Morgunblaðið - 13.01.2003, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 13.01.2003, Blaðsíða 20
ALDARMINNING 20 MÁNUDAGUR 13. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ „Þegar hann kom með togaranum um haustið var ég á bryggjunni. Þeir lögðu að í Hafnarfirði. Ég man svo vel, að þar sem ég stóð og beið þess, að skipið sigldi inn, sá ég svarta ráð- herrabifreið renna að. Út kom virðu- legur maður í dökkum frakka með barðastóran hatt. Það var Hannibal Valdimarsson. Hann kom strax auga á mig, þar sem ég stóð. Eftir litla umhugsun tók hann kurteislega of- an, snerist jafnskjótt á hæli og hvarf aftur inn í bílinn, sem renndi í burtu. Hann ætlaði að láta mig um þetta. Mér þótti vænt um það.“ Þetta er mín eigin frásögn úr gamalli bók af því, þegar ég stóð ólétt á bryggju- sporðinum í Hafnarfirði haustið 1958 og beið þess með kvíða og eftirvænt- ingu, að sonur Hannibals sneri til baka af sjónum. Við höfðum verið aðskilin allt sumarið. Þegar hér var komið sögu þekkti ég Hannibal ekki neitt. Ég hafði aldrei talað við hann, aldrei staðið augliti til auglitis við hann – hafði að- eins virt hann fyrir mér úr fjarska. Hann var faðir mannsefnis míns. Gekk með barðastóran hatt og fór mikinn í þjóðfélaginu. Við biðum tvö ein á bryggjunni þetta hráslagalega kvöld að áliðnu sumri. Skipið var að leggjast að. Hann kaus að taka ofan fyrir mér og láta sig síðan hverfa. Yrti ekki á mig, tók ekki í höndina á mér. Leit bara eldsnöggt í augu mér. Skynjaði, að honum var ofaukið og sneri aftur. Ég var þakklát þá, því að ég hefði ekki þorað að tala við hann. Hvað hefði ég svo sem átt að segja? Hvað var ég að þvælast þarna yfirleitt? Þetta var þó sonur hans. Vissi hann eitthvað um okkar samband? Þegar ég settist við tölvuna til þess að skrifa um tengdaföður minn, þá rann það allt í einu upp fyrir mér, að í raun kynntist ég honum aldrei. Allt mitt líf stóð hann bara álengdar, eins og forðum daga á bryggjusporðin- um, leit í augun á mér, tók ofan hatt- inn og lét sig síðan hverfa. Það varð aldrei neitt meira þrátt fyrir öll þessi löngu ár. Hannibal var mér alla tíð fjarlægur, svo undarlega tómlátur og áhugalaus um litlu fjölskylduna mína. Kannski var hann feiminn. Ég ímyndaði mér það oft, en hvað þá með börnin mín, manninn minn. Var hann líka feiminn við þau? Hannibal var ólíkur mínum eigin föður. Ég hafði vanist því að geta leitað til pabba með öll mín vandamál. Eftir að Jón Baldvin varð hluti af fjöl- skyldunni gilti það sama um hann. Pabbi var okkar stoð og stytta í einu og öllu. Ég áttaði mig á því, að Hannibal var maður annarrar gerðar. Hann var ekki fjölskyldumaður. Hann var allur út á við. Þjóðfélagið var hans fjölskylda. Þann garð vildi hann rækta. Við urðum að sætta okkur við að lifa án hans. Og kannski var Hannibal ekki allra. Eða kannski var hann bara sérvitur Vestfirðingur. Eða getur hugsast, að hann hafi ekki umborið þennan son sinn? Það hefur stund- um hvarflað að mér. Þeir voru mjög ólíkir. Jón Baldvin hugsar abstrakt, en Hannibal sá lífið í fáum, einföld- um dráttum. Ég veit, að hann var ljúfur og eft- irlátur við dætur sínar, og að þær gátu alltaf leitað til hans. Ég sá þær stundum hengja sig utan á hann, kjassa hann og kitla. Hann gat ekki neitað þeim um neitt. Enda dýrka þær minningu föður síns. Hannibal var líka afskaplega barngóður, og það segir nú sitthvað um eiginleika mannsins. Aldís, elsta dóttir mín, vildi hvergi fremur vera en í fangi afa síns, þá sjaldan við komum í heimsókn. Hann gat hjalað við hana tímunum saman, á meðan hann yrti ekki á okkur – fullorðnu börnin. Það fannst mér skrítið. En ég átti líka eftir að kynnast því seinna, að það er erfitt fyrir stjórn- málamenn, sem öll spjót standa á, að rækta vináttu. Það er engin orka af- lögu, og tíminn er naumur. Þegar Hannibal kom óvænt inn í líf mitt var hann tíu árum yngri en ég er núna. Maður á besta aldri, í blóma lífsins. En í mínum augum, stelpu, sem var að sprengja utan af sér táningsfötin, var hann gamall maður. Ég vissi sáralítið um Hannibal. Það var sjaldan talað um stjórnmál á heimili mínu. Hann var einn af vondu köllunum. Málsvari verkalýðsins, sem var stöðugt með kröfugerð. Hann var aldrei nefndur nema með skætingstón. En á þessum árum var Hannibal þegar orðinn þjóðsagnapersóna á Ís- landi. Tómthúsmaður að vestan, sem hafði brotist til mennta, lokið kenn- araprófi frá dönskum lýðháskóla og síðan sest að í Súðavík. Hannibal hafði ekki verið lengi þar í bæ, þegar verkamenn í plássinu báðu hann að taka að sér formennsku í félagsskap þeirra. Þeir voru að vakna til vit- undar um mátt sinn og megin og áttu í stöðugum útistöðum við at- vinnurekendur. Kennarar voru bet- ur í stakk búnir til að veita slíkum fé- lagsskap forystu, þar sem þeir áttu ekki lífsafkomu sína og fjölskyldu sinnar undir atvinnurekendum. Loks kom til verkfalla og átaka í plássinu. Verkamenn höfðu sitt fram undir forystu Hannibals. Launin voru bætt og vinnutími styttur. Hróður Hannibals barst milli fjarða. Ekki leið á löngu þar til Bolvíkingar leituðu til hans um aðstoð við að stofna verkalýðsfélag í þeirra heimabæ. Það var aðförin að Hannibal í Bol- ungarvík, sem lyfti honum á stall hins óumdeilda leiðtoga í huga verkafólks á Íslandi. Bundinn á höndum og fótum var hann fluttur nauðugur frá Bolungarvík, þar sem til stóð að halda stofnfund verka- lýðsfélagsins. Ísfirskir kratar lögðu til atlögu við handtökumennina, sigldu til móts við þá og gátu komið á þá böndum. Eftir að þeir voru komn- ir undir lás og slá á Ísafirði gat Hannibal snúið aftur til Bolungar- víkur, frjáls maður, og haldið stofn- fund verkalýðsfélagsins. Eftir þessa dramatísku atburði voru örlög Hannibals ráðin. Ekki varð til baka snúið. Stjórnmálin áttu hug hans allan frá þessari stundu. Og það gekk svo sannarlega á ýmsu. Lífið var enginn dans á rósum. Hann varð formaður Alþýðuflokksins 1952, en tveimur árum seinna var hann felldur, útskúfaður. Viðbrögð hans voru sama haustið að gera bandalag við sósíalista innan verka- lýðshreyfingarinnar, sem lyftu hon- um á stól forseta Alþýðusambands- ins, sem varð valdagrundvöllur has í tæpa tvo áratugi. Þegar hér var komið sögu sat hann í ríkisstjórn undir forystu Her- manns Jónassonar. Í hönd fóru óvissutímar. Það slitn- aði upp úr stjórnarsamstarfinu und- ir lok þessa sama árs. Þá var ég við nám í París. Mig skipti svo sem engu, hverjir sætu við stjórnvölinn heima á Fróni. Hannibal var mér enn bara maðurinn með hattinn. Samfundir okkar á næstu árum voru stopulir. Samgangur var lítill við þennan legg fjölskyldunnar, hverjum sem það var nú að kenna. Það átti líklega hver nóg með sig. Við vorum á faraldsfæti. Eitt kvöld er mér þó minnisstætt frá þessum árum. Líklega hefur það verið árið 1968. Við höfðum verið einhvers staðar að skemmta okkur, pabbi og mamma, Hannibal og Sól- veig, ég og Jón Baldvin. Í þessum sama fagnaði var líka forsætisráð- herra landsins, Bjarni Benedikts- son, og Sigríður, kona hans. Ein- hvern veginn æxlaðist það svo, að síðla kvölds vorum við öll komin heim í stofu til mömmu og pabba. Úr þessu varð aldeilis ógleymanleg skemmtan. Hannibal var hrókur alls fagnaðar. Hann sagði endalausar sögur, sögur frá námsárunum, sögur úr pólitíkinni, sögur af sjálfum sér. Hann sveiflaði vindlinum, dreypti á koníakinu, hló hjartanlega. Hann var algerlega ómótstæðilegur þetta kvöld. Allir heilluðust, bæði konur og karlar. Hann fann það og naut þess. En þetta var líka í eina skiptið, sem ég sá hann í þessum ham. Hann hafði verið bindindismaður alla tíð, og það bar sjaldan til að hann þægi vínglas. Þetta kvöld var undantekn- ing. Einstaka sinnum sá ég hann þó þiggja vindil. Vorið 1971 var Hannibal kominn vestur á Ísafjörð til þess að leiða lista Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna. Hann hafði verið felldur út af lista þeirra í Reykjavík. Það var mikill hugur í Vesfirðingum. Þess skyldi nú hefnt heima í hér- aði … Hannibal sagði ekki margt. Hann lýsti ekki vonbrigðum sínum með ófarirnar í Reykjavík. Var hann von- svikinn? Var hann hræddur? Hvern- ig vildi hana haga kosningabarátt- unni? Ég man ekki til þess, að hann hafi gefið sér tíma til að ræða um það. Hann opnaði ekki hug sinn frek- ar en að venju. Hann var enn mað- urinn, sem tók bara ofan hattinn og lét sig hverfa. Og þó, ég man ekki til þess, að hann hafi verið með hatt þarna fyrir vestan. Kannski hafði hann verið lagður til hliðar með ráðherrafrakk- anum. En Hannibal var líkamlega vel á sig kominn og unglegur þrátt fyrir háan aldur. Þarna var hann tæplega sjötugur, en ekkert á því að gefast upp. Hannibal fór fram á það, að ég mundi fylgja honum á fundi og heim- sóknir til bænda á Vestfjörðum. Ég gerði það fúslega, því að mig langaði auðvitað til að kynnast tengdaföður mínum, vita hvern mann hann hefði að geyma. Og nú var lag. Við ókum inn allt Djúpið, komum á hvern bæ. Kysstum konurnar og krakkana, jafnvel kallana líka. Ekki var minnst einu orði á pólitík eða stefnumál frambjóðandans. Hanni- bal þáði kaffi og kökur, skrafaði og spurði almennra tíðinda. Hann þekkti auðvitað alla með nafni, kunni sögu hvers og eins og virtist vera í essinu sínu. Þegar hann að lokum Hannibal Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Sögulegar sættir. Gylfi Þ. Gíslason, Jón Baldvin og Hannibal á flokksþingi Alþýðuflokksins 1986. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Alþýðuforinginn Hannibal í ræðustól á baráttufundi verkalýðsins á Lækjartorgi. Hannibal Gísli Valdi- marsson fæddist í Fremri-Arnardal í Eyrarhreppi 13. jan- úar 1903. Hann lést 1. september 1991. Foreldrar hans voru hjónin Valdemar Jónsson bóndi, f. 29. mars 1866, d. 29. mars 1922, og Elín Hannibalsdóttir hús- móðir, f. 4. ágúst 1866, d. 18. des. 1953. Systkini Hannibals voru Guðrún, f. 1897, d. 1990, Jón, f. 1900, d. 1988, Sigríður, f. 1904, d. 2001, Finnbogi Rútur, f. 1906, d. 1989, og Arnór, f. 1907, d. 1928. Hannibal kvæntist 1934 Sólveigu Sigríði Ólafsdóttur húsmóður, f. 24. febr. 1904, d. 11. maí 1997. Börn þeirra eru Arnór, f. 1934, Ólafur Kristján, f. 1935, Elín, f. 1936, Guð- ríður, f. 1937, og Jón Baldvin, f. 1939. Sonur Hannibals og Hólm- fríðar Ingjaldsdóttur er Ingjaldur, f. 1951. Hannibal var rit- stjóri Skutuls á Ísa- firði 1935–1938 og 1943–1947 og rit- stjóri Alþýðublaðsins 1952–1954. Hann var formaður Verka- lýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði 1932–1939, bæjarfulltrúi á Ísa- firði 1933–1949, for- seti Alþýðusambands Vestfjarða 1934–1953 og forseti Alþýðu- sambands Íslands 1954–1971. Hann var formaður Al- þýðuflokksins 1952–1954, Alþýðu- bandalagsins 1956–1968 og Sam- taka frjálslyndra og vinstri manna 1969–1974. Hannibal sat á Alþingi Íslend- inga 1946–1974. Hann var félags- og heilbrigðismálaráðherra 1956– 1958 og samgöngu- og félagsmála- ráðherra 1971–1973.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.