Morgunblaðið - 28.04.2002, Síða 42
MINNINGAR
42 SUNNUDAGUR 28. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Gylfi Reykdalfæddist í Reykja-
vík 8. apríl 1938.
Hann lést á líknar-
deild Landsspítalans í
Kópavogi 21. apríl
síðastliðinn. Foreldr-
ar hans voru Kristján
J. Reykdal, innkaupa-
stjóri við Borgarspít-
alann, f. 1910, d.
1997, og Ástríður
Gísladóttir Reykdal,
ættuð frá Siglufirði, f.
1914, d. 1986. Systk-
ini Gylfa eru: Fanney
Reykdal húsmóðir, f.
1933, d. 1995, maki Vigfús Magn-
ússon læknir, f. 1933, börn þeirra
eru Kristín hjúkrunarfræðingur, f.
1955, maki Finnur Ingólfsson
seðlabankastjóri, f. 1954, þau eiga
þrjú börn, Ragnhildur sagnfræð-
ingur, f. 1959, sambýlismaður Haf-
liði Helgason blaðamaður, f. 1964,
þau eiga tvær dætur, og Ástríður
Vigdís hjúkrunarfræðingur, f.
1963, maki Árni Leifsson læknir, f.
1958, þau eiga tvo syni. Jón Reyk-
dal myndlistarmaður, f. 1945,
maki Jóhanna Þórðardóttir mynd-
listarmaður, börn þeirra eru
Nanna Huld, grafískur hönnuður,
f. 1971, maki Magnús Eðvald
Björnsson, nemi í tölvunarfræð-
um, f. 1972, þau eiga einn son,
Hadda Fjóla mynd-
listarmaður, f. 1974,
maki Snorri Einars-
son læknir, f. 1973,
þau eiga tvö börn, og
Hlín menntaskóla-
nemi, f. 1985.
Gylfi kvæntist
1961 Ragnhildi Ósk-
arsdóttur, Rósku, f.
1940, d. 1996, þau
skildu. Sonur þeirra
er Höskuldur Harri,
grafískur hönnuður,
f. 1963, maki Anna
Birna Ragnarsdóttir
nemi, f. 1966, börn
þeirra eru Eva Lind, f. 1986, Nína,
f. 1992, og Óskar, f. 1993.
Gylfi lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum í Reykjavík 1958
og stundaði nám í arkitektúr í
Róm um tveggja ára skeið. Hann
var við nám í Handíða- og mynd-
listarskólanum í eitt ár. Nám í
myndlist í Prag í eitt ár. Síðan
myndlist í Róm í tvö ár. Hann vann
á auglýsingastofu, kenndi við
Lindargötuskólann og Fjölbrauta-
skólann í Breiðholti 1981 til 1989.
Þá hóf hann sjálfstætt starf sem
grafískur hönnuður.
Útför Gylfa verður gerð frá
Grafarvogskirkju á morgun,
mánudaginn 29. apríl, og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Sjötti áratugurinn: Klambratúnið,
leikvöllur krakkanna í Norðurmýr-
inni með bæinn Klambra miðsvæðis.
Úr barnmörgum kjallara við Guð-
rúnargötu voru dregin fram tól og
tæki til íþróttaiðkunnar undir stjórn
íþróttafulltrúa ríkisins, eða vaskra
sveina hans. Þarna köstuðu strákar
þungum kúlum og kringlum og flott-
um spjótum, hoppuðu yfir slár og
vógu sig yfir enn hærri með risa-
stöng í hendi. Svo var það fótboltinn.
Í þessu umhverfi hrærðist Gylfi,
og ég, sjö árum yngri, fylgdist með af
aðdáun.
Á sumrin vann Gylfi í bygginga-
vinnu, vegavinnu eða síld. Hann kom
heim á haustin, útitekinn og stæltur,
til að fara í Menntaskólann í Reykja-
vík.
Sem barn var Gylfi síteiknandi og
ekki slitnaði þráðurinn þegar hann
kom í MR.
Á þessum árum var hann í banda-
rískum bréfaskóla í teikningu, hann
fékk verkefni send til að vinna eftir
og hann sendi þau til baka og fékk
umsögn.
Þarna öðlaðist hann mikla tækni
og gat teiknað nánast hvað sem var.
Teikningarnar byggðust á grund-
aðri kunnáttu ekki yfirborðsleikni. Í
menntaskólanum var hann ekki mik-
ið að flíka þessum hæfileikum sínum,
til dæmis í skólablaðinu eða Faunu.
Hann var hlédrægur og átti þetta
fyrir sig.
Á þessum árum byrjaði grúskið.
Náttúrufræði heillaði hann í mála-
deildinni, ekki síst haffræði. Eftir
stúdentspróf var Gylfi staddur á
krossgötum eins og mörg ungmenni
á þessum aldri, og ekki ráðinn í hvað
hann vildi taka sér fyrir hendur.
Fyrir hvatningarorð Einars
Sveinssonar húsameistara, mágs
pabba, sem gerði sér grein fyrir
teiknihæfileikum Gylfa, varð arki-
tektúr ofan á.
Ásamt vini sínum Pálmari Ólafs-
syni ákváð hann að sækja um nám í
arkitektúr í Róm. Í þessu framandi
umhverfi, akandi um á vespu, borð-
andi spaghetti og pítsur, naut Gylfi
sín vel. Hæfileikar hans í fríhendis-
teikningu fengu útrás í að teikna
fornar rústir og hof, sem var hluti af
náminu. Eftir tveggja ára nám varð
Gylfa þó ljóst að hann var ekki á
réttri hillu. Hann kom heim og inn-
ritaðist í Handíða- og myndlistar-
skólann eins og hann hét þá. Námið
hentaði honum mjög vel, skólinn var
í mótun og var ekki kominn í það
fastbundna form sem síðar varð með
forskóla og framhaldsdeildum. Gylfi
vann þennan vetur málverk, skúlp-
túra, mósaík og fleira.
Þarna kynntist hann ástinni sinni,
Ragnhildi Óskarsdóttur, sem hann
kallaði Rósku, nafni sem hún notaði
æ síðan. Listamaðurinn í Rósku
ásamt exótísku yfirbragði heillaði
Gylfa og þau áttu vel saman og voru
glæsilegt par. Þau gengu í hjóna-
band 1961.
Á Íslandi var ekki nægilegt oln-
bogarými fyrir þau í listinni og því
kom sér vel þegar þau fengu styrk til
náms í Prag. Þar lagði Gylfi stund á
myndskreytingar, sem átti ákaflega
vel við hann.
Eftir einn vetur í Prag hélt parið
til Rómar þar sem þau dvöldu við
nám um veturinn. Oft var fjárhag-
urinn bágur og því sendu þau mér oft
teikningar, fígúratífar í bland við af-
straksjónir, sem ég seldi fyrir þau í
steinsmiðju S. Helgasonar.
Eftir þessum fyrirmyndum var
sandblásið gler í útidyrahurðir út um
allan bæ.
1963 eignuðust Gylfi og Róska
soninn Höskuld Harra. Stuttu eftir
fæðingu Höskuldar fóru þau aftur til
Rómar en skildu Höskuld eftir í
umsjá foreldra Rósku, öðlingshjón-
anna Óskars Bjarnasonar og Sigur-
bjargar Emilsdóttur, sem fóstruðu
hann til fullorðinsára.
Skömmu eftir síðara árið í Róm
slitu þau samvistir og Gylfi kom
heim til Íslands.
Hér heima vann hann skreytingar
í sandblásið gler fyrir Langholts-
skóla og vann á auglýsingastofum.
Hann tók að sér kennslu í Lindar-
götuskóla og síðar hóf hann kennslu
við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
Gylfi lagði sig fram í kennslunni,
enda fékk hann góðan vitnisburð frá
nemendum sínum. Gylfi var lítill efn-
ishyggjumaður og naut sín best þeg-
ar hann gat gleymt sér í lestri og
grúski.
Árið 1979 urðu kaflaskil í lífi Gylfa,
hann seldi íbúð sem hann átti og hélt
til Rómar og dvaldi þar í eitt ár, það-
an lá leiðin til Sikileyjar og dvaldi
hann í Catania í ár til viðbótar. Lík-
legast hefur honum hvergi liðið bet-
ur en á Sikiley.
Þarna kynntist Gylfi mannlífi sem
var ólíkt námsárunum í Róm, mann-
lífsflóran var fjölbreytt portrettgall-
erí, heimspekingar, lífskúnstnerar,
að ógleymdum mafíósum. Gylfi lifði
lengi á þessari dvöl og sagði
skemmtilega frá henni.
Þarna hafði Gylfi góðan tíma fyrir
sjálfan sig og hefur vafalítið lagt
grunninn að þeirri þekkingu sem
hann aflaði sér með skipulegum
lestri.
Áhugi hans beindist að öllu sem
laut að menningu fornþjóða, Róm-
verja, Grikkja, Egypta og Kelta svo
ekki sé minnst á Inka, Azteka og
Maya.
Hvort sem það var nýja eða gamla
testamenntið eða Íslendingasögurn-
ar, þá las hann allt á skipulegan hátt.
Hann var hafsjór af fróðleik um
allegoríu og fann strax samhljóm
með hugmyndum Einars B. Pálsson-
ar þegar þær birtust, enda urðu þeir
góðir vinir.
Samhliða þessum rannsóknum á
fortíðinni las Gylfi frá byrjun allt
sem hann komst yfir um það tæki
sem átti hinn helminginn í honum:
tölvuna. Gylfi var líklega með þeim
fyrstu til að kaupa tölvu eins og við
þekkjum hana í dag.
Hann skynjaði snemma möguleika
tölvunnar á sviði myndvinnslu og var
langt á undan öðrum grafískum
hönnuðum á þessu sviði.
Samhliða kennslunni fékkst hann
við ýmis grafísk verkefni sem hann
vann í tölvunni og þar kom að hann
hætti kennslu til að geta annað eft-
irspurn, sem hafði aukist jafnt og
þétt. Hann stofnaði fyrirtæki, Tölvu-
grafík, og hannaði merki, gerði
bæklinga, bókarkápur, umbúðir og
flest það sem lýtur að grafískri hönn-
un.
Gylfi bjó í foreldrahúsum, enda
myndaðist með honum og foreldrum
okkar náið og innilegt samband.
Eftir að móðir okkar dó má segja
að Gylfi hafi séð um föður okkar þau
ár sem hann átti eftir ólifuð. Í mat-
seldinni, sem Gylfi hafði alltaf gaman
af, var oft tvíréttað, eitthvað hefð-
bundið fyrir pabba meðan Gylfi
útbjó ítalskan rétt fyrir sig. Hann
var þá kannski nýkominn úr sólbaði
úr laugunum í Laugardal, nokkuð
sem hann naut mjög. Honum leið vel
í hita og þá var gott að laga eitthvað
ítalskt þegar kroppurinn var heitur
af sól.
Gylfi var sérstaklega barngóður,
þess nutu dætur mínar þegar á
barnsaldri. Það var því gæfa Gylfa
þegar hann eignaðist barnabörnin
þau Evu Lind, Nínu og Óskar, sem
hann umvafði hlýju og væntumþykju
á sinn hlédræga hátt.
Fyrir tveimur árum fékk Gylfi
hjartaáfall en náði heilsu á ný og fór
að fara í skipulega göngutúra um
borgarlandið.
Um síðustu jól veiktist Gylfi og
greindist með illkynja krabbamein.
Hann tók þessum tíðindum af stöku
æðruleysi. Tímaglas Gylfa, sem í
haust var með annan fótinn í tíma-
talsfræði og hinn í tölvunarfræðum,
var að renna út.
Bróður mínum Gylfa verð ég
ávallt þakklátur fyrir þann stuðning
og hvatningu sem hann veitti mér
ungum þegar ég var að fara út í
myndlist.
Ég þakka Gylfa allt sem hann hef-
ur gefið mér, guð blessi góðan dreng.
Jón Reykdal.
Minningarnar um hann Gylfa
frænda eru góðar minningar. Þær
eru að mestu frá því við vorum litlar,
en þá fórum við næstum hvern ein-
asta sunnudag í kaffi til ömmu og afa
á Guðrúnargötuna og þar tók Gylfi á
móti okkur.
Gylfi var rólegur maður sem hafði
gaman af börnum. Hann lék mikið
við okkur systur og var alltaf til-
hlökkun að hitta hann af því hann
lumaði svo oft á skemmtilegum
göldrum. Sá sem er minnisstæðastur
er þegar hann tók af sér fingurinn.
Við stóðum agndofa og fylgdumst
með honum taka hann af aftur og aft-
ur og er ekki langt síðan við áttuðum
okkur á leyndarmálinu bak við gald-
urinn, sem er sívinsæll hjá börnum
okkar.
Gylfi frændi var nægjusamur
maður og bjó með afa lengst af og
hugsaði vel um hann. Veraldleg gæði
virtust ekki skipta hann miklu máli
og er okkur minnisstætt atvik frá því
hann keypti sér bíl. Þetta var fínn
bíll … að okkur minnir vínrauður
Volvo. Við fórum í heimsókn á Guð-
rúnargötuna með mömmu og pabba
til þess að skoða nýja bílinn og þegar
allir voru búnir að virða bílinn fyrir
sér og prófa var komið að okkur
systrum að prófa líka og fengum við
að leika okkur í þykjustubílaleik,
hoppa í sætunum og stýra. Svo
þurftum við að vekja athygli á okkur
við mömmu, pabba og Gylfa sem
stóðu fyrir utan og tróðum okkur
hálfum út um eina bílrúðuna með
þeim afleiðingum að rúðan sökk
skökk niður í hurðina. Við vorum
búnar að skemma bílinn. En nei nei.
Þetta fannst Gylfa nú ekki tiltöku-
mál og lagaði rúðuna. Þessi bíll var
nú bara til þess að komast frá einum
stað til annars.
Það er okkur líka í fersku minni
þegar Gylfi frændi kom heim frá
Ítalíu, þar sem hann bjó um nokk-
urra ára skeið. Þá fórum við litlar
hnátur með mömmu og pabba niður
á flugvöll að sækja hann. Svo kom
hann, kaffibrúnn á hvítum buxum og
hvítri skyrtu. Þetta þótti okkur allt
merkilegt og framandi.
Þegar heim var komið sagði hann
okkur frá því að daginn áður en hann
flaug til Íslands hefði öllum farangri
hans verið stolið. Okkur þótti þetta
agalegt og þá ekki síst vegna teikn-
inganna sem lítil vinkona hans, ítölsk
stelpa á aldur við okkur, hafði gefið
honum og hafði langað að sýna okk-
ur.
Gylfi fór ekki til Ítalíu eftir þetta
en lifði þess í stað á minningunum
um þennan tíma. Sögurnar frá þeim
árum hafði hann gaman af að segja
og þegar einhver minntist á Ítalíu fór
hann á flug: maturinn, menningin og
fólkið, þetta átti hug hans allan enda
hjartað eflaust frá suðrænni slóðum
en Íslandi og var hann alltaf fyrstur í
laugarnar þegar sólin fór að skína og
var kaffibrúnn fram eftir vetri.
Gylfi var einstaklega barngóður
maður og áhugasamur um allt sem
við gerðum og fylgdist vel með námi
okkar og mætti á tónleika hjá okkur
þegar við vorum litlar og fylgdist
áhugasamur með því sem við, menn
okkar og börn höfum verið að gera
allt fram á þennan dag, námi okkar
og störfum, ferðalögum og dvölum
erlendis. Að sama skapi sagði hann
okkur kíminn grallarasögur af Ósk-
ari, Evu og Nínu, barnabörnum sín-
um þremur, og stoltur frá framför-
um þeirra og afrekum.
Blessuð sé minning Gylfa frænda.
Nanna og Hadda Reykdal.
Fallinn er í valinn Gylfi Reykdal,
kennari og grafískur hönnuður, eftir
stutta en snarpa baráttu við illvígan
sjúkdóm. Dauðsfall vinar snertir
ávallt djúpt, jafnvel í þeim tilvikum
þegar búast má við því að endalokin
séu skammt undan.
Vegir skiptast, allt fer ýmsar leiðir,
inn á fyrirheitsins lönd.
Einum lífið arma breiðir,
öðrum dauðinn réttir hönd.
Einum flutt er árdagskveðja,
öðrum sungið dánarlag,
allt þó saman knýtt sem keðja,
krossför ein með sama brag.
Veikt og sterkt í streng er undið,
stórt og smátt er saman bundið.
(Einar Benediktsson.)
Við heyrðum fyrst getið um Gylfa
þegar hann var myndlistarkennari
við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
Hann var farsæll í því starfi og hafði
varanleg og mótandi áhrif á ýmsa
nemendur sína. Samhliða kennslunni
vann hann að myndlist og grafískri
hönnun. Það var á þessum árum sem
hann fór að kynna sér tölvur og hag-
nýtingu þeirra. Hann var fljótur að
koma auga á þá óþrjótandi mögu-
leika sem felast í notkun tölva í
myndlistarsköpun og grafískri hönn-
un. Hann var einnig fljótur að til-
einka sér tölvutæknina og hagnýta
hana á sviði grafískrar hönnunar og
myndlistar á undan öðrum hérlendis.
Hann er því ótvíræður frumkvöðull
og brautryðjandi á þessu sviði, bæði
varðandi miðlun í formi kennslu og
leiðsagnar sem og hagnýtingu við
eigin listræna sköpun og hönnun.
Þegar skráð verður saga grafískrar
hönnunar á Íslandi er ljóst að Gylfi
mun hljóta þar verðugan sess.
Leiðir okkar og Gylfa lágu saman
þegar elsta dóttir okkar, Anna
Birna, giftist einkasyni hans Hösk-
uldi Harra. Eftir það hittumst við
oft, einkum þegar fjölskyldan gerði
sér dagamun. Gylfi var stoltur yfir
að vera búinn að eignast fjölskyldu.
Einkum var hann stoltur þegar þau
eignuðust dótturina Evu Lind,
fyrsta barnabarn hans. Samband
Gylfa og Evu Lindar var ávallt náið
og mjög sérstakt. Minnisstætt er
þegar þau fóru saman til Mallorka.
Þá var Eva Lind sex ára. Í ýmsu var
að snúast eins og nærri má geta enda
var Gylfi lúinn en sæll og glaður þeg-
ar þau komu til baka eftir útivistina.
Sambandið varð enn nánara eftir
Mallorkaferðina og fóru þau oft sam-
an í bæinn þótt stórferðalög yrðu
ekki aftur á dagskrá. Nefna má ferð-
ir þeirra í Kringluna fyrir hver jól til
þess að kaupa jólagjafir og skoða
mannlífið. Samband Gylfa við yngri
börnin Óskar og Nínu var einnig til
fyrirmyndar. Það var stutt að hlaupa
til Gylfa afa eftir að fjölskyldan flutti
á Guðrúnargötuna. Nína var ekki há
í loftinu þegar hún fór að trítla yfir
götuna og heimsækja afa og Kristján
langafa. Þá var rætt um heima og
geima. Þessi daglegu samskipti voru
mjög þýðingarmikil fyrir þau Óskar
og Nínu, ekki síður en fyrir Evu
Lind.
Gylfi var dagfarsprúður maður,
vel greindur, ákaflega vel lesinn og
fróður. Því var unun að ræða við
hann og heyra hann segja frá. Það
skipti ekki máli hvort umræðuefnið
var pólitík líðandi stundar, nýjasti
tölvuörgjörvinn eða frönsku im-
pressjónistarnir, alltaf var Gylfi jafn
vel að sér. Honum var tamt að horfa
á jákvæðu hliðarnar á málunum, en
einnig átti hann auðvelt með að koma
auga á þær spaugilegu. Þessi hæfi-
leiki Gylfa kom sér oft vel í samskipt-
unum við börnin.
Nú þegar leiðir skilur er okkur
bæði ljúft og skylt að þakka ánægju-
leg og góð kynni í gegnum árin,
kynni sem hafa auðgað líf okkar.
Enn eitt skarð er höggvið í litlu fjöl-
skylduna á Guðrúnargötunni á
skömmum tíma. Elsku Höskuldur
Harri, Anna Birna, Eva Lind, Nína
og Óskar, Jón Reykdal og fjölskylda,
ykkur vottum við okkar dýpstu sam-
úð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(Valdimar Briem.)
Bjarnveig Höskuldsdóttir
Ragnar Sigbjörnsson.
GYLFI
REYKDAL
Blómastofa Friðfinns,
Suðurlandsbraut 10,
sími 553 1099, fax 568 4499.
Opið til kl. 19 öll kvöld
Kransar • Krossar • Kistuskreytingar