Morgunblaðið - 29.09.2001, Qupperneq 37

Morgunblaðið - 29.09.2001, Qupperneq 37
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2001 37 Okkur langar til að minnast frænda okkar Steingríms Skúlason- ar frá Mörtungu. Steini eða Steini gamli eins og við kölluðum hann, var fljótlega settur á stall í okkar æsku. Hlýtt viðmót hans, rólegt yf- irbragð og brosmilt andlitið dró okkur að honum. Allt sem honum viðkom fannst okkur merkilegt á einhvern hátt. Flestar minningarn- ar um Steina tengjast þó smölun eða öðrum fjallaferðum. Það var alltaf gaman að lenda við hliðina á Steina í smalamennsku. Ekki bara það að oftast var hann með súkkulaði eða brjóstsykur meðferðis heldur viðmótið og sú lagni hans að vekja upp áhuga okk- ar á gamalli tíð, en Steini hafði lag á að segja þannig frá að við hlust- uðum af athygli. Einhvern tímann kenndi hann okkur systrunum að fara úr skóm og sokkum og vaða út í næsta læk þegar okkur var orðið kalt. Það rokgekk og tærnar urðu funheitar á eftir en þetta fannst okkur mikið töfrabragð. Á hverju sumri fórum við kvenfólkið á neðri bænum í útreiðartúr með Steina inn á afrétt. Tilhlökkunin var alltaf jafnmikil og ferðirnar sveipaðar ævintýraljóma. Í eitt skiptið lentum við í þoku og jafnvel Steini var ekki orðinn öruggur á áttunum inn á Mörtunguskerjum, á því gátum við líka lært. Ein af eftirminnilegum ferðum með Steina var í haustsmöl- un fyrir rétt rúmum 10 árum. Eftir að hafa smalað skerin í slyddu og leiðindaveðri var riðið heim og hug- urinn við það eitt að komast heim. Strax í fyrsta stoppi kom í ljós að Steini átti afmæli og nú var riðið hægt það sem eftir lifði ferðar. Gul- ur dreginn upp og á leiðinni sagði Steini ótal sögur af landinu og horfnum tímum. Hvert kennileiti hafði sína sögu og landið fékk enn nýja dýpt. Á æfi Steina breyttist heimurinn mikið en í gamla bænum var alltaf allt á sínum stað og alltaf var jafn notalegt að kíkja við og spjalla um daginn og veginn og hlusta á sögur af liðnum tímum. Á veggnum var ferhyrndi hrútshausinn, en Steini átti alltaf eitthvað af ferhyrndu fé sem okkur krökkunum fannst auð- vitað stórmerkilegt þó hrútarnir með þessi stóru spjótshorn væru ekki vinsælir í návígi. Undir hrúts- hausnum stóð kúturinn og marglitu staupin og við hliðina skápurinn þar sem ýmislegt góðgæti var geymt, það fór svo eftir aldri og ástæðum upp á hvort var boðið. Við fótskör- ina stóð kistan sem fylgdi m.a. þeim Steina og Nóa bróðir hans suður á vertíð, greinilegt að í þá daga var ekki haft mikið meðferðis þó langt væri að fara og aðstæður erfiðar. Yfir rúminu héngu svo rifflarnir sem farið höfðu í ófáar grenjaferðir. Þar lá hlýjan í loftinu og yfirbragð- ið afslappað. Að fá að vera með Steina og kynnast landinu í gegnum hann voru forréttindi. Við viljum þakka honum fyrir allar stundirnar og vottum fjölskyldunni í Mörtungu II og öðrum aðstandendum okkar STEINGRÍMUR SKÚLASON ✝ SteingrímurSkúlason var fæddur í Mörtungu 29. september 1910, sonur Skúla Jónsson- ar og Rannveigar Ei- ríksdóttur frá Mör- tungu. Framan af ævi vann hann búi foreldra sinna en frá 1952 var hann bóndi í Mörtungu, fyrst í sambýli við bróður sinn Odd og síðar í sambýli við bróður- son sinn Ólaf Odds- son og konu hans Guðríði Steinunni Jónsdóttur. Steingrímur kvæntist ekki og læt- ur ekki eftir sig börn. Hann and- aðist þann 17. september. Útför Steingríms fer fram frá Prestsbakkakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. samúðarkveðjur. Systkynin frá Mör- tungu I. Jóna Björk, Aðalbjörg og Eiríkur Jónsbörn. Í minningu Stein- gríms, foreldra hans og æskuheimilis. „Ég vil nefna ýmsar fagrar dyggðir: lotningu fyrir sköpunarverkinu, hjartagæsku, þraut- seigju, eljusemi, hógværð, æðruleysi.“ (Ólafur Jóhann Sigurðsson skáld í sjón- varpsviðtali er hann minntist fyrri kyn- slóða í landinu.) Þegar ég minnist Steingríms frænda míns, verður mér fyrst hugsað til foreldra hans og heimilis þeirra í efri bænum í Mörtungu. Látlaust en hreinlegt í línum stóð húsið þeirra í undirhlíðum Kald- baks, hæsta fjalls nálægt byggð á Síðu. Þar bjuggu þau Skúli Jónsson föðurbróðir minn og Rannveig Ei- ríksdóttir kona hans ásamt börn- unum, frændsystkinum mínum mörgum og fríðum. Skúli bar sterkt svipmót svo sem sjá má á þekktri mynd meistara Kjarvals. Fas hans var nokkuð fjarrænt og svalt en svipur gat gerst hýrlegur ef hugð- arefni var rætt. Hann var árrisull atorkumaður, heima og heiman. Á yngri árum fór hann í útver og lenti þar í sjávarháska slíkum að í minn- um var haft. Ferðagarpur mikill var Skúli og öllum gagnkunnugri löndum heima sem til fjalls. Af því leiddi að hann gerðist eitt sinn fylgdarmaður Þorvalds Thorodd- sens prófessors um afrétt Síðu- manna. Farið var um gígasvæði Lakagosa. Torleiði er þar mikið og óvíða fært nema gangandi manni. Skúli fann færa leið hestum þvert yfir hraunkvíslina austan Blágilja og hlóð vörður. Það tjáði hann fylgdarmanni danska yfirliðsfor- ingjans Bönnelycke, sem mældi og dró upp fagurt landabréf af afrétti Síðumanna sumarið 1938. Svo bar við eitt sinn í leiðangri þessum að fljótt þurfti að komast yfir hraunið. Lýsing Skúla nægði til að finna leiðina. Skúli var ásamt þeim frá- bæra gáfumanni Birni Runólfssyni hreppsstjóra í Holti og dóttur hans Sigrúnu fenginn til þess að greina frá örnefnum á mælingasvæðinu, þar með talinni Út-Síðu. Heimilinu í Mörtungu stýrði Rannveig hús- freyja með hljóðlátri átakalausri mildi. Þokkafullt hreinlæti og regla var á öllu innan sem utanhúss. Því minnist ég sérstaklega hér foreldra og heimilis Steingríms að hann bar ætt og uppeldi fagran vott. Úr hon- um hefði mátt gera marga menn, svo sem greint er í fornri bók um annan mann. Steingrímur hafði skarpar gáfur og frábært minni. Þegar á ungum aldri kunni hann fjöld kvæða og las það er gafst. Greiða leið lærdóms hefði hann átt. Ungur mótaði hann sér ákveðnar samfélagshugmyndir og hafði með þeim sterk áhrif á samferðamenn. Bókasafn eignaðist hann og gerðist víðlesinn og frábær í viðræðu um slík efni. Sökum ljúflyndis og trú- mennsku hefði hann getað orðið vinsæll embættismaður; vegna elju- semi og heiðarleika hefði hann get- að orðið auðugur kaupmaður. Svo mætti áfram telja. En lífslán hans birtist í því að hann vék ekki af hólmi heldur gerðist mikill á sínum stað með djúpri rót í fornri og nýrri menningu. Honum og hans líkum er það að þakka að enn blómgast frjó mennt og hagur í íslenskri sveit. Því hef ég lýst hér heimili og fólki í Mörtungu með einlægum vinar- og þakkarhug – að við geirlandsfólk áttum þeim svo margt að þakka. Þegar veikindi á berklaöld herjuðu á heimili okkar, og fáliði gerðist örðugt um vik á þeirri víðlendu jörð sem Geirland er – var segin saga að Mörtungubræður komu óbeðnir og veittu lið. Þetta hefur aldrei gleymst og aldrei fullþakkað. Inni- legar samúðarkveðjur beri þessar línur Sigríði systur Steingríms, öðr- um ástvinum og ættingjum. Horfnir eru nú af þessum heimi tveir mínir kærustu frændur og æskuvinir. Fyrir löngu, Helgi á Fossi, sá bjarti og æskuglaði sveinn. Og nú Stein- grímur. Þessum á ég svo margt að þakka. Blíð og gullin er minningin um þá. Þeir voru mér sem bestu bræður. Horfin er sú veröld sem við áttum saman í æsku og kemur ekki aftur. Ég kveð þá veröld með fögru orðunum hans Einar Braga skálds: Góða veröld gef mér aftur gullin mín: lífs míns horfna ljósa vor, ég leita þín. Bergur Vigfússon. Á haustin kvaddi ég hann Steina gamla eftir sumarveru í fallegustu sveit landsins. Þar fengum við krakkarnir útrás eins og kálfar á vorin og létum oft öllum illum lát- um. Þessi krakkahópur hefur sjálf- sagt verið ansi óþolandi stundum. En hann Steini lét það aldrei á sig fá og skipti ekki skapi heldur gauk- aði að okkur súkkulaðimola þegar hægðist um. Það er alltaf svo gott að koma í Mörtungu, keyra upp grænan dal- inn, hægja á bílnum til að keyra ekki yfir hundana sem taka gelt- andi á móti manni og passa sig kannski líka á lambi sem hefur mis- skilið hlutverk sitt. Stíga út úr bíln- um og anda að sér besta lofti sem hægt er að hugsa sér. Þarna bjó hann Steini með fólkinu sínu. Hann var hluti af sveitinni eins og heiðin, gamall, sterkur og íslenskur. Hann kom gangandi með stafinn sinn í ró- legheitunum þessi öldungur sem var svo yfirvegaður og æðrulaus. Hann hugsaði um landið sitt og bú- stofninn og á móti átti landið hann allan. Nú haustar að og enn á ný er komið að kveðjustund. Þá vil ég að lokum fá að þakka Steina fyrir allar góðu stundirnar, stuðninginn og klappið á bakið. Fólkinu hans í Mörtungu sendum við Sigurborg innilegar samúðarkveðjur. Guðbjörg Káradóttir. Heiðursbóndinn Steingrímur Skúlason í Mörtungu á Síðu hefur gengið götu sína á enda. Hann er einn þeirra fjölmörgu góðu og traustu Skaftfellinga sem styrkt hafa minjasafnarann í Skógum í starfi, vænn maður jafnt í sjón og raun. Glöggt man ég er mig bar fyrst að garði í Mörtungu. Bæirnir tveir standa þar hátt uppi í hlíð þar sem Kaldbak ber við himin. Rétt neðan við þá niðar Geirlandsá öllum stundum, mikill vistagjafi fyrr á tíð. Í neðri bænum, hjá hinum hlýlega bónda Jóni Ólafssyni, sá ég í hlöðn- um kjallara skyrker langafa hans, Ásgríms Bjarnasonar, bónda í Ytri- Dalbæ í Landbroti, gyrt mörgum trégjörðum, einn af dýrgripum ís- lenskrar búmenningar. Það skartar nú í Skógasafni. Úti undir fjósvegg sá ég heimilisrakkana lepja úr gamla hundssteininum líkt og gerst hafði um 1.000 ár. Þarna var eitt- hvað í átt til þess að tíminn hefði staðið í stað en þó var allt í framför á búinu, nýr tími „að velta í rústir og byggja á ný“. Í efri bænum hitti ég þá bræður Odd og Steingrím Skúlasyni. Kona Odds var Ásta Ólafsdóttir af Moldnúpsætt undir Eyjafjöllum. Afi hennar, Tómas Jónsson í Vík, og faðir minn, Tómas Þórðarson, voru bræðrasynir. Það er þunnt blóð ef það er ekki þykk- ara en vatn, sagði gamla fólkið er það ræddi um ættartengsl, en það þurfti ekki til í Mörtungu fremur en annarsstaðar á Austursveitum, öll- um gestum var þar vel fagnað. Faðir þeirra bræðra, Skúli Jóns- son frá Blesahrauni (Efri-Mörk), var þá enn á lífi. Afi hans var Vig- fús Jónsson frá Hlíð undir Eyja- fjöllum, af ætt sem ég heyrði oft talað um í æsku. Til hennar sóttu nöfn sín Keldnabræður á Rangár- völlum, Skúli og Vigfús Guðmunds- synir. Kona Skúla í Mörtungu var Rannveig Eiríksdóttir, dóttir Ei- ríks Bjarnasonar í Svínholti og Steinunnar Ásgrímsdóttur frá Dalbæ. Börn þeirra, átta talsins, fimm bræður og þrjár systur, urðu öll álitlegir og góðir þjóðfélags- þegnar. Nú er aðeins eitt þeirra, Sigríður, á lífi. Búsett í Reykjavík. Það var áhrifamikið að litast um á bæjarhlaðinu í Mörtungu við fyrstu komu mína þangað árið 1952. Víðsýnið var að sönnu ekki mikið en landið var allt umvafið gróðursæld og fegurð og friði fjalla. Ég kom í timburhúsið sem byggt var 1908 og sá þar órofin tengsl fjölskyldunnar við fortíð og sögu. Þar átti Stein- grímur sér síðan lengi sumardvöl þótt nýtt steinhús risi brátt af grunni við hlið þess. Í bæjarhúsum sá ég ýmsa fornlega húsaviði, suma komna úr kirkju séra Jóns Stein- grímssonar á Kirkjubæjarklaustri. Sýnishorn þeirra eru nú í kapellu hans á Klaustri og í Byggðasafninu í Skógum. Seinna átti ég því láni að fagna að fá að fara með Steingrími í óska- landið hans inni á Höfða. Örnefnið Búland austan Höfðans með jarð- grónum minjum mannvistar minnir á landkosti. Það var mér gott æv- intýri að sjá mannvirkin á Höfða, fjárhúsin fallega hlaðin úr góðu hleðslugrjóti, þakin hellu, og bak við þau hlöðuna með háum stuðla- bergsveggjum er lofuðu hleðslu- meistara í Mörtungu. Inni í hús- unum voru miklir horngarðar af sauðum og hrútum Mör- tungubænda. Einn þeirra prýddi fjárhúsburst húsi til heilla að göml- um bændasið. Þarna mættu mér einnig allar aldir Íslandssögu. Árið 1978 stóð Byggðasafnið í Skógum fyrir því að gera upp gamla smiðju á Hörgslandi á Síðu. Hún stendur á stæði hospítalskirkj- unnar sem aftekin var árið 1765 og ber í sér nokkuð af helgi hennar allt til dagsins í dag. Ég fékk bestu hleðslumenn byggðarinnar í lið með mér, þá Steingrím í Mörtungu og Friðrik Bjarnason á Hraunbóli. Þeir endurhlóðu grjótveggi smiðj- unnar af gamalli hleðslulist. Safnið í Skógum lagði til alla máttarviði. Verklag Steingríms og Friðriks var sannur menningararfur. Mörtunga er mikil fjárjörð. Sauð- ir voru hvergi betri á Síðu og góð rækt var við þá lögð en fjárbóndinn hafði mikið fyrir lífinu og sporin firna mörg til fjalla. Steingrímur var fjármaður að upplagi, fjallmað- ur mikill og göngumaður frábær sem kom sér vel í brattlendinu í Mörtungu. Ekki varð honum skota- skuld úr því að gera sér sjálfur fjallskóna eftir að Rannveigar móð- ur hans missti við. Árið 1994 færði ferðamaður mér fornlega fjallskó með vaðmálsbörðum og hafði fund- ið þá á eyri við Geirlandsá fyrir inn- an Fagrafoss. Ég kynnti fundinn fyrir góðvini mínum Kristni Sig- geirssyni á Hörgslandi, fjallmanni á borð við Steingrím. Dagbók Krist- ins var þá til vitnis um það að þetta voru fjallskór Steingríms í Mör- tungu og höfðu hrokkið út úr bíl við yfirferð Geirlandsár mörgum árum fyrr. Þeir Kristinn og Steingrímur heimsóttu mig nokkru síðar og þá færði Steingrímur Skógasafni þrenn pör af gömlu fjallskónum sín- um og bætti vel í safnbúið. Enginn þekkti Síðuheiðar og Síðuafrétt betur en Steingrímur. Á þeim slóðum og í hálendi Kaldbaks og Lambatungna í heimalandi Mör- tungu átti hann margar yndisstund- ir og þar hafði hann einnig fellt marga svitadropa í eltingu við skjarra sauði. Einn besta dýrðar- dag ævi minnar átti ég hinn 24. september 1985 í könnunarferð um Síðuheiðar með Steingrími og bróð- ursyni hans, Júlíusi Oddssyni, bónda í Mörk. Margrét í Mörk, kona Júlíusar, lagði til fararnestið, vel útilátið. Bróðursonur Stein- gríms, Ragnar Jónsson, nú bóndi á Dalshöfða, lét okkur í té bíl sinn. Veðrið var unaðslegt, hastkyrrð á heiðum og nóg var til að skoða af mannaverkum liðinna alda. Víðátt- an í gróðursæld Geirlandsheiðar er mikil og þar var í mörg horn að líta í bæjarrústum og selstöðum. Þá kom ég í Katrínarsel, Fífugilssel, Garnagilssel og Staðarsel með fjöld tófta og fjárborga. Helgastaðafjall og Eintúnaháls urðu ekki afskipt í skoðun og ekki snúið til baka fyrr en gengið hafði verið um íðilfagrar tóftir 19. aldar nýbýlis í Hrútafjöll- um. Leiðsögn frændanna tveggja var mér uppspretta fróðleiks sem festur var á pappír og er nú mikils- verð heimild fyrir byggðasögu Síðuheiða. Það var hrífandi fagurt að horfa frá norðurbrún Geirlandsheiðar upp um Lambatungur og Kaldbak og um dalinn fagra sem fóstrað hafði mannlíf í Mörtungu, víst oft- ast vel, um aldaraðir. Ég skildi svo vel að vinur minn, Steingrímur, elskaði þetta land. Þarna þekkti hann hvert kennileiti, hverja ójöfnu í landslagi að kalla. Hann gat svo vel sagt með skáldinu Jónasi um það: „Hér vil ég una ævi minnar daga / alla sem guð mér sendir.“ Fegins hugar tók hann undir með öðru skáldi: Mín er kæti að kanna og sjá kletta og stræti fjalla. Heims fágæti öðru á eins hef mætur valla. Kynnin við Steingrím leiddu til þess að hann hugsaði alltaf til mín og safnsins í Skógum með mikilli hlýju. Ekki lét hann sig muna um það að endurbæta gömlu kvarnar- steinana í Mörtungu og smíða að þeim vænan kvarnarstokk og mætir smíðin safngestum dag hvern. Á sýningarvegg hangir einn hinna góðu krókstafa sem Steingrímur smíðaði sér og öðrum með hand- fangi úr hrútshorni. Ein heitasta ósk Steingríms var sú að fjárhúsin hans inni á Höfða fengju að standa til komandi tíma sem minnisvarði um gamla búskap- arhætti. Þau sóma sér vel í landinu og eru í alfaraleið göngufólks sem fetar göngustíg ofan frá Fagrafossi og niður að Mörtungu norðan Geir- landsár og á þeirri leið er margt sem hugann heillar. Þjóðminjar eru ekki eingöngu bundnar við húsa- kynni og lausamuni manna, engu síður við hús þess búfénaðar sem var undirstaða mannlífs í landi okk- ar. Steingrímur flutti á dvalarheim- ilið Klausturhóla árið 1998 og átti þar elliskjól í umsjá góðs fólks. Ég átti því láni að fagna að fá þá frændur Steingrím og Ragnar á Dalshöfða í heimsókn í Skógasafn á vordögum 2001. Dagurinn sá var Steingrími gleðidagur en ljósan sá ég vott þess að hið hlýja og hugþekka þrek- menni átti stutt eftir í síðasta áfangann. Líf hans fjaraði hægt út er leið á sumarið en vakandi og skýrri hugsun hélt hann til hinstu stundar. Síðumenn eru fátækari eftir þegar þessi aldraði eljumaður og heiðursþegn er horfinn sýnum. Gott er að búa að minningunni um að hafa átt með honum fáein spor á ævileiðinni. Þórður Tómasson. Sérfræðingar í blómaskreytingum við öll tækifæri Skólavörðustíg 12, á horni Bergstaðastrætis, sími 551 9090. Minningarkort Hjartaverndar 535 1825 Gíró- og greiðslukortaþjónusta

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.