsir
iðrun sinni á átakanlegan máta.
Wesendonck-söngvarnir eftir
Wagner eru hástemmd rómantík og
var flutningur þeirra gæddur sterk-
um andstæðum, bæði hjá söngvara
og píanóleikara, og var annað ljóðið,
Stehe still!, flutt með mjög sterkum
andstæðum og þau tvö síðustu,
Schmerzen og Träume, voru ein-
staklega vel flutt: Píanóleikurinn í
Schmerzen tók sannarlega í og
stemmningin í Träume, sem Magn-
ea og Gerrit náðu að túlka frábær-
lega, var með þeim hætti, að vart
verður á betra kosið.
Lokaviðfangsefnin voru tvær ar-
íur eftir Verdi, sú fyrri, Tacea la
notte, aría Leónóru úr fyrsta þætti
óperunnar Il Trovatore, og Tu che
le vanita, aría Elísabetar úr fimmta
þætti óperunnar Don Carlos. Þarna
sýndi Magnea sitt stóra og var aría
Leónóru hreint út sagt stórglæsi-
lega sungin og má segja að með
þessum stóraríum Verdis hafi
Magnea „slegið í gegn“ og sýnt og
sannað að hún er efni í mikla óp-
erusöngkonu. Naut hún til þessa
leiks, að Gerrit Schuil er frábær pí-
anisti, og skapaði hann söngkon-
unni áhrifamikil hljóðtjöld í stór-
brotinni og eftirminnilegri túlkun á
söngverkunum eftir Wagner og
Verdi.
Magnea er góð söngkona, er gef-
in glæsileg rödd, sem hún beitir af
kunnáttu, og er túlkun hennar borin
uppi af sterkri tilfinningu fyrir inn-
taki verkanna. Gellert-ljóðin, sem
hvað tónskipan áhrærir eru ákaf-
lega einföld, voru sérlega þétt í
hljóman, Mozart-aríurnar leikandi
léttar og dramatískar, t.d. í Ecco il
puncta. Það stóra sem Magnea á
bæði raddlega og í túlkun kom hvað
best fram í Wesendonck-ljóðunum
og alveg sérstaklega í Verdi-aríun-
um, þar sem Magnea fór á kostum,
svo að ljóst er, að hún er til stórra
verka ferðafær.
Eftirminnilegur Wagner og Verdi
„Magnea Tómasdóttir fór á kostum, svo að ljóst er, að hún er til stórra
verka ferðafær,“ segir í umsögninni. Hún er hér ásamt Gerrit Schuil.
SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT Íslands
hefur lokið við upptöku fyrir Rík-
isútvarpið á konsert fyrir klarínettu
og hljómsveit eftir Jón Ásgeirsson.
Einleikari er Einar Jóhannesson og
stjórnandi Bernharður Wilkinson.
„Þetta er ávöxtur af einhverri
dellu að semja bara konserta,“ segir
Jón um tilurð verksins. „Næsti kons-
ert verður fyrir trompet og hljóm-
sveit og líklegast að Ásgeir Stein-
grímsson fái hann í hendurnar.“
Tónskáldið er sérstaklega ánægt
með samstarfið við hljómsveitina og
stjórnandann. „Það er gaman að
semja konsert fyrir Sinfóníu-
hljómsveit Íslands og jafn frábæran
einleikara og Einar Jóhannesson er
– heyra verkið verða til í höndum
þessara góðu listamanna.“
Jón segir ekki ákveðið hvort
verkið verði flutt á áskriftartón-
leikum Sinfóníunnar en vonar að
svo verði þegar fram líða stundir.
Nýr klarín-
ettukonsert
hljóðritaður
Morgunblaðið/Ásdís
Einar Jóhannesson, Jón Ásgeirsson og Bernharður Wilkinson í Háskólabíói þar sem verkið var tekið upp.
TÓNLIST
S a l u r i n n
Magnea Tómasdóttir
og Gerrit Schuil fluttu söngverk
eftir Mozart, Beethoven,
Wagner og Verdi.
Sunnudaginn 22. apríl.
SÖNGTÓNLEIKAR
Jón Ásgeirsson
HANN leit út eins og uppreisnar-
seggur frá 1968, sem er reyndar ekki
einstakt meðal tónlistarmanna, en
það var líka háskólabragur á honum
á fleiri sviðum.
Eins og oft er um ítalska mennta-
menn var honum tamt að nota orð til
að greina og útskýra og nálgun hans
á tónlistinni var einmitt með þessum
hætti.
Hann var oft gagnrýndur fyrir að
taka tónlistina um of í sundur og
draga seiminn, en það firrti hann
enginn snilligáfunni.
Giuseppe Sinopoli var fæddur
síðla árs 1946 og var því ekki nema
54 ára þegar hann hné niður af
hljómsveitarstjórapallinum í
Deutsche Oper á föstudagskvöldið.
Seinna um kvöldið var hann lýstur
látinn. Hann var að stjórna sýningu
á óperu landa síns Verdi, Aidu, sem
var einmitt fyrsta óperan sem hann
stjórnaði opinberlega.
Það var annars óljóst framan af
hvar Sinopoli ætlaði að hasla sér völl.
Hann lagði stund á læknisfræði og
tónlist, en í síðarnefndu greininni
voru það tónsmíðarnar sem heilluðu
hann í byrjun. Undanfarið hafði
hann haft orð á að hann ætlaði að
draga sig snemma í hlé frá tónlist-
inni og helga sig fornleifafræði, sem
hann hafði fengið áhuga á síðari árin.
Sinopoli lætur eftir sig eiginkonu og
tvo syni og hans er minnst í fjölmiðl-
um og tónlistarsölum um allan heim
þessa dagana, enda hafði hann lagt
heiminn undir sig með fjölmörgum
upptökum og svo auðvitað stjórnað
út um allt.
Læknisfræði
og tónlist
Hinn sikileyski faðir Sinopolis
lagði áherslu á að sonurinn legði
stund á eitthvað hagkvæmt, auk þess
að gæla við tónlistargyðjuna. Hann
lagði því stund á skurðlækningar og
geðlækningar, þar sem hann skrifaði
doktorsritgerð um hljóðskynjun við
háskólann í Padóvu. Um sama leyti
var hann líka að ljúka tónlistarnámi
frá tónlistarskólanum í Feneyjum,
en þessar tvær borgir eru skammt
hvor frá annarri.
Læknisfræðina lagði hann á hill-
una eftir prófin og sneri sér alfarið
að tónlistinni. Hann lagði stund á
hljómsveitarstjórn hjá Hans Swar-
owsky í Vín og tónsmíðar í Feneyj-
um. En eftir að ópera hans um Lou
Salome lagskonu Nietzsche og
Freud var frumsýnd í München 1981
hefur farið minna fyrir tónsmíðunum
og hljómsveitarstjórnin tekið yfir.
Það var á níunda áratugnum, sem
nafn hans varð fastur liður við óp-
eru- og tónlistarhús um allan heim.
Aidu stjórnaði hann fyrst í heimabæ
sínum Feneyjum 1978 og eftir þessa
frumraun á óperusviðinu lá leiðin
vítt og breitt um heiminn. Hann
stjórnaði Toscu Puccinis við Metro-
politan óperuna í New York 1985, en
var þó ekki á neinn hátt takmark-
aður við ítalska fagið og stjórnaði
Tannhäuser Wagners í Bayreuth
sama ár. Í sumar áætlaði hann að
stjórna flutningi Niflungahringsins í
þessu heimahúsi Wagners.
Ekki bara ítalska
heldur líka þýska fagið
Um leið og hann teygði sig um
ítalska fagið, þar sem hann þótti hafa
einstakan skilning á bel canto, átti
hann við þýska tónlistarhefð. Auk
Wagners tókst hann á við stórverk
Mahlers og þótti hafa tekist einkar
vel upp við óperur Strauss eins og
Salome og svo Elektru, sem hann
stjórnaði í Vín. Báðar óperurnar eru
til í upptökum undir hans stjórn.
Auk þess sem hann ferðaðist
grimmt og kom fram sem gesta-
stjórnandi hafði hann líka fasta við-
veru víða. Hann vann með Fílharm-
óníunni í London 1983–1994. Árið
1990 ætlaði hann að fastráða sig við
Deutsche Oper í Berlín, en það náð-
ust ekki samningar milli hans og óp-
erunnar. Í staðinn fór hann til
Staatskapelle í Dresden. Þar smullu
saman bæði samningar og hugsunar-
hátturinn og þar hefur hann verið
síðan 1992. Náin samvinna hans við
útgáfufyrirtækið Deutsche
Grammophon hefur staðið lengi og
gert samstarf óperuhúsa og hljóm-
sveita við hann einkar áhugavert.
Síðasta sýningin
Sýningin á Aidu í Deutsche Oper í
Berlín, sem reyndist síðasta sýning
Sinopolis, var nokkurs konar heim-
koma hans til Berlínar, þar sem
hann hafði ekki stjórnað í tíu ár eða
frá því það slitnaði upp úr samning-
um um fastráðningu hans við húsið.
Hann átti að stjórna þar tveimur
sýningum og það var fyrir löngu
uppselt á þær.
Aðdragandi sýningarinnar gekk
ekki hnökralaust fyrir sig. Tenórinn
forfallaðist og það varð að fá annan á
síðustu stundu. Daniela Desi, sem
átti að syngja titilhlutverkið, var
veik daginn áður, en ákvað að syngja
nú samt. Allt gekk áfallalaust, þar til
kom fram yfir hlé, þar sem elskend-
urnir hittast á Nílarbökkum og
syngja um ást sína. Í þessu atriði
varð samkvæmt lýsingu ítalska
blaðsins Corriere della sera skyndi-
lega uppistand í hljómsveitargryfj-
unni. Menn kölluðu á hjálp, tónlistin
þagnaði og söngvararnir stóðu sem
steinrunnir á sviðinu. Tveir læknar í
hópi áhorfenda stukku til, en meist-
ari Sinopoli lá þá meðvitundarlaus á
gólfinu. Hafði fallið til jarðar með
dynk. Honum var gefið hjartanudd
og áhorfendur beðnir um að yfirgefa
salinn. Hann var fluttur á spítala, en
komst aldrei til meðvitundar og var
látinn seinna um kvöldið. Eiginkona
hans var viðstödd sýninguna og því
hjá honum er hann lést.
Sinopolis hefur víða verið minnst
undanfarna daga. Á tónleikum
Lundúnafílharmóníunnar á sunnu-
daginn, sem Esa Pekka Salonon
stjórnaði, bætti hann dauða Melis-
ande úr Pelleas og Melisande svítu
Sibelíusar framan við tónleikana í
minningu meistarans.
Giuseppe Sinopoli látinn
Umdeildur og
elskaður Ítali
Ítalski hljómsveitarstjórinn Giuseppe Sinopoli er allur.
Ítalski hljómsveitarstjórinn Giuseppe
Sinopoli varð bráðkvaddur í óperugryfjunni
í Deutsche Oper á föstudagskvöldið.
Sigrún Davíðsdóttir rifjar upp feril
litríks tónlistarmanns.
sd@uti.is