Morgunblaðið - 29.09.2001, Side 34
UMRÆÐAN
34 LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
L
íkamsrækt er eitt af
haustverkunum. Á
milli þess sem unnið
er, borðað, leikið,
spjallað, keyrt og
hvílt er púlað í fjölþjálfa, stigvél,
bekkpressu, róðrarvél og fleiri
álíka tækjum í einhverri líkams-
ræktarstöðinni.
Mataræðið verður auðvitað að
taka í gegn. Bara nammidagur á
laugardögum, en svo er bara
kjúklingabringur, skyr, vatn og
grænmeti þess á milli. Einnig
verður að athuga að prins póló er
ekki lengur kex og rjómaís getur
ekki talist helsti kalkgjafinn eins
og í sumar.
Ég fór til
einkaþjálfara
í gær. Hélt að
ég yrði gjör-
samlega tek-
in í gegn og
hent í hundr-
að armbeygjað á staðnum. Svo fór
ekki. Vaxtarræktartröllið sem ég
hélt ég myndi mæta var bara
ósköp ljúfur piltur án valds-
mannstilburða. Sýndi mér tækin
og kenndi mér á hlaupabretti sem
ég viðurkenndi að hafa aldrei
prófað frekar en axlaflug og fóta-
pressu.
Ég bjóst við að verða spurð í
þaula hvaða markmið ég hefði sett
mér um kílóamissi eða vöðvasöfn-
un. Hvað ég vildi nú fá út úr lík-
amsræktinni og að ég yrði nú að
mæta helst fimm sinnum í viku.
Öðru nær. Einkapilturinn var
hinn passívasti og sagði að fyrsta
skrefið væri að byrja að mæta og
eftir einn til tvo mánuði yrði raun-
hæft að setja sér einhver mark-
mið. Hann talaði auk þess ekkert
um prins póló eða rjómaís, hvað
þá kjúklingabringur eða skyr og
ég þurfti að pína hann til að fitu-
mæla mig!
Er það af sem áður var að al-
menningur var fitumældur við
fyrsta skref inn í líkamsrækt-
arstöð? Ég, sem var búin að búa
mig undir yfirheyrslu og predik-
anir, fékk bara leiðbeiningar og
ljúfmennsku frá manninum sem
ekki var tröll. Og þetta var miklu
meira hvetjandi en hamagang-
urinn sem ég hafði búist við.
Annars fær almenningur ansi
misvísandi leiðbeiningar um lík-
amsrækt og mataræði frá hinum
og þessum ráðgjöfum og þjálf-
urum. En það er aldrei nógu fast
hamrað á því að fjölbreytt mat-
aræði ásamt einhverri hreyfingu
er best fyrir alla, nema þeir séu
sjúklingar.
Almenningi er boðið upp á
töfralausnir; stæltan líkama og
missi tuga kílóa eftir tólf vikna
þjálfunarprógramm og mikla pró-
teinneyslu. Allt er svo stór-
fenglegt og auðvelt þegar búið er
að setja sér markmið og svara
spurningum vaxtarræktartrölls-
ins Bills Phillips í bókinni Líkami
fyrir lífið. Þar eru einnig fyrir-og-
eftir-myndir eins og við þekkjum
öll. Fýldur fitupoki breytist í hlæj-
andi vöðvatröll á tólf vikum. Þetta
er þekkt auglýsingabragð sem
enginn ætti að láta glepjast af.
Bill er bandarískur líkams-
ræktarfrömuður sem skoraði á
fólk að byrja að æfa og hét sport-
bíl í verðlaun þeim sem næði best-
um árangri. Verðlaunin voru það
sem hvatti flesta til að byrja og
margir náðu árangri, eins og fram
kemur í bókinni. Það þarf hins
vegar töluvert átak til að breyta
lífsmynstrinu á þann róttæka hátt
sem Bill leggur til. Einn tveir og
þrír á fólk að byrja að borða sex
næringarríkar máltíðir á dag og
æfa sex sinnum í viku fyrir allar
aldir, stundum á fastandi maga og
stundum má ekki borða í klukku-
stund á eftir, nema hvort tveggja
sé, ég náði því bara ekki alveg.
Eflaust hafa margir náð ár-
angri með því að fylgja áætlun
bókarinnar og ýmislegt gott um
hana að segja en margt ber hins
vegar merki meintra kraftaverka-
lausna sem henta engum. Þyngd-
artap upp á hátt í þrjú kíló á viku
hefur t.d. löngum verið talið
óheilsusamlegt. Þeir eru líka
margir sem gefast upp þegar þeir
ná ekki sama glæsilega árangri og
fólk vitnar um í bókinni hans Bills.
Ég er byrjuð í fjögurra manna
líkamsræktarklúbbi sem er um
leið stuðningshópur meðlimanna
sem allir eru miklir sælkerar. Þeir
finna hjá sér mismikla hvöt til að
lyfta lóðum, hoppa á pöllum,
hætta að drekka kók og skilgreina
kex upp á nýtt. Meðlimir klúbbs-
ins eiga að hvetja hver annan til
hreyfingar og veita stuðning þeg-
ar nammilöngunin sækir að utan
laugardaganna. Á næsta fundi
klúbbsins verður ákveðið umbun-
arkerfi en hugmyndir að verð-
launum hafa verið: súkkulaði-
stykki, málsverður á veitingahúsi,
bíóferð þar sem má borða popp,
nammi og gos, og fleira tengt mat.
Líkamsræktarklúbburinn hef-
ur haldið nokkra fundi. Á fyrsta
fundi var á dagskrá skoðun
stundataflna líkamsræktarstöðv-
anna. Þá voru einnig síðustu for-
vöð að borða súkkulaði á fimmtu-
dagskvöldi. Á næsta fundi var
ákveðið að fara í prufutíma í vik-
unni. Á þriðja fundi var tímasetn-
ing prufutímans ákveðin. Á fjórða
fundi var ákveðið að fara í aðra
líkamsræktarstöð og tímasetning
m.a.s. ákveðin. Á fimmta fundi var
ákveðið að kaupa kort í þeirri stöð
og síðan þá hef ég komið fimm
sinnum í stöðina. Þetta var á
mánudaginn. Reyndar var ég einu
sinni bara að skrifa undir samning
og í annað skipti að læra á tæki án
þess að taka á. Í þriðja skiptið fór
ég í jóga og frelsaðist. Allir vinnu-
staðir ættu að bjóða upp á jóga
fyrir starfsfólkið.
Það á eftir að halda sérstakan
fund um nafn á líkamsrækt-
arklúbbinn minn. Ég er að upp-
götva að klúbburinn ætlar að
beita sömu aðferð og Bill Phillips,
þ.e. að umbuna fyrir góðan árang-
ur. En það sem ég hræðist helst
er að við, meðlimir líkamsrækt-
arklúbbsins, verðum fjórir Bill
Phillips sem teljum hver öðrum
trú um að auðvelt sé að búa sér til
eggjahvítuköku í morgunmat,
klukkutíma eftir tuttugu mínútna
loftháðu þjálfunina á fastandi
maga.
Axlaflug
og jóga
Einn tveir og þrír á fólk að
byrja að borða sex næringarríkar
máltíðir á dag og æfa sex sinnum í viku
fyrir allar aldir, stundum á fastandi
maga og stundum má ekki borða í
klukkustund á eftir, nema hvort tveggja
sé, ég náði því bara ekki alveg.
VIÐHORF
Eftir Steingerði
Ólafsdóttur
steingerdur-
@mbl.is
UNDANFARNA
daga hefur mikið verið
rætt um niðurstöður
nefndar sem sjávarút-
vegsráðherra skipaði
fyrir tæpum tveimur
árum. Eins og kunnugt
er átti nefndin að gera
tillögur um breytingar
á fiskveiðistjórnunar-
kerfinu. Nefndin
komst ekki að sameig-
inlegri niðurstöðu.
Þess vegna voru sjáv-
arútvegsráðherra
kynntar niðurstöður
hennar sem meiri-
hlutaálit og þrjú minni-
hlutaálit.
Í áliti því sem undirritaður skilaði
er tillaga um hæga og varfærnislega
breytingu, sem tekur mið af hug-
myndum um fyrningu aflahlutdeilda
á löngum tíma. Lögð var fram tillaga
um línulega fyrningu um 5% á ári í
tuttugu ár.
Tillögur um fyrningu
Enda þótt minnihluti nefndar-
manna í endurskoðunarnefndinni
hafi verið sammála um að fara hina
svokölluðu fyrningarleið greindi
fulltrúa minnihlutans á um fram-
kvæmd hennar. Undirritaður gat
ekki samþykkt fyrningarleið sem
leiddi til þess að veiðiheimildir
gengju kaupum og sölum eftir lög-
málum markaðarins enda væri þá
líka ómögulegt að stjórna þróun
fiskveiðanna að öðru leyti. Þess
vegna eru settar fram skýrar tillög-
ur um hvernig fyrningunni verði
ráðstafað. Fyrstu sex ár tímabilsins
fyrnast 5% á ári en útgerðinni gefst
kostur á að endurleigja 3 af þeim aft-
ur með afnotasamningi til sex ára í
senn. Á fyrstu sex árunum losna
þannig tólf prósent veiðiheimild-
anna.
Það sem mikilvægast er í þessum
tillögum er hvernig hinum fyrndu
veiðiréttindum er ráðstafað. Einn
þriðja hluta veiðiheimildanna á að
bjóða upp á landsmarkaði, þar sem
útgerðunum er gefinn kostur á leigu
til sex ára í senn. Annar þriðjungur
þeirra veiðiheimilda sem fyrnast á
hverju ári á að vera til byggða-
tengdrar ráðstöfunar fyrir sjávar-
byggðir landsins. Síð-
asti þriðjungurinn
verður á ári hverju
boðinn þeim handhöf-
um veiðiréttarins sem
fyrnt er frá til endur-
leigu gegn hóflegu
kostnaðargjaldi á
grundvelli sérstaks af-
notasamnings til sex
ára í senn.
Við skiptingu þess
þriðjungs veiðiheim-
ilda sem sveitarfélögin
ráða verði byggt á vægi
sjávarútvegs, veiða og/
eða vinnslu í atvinnulífi
viðkomandi sjávar-
byggða og hlutfallslegu
umfangi innan greinarinnar að með-
altali síðastliðin tuttugu ár. Um
þessa skiptingu er ætlunin að settar
verði nánari reglur að viðhöfðu víð-
tæku samráði þeirra sem hagsmuna
eiga að gæta. Hlutaðeigandi sveit-
arfélög ráðstafa þessum þriðjungi
veiðiheimildanna fyrir hönd sjávar-
byggðanna sem þeim tilheyra. Sveit-
arfélögin geta leigt út veiðiheimildir
eða ráðstafað með öðrum almennum
hætti á grundvelli jafnræðis, en
þeim er einnig heimilt að verja hluta
veiðiheimildanna tímabundið til að
styrkja hráefnisöflun og efla fisk-
vinnslu heimafyrir. Þannig öðlast
þau tækifæri til að efla vistvænar
veiðar, styrkja staðbundna báta- og
dagróðraútgerð, gæta hagsmuna
sjávarjarða og auðvelda nýliðun og
kynslóðaskipti í sjávarútvegi.
Óheimilt verður að framleigja
byggðatengd veiðiréttindi varanlega
frá sveitarfélögunum. Kjósi sveitar-
félögin að innheimta leigugjald fyrir
aflaheimildirnar renna tekjurnar til
viðkomandi sveitarfélags.
Mikilvægt er að benda á að einnig
kemur fram tillaga um nýtingar-
stuðla, til þess nálgast markmið um
sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar,
betri umgengni og vistvænni útgerð-
arhætti. Nýtingarstuðlarnir byggj-
ast á því að afli tekinn á handfæri
vegur 0,8, afli á línu 0,85, afli í önnur
kyrrstæð veiðarfæri 0,95 og afli í
dregin veiðarfæri 1,0.
Brottkast
Brottkast afla er eitt af stóru
vandamálunum í íslenskum sjávar-
útvegi. Í tillögunum er gert ráð fyrir
að landa megi undirmálsfiski utan
kvóta, þó þannig að andvirðið að frá-
dregnum kostnaði renni í ríkissjóð.
Einnig er gerð tillaga um tilraunir
um löndun tiltekins meðafla þar sem
aðstæður mæla með slíku. Tryggt
verður að vera að löndun meðaflans
fylgi ekki efnahagslegur ávinningur
eða hvati. Lokun veiðisvæða vegna
smáfisks tryggi jafnframt að ekki
verði gert út á smáfisk.
Sóknartakmarkanir verði notaðar
sem fyrst með stjórn á veiðum smá-
báta og strandveiðiflotans til að
tryggja skjótan árangur aðgerða
gegn brottkasti fisks. Sé fiski eftir
sem áður hent þrátt fyrir rýmkaða
möguleika til að færa allan afla að
landi gildi um það mjög hörð við-
urlög.
Hafrannsóknir
Í tillögunum er bent á að brýnt er
að hafrannsóknir verði efldar með
sérstakri áherslu á að fylgjast með
samspili tegundanna og viðgangi
staðbundinna stofna. Efla þarf
möguleika rannsóknarstofnana á að
skoða áhrif mismunandi veiðarfæra
og bera saman árangur fiskvernd-
araðgerða, rannsaka áhrif ólíkra
veiðarfæra á hafsbotninn og sinna
fleiri slíkum rannsóknarverkefnum
sem ekki hefur verið möguleiki á að
sinna vegna fjárskorts.
Fjallað verður um fleiri atriði í til-
lögum að breyttri fiskveiðistjórnun í
annarri grein á næstunni.
Þróun í átt til
sjálfbærra veiða
Árni Steinar
Jóhannsson
Fiskveiðistjórnun
Þriðjungi veiðiheimild-
anna ráðstafa sveit-
arfélög, segir Árni
Steinar Jóhannsson,
fyrir hönd sjávarbyggð-
anna sem þeim tilheyra.
Höfundur er þingmaður Vinstri-
hreyfingarinnar – græns framboðs
og var fulltrúi í nefnd um endur-
skoðun á lögum um stjórn fiskveiða.
Í Morgunblaðinu 29.
ágúst sl. var birt grein
eftir Ágúst H. Bjarna-
son, grasafræðing þar
sem hann fór fram á að
Skipulagsstofnun svar-
aði nokkrum spurning-
um um gróður og mat á
umhverfisáhrifum. Í
tölvupósti til Skipu-
lagsstofnunar 6. sept-
ember sl. áréttaði
Ágúst spurningarnar
og 7. september var
Ágústi svarað og hann
beðinn um að senda
stofnuninni erindi og
afrit af greininni þar
sem Skipulagsstofnun telur fjölmiðla
ekki rétta vettvanginn fyrir bréfa-
skrif af þessu tagi og fengi hann þá
svar fljótlega í framhaldi af því. Það
kaus hann að gera ekki en áréttaði
spurningarnar í grein í Morgun-
blaðinu þriðjudaginn 18. september
sl.
Spurningarnar voru:
1. Eru gerðar ákveðnar kröfur til
þeirra sem dæma gildi flóru og gróð-
urs?
2. Hver ræður því hvort lág-
plöntur, mosar og fléttur séu teknar
með í mati á umhverfisáhrifum og
hvað er lagt þar til grundvallar?
3. Er hægt að sækja um það fyr-
irfram að sleppa mosum og fléttum?
4. Hvernig er hægt að dæma gildi
gróðurfélaga út frá aðeins tveimur til
fjórum tegundum há-
plantna í hverju gróð-
urfélagi?
Svar við spurningu 1.
Í lögum eða reglugerð
um mat á umhverfis-
áhrifum er ekki að
finna ákvæði um það
hverjir megi taka að
sér að meta umhverfis-
áhrif fyrir
framkvæmdaraðila en
það er hann sem ber
ábyrgð á mati á um-
hverfisáhrifum.
Svar við spurningu 2.
Það sem ræður því
hvaða þættir er skoðað-
ir hverju sinni við mat á umhverfis-
áhrifum eru tegund framkvæmdar,
staðsetning hennar, eðli fram-
kvæmdasvæðis og líklegt umfang
áhrifa. Í tillögu að matsáætlun legg-
ur framkvæmdaraðili fram áætlun
um hvaða þætti fyrirhugað er að
skoða í matsvinnunni. Tillagan er
borin undir almenning og umsagn-
araðila sem eru m.a. sérfræðistofn-
anir og að lokum afgreiðir Skipulags-
stofnun matsáætlunina og byggir þá
ákvörðun sína m.a. á umsögnum frá
sérfræðistofnunum. Framkvæmdar-
aðili vinnur síðan að mati á umhverf-
isáhrifum og gerð matsskýrslu á
grundvelli matsáætlunar.
Svar við spurningu 3. Ekki er
hægt að sækja um að sleppa tiltekn-
um þáttum í mati á umhverfisáhrif-
um. Endanleg ákvörðun um mats-
áætlun og þar með hvaða þætti beri
að skoða ræðst alfarið af tegund
framkvæmdar, staðsetningu hennar,
eðli framkvæmdasvæðis og líklegu
umfangi og varanleika áhrifa.
Svar við spurningu 4. Skipulags-
stofnun leitar eins og áður er getið
umsagna sérfræðistofnana, t.d.
Náttúruverndar ríkisins og Náttúru-
fræðistofnunar Íslands og eftir at-
vikum álits annarra sérfræðinga í
einstökum málum við umfjöllun um
matsáætlanir og matsskýrslur, m.a.
með tilliti til þess hvaða upplýsingar
þurfi að leggja fram um flóru og
gróður. Skipulagsstofnun byggir
niðurstöðu sína á áliti þeirra sér-
fræðinga sem leitað var til, umsögn-
um og athugasemdum sem koma
fram við athugun stofnunarinnar
auk gagna sem framkvæmdaraðili
leggur fram í matsskýrslu.
Mat á umhverfisáhrifum
Stefán Thors
Höfundur er skipulagsstjóri ríkisins.
Gróður
Skipulagsstofnun telur
fjölmiðla ekki rétta
vettvanginn, segir
Stefán Thors, fyrir
bréfaskrif af þessu tagi.