Morgunblaðið - 01.02.2002, Síða 42

Morgunblaðið - 01.02.2002, Síða 42
MINNINGAR 42 FÖSTUDAGUR 1. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ „Ég veit hvað hún á að heita – hún á að heita Amma litla!“ hrópaði Óli sigri hrósandi, þeg- ar til stóð að skíra litlu frænkuna hans úti í Vestmannaeyjum. Litla frænkan átti sem sé að heita Ragnheiður, í höfuðið á móðurömmu sinni og þeirra bræðranna, Óla og Stjána. Þau þrjú voru systrabörn og „Amma litla“ var svo lánsöm að fá að dvelja lungann úr hverju sumri á Flötum 14, þar sem amma Ragnheið- ur, afi Ólafur og langafi Kristján bjuggu á neðri hæðinni en þeir bræð- urnir ásamt foreldrum sínum, Helgu og Eggerti, á efri hæðinni. Húsið hét Oddeyri. Og einu sinni, þegar hún var fjögurra ára, fékk hún að vera í Eyjum að vetri til, þegar mamma hennar og pabbi fóru í langt ferðalag til útlanda. Það var því ekki furða þó þessi litla Reykjavíkurmær segðist alltaf vera frá Vestmannaeyj- um, þótt hún ætti lögheimili í höfuð- borginni. Þetta voru góðir tímar og Óli og Stjáni léku við litlu frænku og gættu hennar vel fyrir öllum hrekkju- svínum, sýndu henni allar þær dá- semdir, sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða fyrir athafnasama krakka, en vöruðu jafnframt við öllum hættum svo litla prinsessan færi sér nú ekki að voða í öllu frjálsræðinu! Tíminn leið og allt í einu var Óli orðinn stór og kominn suður í Kennaraskólann og bjó þá hjá fjölskyldunni í Álfheim- unum í heilan vetur og var svo ljúfur og skemmtilegur. Svo kom að því að hann varð yfir sig ástfanginn og gift- ist henni Fríðu sinni. Það var eins og í ævintýri, þau voru svo ung og falleg og Amma litla óskaði þess í leynum að hún ætti eftir að finna svona góðan og fallegan mann eins og hann Óla frænda. Árin hafa komið og farið með eld- ingarhraða og nú sit ég hér, Amma litla, orðin fullorðin kona, nærri hálf öld liðin síðan hann Óli minn gaf mér þetta fallega nafn og ég syrgi góðan bróður. Bróður, segi ég, þótt ég sé að sönnu einbirni, því mér finnst hann Óli hafa verið bróðir minn. Um hann kann ég sögur, eins og þær sem börn heyra sagðar um eldri systkini, á hann gat ég treyst ef eitthvað bjátaði á, hann var alltaf boðinn og búinn til að rétta hjálparhönd, sýndi öllu því sem sneri að mér og mínum lifandi áhuga og umhyggju og foreldrum mínum sýndi hann elsku og ræktar- semi, sem væri hann þeirra eigin son- ur. Fyrir allt þetta er ég honum óend- anlega þakklát. Ég er líka mjög stolt af Óla frænda, hann var óhemju duglegur, sterkur og þrautseigur og hvers manns hugljúfi. Lífið færði honum margar gleðistundir, en áföllin hafa líka verið stór og þung. Það hefur verið mikill skóli að fylgjast með þeim Fríðu berjast þrotlausri baráttu undanfarin 23 ár, til að búa börnum sínum, þeim Gunnari Má og Hönnu Láru, bestu möguleg lífsskilyrði þrátt fyrir erfiða fötlun þeirra, en þau fæddust bæði mjög alvarlega heyrn- arskert. Enn var reitt til höggs, þeg- ar elsti sonurinn, Eggert Helgi, veiktist og varð að gangast undir erf- iða læknismeðferð. En þessi sam- heldna fjölskylda lét ekki bugast, heldur barðist til þrautar og hafði sigur. Hann var vinamargur hann Óli minn og frændrækinn mjög. Þau Fríða hafa alls staðar búið sér fallegt heimili, hvort sem það var í lítilli íbúð í Álfheimum, raðhúsi í Breiðholtinu, úti í Noregi, þar sem þau voru við nám og störf í nokkur ár og börnin gengu í góðan skóla fyrir heyrnar- ÓLAFUR RAGNAR EGGERTSSON ✝ Ólafur RagnarEggertsson fæddist í Vestmanna- eyjum 1. október 1945. Hann lést 18. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hallgríms- kirkju 29. janúar. lausa þar í landi, eða nú síðast í glæsilega hús- inu í Birkihlíðinni. Þau eru óteljandi handtökin hans Óla við að byggja, mála, dytta að og fegra hús og garða og þau nutu þess bæði að bjóða heim gestum og veita höfðinglega í mat og drykk. Þá var Óli í essinu sínu. Auk þess að vinna langan og oft erfiðan vinnudag og sinna fjöl- skyldu og vinum, gaf Óli sér tíma til að vinna ötullega að félagsmálum og átti næsta sumar að taka við embætti umdæmisstjóra í Lionshreyfingunni á Íslandi. Hann var glaður og stoltur yfir því að hafa verið treyst til starfans og er nú sárt saknað af félögum sínum í þessum merku samtökum. Það var við störf í þeirra þágu sem hann kvaddi þennan heim, aðeins 56 ára gamall, á sama aldursári og faðir hans, Eggert Ólafsson skipasmiður, var þegar hann lést. Hann gerir ekki alltaf boð á undan sér, maðurinn með ljáinn. Ólafur Ragnar, frændi minn, er okkur öllum harmdauði. Við fjöl- skyldan erum svo innilega þakklát fyrir að þau skyldu öll geta verið með okkur, heima í Laufási hjá foreldrum mínum, á gamlárskvöld, Óli, Fríða, Gunni Már og Hanna Lára. Þau voru öll svo glöð og framtíðin virtist brosa við þeim. Ég er máttarvöldunum reið og sár fyrir það að hann Óli skuli ekki fá að njóta ávaxta erfiðis síns og sjá yngri börnin sín vaxa að visku og þroska og verða foreldrum sínum til sóma eins og Eggert Helgi hefur verið. En ég veit að þau munu öll heiðra minningu föður síns og verða mömmu sinni stoð og stytta, eins og pabbi þeirra hefði viljað. Þau vita sem var að allt sem hann gerði var gert af ást til þeirra. Á fertugsafmælinu hans Óla, 1. október 1985, sagði hann við mig: „Þú hefðir ekki getað gefið mér betri gjöf, frænka mín!“ Það var sonur okkar Jóns, Steindór Grétar, sem kom í heiminn á þessum degi og aðra gjöf fékk hann ekki frá okkur, en mikið var hann glaður. Tveimur mánuðum seinna fæddist svo blómarósin þeirra, hún Hanna Lára. Ég hef sagt börnunum mínum sög- ur af Óla frænda þeirra frá því hann var lítill og eftirfarandi saga finnst mér lýsa honum svo einstaklega vel. Það var rigning og Óli kom inn til mömmu sinnar, forugur upp fyrir haus. Einhverjir strákar höfðu hrint honum í drullupoll. Þegar hann var spurður hvort hann hefði ekki svarað í sömu mynt, svona stór strákur, þá svaraði Óli og einlægnin skein úr augunum: „Ég gat það ekki, þeir voru í sparifötunum!“ Svona var hann alltaf, góður drengur, sem gat ekki gert flugu mein. Við höfðum vonað að við fengjum að upplifa aðra þjóðhátíð með Óla og fjölskyldu hans, heima hjá þeim Stjána og Guðnýju, við áttum þar svo góða daga sumarið 1998. Þeir bræð- urnir hjálpuðust að við að gera börn- unum okkar þetta ógleymanlega upplifun, tóku þau undir sinn vernd- arvæng, eins og mig hér forðum og þau kynntust þjóðhátíðinni eins og innfæddir Eyjamenn, með öllum þeim siðum og venjum, sem tilheyra. Þessi ósk rætist ekki, en við eigum minningarnar að ylja okkur við, þeg- ar sorgin þrengir að brjóstinu, minn- ingar um góðan dreng, sem öllum vildi gott gera. Við biðjum Guð að styrkja Fríðu og börnin, Eggert og fjölskyldu hans og Kristján og Guðnýju, þeirra er missirinn mestur. Við hugsum líka til aldraðra tengdaforeldra Óla, sem hafa nú misst kæran vin og hjálpar- hellu, og fjölskyldunnar allrar. Gréta og Steindór, „Amma litla“, Jón og börnin, kveðja Óla með sárum söknuði og þakklæti fyrir allt og allt. Ragnheiður Steindórsdóttir. Ég er svo lánsöm að hafa þekkt hann Óla frá því að ég man eftir mér. Hann hefur frá upphafi verið stór hluti af okkar litlu fjölskyldu og því er erfitt að sætta sig við það að við mun- um ekki sjá hann framar né eigum við eftir að njóta þeirrar hlýju og glaðværðar sem einkenndi hann. Nú þegar ég lít til baka og hugsa um Óla finn ég fjársjóð, því ég á svo margar góðar og skemmtilegar minningar tengdar honum bæði nýjar og gaml- ar. Gamlárskvöldin hjá Fríðu og Óla í Álfheimunum voru engu lík. Alltaf hlakkaði maður jafn mikið til en það var alveg sérstakt tilhlökkunarefni að fara út með Óla til að skjóta flug- eldum því að það var tvímælalaust hápunktur kvöldsins. Þegar Óli var brennustjóri fyrir gamlárskvöldsbrennum var gaman að lifa. Við systkinin og Eggert feng- um oft að vera með og áhuginn var mikill, en enginn var þó áhugasamari en Óli. Markmiðið var að hlaða sem stærstan bálköst og helst stærri en árið áður. Eitt árið hafði Óli upp á gömlum trébát sem settur var efst á bálköstinn og það árið var brennan okkar tvímælalaust sú flottasta. Mamma, pabbi og við systkinin heimsóttum Fríðu, Óla og Eggert til Noregs þegar þau bjuggu þar í fyrra sinnið. Í heilan mánuð keyrðum við öll saman um Norðurlöndin og lent- um í ýmsum ævintýrum. Í eitt skiptið var Óli að snúa bílnum við á grasflöt og keyrði yfir vespuhreiður með þeim afleiðingum að bíllinn fylltist af vespum. Óli stökk út úr bílnum á meðan hann var enn á ferð og sýndi þar undraverða snerpu. Þegar við Palli vorum blankir námsmenn í Kaupmannahöfn komu Fríða og Óli í heimsókn til okkar á silfurbrúðkaupsafmælinu sínu. Þessa helgi sem við vorum saman vorum við hrifin burt frá fábrotnu lífi náms- mannsins. Þau buðu okkur á skemmtun með Eddie Skoller og út að borða á dýrindis veitingastað. Það var greinilegt að bæði Fríða og Óli mundu vel hvernig var að vera náms- maður í útlöndum því þau lögðu sig fram um að gera okkur dagamun. Það tókst svo vel að ennþá man ég hvað maturinn bragðaðist vel á veit- ingahúsinu. Síðasta mánuðinn sem Óli lifði hitt- umst við óvenju oft. Í síðasta skiptið var það í jólasúkkulaði hjá ömmu og afa fimm dögum áður en hann dó. Ég geymi með mér hlýlega brosið sem ég fékk frá honum þegar við Davíð Björn kvöddum hann í síðasta sinn. Lára Sverrisdóttir. Sú harmafregn barst mér síðdegis föstudaginn 18. janúar að Ólafur Eggertsson, eða Óli eins og ég kallaði hann alla tíð, hefði verið kallaður af velli mitt í amstri dagsins með svip- legum hætti. Óli hefur verið hluti af minningum mínum frá því ég fyrst man eftir mér, þar sem hann hafði nýlega komið inn í fjölskylduna um það leyti sem ég leit fyrst dagsins ljós. Í gegnum árin hafa safnast margar góðar minningar af samskiptunum við Óla, skopskyni hans og glaðværð. Sárt er til þess að hugsa hvernig framtíðin verði án þess að halda áfram að safna í þann minningabrunn. Minningarnar sem ég hef af Óla eru mér kærar og tengj- ast margar af þeim helstu ánægju- stundum í mínu lífi. Áhugi Óla á mannlegum samskipt- um, greiðvikni hans og alúð við að sinna þeim sem tengdust honum var með ólíkindum. Oft hef ég á síðari ár- um velt því fyrir mér hversu tilbúinn hann var að taka okkur systkinin ásamt Eggerti elsta syni sínum með í veiðiferðir og aðra álíka spennandi hluti, fyrir krakka sem þá voru vart komin á unglingsár. Eftirminnileg er veiðiferð í Dalina sem var ævintýri fyrir okkur krakkana, þótt lítið hafi farið fyrir veiðisögum þegar heim var komið. Þá eru ófáar minningar úr ferðalögum og ber þar hæst mánað- arlangt ferðalag sem fjölskyldurnar fóru á miðjum áttunda áratugnum um Norðurlöndin. Óli var einstaklega duglegur að halda sambandi við vini og ættingja og ófá eru heimboðin í Birkihlíðina þar sem fjölskylda og vinir hafa komið saman á góðri stund. Hans verður sárt saknað á þeim vett- vangi í framtíðinni. Óli var viðræðugóður, hafði skoð- anir á hlutunum og lagði öðrum lið hvenær sem tækifæri gafst. Hann var hress og drífandi að eðlisfari og hafði áræði og dug til að ráðast í mörg verk sem aðrir létu sér nægja að hugsa um. Hann kom hugmyndum sínum og jafnvel annarra í fram- kvæmd og það af myndarbrag. Þótt sum hugðarefni hans væru stór í sniðum og einhverjir efuðust kannski um að hann myndi klára skilaði Óli verkefnunum alltaf í höfn, þótt stund- um tæki það eitthvað lengri tíma en upphaflega var áætlað. Á unglings- árum mínum fylgdist ég stoltur með árangri Óla í starfi og hafði áhugi hans á viðskiptum og stjórnun áhrif á ungan mann sem þá var að velja sér framtíðarvettvang. Elsku Fríða, Hanna Lára, Gunnar Már, Eggert, Ása og strákarnir. Missir ykkar er mikill og sorgin þungbær. Ég vona að góður Guð veiti ykkur leiðsögn, færi ykkur styrk og áræði til að takast á við breytta tíma. Ég kveð góðan dreng og mikinn fé- laga með söknuði. Gunnar Sverrisson. Ólafur Eggertsson skólabróðir minn lést snögglega 18. janúar sl. Þegar andlát ber að svona fyrirvara- laust stendur maður eftir ringlaður og ráðþrota, reynir að ná fótanna og skilja hversvegna svona fljótt og snöggt hann var allur. Við reynum að finna huggun í því að hann þurfti ekki að þjást. Óli á Flötunum var hann alltaf kallaður í Eyjum. Stór, bjartur yfirlitum, fasið rólegt og alltaf kurt- eis með glettnisglampa í augum. Húmorinn hárfínn, aldrei rætinn eða meiðandi. Drengur góður. Óli var einn af þeim örfáu mönnum sem ég hef hitt sem höfðu þenn- anótrúlega faðm, faðmlag sem var svo traust, hlýtt og kærleiksríkt að amstur daganna hvarf á braut og sól- in fór að skína. Árgangurinn 1945 úr Eyjum hitt- ist síðast í Eyjum í júní 1999. Óli var þá nýfluttur til landsins, en þau hjón- in höfðu þá búið í Noregi um nokkura ára skeið, við nám og störf, meðal annars til að geta stutt betur við börnin sín. Þessi árgangs- og fermingarmót eru mikil tilhlökkunarefni, enda verð- um við eins og ung í annað sinn og óheft gleði í fyrirrúmi, gleðin er ekki síst í því að hittast og treysta böndin, rifja upp góðar minningar og njóta samverunnar á einum af fallegustu stöðum á jörðinni. Óla á Flötunum verður sárt saknað er við hittumst næst. Hve sæl, ó hve sæl er hver leikandi lund, en lofaðu engan dag fyrir sólarlagsstund. Um sólskin kvað fuglinn, hann sá hvergi skúr, þá sólin rann í haf, var hann kominn í búr. Um sumardag blómstrið hið saklausa hló, en sólin hvarf og élið til foldar það sló. Og dátt lék sér barnið um dagmálastund, en dáið var og stirðnað um miðaftanstund. Því bilið er mjótt milli blíðu og els, og brugðist getur lukka frá morgni til kvelds. En gott átt þú, sál hver, sem Guð veitir frið, þó gæfan þín sé hverful um veraldar svið. Um Guðs frið þú syngur og grætur ei skúr, þó geymi þig um sólarlag fanganna búr. Sem barn Guðs þú unir sem blómstur við sól, þó brothætt sé sem reyrinn þitt lukkunnar hjól. Þó lukkan sé brothætt og ljós þitt sé tál, sá leitar þín, sem finnur og týnir engri sál. Hve sæl, ó hve sæl er hver leikandi lund, og lukkan hún er eilíf, þó hverfi um stund. (B.S. Ingemann - þýð. Matth. Joch.) Fyrir hönd árgangs 1945 úr Vest- mannaeyjum votta ég eiginkonu Ólafs, Málfríði, börnum þeirra og ást- vinum, okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Fríða Einarsdóttir. Skammt er nú stórra högga á milli. Í þessum janúarmánuði kveðjum við hinstu kveðju annan bekkjarbróður okkar úr Kennaraskólanum, Ólaf R. Eggertsson. Ólafur hraðaði för gegn- um Kennaraskólann. Hann kom í bekkinn okkar á þriðja ári og hitti þar fyrir samhentan hóp. Kannski höfum við tekið nýjum félaga með semingi, en hafi svo verið vann Ólafur strax bug á því. Hann kom í hópinn með glaðværum gusti, féll mjög fljótt í kramið og varð einn af okkur. Ólafur var Vestmanneyingur og var auðsæilega stoltur af því. Sumir aðrir utanbæjarmenn voru kannski ekkert að hampa uppruna sínum á þessum manndómsárum því nú var borgarmenning ráðandi með bíó og ballferðum í bland við námið. Við vor- um samstæður vinahópur sem nýtti margar stundir til samveru utan skólatíma og sungum alltaf þegar því varð við komið. Ólafur var drífandi dugnaðarfork- ur og bar jafnan með sér hressilegan andblæ í bekkinn. Hann var glaðvær og félagslyndur. Langt er nú liðið frá þessum góðu, glöðu stundum og endurfundir hafa strjálast í dagsins önn. En við bekkj- arsystkinin höfum samt fylgjast býsna vel hvert með öðru þótt úr fjar- lægð sé og í huganum höfum við tekið þátt hvert í gleði og sorgum annars. Við höfum hist á merkum afmælisár- um árgangsins og þá voru auðvitað skólaminningarnar rifjaðar upp og farið yfir stöðu mála hjá hverjum og einum til að fá betri tilfinningu fyrir því sem bjástrað var við. Minnisstæð er helgardvöl í Eyjafirðinum þar sem gott tóm gafst til að deila geði. Ólafur giftist Málfríði Gunnars- dóttur kennara og í okkar hópi voru hjón yfirleitt nefnd í sömu andránni og líklega var bekkjarfélaginn nefnd- ur á undan. Óli og Fríða voru ætíð með á þessum endurfundum þegar þau gátu komið því við og þau voru góðir félagar. Lát Ólafs bar brátt að. Það var þungbært að þurfa að flytja andláts- fregn hans milli okkar bekkjarsystk- inanna sem höfðum hist nokkrum dögum áður við útför Hrólfs Kjart- anssonar. Við kveðjum kæran bekkjarbróður og vin með sárum söknuði og færum Fríðu, börnum þeirra þremur og fjöl- skyldu innilegar samúðarkveðjur. Bekkjarsystkin frá KÍ, brautskráð 1966. Kveðja frá Lionshreyfingunni Stundum verða þeir atburðir að fólk er gersamlega slegið út af laginu. Fólk veit ekki hvaðan á það stend- ur veðrið, það hreinlega lamast. Slíkur atburður varð föstudaginn 18. janúar síðastliðinn þegar Ólafur R. Eggertsson hné niður þar sem hann var að kenna á námsstefnu sem haldin var í tengslum við Norður- landaþing Lionshreyfingarinnar á Hótel Loftleiðum. Skyndilega er fall- inn frá maður í blóma lífsins, maður sem var fullur eldmóði gagnvart þeim verkefnum sem framundan voru. Ólafur hefur til margra ára verið einn af máttarstólpum Lionshreyf- ingarinnar hér á landi. Hann gekk í Lionsklúbbinn Fjölni árið 1972 og var alveg frá upphafi mjög virkur í öllu starfi hans. Því var honum snemma trúað fyrir ýmsum helstu embættum klúbbsins og er listinn yf- ir öll þau embætti orðinn æði langur. Ekki leið á löngu að leitað var til hans af yfirstjórn hreyfingarinnar og hef- ur hann á þeim vettvangi tekið að sér ýmis störf, bæði fyrir sitt umdæmi og íslenska fjölumdæmið. Sem varaum- dæmisstjóri hefur Ólafur á undan- förnum misserum verið að búa sig af mikilli kostgæfni undir allt aðra ferð en þá sem hann hefur nú tekið sér á hendur. Ferð á alþjóðaþing Lions- hreyfingarinnar næsta sumar en þar hefði hann tekið við embætti um- dæmisstjóra í umdæmi 109 A, en það er annað tveggja íslensku Lionsum- dæmanna. Með fráfalli Ólafs hefur verið höggvið stórt skarð í raðir okkar Lionsfólks. Við sjáum á eftir hug- myndaríkum, atorkusömum og ósér- hlífnum félaga, einstaklingi með mikla útgeislun, einstaklingi sem við öll nutum að vera með, bæði í starfi og leik. Fyrir hönd Lionshreyfingarinnar sendi ég Málfríði, börnum þeirra, tengdadóttur og barnabörnum og öll-

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.